Pavement söngvarinn Stephen Malkmus tilkynnti fyrr í dag um útgáfu á nýrri plötu með hljómsveit sinni Stephen Malkmus & the Jicks. Platan heitir Wig Out at Jagbags og fylgir á eftir hinni frábæru plötu Mirror Traffic sem var í 7. sæti á lista Straums yfir bestu plötur ársins 2011. Hljómsveitin sendi jafnframt frá sér myndband við fyrsta lagið til að heyrast af plötunni sem nefnist Lariat.
Straumur 11. nóvember 2013
Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Destroyer, M-band, Just Another Snake Cult, Wooden Shjips, M.I.A, Cut Copy mörgum fleirum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977!
Straumur 11. nóvember 2013 by Straumur on Mixcloud
1) Here Comes the Night Time – Arcade Fire
2) I’m Aquarius – Metronomy
3) I Know She Does – Just Another Snake Cult
4) Never Ending Ever – M-band
5) When Girls Collide (Jónsi Ibiza Anthem remix) – mum
6) Free Your Mind – Cut Copy
7) Meet Me In A House Of Love – Cut Copy
8) Karmageddon – M.I.A.
9) Y.A.L.A. – M.I.A.
10) Ghouls – Wooden Shjips
11) These Shadows – Shjips
12) Bye Bye – Destroyer
13) Alive – Autre Ne Veut x Fennesz
14) Let It Spill – Los Campesinos!
15) I’ll Keep Coming – Low Roar
16) Hið Síðsta Lag – Gímaldin
17) Jamaica Plain – Kurt Vile & Sore Eros
Busta Rhymes og Q-Tip í feiknaformi
Á næsta ári er væntanleg ný plata frá vélbyssukjaftinum og flippsveitarmeðlimnum Busta Rhymes, Extinction Level Event 2, sem er framhald af hinni geysivinsælu skífu með óþjála titilinn E.L.E. (Extinction Level Event): The Final World Front. Sú frábæra plata kom út 1998 og innhélt slagara á borð við Gimme Some More og What’s It Gonna Be?! Ýmsir rapparar hafa í gegnum tíðina gert eins konar framhöld af sínum frægustu plötum -oft mörgum árum seinna- svo sem Raekwon með Cuban Linx pt. 2, Dr. Dre með Chronic 2001, Jay-Z með Blueprint 2 og 3, og nú síðast Eminem með Marshall Mathers 2 sem kom út í þessari viku.
Fyrsta smáskífan af Extinction Level Event 2, Twerk It, kom út í júní og er eins og nafnið gefur til kynna óður til rassadansins alræmda sem Mily Cyrus hefur undanfarið vakið mikla athygli fyrir. Lagið er með hægum og fútúrískum takti og gestaversi frá Nicki Minaj, en í því ber lítið á ljóshröðu flæðinu sem rapparinn er hvað þekktastur fyrir. Það kveður hins vegar við allt annan tón í laginu Thank You sem kom út á dögunum. Undirspilið er byggt á óldskúl diskófönki og Busta nýtur aðstoðar síns gamla félaga Q-Tip, auk þess sem Lil Wayne og Kanye West líta inn og kasta kveðju. Busta Rhymes og Q-Tip eru í fantaformi og rappa á ógnarhraða af miklu áreynsluleysi í lagi sem minnir um margt á hin svokölluðu gullaldarár rappsins um miðjan 10. áratug síðustu aldar.
Busta Rhymes og Q-Tip eiga sér langa sögu en það var einmitt í lagi með sveit hins síðarnefnda, A Tribe Called Quest, sem að Busta Rhymes vakti fyrst athygli. Það var með ódauðlegu gestaversi sem hreinlega slátraði partýslagaranum Scenario, af plötunni Low End Theory frá 1991. Þá má geta þess að einnig er von á nýrri plötu, The Last Zulu, frá Q-Tip á næsta ári. Hlustið á Thank You, Twerk It og Scenario hér fyrir neðan og horfið á dramatískt kynningarmyndband fyrir Extinction Level Event 2.
Davíð Roach Gunnarsson
E.LE. 2 Trailer from Dazed One on Vimeo.
Svalasta þemalag allra tíma – You’re So Cool
Flestir sem séð hafa bandarísku kvikmyndina True Romance ættu að þekkja stefið sem er út alla myndina. Stefið heitir Your So Cool eftir hið fræga þýska kvikmyndatónskáld Hanz Zimmer. Hann byggir reyndar stefið á laglínu landa síns, Carl Orfs, úr kvikmyndinni Badlands eftir Terrence Malick frá árinu 1973. Sá byggir hins vegar á laginu Gassenhauer eftir enn eldri þjóðverja, lútuleikarinn Hans Neusiedler, og er frá árinu 1536. Hér fyrir neðan má heyra allar útgáfur af stefinu.
11 Lou Reed ábreiður
Lewis Allan Reed kvaddi þennan heim sunnudaginn fyrir viku 71. árs að aldri. Áhrif hans á tónlistarsögu og poppkúltur síðustu aldar verða seint vanmetin. Ritstjórar þessarar síðu hafa ósjaldan yljað sér við verk Reed í gegnum tíðina. Við minnumst þessa áhrifamikla tónlistarmanns með 11 frábærum ábreiðum af lögum hans sem sýna kannski best þau áhrif sem hann hafði á aðra listamenn á ferli sínum – Satellite’s gone up to the skies!
Morrisey -Satellite of love
Morrisey hefur aldrei farið leynt með hrifningu sína á Reed. Fyrir tveim árum breiddi hann yfir þetta einstaka lag sem kom út á Transformer árið 1972, á tónleikum sínum á Glastonbury hátíðinni..
Cowboy Junkies – Sweet Jane
Lou Reed lagði blessun sína yfir þessa mögnuðu útgáfu kanadísku hljómsveitarinnar Cowboy Junkies af laginu Sweet Jane sem upprunalega kom út á síðustu plötu Velvet Underground, Loaded, árið 1970. Útgáfan vakti mikla athygli árið 1995 í kvikmynd Oliver Stone, Natural Born Killers, í eftirminnilegri senu.
David Bowie & The Riot Squat – Waiting For The Man
Útgáfu fyrstu plötu Velvet Underground var seinkað vegna dómsmáls sem snerti umslag plötunnar. David Bowie fékk eintak gefins frá umboðsmanni sínum áður en það gerðist en sá hafði fengið plötuna afhenta í ferð sinni til New York árið 1966. Bowie var svo hrifinn af því sem hann heyrði að hann gaf út lagið Waiting For The Man af plötunni með hljómsveit sinni The Riot Squat áður en Velvet höfðu náð að leysa úr lagaflækju sinni sem gerðist ári seinna.
Nirvana – Here She Comes Now
Velvet Underground platan White light/White heat var ein af uppáhalds plötum Kurt Cobain. Árið 1991 gaf hljómsveit hans Nirvana út sameiginlega 7 tommu með Melvins þar sem þeir breiddu yfir Here She Comes Now af plötunni og Melvins – Venus In Furs.
Big Star – Femme Fatale
Hljómsveitin Big Star með Alex Chilton í broddi fylkingar tók lagið Femme Fatale á sinni fyrstu plötu Third/Sister Lovers árið 1978.
The Runaways – Rock ‘N Roll
Eitt af þekktari lögum stúlkna bandsins The Runaways var ábreiða þeirra af Velvet Underground laginu Rock ‘N Roll sem þær gerðu svo sannarlega að sínu.
The Strokes – Walk On The Wild Side
Áhrif Lou Reed á New York hljómsveitina The Strokes á þeirra fyrstu plötu Is This It? eru augljós. Það kom þvi kannski fáum á óvart þegar að hljómsveitin sýndi fyrirmynd sinni þann heiður að breiða yfir lag hans Walk On The Wild Side á tónleikum árið 2006 með afslöppuðum og skemmtilegum hætti.
Twin Shaddow – Perfect Day
Fljótlega eftir að fréttir þess efnis að Lou Reed væri allur tóku að berast fóru tónlistarmenn útum víða veröld að sýna honum virðingu sína með ábreiðum af lögum hans. Twin Shaddow sendi frá sér þessa drungalegu útgáfu af heróín laginu Perfect í byrjun síðustu viku.
The Kills – Pale Blue Eyes
Fyrir tveim árum gáfu breska tvíeykið The Kills út þessa frábæru útgáfu af laginu Pale Blue Eyes af samnefndir plötu Velvet Underground frá árinu 1969.
Rainy Day – I’ll Be Your Mirror
Hljómsveitin Rainy Day var einhverskonar stjörnuband meðlima hljómsveita úr Paisley Underground senunni í Kaliforníu um miðjan 9. áratuginn. Hljómsveitin gaf út eina plötu sem var safn laga hljómsveita sem höfu haft áhrif á senuna. Þar á meðal var þessi yndislega útgáfa þeirra af laginu I’ll Be Your Mirror af fyrstu plötu Velvet.
Emiliana Torrini – Stephanie Says
Þessi magnaða útgáfa Emiliönu af Stephanie Says kom út á plötu hennar Merman frá árinu 1996. Þó hún vilji ekki mikið kannast við þessa plötu í dag (hún hefur aldrei endurútgefið hana fyrir erlendan markað) þá er þessi ábreiða nóg til að réttlæta tilveru hennar.
Óli Dóri
Tónleikahelgin
Svona stuttu eftir Airwaves er líklega nokkur þreyta í flestum tónlistarmönnum landsins og tónleikahald því með rólegra móti þessa helgi. En það er þó alltaf eitthvað og það er hérmeð tekið saman.
Fimmtudagur
Sálarsveitin Moses Hightower fagnar útgáfu plötunnar Mixtúrur úr Mósebók en á henni er að finna 16 endurhljóðblandanir eftir valinkunna listamenn af lögum af Annarri Mósebók, síðustu breiðskífu þeirra. Í tilefni útgáfunnar verður haldið hlustunarteiti í plötubúðinni Lucky Records þar sem platan mun óma og boðið verður upp á léttar veitingar, en gleðin hefst klukkan 20:00.
Hljómsveitin Slow Mountains verður með tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.
Föstudagur
Hið mánaðarlega jaðarkvöld kaffi Hressó heldur áfram
og nú er komið að Oyama og Knife Fights. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og aðgangur er ókeypis.
Hljómsveitirnar Vintage Caravan, Nykur og Conflictions koma fram á Gamla Gauknum. Hurðin opnar klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.
Laugardagur
Haldnir verða tónleikar á Gamla Gauknum til heiður Black Sabbath þar sem verður breytt yfir helstu smelli sveitarinnar. Heiðurssveitina skipa Jens Ólafsson (Brain Police), Franz Gunnarsson (Ensími / Dr. Spock), Flosi Þorgeirsson (HAM) og Birgir Jónsson (Dimma / Skepna). Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og miðaverð er 1500 krónur í forsölu en 2000 krónur við hurð.
Nýtt lag frá Bombay Bicycle Club
Það var kominn tími til að indí sveitin Bombay Bicycle Club léti í sér heyra. Ekkert nýtt efni hefur komið frá þeim félögum síðan 2011 þegar þriðja plata þeirra A Different Kind Of Fix kom út. Sveitin vinnur hins vegar nú að sinni fjórðu breiðskífu og hefur fyrsta smáskífan fengið að líta dagsins ljós. Lagið ber titilinn „Carry Me“ og á samkvæmt meðlimum að marka breytingu á tónlistarstefnu bandsins. Lucy Rose sem áður hefur sungið með hljómsveitinni á heiðurinn að lofkenndri bakrödd í laginu. Einnig fylgir útgáfu lagsins frumlegt myndband sem sjá má hér.
Útgáfutónleikar Skúla mennska í kvöld
Þann 6. október lék Skúli mennski fagra tóna fyrir góða gesti á Café Rosenberg ásamt fríðum hópi. Herlegheitin voru hljóðrituð og enda nú á fjórðu breiðskífu Skúla sem hefur hlotið hið frumlega nafn “Tónleikar á Café Rosenberg”. Það er því ekki annað við hæfi en að endurtaka leikinn og fagna plötunni með útgáfutónleikum á sjálfum Café Rosenberg í kvöld klukkan 21:00. Miðaverð inn er 2000 kr.
Ekki er hægt að útiloka það fyrirfram að óvæntar uppákomur eigi sér stað á kvöldi þessu en það telst víst að allir muni skemmta sér sem Kóngar væru.
Hér er lagið Á hvítum hesti af plötunni
Broken Bells með lag af væntanlegri plötu
Broken Bells tvíeykið staðfesti nýlega útgáfu plötunnar After the Disco sem kemur út í janúar á næsta ári. Síðan þá hafa þeir félagar James Mercer og Danger Mouse sem skipa sveitana sent frá sér trailer og sjö mínútna stuttmynd í tilefni útgáfunnar. Nú hefur fyrstu smáksífunni verið gefið líf og kallast hún „Holding On For Life“.
Lagið er í léttari kantinum miðað við innihald fyrri plötu sveitarinnar sem kom út 2010. Fönkaður bassataktur og 80‘ synthatónar gefa góð fyrirheit um það sem koma skal á væntanlegri plötu.
Laugardagskvöldið á Airwaves
Hypemaður Mykki Blanco í miklu stuði. Mynd: Óli Dóri.
Eftir þriggja daga tónleikastand er maður orðinn pínu lúinn en ég náði þó að koma mér út úr húsi til að sjá kanadíska gítarpopparann Mac DeMarco í Stúdentakjallaranum klukkan 18:30. Tónleikarnir voru hreinlega frábær skemmtun og skrifast það ekki síst á einstaka útgeislun og persónutöfra listamannsins. Tónlistin er undir talsverðum áhrifum frá svokölluðu pabbarokki úr ýmsum áttum, smá Springsteen og Fleetwood Mac, með háum og tærum gítarhljóm sem minnir talsvert á Dire Straits. Það eru samt fullt af vinstri beygjum í tónlistinni og Mac tók sig alls ekki alvarlega, tók oft örstuttar kover útgáfur af lögum eins og Cocain með Clapton og Du Hast með Rammstein. Frábær byrjun á kvöldinu.
Pabbarokk og Lion King
Ég sá Nolo í annað skiptið á hátíðinni í Listasafninu og þeir eru líklega með skemmtilegri live böndum á Íslandi í dag. Eins og ég sagði í fyrri umfjöllun þá kemur nýja tónleikauppsetningin þeirra með trommara og fleiri hljóðfærum mjög vel út og ljær eldri lögum þeirra ferskan blæ. Mér fannst Mac DeMarco svo góður í stúdentakjallaranum að ég sá hann svo aftur í Hörpunni þar sem hann fór á kostum í galsafengnum flutningi. Í síðasta laginu sem er rólega ástarballaða, þar sem viðlagið er stolið úr Lion King laginu, tók hann skyndilega óvænt tilhlaup og stökk út í salinn til að sörfa áhorfendur.
Kynhlutverkum rústað með rappi
Þvínæst var haldið yfir í Hafnarhúsið til að sjá transrappgelluna Mykki Blanco sem var pönkaðasta og skrýtnasta atriðið sem ég sá á þessari hátíð. Á undan henni kom hypemaður á sviðið sem tók hlutverk sitt mjög alvarlega. Hann rappaði yfir rokkuð bít í nokkur lög og hljóp og hoppaði villt og galið út í sal og kom öllum í mikið stuð. Síðan steig Mykki á svið og framkoman braut öll viðmið um kynhlutverk, rappmenningu og transfólk. Hún var ber að ofan í rifnum gallabuxum með skraut á geirvörtunum og hárkollu. Þá hafði hún með sér ladyboy plötusnúð í magabol sem dansaði skemmtilega. Hún er frábær rappari og lögin voru mjög fjölbreytt, allt frá hörðum töktum og macho rappi yfir í persónuleg slam ljóð án undirspils. Hún fór fram yfir tímann sinn og undir lokin var köttað á hljóðið en hún lét það ekki stoppa sig ég hélt áfram að rappa a capella og hoppaði síðan út í sal við dúndrandi lófaklappa áhorfenda. Þetta var upplifun ólík nokkru öðru á hátíðinni og flutningur á heimsmælikvarða.
Dúndrandi klúbbastemmning í Silfurbergi
Eftir transrappið var förinni heitið í Hörpu þar sem breski raftónlistarmaðurinn Jon Hopkins var að koma sér fyrir í Silfurbergi. Það var mesta klúbbastemmning hátíðarinnar og dúndrandi tekknóið hafði líkamleg áhrif á áhorfendur. Bassinn var svo djúpur að þú fannst fyrir honum innvortis og settið var fullt af útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum. Silfurberg umbreyttist í risastóran næturklúbb og þó að flutningurinn væri kannski ekki mikið fyrir augað – Hopkins var bara einn á bakvið tölvu og tæki – þá heyrðirðu að það var greinilega mannshönd sem stýrði þessu og fokkaði í hljóðunum live.
Töffaralegt tæknirokk
Næst náði ég nokkrum lögum með Hermigervli á troðpökkuðum Harlem og salurinn ætlaði að tryllast í grýluslagaranum Sísí og Yamaha Yoga. Síðasta atriði sem ég sá var svo Captain Fufanu í Þjóðleikhúskjallaranum. Síðast þegar ég sá þá voru þeir bara tveir að fikta í hljómborðum og græjum en nú hafa þeir bætt við sig trommara, Gísla Galdri sem sá um raftól, og svo spila þeir sjálfir á gítar, trompet og syngja. Þetta kom mér skemmtilega á óvart og fyrrum tekknónördarnir umbreyttust í hálfgerðar rokkstjörnur með frábærum gítarstælum og töffaralegri sviðsframkomu.
Laugardagskvöldið toppaði fyrri daga hátíðarinnar og að sjá Mac DeMarco, Mykki Blanco og Jon Hopkins í röð var hápunktur hátíðarinnar fyrir mig. Að vera svo á leiðinni á Kraftwerk í kvöld er bara rjómi.
Davíð Roach Gunnarsson