Ein þjóð undir grúvinu og rigningunni – Secret Solstice 2018

Mynd: Ívar Eyþórsson

Fimmta Secret Solstice hátíðin er að baki við mikinn fögnuð partýþyrstra ungmenna og tónlistarunnenda en bölmóð sumra áhyggjufullra foreldra og íbúa Laugardalsins. Fjórir heilir dagar af rokki, labbi, rappi, dansi, raftónlist, hoppi, klappi og á köflum volki í misblíðu veðri.

Ég mætti á svæðið í mildri fimmtudagsrigningu og labbaði rakleiðis í Valhöll þar sem ofurstjörnuplötusnúðurinn Steve Aoki var í miðjum transklisjuklíðum á sviðinu. Ég er mjög langt frá því að vera aðdáandi þeirrar stefnu sem hann aðhyllist sem hefur verið kölluð electro-house, trance, EDM og dub- eða brostep í gegnum tíðina, sem nýtur sín líklega best í Las Vegas eða á Ibiza. En flestir unglingarnir á svæðinu elskuðu þetta og virtust hreinlega borða úr lófanum á honum þar sem hann hoppaði og skoppaði upp á dj-borðinu.

 Engin þverflauta

Það er svo merki um ákveðna skitzófreníu í dagskránni að strax á eftir unglingatranssúperstjörnunni komu hin mjög svo miðaldra rokkbrýni snemmtíunda áratugarins, Jet Black Joe. Ég set stórt spurningarmerki við að kombakk frá íslenskri 90’s hljómsveit sé sem var aldrei þekkt utan landssteinanna sé kynnt sem eitt af aðalatriðunum á tónlistarhátíð sem á að vera alþjóðleg, en þarna voru þeir samt og ég fékk engu um það ráðið. Þeir stóðu sig þó ágætlega og það kom mér á óvart hvað ég þekkti mörg lög með þeim, ekki bara Higher and Higher, en það olli mér vonbrigðum að þverflautusólóið vantaði í því lagi.

Ég hafði heyrt slæma hluti og raddleysi um rámu powerballöðugyðjuna Bonnie Tyler þannig ákvað að athuga plötusnúðasett með Bigga Veiru úr Gusgus í Hel. Það var svo gott að ég ílengdist svo lengi að mér var ekki hleypt inn á svæðið aftur þrátt fyrir að 80’s-stjarnan ætti talsvert eftir af settinu sínu. Það sem ég heyrði hins vegar voru lýsingarorð eins og „pínlegt“ þannig ég missi ekki svefn yfir því.

Föstudagskvöldið sá ég fyrst ungstyrnið Aron Can á stóra sviðinu. Hann stóð sig vel og ungdómurinn át þetta upp til agna. Hann tók meðal annars einhvers konar tekknó-útgáfu af enginn mórall og endaði með fulla vasa eins og venjulega. Mér fannst þó fullmikið af þeim leiðigjarna sið tónlistarmanna að í gríð og erg sleppa sönglínum sínum og í staðinn beina hljóðnemanum að áhorfendum í eins konar samsöng. Þetta er að mínu mati stílbragð sem ætti að nota afar sparlega, ég er komin ntil að horfa á tiltekinn listamann syngja, ekki viðvaninga úr áhorfendaskaranum, og þetta er ekki gítarpartý í Vestmannaeyjum.

Frábær draumakona en slakur Gucci

Ég var mjög spenntur fyrir Gísla Pálma sem hefur vart komið fram í ár eða svo en kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum með nýja þröngskífu fyrir skemmstu. En hann virtist bara því miður vera í mjög tæpu formi þessa helgina og það sást að hann hafði ekki rappað life lengi; hann náði ekki að klára hröðu línurnar í lögunum sínum, virtist þrjóta rödd og kraft. Alvia sem kom fram í tveimur lögum með honum var miklu betri en hann. Síðan kom breska söngkonan IAMDDB flutti nútímalegt R&B, sálartónlist og hiphop á Valhallarsviðinu og komst mjög vel frá því.

Þvínæst tók rapparinn Goldlink við keflinu og hélt góðum dampi í þéttu setti með óhefluðu flæði og töktum sem duttu oft yfir í poppað dubstep sem var vel viðeigandi á hátíð sem þessari. Bresk-íslenski kvennarokkkvartettinn Dream Wife stóð sig frábærlega á Gimli-sviðinu og söngkonan Rakel Mjöll fór á kostum í raddslaufum meðan ofursvöl gítarpían bauð upp á bjögunarfimleika í hæsta gæðaflokki. Ég náði svo restinni af trap-goðsögninni og glæponarapparanum Gucci Mane og það verður að segjast eins og er að þar var fátt um fína drætti, lítil innlifun og mér leið eins og ég væri að hlusta á einhvern sem væri bara í vinnunni.

 Taumlaus nautn í Hel

En eftir að útidagskránni lýkur er vegurinn til heljar breiður og varðaður glymjandi ásetningi. Laugardalshöllinni er þessa helgi breytt í niðadimmt tekknógímald fyrir utan neonlitaðan pýramída fyrir ofan plötusnúðinn sem dúndraði bassatrommu á hverju slagi í sameiginlegan hjartslátt dansgólfsins. Þarna var enginn dæmdur, allir voru jafnir fyrir myrkrinu og taktinum, og nautnin var taumlaus. Hljóðlist sem arkar aftur í frumstæðan takt ættbálkaathafna Afríku og leiddi mig í leiðsluástand sem endaði ekki fyrr en ljósin voru kveikt nokkrum tímum síðar.

Á laugardeginum hóf ég leikinn á kanadíska bassa-trommu-tvíeykinu Death From Above á stóra sviðinu sem fóru hamförum í rokkuðum hávaðagjörningi. Það eru ótrúlegt hvernig einn bassaleikari getur framkallað hljóðvegg á pari við risahljómsveit en Jesse F. Keeler misnotaði bassann sinn með hjálp skrilljón pedala á hátt sem ætti að vera ólöglegur. Birnir var í roknastuði á Gimli-sviðinu og fékk til liðs við sig nýgræðingana í Clubdub og svo Hr. Hnetusmjör sem fór á kostum í síðasta laginu „Já ég veit“.

 Appelsínugul viðvörun á Earthgang

Rappdúettinn Earthgang var næstur á svið í Gimli og voru sem einskær dans á túlípönum, einn klæddur í hvítan samfesting með skíðagleraugu og annar í regnbogalitaðan hipstergalla. Þeir flæddu eins og Amazon á regntímabilinu og minntu mig á sveitir eins og Pharcyde, Gravediggaz og Outkast í tilraunakenndum töktum, tryllingslegum rímum og sviðsframkomu sem jaðraði við appelsínugula viðvörun. Ég náði svo restinni af Slayer sem skiluðu sínu á fúnksjonal og effektívan hátt en tónlistin þeirra er ekki minn kaffibolli, mér fannst lögin einhæf og stefnan sem þeir aðhyllast eiga meira skylt við þrekæfingu eða íþrótt heldur en list.

Á sunnudeginum mætti ég galvaskur á George Clinton en þó ekki nógu vel klæddur fyrir syndafallið sem var í uppsiglingu. En gamli grúvhundurinn mætti til leiks um sexleitið og var með um það bil íbúafjölda Kópaskers með sér á sviðinu. Það voru margir gítarar, bassaleikarar, saxafónar, trompetar, dansarar, bakraddasöngvarar, hljómborð og allra handa búningar sem tóku þátt í þessum farandsirkus fönkhetjunnar þar sem maður vissi aldrei hverju maður átti von á næst. Tónlistin flakkaði milli fönks, rokks, hip hopps og jafnvel nú-metals þar sem frábærir hljóðfæraleikarar tóku sóló á heimsmælikvarða. Það brast á með fimm mínútna Scat-sólói, twerk-dansi, rappi frá barnabarni Clintons og allra handa furðuverum og skrýtnum búningum. Hljómsveitarleiðtoginn sjálfur söng svo sem ekki mikið enda orðinn gamall og lúinn en hélt samt uppi stuðinu með dansi og hvatningu. Ein þjóð undir grúvinu og rigninguna.

 Syndafall og ógnandi lögregla

En á meðan tveggja tíma tónleikum Clintons stóð bætti stöðugt í rigninguna sem var á nánast gamla-testaments-skala undir lokin. Ég tók ekki mikið eftir því á meðan á herlegheitunum stóð en eftir á var ég svo blautur inn að beini ég þurfti frá að hverfa heim á leið í sturtu og hrein föt sökum yfirgengilegs kulda. Þegar ég mætti aftur var tónleikasvæðið orðið eitt risastórt leðjusvað en ég náði þó rest af tónleikum með elektrófönkaranum Egyptian Lover og breska rapparanum Stormzy sem stóðu sig vel þrátt fyrir veðrið.

Hátíðin var heilt yfir vel heppnuð í ár þrátt fyrir ákveðið stefnuleysi í vali á tónlistaratriðum og gula veðurviðvörun á sunnudagskvöldinu. Það var góður andi á hátíðinni almennt fyrir utan það að ég hef aldrei séð jafn mikið af agressívum lögreglumönnum með fíkniefnahunda á Secret Solstice áður. Ég varð vitni lögreglumönnum með hunda labbandi um Hel þar sem var leitað á fólki á miðju dansgólfinu fyrir framan alla. Fólk sem var leitað á lét sig snögglega hverfa þrátt fyrir að ekkert hafi fundist á því, hafandi verið niðurlægt og stimplað sem dópistar frammi fyrir alþjóð. Það verður ekki séð hvernig þessar aðfarir auki öryggi eins einasta manns á hátíðinni, og þær virðast hluti af fordómum lögreglunnar gegn danstónlist og ungu fólki, þar sem lögreglan er til að mynda aldrei með viðlíka viðbúnað á Iceland Airwaves hátíðinni.

Ég vona svo sannarlega að hátíðin verði haldin að ári þó það séu áhöld um það út af hörðum mótmælum sumra íbúa Laugardalsins. Þrátt fyrir að eitthvað sé um ölvun og fíkniefnaneyslu á svæðinu er stemmningin margfalt rólegri en á menntaskólaböllum og útihátíðum sem ég stótti sem unglingur. Heimur batnandi fer og æskan líka. Laugardalurinn er fullkomið svæði fyrir hátíð af þessu tagi og þegar best lætur vekur upp minningar frá Hróarskeldu, Primavera og öðrum tónlistarhátíðum á meginlandi Evrópu. Ég vonast til að skemmta mé vel í dalnum að ári ef að Guð á áhyggjufullir foreldrar í Laugarneshverfi leyfa. Vonandi sést þá líka eitthvað til sólarinnar í Sólstöðunum.

Davíð Roach Gunnarsson

Stórskotahríð á skilningarvitin á seinna kvöldi Sónar

Ég byrjaði seinna kvöldið á Sónar með tónleikum Sykurs í Norðurljósasalnum. Dúndrandi elektró-poppið sem pumpaðist út úr hljóðkerfinu kikkstartaði blóðrásinni í gang og útlimirnir byrjuðu ósjálfrátt að kippast til, stundum kallað að dansa. Agnes söngkona sveitarinnar er síðan náttúrafl út af fyrir sig og ein allra kraftmesta rödd og frontkona landsins. Hún er jafnvíg á söng og rapp og með sjarma og sviðsframkomu í gámavís. Það sem hún leggur svo í hárgreiðslu og föt er síðan listaverk út af fyrir sig. Það er meira skúlptúr heldur en outfit, í anda dívna eins Grace Jones og Lady Gaga. Þegar þau enduðu á Reykjavík og allur salurinn söng með og hoppaði í takt.

 Armageddon fyrir flogaveika

Næst á dagskrá voru gömlu tekknóbrýnin í Underworld. Þrátt fyrir að vera orðnir í kringum sextugt var engin ellimerki að sjá á sviðinu í Silfurbergi þetta kvöld. Það er ástæða fyrir því að þeir fylla fótboltaleikvanga af fólki, raftónlistin þeirra er kraftmikil, lífræn og full af orku. Sjóið þeirra er svo á einhverju allt öðru leveli. Þetta var eins og armageddon fyrir flogaveika, heimsstyrjöld háð með leysibyssum, snjóflóð af strobeljósum, sannkölluð stórskotahríð á skilningarvitum úr öllum áttum.

 

Það var erfitt að fylgja eftir Underworld en bresku rappynnjunni Nadiu Rosa fórst það mjög vel úr hendi. Hún hristi fram úr erminni hvern grime-bangerinn á fætur öðrum og fór svaðilförum á sviðinu í dansi, töffaratöktum og almennri útgeislun. Með henni í för voru þrjár hype-píur skástrik dansarar skátrik plötusnældur þannig það var allftaf hreyfing og flæði í atriðinu. Það var ungæðislegur kraftur sem flæddi í stríðum straumum um Norðurljósasalinn og orkan var áþreyfanleg í slögurum eins og Skwod.

 

Eftir Nadiu hélt ég aftur í Silfurberg að sjá Bjarka. Nafnið lætur ekki mikið yfir sér og hann er mun þekktari á heimsmælikvarða en heimavelli, er gefinn út af tekknótæfunni Ninu Kravitz og mjög alþjóðlega þekktur í þeirri kreðsu. Hann hefur undanfarið troðfyllt tónlistarhús, næturklúbba og hátíðarsvið um heim allan, þar á meðal tekknókirkjuna Berghain í Berlín. Þetta eru fyrstu stóru tónleikarnir hans á Íslandi og það var öllu til tjaldað.

Gúrkutekknó

Ef það væru gefin Eddu og/eða íslensku tónlistarverðlaun fyrir leikmynd á tónleikum þá ætti sá sem ber ábyrgðina á sviðnu hans Bjarka þau fyllilega skilið. Það voru þrjár gínur með sjónvarpsskjái í hausastað, reykur, leiserar og rúmlega tveggja metra hár maður í algalla sem væflaðist og ráfdansaði um sviðið. Annar maður í algalla tók myndbönd, kastaði gúrkum af sviðinu og hljóp hringi í kringum salinn. Tónlistin var grjótljónhart tekknó þar sem hver einasta bassatromma nísti inn að beini. Ég hafði bara hlustað á eitt lag með Bjarka áður en starði og hlustaði heillaður allan tímann. Þetta var besta atriði hátíðarinnar og skyldi mig eftir með öll skynfærin gapandi af lotningu.

 

Ég þurfti 15 mínútur af fersku lofti og sígarettureyk til að jafna mig eftir helgeggjunina sem var Bjarki, en síðan var Sónarferðalaginu haldið áfram niður í bílakjallarann þar sem Yamaho og Cassie spiluðu back to back sett. Það byggðist upp með stigmagnaðri sturlun og villtum dansi og setti fullkominn lokapunkt á hátíðina. Ég hlakka til á næsta ári.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tekknótryllingur, geimdiskó og kynfærameiðsli

 

Sónar var ýtt úr vör í gær og á sjötta aldursárinu en engan bilbug að sjá á hátíðinni. Harpan var full af útlendingum og flottum neonljósaskúlptúrum hafði verið plantað á víð og dreif til að auka á festivalstemmninguna.

 

Ég byrjaði föstudagskvöldið á móðurskipi íslenskrar danstónlistar, Gusgus. Það er ein af mínum allra uppáhalds íslensku hljómsveitum sem ég hef skrifað svo mikið um að ég er að renna út af myndlíkingum og lýsingarorðum til að nota um tónleikana þeirra. Ég hef ekki tölu á þeim Gusgus-tónleikum sem ég hef farið í meira en áratug og aldrei hefur mér leiðst. Daníel Ágúst og Biggi Veira lögðu mikla áherslu sína nýjustu plötu, Lies Are More Flexible, á tónleikum sínum í Silfurbergi, og léku fimm lög af henni. Þeir byrjuðu á „Featherlight“, fyrstu smáskífunni, sem að mínu mati er strax eftir sex mánaða tilveru komið í kanónuna af klassískum Gusguslögum, tímalaus raftónlist sem er aldrei út úr kú á dansgólfinu.

Dansinn hámarkaður

Stundum segir fólk að raftónlist flutt live sé bara einhver með Apple tölvu að ýta á play, það að vera satt í einstaka tilvikum en langt frá sannleikanum á tónleikum Gusgus. Þó þú sjáir kannski ekki beint hvað Biggi Veira er að gera á bakvið græjustæðuna sína þá heyrirðu það og finnur. Hann teygir á lögunum, leyfir hverju hljóði að fá sitt andrými, tvíkar þau til með uppbyggingum og taktsprengingum til að sníða þau að salnum og ná fram hámarksdansi. Hápunkturinn var þó „Add This Song“, í útgáfu sem ég hef ekki heyrt áður. Það var langt forspil áður en Daníel Ágúst hóp upp raustina og óvænt og groddaleg bassalína kom í kjölfar viðlagsins. Ljós og hljóð var til fyrirmyndar og Silfurberg er óðum að verða heimavöllur Gusgus á Íslandi.

 

Næst hélt ég yfir í Norðurljósasalinn til að sjá norska geimdiskógeggjarann Lindstrøm. Hann lék á als oddi í arpeggíum og sci-fi-laglínum sem flutu yfir salnum í sporbaug um eyrun mín. Ég hef verið aðdáandi hans lengi og missti nokkra líkamsvessa þegar hann tók sinn helsta „hittara“, lagið sem vakti fyrst athygli á honum, I Feel Space.

 Afmælisbarnið meiddi sig í typpinu

Næst á dagskrá var afmælisbarnið og Detroit-rapparinn Danny Brown sem var aðalnúmer kvöldsins hjá mér. Hann er einn mest spennandi rappari sem hefur komið fram undanfarin ár. Hann er með algjörlega einstaka rödd, ýlfrar og geltir út snjöllum myndlíkingum, skrýtnum sögum og klámfengnum húmor með hvellri hátíðnirödd yfir tilraunakenndum tryllingstöktum. Hann fór á mörgum kostum þetta kvöld og virtist gríðarlega ánægður í eigin skinni á sviðinu í Silfurbergi en hann varð 37 ára þennan dag, og auðvitað söng allur salurinn afmælissönginn fyrir þennan frábæra listamann.

 

Hann er performer á heimsmælikvarða og tætti af sér peysu, derhúfu, og skó eftir því sem leið á tónleikana, sem hann dúndraði jafnóðum út í salinn –einhvers konar öfug afmælisgjöf frá honum til þeirra heppnu áhorfenda sem náðu að grípa. Hann tók flest þau lög sem mig langaði til að heyra og allur salurinn tók undir í slögurum eins og „Dip“, „Grown Up“ og „Aint it Funny“.

 

Hann var stútfullur af sjarma og sviðsorku, hoppaði út um allt svið, fór í kolnhnís og snerist eins og skopparakringla, en í hamaganginum náði hann því miður einhvern veginn að meiða sig í kynfærunum, sem hann sagði ástæðu þess að hann hætti spila – sem var þú um það bil þegar hann átti að hætta samkvæmt áætlun. Ég vona innilega að hann jafni sig í typpinu sem fyrst, en hann getur allavega huggað sig við það hann heillaði heilan sal upp úr skónum við atganginn sem leiddi til meiðslanna.

A post shared by Óli Dóri (@olidori) on

Eftir Danny Brown var aðeins ein leið í stöðunni; Niður. Í bílakjallarann sem á Sónar breytist í alvöru berlínskan tekknóklúbb, þann eina sinnar tegundar á landinu. Þar dansaði fólk sig inn í nóttina við pumpandi ryþma bassatrommurnar á hverju slagi, þar sem taumlaus nautnahyggja réð ríkjum og fölskvalaus gleði skein úr hverju andliti.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Mynd: Facebooksíða Sónar

 

Löðrandi kynþokki og listrænn hávaði á Norður og Niður

Mynd: Óli Dóri

Norður og Niður er ný og spennandi hátíð milli jóla og nýárs haldin í kringum fjóra tónleika Sigur Rósar. Hugmyndin var að tón- og aðrir listamenn sem tengjast Sigur Rós vinaböndum, eða í gegnum gagnkvæma aðdáun myndu koma fram og lífga upp á Hörpu í svartasta skammdeginu. Þetta hófst allt á „Gloomy Christmas“, ein hvers konar gjörningi þar sem venjubundnum jólatónleikum var snúið á hvolf. Það komu fram bæði hefðbundnir „jóla“söngvarar eins og Helgi Björns og Sigga Beinteins en líka Alexis Tailor úr Hot Chip og Peaches, og sungu jólalög í einhvers konar hægum moll-jarðarfarar Sigur Rósar útsetningum.

Herlegheitin voru svo í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna og surprise, surprise, féllu ekki sérlega vel í kramið hjá fólki sem hefur gaman að jólatónleikum Björgvins Halldórssonar og Baggalúts. Að mínu mati var þetta oft áhugavert, stundum leiðinlegt, og einstaka sinnum frábært. Laddi stal senunni með „Snjókorn falla“ í dásamlega tragískum flutningi, Katrína Mogensen var frábær og Alexis Tailor var angurvær í „Last Christmas“. „Ég hlakka svo til“ með Svölu var hins vegar bara „langt, dæmalaust langt,“ og tíminn skelfing lengi að líða.

 Úr Elton John ballöðum í vegg af hávaða

Næst sá ég Alexis Tailor úr Hot Chip spila í Kaldalóni þar sem hann var einn með flygil og einstaka sinnum greip hann í gítar eða rafhljóð. Lögin voru að mestu leyti angurværar píanóballöður a la Elton John en hann skellti líka í einstaka Hot Chip lög og gaf þá aðeins í með auka raflhjóðum og töktum. Eftir þetta ljúfmeti þá var það harkan sex sem tók við með Blanck Mass í Silfurbergi. Það er sólóverkefni annars meðlims noise-sveitarinnar Fuck Buttons sem er eiginlega bara meira af því sem gerir þá sveit frábæra, meiri hávaði og meiri melódía.

Það er einhvers konar hljóðveggur á þykkt við kínamúrinn og hæð Hallgrímskirkju sem hrynur yfir mann á tónleikum Blank Mass. Hvert einasta tíðnisvið er fullhlaðið af hljóðum og óhljóðum, stundum var samplaður ópersöngur sem vofði yfir öllu, og stundum söng hann sjálfur í gegnum eitthvað apparat þannig það hljómaði eins og satan sjálfur væri að messa yfir þér. Þarna var fullkominn samruni hávaða og melódíu og djöflamessu. Ég stóð bara dáleiddur og gapti og tók þetta inn um öll vit.

 Dúndrandi danstónlist og magnarastæður

GusGus eru áreiðanlegasta vélin í íslenskri danstónlist og Biggi Veira og Daníel Ágúst höktu ekki hætishót þetta kvöld í Silfurbergi sem er salur sem þeir kunna mjög vel á. Þeir tóku nokkur ný lög sem hljómuðu mjög vel og í síðasta laginu „Deep Inside“ fór Biggi hamförum í tvíkuðum synþum og massívum uppbyggingum. Kevin Shields er hins vegar mikil goðsögn úr hávaðarokksveitinni My Bloody Valentine og var næstur á svið. Hann kom fram einn ásamt trommara og magnarastæðum sem þöktu megnið af sviðinu. Kannski var það að ég er ekki mjög kunnugur MBV eða þessari senu en hann náði ekki að heilla mig, mér fannst þetta eitthvað andlaus hávaði og oft var hann eitthvað pirraður yfir hljóðinu.

Löðrandi listrænn kynþokki 

Bandaríski rafgeggjarinn Dan Deacon hélt heilum Silfurbergssal í heljargreipum á tónleikum sínum á föstudagskvöldinu. Ekki bara með sturlaðri tónlista heldur líka danskeppnum og alls konar leikjum, og hann kom að sjálfsögðu fram á gólfinu meðal áhorfenda, ekki upp á sviðinu. Hér er kannski vert að minnast á að Harpa var fallega skreytt og alls konar innsetningar og gjörningar settu svip sinn á húsið og veittu því hátíðarblæ, ekki bara tónlistarlegan.

Og það komu svo sannarlega fleiri listgreinar en tónlist við sögu á tónleikum Peaches í Norðurljósasalnum á föstudagskvöldinu þar sem listfengi, kynþokki, fegurð og gróteska gengu hönd í hönd í leikhúsi ferskjunnar. Peaches hlýtur að vera orðin hálf fimmtug en það var ekki að sjá á orkunni sem hún bjó yfir þetta kvöld. Það var mikill leikhúsbragur yfir þessu öllu og búningahönnunin frábær þar sem sníphattar og kleópötrukjólar voru eitt af fjölmörgu á massívu hlaðborði sem í boði var. Ég hef ekki fylgst mikið með Peaches undanfarin ár og þekkti ekki mikið af lögunum en það kom bara alls ekki neitt að sök, því að tónlist, dans, búningar og leikmynd komu saman til að mynda einstaka listræna upplifun. Á einum tímapunkti labbaði hún út í áhorfendur og ofan á höndum þeirra með því fyrirheiti að ef hún mynd detta væri sýningin búin. Hún datt ekki. Tveir íslenskir dansarar fóru á kostum og í síðasta laginu Fuck Your Pain Away kom Erna Ómarsdóttir upp á svið og allt leystist upp í löðrandi kynþokka. Eftir Peaches náði ég uppklappinu hjá Mogwai sem ég þekki líitð til en bæði lög voru frábær, sérstaklega hið fyrra sem var yfirfullt af hljóðgervlaarpeggíum og gítarveggjum.

 Hlaðborð fyrir skilningarvitin

Jarvis Cocker fór algjörlega á kostum á laugardagskvöldinu með sólóefni sem ég hafði aldrei heyrt áður og fádæma góðri hljómsveit. Hann er bara svo óendanlega sjarmerandi og svalur, virkaðu mjög drukkinn, en með smekk og stíll í tunnuvís. Ég endaði svo hátíðina á þýska ambíentskóglápslistamanninum Ulrich Schnauss sem bauð upp á mest hugvíkkandi upplifun hátíðarinnar. Fólk ýmist sat eða stóð og drakk í sig dróna, dúndrandi uppbyggingar og undurfallegar myndskreytingar. Heilt yfir var þetta mjög öðruvísi tónlistarhátíð sem bauð upp á drekkfullt hlaðborð fyrir öll skilningarvitin.

Davíð Roach Gunnarsson

BESTU ERLENDU LÖG ÁRSINS 2017

50) Hard To Say Goodbye (Lone remix) – Washed Out

49) Girl Like You – Toro Y Moi

48) Sound – Sylvan Esso

47) D.V.T. – NVDES

46) On Hold (Jamie xx remix) – The xx

45) Modafinil Blues – Matthew Dear

44) Samoa Summer Night Session – LOKATT

43) Tensions – Lindstrøm

42) Nomistakes – Knxwledge

41) I Will Make Room For You (Four Tet remix) – Kaitlyn Aurelia Smith

40) Babylon (ft. Chronixx) – Joey Badass

39) Face to Face – Daphni

38) Are You Leaving – Sassy 009

37) Ascention (ft. Vince Staples) – Gorillaz

36) What U Want Me To Do – Galcher Lustwerk

35) Analysis Paralysis – Jen Cloher

34) 2017 – 38 – Kaytranada

33) Rodent – Burial

32) 7th Sevens – Bonobo

31) No Coffee – Amber Coffman

30) Deadly Valentine – Charlotte Gainsbourg

29) To Say – Jacques Greene

28) Cool Your Heart (ft. DAWN & Gavsborg) (Equilknoxx remix) Dirty Projectors

27) The Combine – John Maus

26) Amergris 9 – Roy Of The Ravers

25) Evolution – Kelly Lee Owens

24) Oh Baby – LCD Soundsystem

23) Traveller (Running Back) – Boris Dlugosch + Cassara

22) Dedicated To Bobby Jameson – Ariel Pink

21) Electric Blue – Arcade Fire

20) Bofou Safou – Amadou and Mariam

19) Freeway Crush (Nutrition remix) – Ruby Haunt

18) Perth – Kink

17) Something for your M.I.N.D. – Superorganism

16) On The Level – Mac DeMarco

15) Mask Off (ft. Kendrick Lamar) – Future

14) To The Moon and Back – Fever Ray

13) BagBak – Vince Staples

12) Hug Of Thunder – Broken Social Scene

11) Isostasy – Com Truise

10) RAINGURL – Yaeji

9) Over Everything – Courtney Barnett & Kurt Vile

8) Fantasy Island – The Shins

7) From A Past Life – Lone

6) Show You the Way (ft. Kenny Loggins & Michael McDonalds) – Thundercat

 

 

5) Humble – Kendrick Lamar

4) InBlue – Lu Pino

3) Baby Luv – Nilüfer Yanya

2) Ariadna – Kedr Livanskiy

1) Glue – Bicep

BESTU ÍSLENSKU LÖG ÁRSINS 2017

25) Þú munt elska mig þá – Vaginaboys
24) Vopanafjörður – Bárujárn
23) Random Haiku Generator – Sin Fang, Sóley og Örvar Smárason
22) Sætari Sætari – Smjörvi
21) Blastoff – Pink Street Boys
20) 444-DSB – Andartak
19) B.O.B.A – Jóipé X Króli
18) Tail – Balagan
17) Unexplained Miseries II – Sólveig Matthildur
16) Kontrast – Án
15) Moon Pitcher – Högni
14) Solitaire – Hermigervill
13) Joey Cypher (feat. Herra Hnetusmjör, Birnir & Aron Can) – Joey Christ
12) Arabíska Vor – kef LAVÍK
11) Featherlight – GusGus
10) One Take Frímann – Rattofer
9) Upp – GKR
8) Fullir Vasar – Aron Can
7) Blurred (Bonobo remix) – Kiasmos
6) Lónólongó – Andi

5) Evil Angel – Singapore Sling

4) Ruins – aYia

3) Sama Tíma – Birnir

2) Airborne – JFDR

1) Hvað með það? – Daði Freyr

 

BESTU ÍSLENSKU PLÖTUR ÁRSINS 2017

20) Soundcloud Sessions (2013​-​2015) – TSS

19) Swim – Laser Life

18) Digital Waveshaper – Sigurður Eysteinn Gíslason

17) honshu island – mt. fujitive

16) Ég hefði átt að fara í verkfræði – Katrín Helga

15) Deep Space Love Tracer – CATMANIC

14) ’A Mess’ – BALAGAN

13) Ljóstillífun – Án

12) Big Mango Bangers – Moff & Tarkin

11) Blurred EP – Kiasmos

10) Sports – Fufanu

9) Horror – Cyber

8) 888 – Andartak

7) Smells like boys – Pink Street Boys

6) Kill Kill Kill (Songs About Nothing) – Singapore Sling

 

 

5) Joey – Joey Christ

4) Unexplained miseries & the acceptance of sorrow – Sólveig Matthildur

3) Nineteen Eighty Floor – Rattofer

 

2) THIS 5321 – Bjarki

1) Brazil – JFDR

BESTU ERLENDU PLÖTUR ÁRSINS 2017

30) Nathan Fake – Providence

29)  Sylvan Esso – What Now

28) Arcade Fire – Everything Now

27) Prins Thomas – Prins Thomas 5

26) Joey Badass – All Amerikkkan Badass

25) Luke Reed – Won’t Be There

24) Fred Thomas – Changer

23) Daphni – Joli Mai

22) Rostam – Half Light

21) Feist – Pleasure

20) Dirty Projectors – Dirty Projectors

19) Mac DeMarco – This Old Dog

18) Fever Ray – Plunge

17) Kendrick Lamar – DAMN.

16) Kink – Playground

15) Charlotte Gainsbourg – Rest

14) Jen Cloher – Jen Cloher

13) The Shins -Heartworms

12) LCD Soundsystem – American Dream

11) Com Truise – Iteration

10) Lord Echo – Harmonies

9) Vince Staples – Big Fish Theory

8) Kedr Livanskiy – Ariadna

7) John Maus – Screen Memories

6) Courtney Barnett & Kurt Vile – Lotta Sea Lice

5) Thundercat – Drunk

4) Ariel Pink – Dedicated To Bobby Jameson

3) Jacques Greene – Feel Infinite

2) Bicep – Bicep

1) Kelly Lee Owens – Kelly Lee Owens

Seinni hálfleikur Iceland Airwaves

Mynd: Alexander Matukhno 

Á föstudagskvldinu lá leiðin fyrst í Listasafn Reykjavíkur að sjá pródúsantinn Mura Masa sem hefur gert það gott og unnið með listamönnum eins og rapparanum A$ap Rocky. Hann bauð upp á hresst nýpopp með mikið af trópikal stáltrommuhljóðum og léttum droppum. Helvíti gott partý en varð nokkuð einhæft og leiðigjarnt eftir nokkur lög. Við héldum næst yfir á bandaríska tónlistarmanninn Joe Tyler á Húrra. Hann hélt uppi góðum dampi með léttfönkuðu grúvum og frábæru gítarsándi.

 

Eftir það hlupum við upp í Gamla Bíó að sjá öldnu skosku indíhetjurnar í Arab Strap. Þeir spiluðu klassískt indrírokk af gamla skólanum við mikinn fögnuð áhorfenda í nokkur lög, en við fórum fljótlega til að sjá hina bresku Nilüfer Yanya á Hard Rock. Ég hafði ekki komið áður á Hard Rock og var nokkuð skeptískur á venue-ið en það var prýðisgott, hátt til lofts og frábært sánd.

 

Keðjureykjandi engill

 

Ég hafði hafði aldrei heyrt áður í Nilüfer Yanya en heyrt góða hluti úr mörgum áttum og hún stóð fyllilega undir því lofi. Tónlistin eins konar sálarmarínerað indípopp með snefil af djassi og hip hoppi. En þvílík rödd! Eins og engill sem hefur keðjureykt um aldabil, en hefur samt fullkomna stjórn á röddinni, maður heyrði bergmál af arfleið söngkvenna eins og Ninu Simone og Amy Winehouse. Lögin voru flott með óvæntum vinstri beygjum, kaflaskiptum og grípandi viðlögum. Hljómsveitin hennar var svo fáránlega þétt og fyrir utan hefðbundnu rokkhljóðfærin voru synþa- og saxafónleikarar sem gáfu lögunum extra krydd. Algjörlega frábærir tónleikar og þeir bestu á hátíðinni hingað til, þetta er það sem Airwaves gengur út á; að uppgötva eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt í áður.

 

Þvínæst héldum við á Húrra til að sjá Sykur sem eru fullkomið atriði til að fara á svið klukkan 1 eftir miðnætti á föstudagskvöldi. Dúndrandi rafpoppið hélt öllum salnum hoppandi og Agnes söngkona er með raddbönd aldarinnar. Þvínæst fóru rappararnir JóiPé og Króli á svið og lokuðu kvöldinu með ungæðislegum glæsibrag.

 

Óflokkanlegt rokk

 

Á laugardeginum reif ég mig á fætur og út úr húsi til að sjá Balagan á Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís um eftirmiðdaginn. Það voru gítar, trommur og bassi, tveir Ísraelar og einn Íslendingur, sem spiluðu rokk sem erfitt er að flokka. Geypilega þéttir og áhrif frá pönki, krautrokki og indíi, þar sem allir meðlimir lögðu hönd á plóg í söngnum. Ég sá smávegis af Pink Street Boys sem misþyrmdu hljóðhimnum eins og þeim einum er lagið, en hélt svo á Krakk og Spagettí sem spiluðu sína eina tónleika hátíðarinnar Off-venue á Bar Ananas. Artýrappið þeirra rann ljúft niður með svellköldum einstökum og svo var haldið aftur í Bíó Paradís að sjá Indriða.

 

Indriði hefur haldið manninn í Berlín undanfarið og komið sér upp backing bandi þar, sem í voru meðlimir Balagan auk Heklu, helsta þeramínleikara Íslands. Hópurinn framreddi fjölbreytt indípopp með alls konar áhrifum og áhugaverðum útúrdúrum við góðar undirtektir áhorfenda í Bíó Paradís. Ég náði svo í skottið á trip/hip hop hljómsveitinni Cryptocrome á Hverfisbarnum. Ég hafði aldrei séð þau áður en þetta var eftirtektarverð frammistaða, taktarnir voru bæði fönkí og industrial og minntu mig nokkuð á framleiðslu El-P, og kemistrían milli kven- og karlarapparans var mjög dýnamísk.

 

Finnskt tekknó og hugvíkkandi draumapopp

 

Þá fór ég að sjá rökkurpoppbandið aYia sem komu fram hettuklædd á Húrra og buðu upp á drungaleg og hljóðheim með tilraunakenndum blæ. Breski rapparinn Daniel OG sem spilaði næst var mjög óspennandi og generic en ég vildi halda mig á Húrra því ég hafði heyrt mjög góða hluti um Finnann Tontario sem var næstur. Og hann var ósegjanlega frábær, það verður að segjast eins og er. Hann er ekki mikið eldri en tvítugur en bauð upp á tilraunakennt tekknó með biluðum uppbyggingum og taktsprengingum á heimsmælikvarða.

 

Ég var svo mjög spenntur fyrir hinni bresku Kelly Lee Owens sem á eina bestu plötu ársins og tók við keflinu á Húrra. Hún fór á algjörum kostum í hugvíkkandi draumapoppi sem tikkaði í öll réttu boxin. Algjörlega fenamónískt show og einir allra bestu tónleikar hátíðarinnar. Þá var það bara GusGus í Listasafninu og diskódansað út í nóttina. Frábærri Airwaves hátíð var lokið en hápunktarnir í ár voru sálarmaríneraða indípopp Nilüfer Yanya, hugvíkkandi poppdraumur Kelly Lee Owens og framsækna nýklassíska tekknóið hjá Tontario.

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrstu tvö kvöld Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Fyrsta kvöldið fór rólega af stað í erlendu deildinni enn var hins vegar þéttpakkað af því besta og nýjasta í íslensku Hip hop-i. Ég hóf leikinn á off-venue dagskrá Straums í Bíó paradís á kuldalegu ljóðanýbylgjunni sem Kælan mikla hefur verið að fullkomna á undanförnum árum. Þvínæst sá ég Good Moon Deer á sama stað sem bauð upp á nokkuð tilraunakenndan bræðing þar sem flóknar taktpælingar og æst óhljóð mynduðu órofa heild sem var í senn erfið og áhugaverð.

 

Ég sat áfram í Bíóinu og sá rapparna Hrannar og Smjörva skopp út um allt af ungæðislegum krafti og rappa eins og lífið lægi við. Þótt það sé um mjög auðgugan garð að gresja í rappsenunni um þessar mundir þessir strákar með þeim allra efnilegustu. En GKR er nú orðinn einn allra besti rappari landsins og hann kom, sá og rokkaði stappfullt bíóið með eiturhressu rítalínrappi sínu.

 

 Tyggjókúlu- og hryllingsrapp

 

Áfram hélt rappið og í Hafnarhúsinu var Alvia Ilandia að keyra fólk í gang með tyggjókúlurappi þar sem Hello Kitty fagurfræðin var í algleymingi. Cyber voru næstar á svið og hrekkjavakan var greinilega ekki farin úr blóðinu þeirra því átta manns í goth-búningum báru líkkistu á svið sem þær Cyber-stelpur risu svo upp úr framreiddu fjölbreytt og skemmtilegt sett ofan í mannskapinn.

 

Fever Dream hélt Hressó funheitum með steravöxnu attitúdi og rappi af fítonskrafti. Svo hélt hún líka uppi kósí fjölskyldustemmningu og fékk bróðir sinn upp á svið til að rappa með sér. Halldór Eldjárn spilar rómantíska en framsækna raftónlist með hjálp róbóta á Húrra sem minnti um margt á sveitir eins og Royksopp. Svo hélt rappið áfram í Listasafninu þar sem helstu vonarstjörnur landsins eins og Birnir og Jói Pé x Króli og Joey Christ rokkuðu þakið af Hafnarhúsinu þangað til lög um vínveitingastaði stoppuðu keyrsluna.

 

 Heill skröttum

 

Fimmtudagskvöldið hófst með látum og djöfulgangi á Bar Ananas. Skrattar eru sagðir hakkaðasta banda landsins og standa undir því. Öskur, sálarmyrkur og úrkynjuð partýstemmning. Að púlla svoleiðis klukkan fimm um eftirmiðdag er ekki á færi allra, en greinilega þeirra. Hail Satan. Þá sá ég Tonik í Bíó Paradís sem kom fram með Jón Þór á gítar og spilaði aðallega nýtt efni sem hljómaði dúndurvel. Djúpsjávartekknó með lævísum melódíum sem hentar jafnt til heimahlustunar og í sveittum tekknókjöllurum. Þá ætlaði ég aftur á Bar Ananas að sjá Fufanu en komst ekki inn vegna mannmergðar, en það kom ekki að sök þar sem kuldarokkið hljómaði mjög vel fyrir utan og rokkstælarnir sáust vel inn um gluggann.

 

Hatari eru eitt besta life-band landsins um þessar mundir og sviku engan í Gamla Bíói þetta kvöld. Þeir voru í búningum sem voru mitt á milli nasisma og S&M, voru með flotta dansara, og heimsósómarausið blastaðist úr hljóðkerfinu meðan dansinn dunaði. Grísalappalísa hafa síðan engu gleymt þrátt fyrir þeir hafi ekki verið mikið aktívir undanfarið og fóru rokkhamförum á sviðinu og Tumi saxafónleikari átti stjörnuleik. Ég lokaði svo kvöldinu með tónleikum aYia í Bíó Paradís sem framreiddu rökkvað og tilraunakennt trip hop í myrkum bíósalnum sem hentaði þeim ákaflega vel.

Davíð Roach Gunnarsson