Boogie Trouble breiða yfir Britney

Diskóboltarnir í Boogie Trouble deildu ábreiðu sinni af Britney Spears slagaranum Toxic á Soundcloud síðu sinni í gær, fríkeypis til niðurhals og streymis. Það hefur síðustu misseri ómað ótt og títt á tónleikum sveitarinnar en í meðförum hennar er það grúvað allharkalega upp með skokkandi diskóbassa og suddalegum sörfgítar. Lagið er tilvalið veganesti inn í helgina og hægt er að hlusta á ábreiðuna, eða jafnvel setja hana á í partýi, hér fyrir neðan. It’s Britney, bitch!

Ingibjörg í Boogie Trouble

Hin frámunalega fönkí Ingibjörg Elsa Turchi sem slær bassa með Boogie Trouble, Babies og Bjór var spurð spjörunum úr um Airwaves í yfirheyrslu dagsins.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2011, en það ár var ég ekki í neinum hljómsveitum sem spiluðu. Hafði samt spilað frá 2007.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Það var með hljómsveitinni Rökkurró árið 2007 í Iðnó.  Ég man eiginlega ekkert eftir tónleikunum en það hlýtur bara að hafa verið gaman. Kannski pínu stress.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Í ár mun ég spila á minni sjöttu hátíð.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?

Ætli það sé ekki á Airwaves 2012 með Boogie Trouble. Við vorum með tvenna tónleika á sjálfri hátíðinni og þeir fyrri voru í Kaldalóni, sem er sitjandi salur, klukkan 19 á föstudegi. Á tónleikum með Boogie þá er það lenska að allir hafi reimað á sig dansskóna og höfðum við oftast spilað eftir miðnætti en þarna sátum við dálítið eins og fyrir dómnefnd. En svo í miðju setti stóð sem betur fer einhver upp og byrjaði að dansa sem endaði með því að næstum allir stóðu upp og dönsuðu í sætunum sínum sem var gaman og þó nokkur léttir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Einfaldlega stækkað og svo er off-venue prógrammið orðið jafn viðamikið og hátíðin sjálf, sem er ágætt fyrir þá sem ná ekki að kaupa miða. Það gefur líka fleiri hljómsveitum tækifæri á að spila.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Mér finnst Iðnó alltaf mjög notalegur, þegar það er þannig tónlist sem við á. Í raun er ég hrifnust af þeim stöðum þar sem nándin við hljómsveitina er sem mest og því er ég ekki hrifinn af of stórum sviðum í alltof miklu fjölmenni. Inn í spilar líka að ég er lágvaxin og þarf oft að hafa mikið við til að sjá sem best.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ekki neinum sem ég man eftir í fljótu bragði, það hefur örugglega bara leitt til þess að ég hef farið á einhverja aðra í staðinn, kannski einhverja hljómsveit sem ég þekkti ekkert.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Að taka þessu með ró og hafa gaman af.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Ég er alltaf mjög spennt fyrir íslenskum böndum og svo langar mig að ná miða á Kraftwerk. En ég hef ekki skoðað line-upið mikið.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Aðallega erlend fjölmiðlaumfjöllun. Einnig hafa KEXP-vídjóin gert góða hluti fyrir bönd sem ég hef spilað með.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Árið 2012 spilaði ég samtals 13 sinnum, með tveimur böndum, að off-venueum og KEXP vídjóum meðtöldum.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Með Boogie Trouble verð ég on-venue á laugardeginum kl. 21.20. Svo verðum við 5 sinnum off-venue. Einnig mun ég spila tvisvar off-venue með Babies og einu sinni með rapphljómsveitinni Bjór.

Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 14. ágúst

 

Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson munu leika á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan opnar fyrir gesti kl. 20 og tónleikar hefjast svo á slaginu 20:30. Hljómsveitin Vök mun einnig koma fram, en hún gaf nýverið út sína fyrstu plötu, EP plötuna Tension.

 

 

Fimmtudagur 15. ágúst

 

Markús & The Diversion Sessions halda tónleika í Lucky Records klukkan 17:00

 

Jazz dúettinn Singimar spilar á ókeypis Pikknikk tónleikum 15. ágúst kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Singimar er samstarfsverkefni Inga Bjarna Skúlasonar á píanó og Sigmars Þórs Matthíassonar á kontrabassa.

 

Hljómsveitin Markús & The Diversion Sessions efnir til stórtónleika í Gym & Tonic sal Kex Hostel, Tónleikarnir verða kveðjutónleikar fyrir bassaleikara hljómsveitarinnar Georg Kára Hilmarsson en hann heldur út í masters nám í tónsmíðum í lok ágúst. Hljómsveitin The Diversion Sessions tók upp stutt skífu árið 2012 og mun hún vera gefin út í takmörkuðu upplagi á tónleikunum. Um upphitun sjá hljómsveitirnar Hymnalaya og Nini Wilson. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og kostar 1000kr inn.

 

Tónleikar á Café Flóru með Skúli mennska og fleiri listamönnum.

Tónleikarnir byrja kl 20 og það er ókeypis inn.

 

Two Step Horror og Rafsteinn spila á tónleikaröð Hressingarskálans. Enginn aðgangseyrir og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Hljómsveitirnar Godchilla og Klikk troða upp á Dillon fimmtudaginn. Það er frítt inn og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

 

Föstudagur 16. ágúst

 

 

BJÚDDARINN 2013, árlegt skemmtikvöld knattspyrnufélagsins Mjöðm Gallerý Knattspyrna (ef.), fer fram á skemmtistaðnum Harlem

 

Prógram:

Kippi Kaninus

Markús & the diversion sessions

DJ Margeir & Högni Egilsson

Mið-Íslands grínistarnir Bergur Ebbi & Jóhann Alfreð

Málverkauppboð

 

Hús opnar 22:00

Miðaverð: 1.000 kr.

 

 

 

 

Laugardagur 17. ágúst

 

Kveðjutónleikar Boogie Trouble á Gamla Gauknum.  Ásamt Boogie verða þarna Bárujárn, Bjór og Babies.

Hús opnar 21:00 – Tónleikar hefjast 22:00 og Aðgangseyrir er 1500 krónur en ágóði rennur óskiptur í að fjármagna væntanlega plötu hljómsveitarinnar sem mun líta dagsins ljós í vetur.

 

 

KVIKSYNÐI #6 í hliðarsal Harlem 

  • – Bjarki – Live set
  • – Hlýnun Jarðar
  • – ULTRAORTHODOX – Live set
  • – Bypass
  • – Captain Fufanu
  • Húsið opnar klukkan 23.00 og það er frítt inn!

 

 

 

 

Sunnudagur 18. ágúst

 

Tónleikar með sjálfum David Byrne og St. Vincent í Háskólabíó klukkan 20:00. Miðar eru til sölu á midi.is og það kostar 8990 í svæði B og 10999 í svæði A. Það þarf vart að kynna David Byrne eða St. Vincent (aka Annie Clark) fyrir tónlistaráhugafólki. Ferill þeirra er mislangur en afar farsæll. Þau leiddu saman hesta sína fyrir nokkrum misserum og tóku upp plötu. Afraksturinn leit dagsins ljós á síðasta ári og platan Love this Giant var af mörgum talin plata ársins 2012.

 

 

50 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 50 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.

Þau eru: sóley, Savages (UK), Jon Hopkins (UK), John Grant (US), Mykki Blanco (US), Mac DeMarco (CA), Lay Low, Villagers (IE), PAPA (US), Empress Of (US), Lescop (FR), Agent Fresco, Young Fathers (SCO), For a Minor Reflection, Slow Magic (US), kimono, We Are Wolves (CA), Ghostigital, Dikta, San Fermin (US), Berndsen, Baby in Vain (DK), Sean Nicholas Savage (CA), Cousins (CA), Úlfur Úlfur, Aaron and the Sea (US), Biggi Hilmars, Kithkin (US), Eldar, Epic Rain, The Balconies (CA), Futuregrapher, Nordic Affect, Ylja, Wistaria, Tonik, Sindri Eldon and the Ways, Good Moon Deer, Rökkurró, Kött Grá Pjé, Jóhann Kristinsson, Kajak, Sometime, Saktmóðigur, Hudson Wayne, Boogie Trouble, Tanya & Marlon, M-Band, Original Melody og Nolem!

Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 16. júlí

R&B stórstjarnan Frank Ocean heldur tónleika í  Laugardalshöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það kostar 8.900 kr í stæði og 13900 í stúku, enn er hægt að kaupa miða á midi.is

Stroff, Skelkur í bringu og Sindri Eldon spila á neðri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á jazzkvöldi KEX kemur fram kvartett kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Samuel J. Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigtryggur Baldursson á conga trommur. Tónlistin hefst kl. 20:30 og stendur í u.þ.b. 2 klst., með hléi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis

 

Miðvikudagur 17. júlí

Hjómsveitin Chic undir styrkri handleiðslu stofnandans Nile Rodgers mun koma fram á tónleikum í Silfurbergi Hörpu. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sisi Ey munu opna kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Enn er hægt að kaupa miða á midi.is og kostar 8.500 kr inn.

Raftónlistarpartý á Harlem -Tvíeykið MRC Riddims frá New York [nánar tiltekið Harlem] leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem (áður Volta). Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims. Partýið stendur frá 22:00 – 01:00 og kostar 1000 kr. inn.

Ylja, Hymnalaya og Stormur halda tónleika á efri hæð Faktorý sem hefjast klukkan 22:00. Það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 18. júlí

Hljómsveitin Boogie Trouble spilar ljóðrænan diskó í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum kl 17:00.

NÆNTÍS VEIZLA í boði Sindra Eldon á Harlem Bar: TREISÍ, JÓN ÞÓR og SINDRI ELDON & THE WAYS koma fram auk þess sem Sindri mun Dj-a til lokunnar.

Gítarveisla í Bíó Paradís en þar stíga á stokk hljómsveitirnar Stroff, Skelkur í Bringu, Bárujárn og Dreprún. Tónleikarnir hefjast 22:00 og er frítt inn.

Sign og We Made God spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 19. júlí

Hljómsveitin Hymnalaya hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Hymns“. Sveitin ætlar að fagna því með léttum ókeypis tónleikum í 12 Tónum á Skólavörðustíg sem hefjast klukkan 17:30.

Moses Higtower og 1860 spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Laugardagur 20. júlí

KEX Hostel, KEXLand og bandaríska útvarpsstöðin KEXP ætla að bjóða öllum á útitónleikana KEXPORT við Kex Hostel laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í portinu við Kex Hostel og hefjast kl. 12 á hádegi og lýkur um miðnætti. Alls munu 12 hljómsveitir koma fram á klukkutímafresti á þessum maraþon tónleikum. Fram koma: BABIES // BOOGIE TROUBLE // HJALTALÍN // KIPPI KANINUS // LOJI // MOSES HIGHTOWER // MUCK // NOLO // SAMÚEL J SAMÚELSSON BIG BAND // SÍSÍ EY // SYKUR //

 

Hjaltalín heldur tónleika á Faktorý, laugardagskvöldið 20. júlí. Um upphitun sér hljómsveitin Japam. Húsið opnar klukkan 22 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22:45. Miðasala fer eingöngu fram við hurð og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

 

 

 

 

 

Listahátíð á Stöðvarfirði

Pólar festival er tveggja daga lista- og frumkvöðlahátíð sem verður haldin á Stöðvarfirði næstu helgi. Hátíðin er haldin í samvinnu við Maður er manns gaman, sjálfbæra þorpshátíð sem hefur verið starfrækt á Stöðvarfirði undanfarin ár.

Pólar byggir á hugmyndafræði sem mætti þýða á íslensku sem hæfileikasamfélag (e. skillsharing).  Ætlunin er að  ná saman fólki úr ólíkum áttum og margvíslegum skapandi greinum til þess að deila reynslu sinni og þekkingu og rannsaka nýja möguleika í samvinnu, sköpun og framleiðslu. Dagskráin felst í stuttum og fjölbreyttum námskeiðum, fyrirlestrum og ýmsum listviðburðum.

Á laugardeginum verður svo slegið upp heljarinnar tónleikum þar sem diskóboltarnir í Boogie Trouble og lo-fi grallararnir í Just Another Snake Cult stíga á stokk ásamt trip hop sveitinni Urban Lumber.

Tónleikar helgarinnar

 

Miðvikudagur 3. júlí


Hljómsveitirnar Nóra, Boogie Trouble og dj. flugvél og geimskip spila á Faktorý. Efri hæð opnar kl. 21:00, tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og það kostar litlar 1000 kr. inn.

 

Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus flytur safn laga af væntanlegri breiðskífu sinni á Loft Hostel. Auk þeirra verða leikin eldri lög úr höfundaverki Maus, Krónu og fleira í nýjum útsetningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 

Fimmtudagur 4. júlí

 

Hin árlega götuhátíð Jafningjafræðslunnar verður haldin á Austurvelli frá 14:00 til 16:00. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Elín Ey, 12:00, Haffi Haff og Kjurr.

 

Hljómsveitin Blágresi ásamt Einari Má Guðmundssyni halda tónleika á Café Flóru í Grasagarðinum. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Ragnar Árni og val kyrja munu hita upp.

 

Bandaríska skógláps bandið Mice Parade spilar á Faktory. Um upphitun sjá Nini Wilson, Kría, Bob Justman og Snorri Helgason. Miðaverð eru 1500 kr. og fer miðasalan fram við hurð. Húsið opnar 21.00 og fjörið byrjar einhvern tíma eftir það.

 

Tónleikar á café haiti með The Bangoura Band kl: 21.00 kostar 1.000 kr inn.

 

KRAKKBOT og ENKÍDÚ spila á sumartónleikaröð Bíós Paradísar í anddyri bíósins kl. 22:00 og það er ókeypis aðgangur!

 

Rauðhærði rafgeggjarinn Hermigervill spilar á Boston í kvöld í boði Funkþáttarins. Það er orðið langt um liðið síðan gervillinn spilaði síðast á landinu þannig enginn ætti að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00 og aðgangseyrir er enginn. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verða tónleikarnir í beinni útsendingu funkþáttarins á X-inu 977.

 

Danska kráin stendur fyrir tónleikahátíð til heiðurs Hróaskelduhátíðinni 4-7 júlí og er FRÍTT inn alla helgina. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 White Signal
19:15 Ferja
20:30 Yellow void
21:45 Kjurr

 

KEX Hostel stendur fyrir hátíðinni KEX Köntrí alla helgina þar sem bandarískri menningu verður fagnað með mat og tónlist frá Tennessee og Kentucky. Í kvöld er dagskráin þessi:
20:00 – Ryan MacGrath (CA)
21:00 – Brother Grass (IS)

 

 

Föstudagur 5. júlí

 

Tónleikar til heiðurs minningu og lífs Björns Kolbeinssonar, hann var einnig þekktur sem Bjössi Skáti og stundum sem El Buerno. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope og þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn til Kvennaathvarfsins. Fram koma:
Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

19:00 Lame Dudes
20:15 Brimlarnir
21:30 Distort City
22:45 Stafrænn Hákon

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Hudson Wayne (IS)

21:00 – Blágresi (IS)

 

Laugardagur 6. júlí

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

20:15 Momentum
21:30 We made god
22:45 Mammút

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Illgresi (IS)

21:00 – Lambchop (US)

 

 

Sunnudagur 7. júlí


Bandaríska jaðarkántrísveitin Lambchop mun enda Evróputónleikaferð sína með tónleikum í Iðnó. Lay Low mun einnig koma fram á tónleikunum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa til miðnættis. Miðasala fer fram á www.midi.is og kostar 3990 kr inn.

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 Hjalti Þorkelsson
19:15 Trausti Laufdal
20:30 Myrra Rós
21:45 Bellstop

Tónleikar um Hvítasunnuhelgina

Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.

Fimmtudagur 16. maí

Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 17. maí

Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.

Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.

Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.

Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.

Laugardagur 18. maí

Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.

Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.

Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.

Sunnudagur 19. maí

Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.

Tónleikar helgarinnar

Í föstum liðum eins og venjulega mun Straumur leiðbeina lesendum um rjómann í tónleikahaldi á þessari fyrstu helgi maí mánuðar.

Fimmtudagur 2. maí

Það verður þungarokksmessa í Austurbæ í kvöld þegar tvær helstu þungarokkssveitir landsins, Dimma og Sólstafir, leiða saman hesta sína. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðinni „Náttfararnir“ en sveitirnar hafa ferðast saman um landið síðustu misseri til að kynna nýjustu plötur sínar fyrir rokkþyrstum áheyrendum. Dimma gáfu út plötuna Myrkraverk í lok síðasta árs sem fékk einróma lof gagnrýnenda og verður hún flutt í heild sinni á tónleikunum ásamt vel völdu eldra efni. Sólstafir eru nýkomnir úr mánaðarlöngu tónleikaferðalagi um Evrópu og er þess vegna í rokna rokkformi um þessar mundir. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er 2900 krónur.

Föstudagur 3. maí

Pink Street Boys, Foma og Lord Pusswhip koma fram á fríkeypis tónleikaröð Dillon sem haldin eru vikulega og samviskusamlega á föstudagskvöldum. Pink Street Boys var stofnuð á grunni hinnar stórskemmtilegu sækadelik hljómsveitar Dandelion Seeds sem nú hefur lagt upp laupana. Lord Pusswhip er pródúsant, plötusnúður og rappari að nafni Þórður Ingi Jónsson sem gerir hip hop tónlist undir áhrifum frá fjólubláu hóstasafti, djassi, kvikmyndatónlist, skóglápsrokki og ýmsu öðru. Hann hefur smíðað takta fyrir inn- og erlenda rappara úr ýmsum áttum, þar á meðal fyrir Mudd Mob crew-ið sem hann er meðlimur í. Á tónleikunum mun hann njóta aðstoðar rapparans Svarta Laxness. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Kiriyama Family er um þessar mundir að semja efni á nýja breiðskífu en hafa ákveðið að taka sér hlé frá hljóðverinu og halda tónleika á Hressó með nýkrýndum sigurvegurum músíktilrauna Vök. Tónleikarnir eru ókeypis og hefjast klukkan 22:00.

Grasrótartónleikarröðin heldur áfram á Faktorý og að þessu sinni koma fram sveitirnar Sónn og Klaus. Sónn er nýstofnuð sveit skipuð ungum tónlistarnemum úr FÍH og spila vandaða dægurtónlist með tregafullum og sálarskotnum undirtón. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 23:00 og það er fríkeypis inn.

Laugardagur 4. maí

Það verður boðið upp á heljarinnar rokk- og diskókokteil á Volta þar sem sveitirnar Oyama, Muck, The Heavy Experience og Boogie Trouble venda kvæðum sínum í kross. Allar þessar sveitir eru með hressari tónleikaböndum landsins og að þær safnist saman undir sama þaki ætti virka ákaflega stuðvekjandi á áhorfendur. Gleðinnar dyr opnast klukkan 22:00 og 1000 krónur veita inngöngu að þeim.

 

Skúli mennski flytur brot af sínum bestu verkum frá árunum 2010-2013 auk þess sem óútgefnar perlur fá að njóta sín á Rósenberg. Við verkið mun hann njóta aðstoðar úrvals hljóðfæraleikara á bassa, gítar, trommur og munnhörpu en flutningurinn hefst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

 

Tónlistarkonan Lay Low bryddar upp á þeirri nýbreytni að halda tónleika heima í stofu hjá sér sem verður streymt í gegnum veraldarvefinn. Streymið af tónleikunum er hægt að nálgast án gjalds á þessari vefslóð og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 21:00.

 

Rokkbrýnin í Brain Police halda tónleika ásamt Alchemiu og Why Not Jack á Gamla Gauknum. Miðaverð er 1500 krónur og húsið opnar klukkan 21:00.

Sunnudagur 5. maí

Straumur vill vekja athygli á Sunnu-djazzinum, vikulegum djasstónleikum á Faktorý þar sem ungir og efnilegir spilarar leika efni úr ýmsum áttum af fingrum fram. Þeir eru á hverjum sunnudegi og hefjast ávallt 21:30 í hliðarsalnum og ókeypis er inn.

 

 

Loft Hostel nýr tónleikastaður í miðbænum

Í gærkvöldi opnaði formlega nýr tónleikastaður í miðbænum. Um er að ræða hostel að nafninu Loft sem staðsett er á efstu hæð á Bankastræti 7. Á opnunarkvöldinu komu fram hljómsveitirnar Boogie Trouble, Prins Póló og Fm Belfast og var stemmingin í salnum rafmögnuð. Boogie Trouble hófu tónleikana rétt um hálf tíu og sönnuðu það að diskóið lifir enn góðu lífi. Prinsinn tók við af þeim og sá um að hver einasta hræða í salnum væri á hreyfingu og Fm Belfast slógu svo botninn í frábært kvöld með einstökum tónleikum þar sem þau spiluðu nokkur ný lög í bland við gömul.

Loft Hostel líkt og Volta sem opnaði í febrúar henta vel fyrir minni og millistóra tónleika en þannig aðstöðu hefur sárvantað síðustu misseri í Reykjavík. Straum.is tekur þessum stöðum fagnandi.