Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: Sigurður Ástgeirsson

 

Á þriðja í Airwaves er hátíðin og veðrið farið að taka sinn toll. Ég reif mig þó upp úr sófanum til að sjá Útidúr spila í Hafnarhúsinu klukkan níu. Þar voru fáir mættir en dramatíkin var engu að síður keyrð í botn og kammerpoppið fór vel í þá sem voru farnir á stað. Apparat Organ Quartet voru í orgasmísku orgelstuði í Silfurbergssal Hörpu og höfðu með sér fjórar stelpur í 80’s fötum með gosbrunna í hárinu sem að sungu í nokkrum lögum og lífguðu upp á tónleikana. Á eftir þeim spilaði kanadíska indíbandið Half Moon Run fyrir meðalfullum sal og tónlistin var vönduð en afar venjuleg. Indípopp eins og það gerist mest óspennandi og meðalmennskan var í hávegum höfð.

Dómsdagsdöbb

Næstir á svið í Silfurbergi voru Hjálmar ásamt finnska gúrúinum Jimi Tenor. Ég hef séð Hjálma spila hundrað sinnum áður en þetta var eitthvað annað. Jimi Tenor var klæddur í pallíettuslopp og með Prins Valíant hárgreiðslu og var dáleiðandi sem frontmaður. Hann söng, spilaði á saxafón og hljóðgervil og var yfirgengilega svalur. Tónlistin var reggí og döbb en talsvert dekkri en maður á að venjast frá Hjálmum. „Dat was Doom,“ sagði Tenórinn eftir eitt lagið og hafði mikið til síns máls, þetta var nokkurs konar drungalegt dómsdagsdöbb. Hjálmarnir voru líka í yfirstærð og höfðu með sér fimm blásturshljóðfæraleikara og Sigtrygg Baldursson á áslætti sem beitti stálkeðjum á bongótrommurnar sínar. Það verður svo sannarlega spennandi að heyra plötuna sem er væntanleg frá þessum áhugaverðu listamönnum og þetta var skemmtilegasta atriðið sem ég hef orðið vitni að á Airwaves hingað til.

Reykjavíkurnætur

Næst á svið í Silfurbergi voru Fm Belfast sem ég náði þremur og hálfu lagi með. Þau hafa engu gleymt og keyrðu stemmninguna í Silfurbergi upp í hæstu hæðir. Tónlistin er svo sem ekki flókin en þau kunna upp á hár að spila á áhorfendur og rafræna gleðipoppið þeirra kveikti svo sannarlega í þeim þetta kvöld. Þvínæst hélt ég á Þýska Barinn til að sjá Reykjavík! og fékk næstum því Bóas, söngvara sveitarinnar, í hausinn þegar ég var nýkominn inn. Hann stagedive-aði eins og óður maður og eyddi meiri tíma út í salnum meðal fólksins en uppi á sviðinu og Reykjavíkurrokkið æsti mig upp fyrir ævintýri næturinnar.

Tunnur af töffaraskap

Eftir að hafa hlaðið nikótíni og áfengi í blóðrásina fór ég aftur inn á Þýska Barinn og varð vitni að rokksveitinni Dream Central Station. Hún er hugafóstur Hallbergs Daða Hallbergssonar og í þetta skipti naut hann aðstoðar Henriks úr Singapore Sling á gítar og plötusnúðsins Kristins Gunnars Blöndals á hljómborði. Þrátt fyrir að það hafi verið farið að síga á seinni hluta kvöldsins og ekkert sérstaklega margir í salnum náðu þau að heilla mig með unaðslegum samsöng, rifnum rafmagnsgítarriffum og tunnum af töffaraskap.

 

Davíð Roach Gunnarsson

 

Airwaves þáttur 5 – 31. október 2012

Í gærkvöldi var síðasti þátturinn af Airwaves sérþáttum Straums árið 2012 á dagskrá X-ins 977. Íslensku hljómsveitirnar Reykjavik! og Bypass kíktu í heimsókn, auk þess sem birt voru viðtöl við Dirty Projectors og Django Django.  Ritstjórn Straum.is fór einnig yfir það helsta á  hátíðinni í ár. Hlustið á viðtölin hér fyrir neðan.

 

1. hluti: viðtal við Reykjavík!

      1. air 5 1 reykjavík

2 hluti: viðtal við Django Django 

      2. air 5 2 django

3. hluti: viðtal við Bypass

      3. air 5 3 bypass

4. hluti: viðtal við Dirty Projectors

      4. Air 5 4 dirty

5. hluti: miði gefin og ritstjórn straum.is

      5. air 5 5 straum