Grísalappalísa syngur Megas

Reykvíska hljómsveitin Grísalappalísa gefur út 7 tommu vinylplötu á morgun, fimmtudaginn 14. nóvember.  Platan ber nafnið Grísalappalísa syngur Megas en hljómsveitin heiðrar verndara sinn og upprunalega andagift og leggur fram sínar eigin útgáfur af tveim tónsmíðum meistara Megas. Hið fyrra heitir Björg og kom upphaflega út á hljómplötunni Loftmynd árið 1987, en seinna lagið, Ungfrú Reykjavík, kom út á hljómplötunni Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella árið 1990.

Í tilefni útgáfunnar, sem hljómsveitin stendur á bak við, mun eiga sér stað útgáfuhóf annað kvöld í plötubúðinni Lucky Records á Rauðarárstíg á milli 20:00 og 22:00. Hljómsveitin býður upp á léttar veigar, áritanir eftir óskum og þeytir skífum.

Platan var tekinn upp á einum degi í æfingahúsnæði hljómsveitarinnar, Járnbraut. Upptökustjóri var Albert Finnbogason, en Finnur Hákonarson sá um hljómjöfnun. Ljósmynd á kápu á Magnús Andersen en umslagsskrift á Tumi Árnason. Einnig má geta að þetta er fyrsta hljóðritun Grísalappalísu sem 7-manna sveitar, en Rúnar Örn Marínóson hóf leik með sveitinni stuttu eftir útgáfu breiðskífunnar ALI. Hér fyrir neðan má heyra lögin.

 

 

Fyrsta kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.

 

Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.

 

Harður, hrár og pönkaður kjarni

 

Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.

 

Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.

 

Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó

 

Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.

 

Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.

 

Hámörkuð gleði

 

Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.

 

Emiliana á heimavelli

 

Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.

Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves yfirheyrslan – Gunnar í Grísalappalísu

Sá sem situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins er söng- og öskurspíran Gunnar Ragnarsson. Hann var eitt sinn í ungstirnisbandinu Jakobínurínu en þenur nú raddböndin með sveitinni Grísalappalísu, sem hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir sínu fyrstu breiðskífu og kraftmikla tónleika.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Það var árið 2004 og ég var 15 ára gamall. Móðir mín hafði talað við umsjónarmenn hátíðarinnar til þess að fulltryggja að ég kæmist á hátíðina þar sem ég væri nú góður drengur sem elskaði tónlist og væri ekki til vandræða. Ég fór ásamt Sigurði vini mínum sem var einu ári yngri og það var ekkert vesen fyrir okkur að komast inn á staðina og upplifunin var frábær fyrir okkur, vernduðu úthverfisdrengina. Mér eru eftirminnilegastir tónleikar The Shins á Gauknum en ég var mikill aðdáandi þeirra á þessum tíma enda algjört indípeð í pólóbol á þessu skeiði.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

 

Það var árið 2005 með hljómsveitinni Jakobínurínu á Grandrokki. Eins og eflaust margir muna varð eiginlega allt vitlaust og þetta kvöld hafði mikil áhrif á næstu ár í lífi okkar. Við fengum svaka athygli og frábæra dóma fyrir sjóvið m.a. frá David Fricke, Rolling Stone skríbenti og fréttaflutningur var í þá átt að við höfðum nánast „unnið“ Airwaves það árið. Við vorum algjör smábörn og atburðarrásin frá því að vera á Shins árið áður og fíla sig sem einhverskonar stjörnu árið eftir var nokkuð lygileg. Ég man óljóst eftir tónleikunum sjálfum nema að stemmningin var alveg frábær, áhorfendur voru allir sem einn með bros á vör og einfaldlega furðu slegnir yfir að sjá okkur smápollana hoppa og skoppa um sviðið. Ég held að spilagleðin hjá okkur á þessum tíma hafa verið svakalega smitandi – enda var þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Eftir tónleikana vildu allir tala við okkur og hrósa okkur í hástért, manni fannst þetta vera stærra kvöld en Músíktilraunir sem við höfðum unnið um vorið.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

 

2005, 2006, 2007 með Jako og nú er Grísalappalísa mætt í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

 

!!! (2007), fannst mér alveg frábært. Við vinirnir tættum í okkur Louden Up Now á sínum tíma en höfðum eiginlega gleymt þeim og vorum svo allt í einu mættir á þetta frábæra djamm hjá þeim nokkrum árum seinni. Frábært live band.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

 

Jakobínarína 2005 á Grandrokki sem ég lýsti áðan en svo voru tónleikarnir árið eftir á Listasafninu alveg jafn eftirminnilegir, sennilega bestu tónleikarnir okkar. Airwaves verðlaunuðu okkur fyrir frammistöðuna árið áður og gáfu okkur frábært slott á milli Apparat Organ Quartet og Go! Team. Við vorum mjög þéttir eftir stíf tónleikaferðalög og það elskuðu okkur allir í salnum og manni fannst maður vera algjör töffari eftir þetta sjóv. Eftir þessa tónleika spiluðum við sjaldan á Íslandi og mér fannst fólk svolítið missa áhugann á okkur, sem var algjörlega skiljanlegt þar sem við vorum ennþá að spila sama efni og vorum aldrei heima og líka með slatta af gelgjustælum. En Airwaves 2005 og 2006 voru algjörir hápunktur hjá þessari blessuðu hljómsveit.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

 

Ég hef nú reyndar ekkert farið síðan ég spilaði síðast. Vinir mínir kvarta frekar mikið yfir röðunum og það sé kannski of margir miðar seldir. Sömuleiðis að gæðin á erlendu músíköntunum hafi farið dvínandi, en lænöppið í ár er nú sennilega með því besta frá upphafi svo það á ekki lengur við.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

 

Grandrokk/Faktorý, út af tilfinningalegum ástæðum.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

 

Spiluðu Graveslime einhvern tímann á Airwaves? Og jú, öllum tónleikum Megasar & Senuþjófana.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

 

Æfa vel, vera metnaðarfullur og fyrst og fremst að njóta þess að spila.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Kraftwerk og off-venue tónleikum Veirumanna. Annars er ég spenntastur fyrir því að komast í Airwaves gír með Grísalappalísu.

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

$ böns af monnís mah’r! Stökkpallur og allt það, bla bla. Fyrst og fremst gott partí samt – og ástæða fyrir alla að vera í sínu besta formi.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

 

Airwaves 2005 hafði þau áhrif að Jakobínarína fékk fína og dannaða breska umboðsmenn, spiluðu á South by Southwest vorið eftir, og gaf út 7″ hjá Rough Trade. Þetta voru svona bein áhrif af því. Svo signuðu Parlophone okkur seinna meir.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

 

Tveimur, þetta er búið að breytast síðan ég var síðast í geiminu.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

 

2013, þetta verður rafmagnað!

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

 

Krafwerk er algjört uppáhald. Sá þá 2004 í Kaplakrika – með flottari tónleikum sem ég hef farið á.

Listasafnið eða Harpa?

 

Listasafnið, hef aldrei farið á Airwaves í Hörpunni.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

 

Með Grísalappalísu, við opnum hátíðína í Listasafninu kl 20 á miðvikudaginn. Svo erum við í 12 tónum á fimmtudeginum, 17.30/18.15 – man ekki. Svo erum við á Gamla Gauknum, kl 21.40 á föstudeginum og fögnum við þynnkunni kl 12.30 í Hörpunni á off-venue tónleikum fyrir utan 12 tóna verzlunina þar. Svo er aldrei að vita nema við komum ykkur á óvart á förnum vegi þegar þið búist alls ekki við því.

 

 

 

Ljúft á LungA

Mynd: Gunnar Ragnarsson úr Grísalappalísu skvettir úr klaufunum á sviði hjá FM Belfast á lokatónleikum LungA í ár. Mynd í eigu: Tóta Van Helzing

LungA (Listhátíð unga fólksins Austurlandi) hefur verið haldin seinustu tólf ár í hinum ægifagra Seyðisfirði. Þar safnast saman myndlistamenn, tónlistarmenn, listnemar, listunnendur og tónlistarelskendur frá öllum landhlutum og utan að. Dagana 14. – 21. júlí var hátíðin haldin í tólfta sinn. Mikið líf, fjör, ást og samvinna einkenndi þessa viku. Eins og árin áður voru í kringum hundrað þátttakendur á LungA sem tóku þátt í svo kölluðum listasmiðjum. Þar gafst þeim tækifæri að læra nýja hluti og spreyta sig undir handleiðslu reyndra listamanna. Til að mynda var hægt að skrá sig í spuna-, vídjóverka-, dans-, og hljóðfæragerðarsmiðju.

Hugarró í bláu kirkjunni

Úlfur Hanson, einnig þekktur sem Klive, opnaði hátíðina með tónleikum í Seyðisfjarðarkirkju sem oft er kölluð Bláa kirkjan sökum útlits síns og samnefndrar sumartónleikaseríu sem var stofnsett þar árið 1998. Um var að ræða tilraunakennt hljóðverk með elektrónískum áhrifum sem hann flutti ásamt hjálp fleiri tónlistarmanna. Meðal annars voru það Tumi Árnason á píanó og saxafón, Ingólfur Arnar Ingólfsson á gítar, Jófríður Ákadóttir með söng og Arnljótur Sigurðsson á tréblásturshljóðfæri sem öll eru þekkt í íslensku tónlistarlífi. Úlfur drottnaði sjálfur á svölum kirkjunnar með orgelleik sínum. Tónleikagestir lokuðu margir augunum í algerri hugarró á meðan aðrir fylgdust agndofa með einbeittum tónlistarmönnunum spila. Bláa kirkjan, friðsæl og krúttleg, jók mjög við skemmtilegt andrúmsloft tónleikanna. Hálftíma langt hljóðverkið var draumkennt með ákveðinni áherslu sem hélt áhuga mínum og athygli allan tíman.

Lokatónleikarnir í ár voru haldnir laugardaginn 20. júlí úti við hjá gömlu síldarverksmiðjunni Norðursíld á Seyðisfirði. Það hafði verið mjög sólríkt þennan dag en um kvöldið læddist austfjarðaþokan yfir fjörðinn sem skapaði dulúðugt andrúmsloft. Gul strætóbifreið, sem sá til þess að tónleikagestir kæmust klakklaust á staðinn, fór ótal margar ferðir troðfull af brosandi andlitum. Ég mætti á svæðið þegar dúóið Vök, sem fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum í ár, hafði hitað ærlega upp í hjörtum áheyrenda með hljómfögrum og rafmögnuðum tónum sínum.

Hressir, öruggir og ljóðrænir

Á minna sviðið (tvö svið voru notuð til þess að draga úr biðtíma milli hljómsveita) steig næst hin marg umtalaða hljómsveit Grísalappalísa. Hún samanstendur af sjö Reykvískum tónlistarmönnum sem allir hafa sína forsögu. Meðlimir hennar hafa verið duglegir að fylgja eftir nýútgefnum frumburði sínum, ALI, með tónleikum, hlustunarteiti og tónlistarmyndbandi. Lísa var þess vegna mjög samstillt og framkoma þeirra hress og sjálfsörugg. Á þriðja lagi hafði dansglaður hópur safnast saman fremst við sviðið og voru áheyrendur dáleiddir af ljóðrænum og frumsömdum textum Gunnar Ragnarssonar og Baldurs Baldurssonar. Viðfangsefni þeirra voru ástin, næturlífið og daglegt líf ungs fólks. Mannlegur raunveruleiki á léttum en svölum nótum.

Þéttur bassi ómaði og rímur fóru á flug. Á sviðið höfðu stigið kapparnir í Úlfur Úlfur sem hrærðu ærlega upp í stemmningunni. Ég fékk það strax á tilfinninguna að margir yngri tónleikagestir kynnu að meta þá betur en þeir eldri. Textum sveitarinnar, sem fjalla oftar en ekki um það að vera ungur og frjáls, voru gefin ágæt skil af skoppandi og hressum meðlimum Úlfs Úlfs. Þótt bassinn yfirgnæfði heldur mikið á köflum var boðskapur sveitarinnar nokkuð skýr. Við vorum öll saman komin til þess að djamma.

Næsta band á svið var hin sífallega og ávallt þétta hljómsveit Mammút. Hún spilaði af krafti og kom einkar vel fram. Tilfinningin sem þessir 5 einstaklingar skapa er nefnilega einstök. Aðspurður var ungi maðurinn, sem dansaði við hlið mér, mjög ánægður með framkomu Mammút þar sem ,,bæði tónlistin og fólkið í henni er alltaf sexý”. Eftir þetta hljóp hann fremst er sviðið fylltist af appelsínugulum reyk. Þegar leið á enda settsins fékk nýlegt lag sveitarinnar, Salt, að óma. Rúm 5 ár eru liðin frá útgáfu annarar breiskífu sveitarinnar og er sú þriðja á leiðinni.

Taktfastur og tilfinningaþrunginn heimur

Þegar Mammút hafði lokið sér af tók Ghostigital tvíeykið við. Er ég gekk nær sviðinu varð mér ljóst að þeir væru, að vana, með gesti í heimsókn. Með þeim á sviði voru engir aðrir en Úlfur Hanson á gítar og Tumi Árnason, úr Grísalappalísu og The Heavy Experience, á saxófón. Það tók tónleikagesti smá stund að átta sig á aðstæðum. Eftir andartak var fólk farið að dansa af krafti við takfastann og tilfinningaþrunginn heim Ghostigital. Að sjá borgarfulltrúann og listamanninn sem er nefndur eftir plastframleiðslufyrirtæki spila er einstök upplifun. Curver, sem stjórnar alfarið taktinum, lék sér með rödd Einars í bland við hljóðfæraleik Tuma og Úlfs. Útkoman var algerlega einstök og eftirminnileg.

Næst á dagskrá var hinn danski Esben Nørskov Andersen sem gengur undir tónlistarnafninu Rangleklods. Söngur Esben, sem minnir örlítið á stíl Ian Curtis úr Joy Division, fjallaði um ungdóm og mannleg samskipti. Honum til halds og trausts var stúlka sem söng bakrödd og spilaði á hljóðgervil. Tónleikar Rangleklods vöktu mikla lukku á Iceland Airwaves hátíðinni í fyrra. Þá spilaði hann á Faktorý og í Norðurljósasal Hörpu. Tölvu trommurnar og hljóðgervlarnir minntu einna helst á nýbylgjutónlist 9. áratugarins sem skeytt var við nýrri blæ raftónlistar. Á hápunkti tónleikanna náði Esben hylli tónleikagesta með því að stjórna hluta tónlistarinnar með leysirgeisla. Það var svipað bragð og hann nýtti á Airwaves í fyrra.

Dansandi buxnalaus

FM Belfast mættu til leiks þegar Rangleklods steig af sviði. Hópurinn er þekktur fyrir hressleika, lífsgleði og fagmannlegan tónlistarflutning. Þetta kvöldið var engin undantekning. Slagverkseikararnir tveir stóðu sig sérstaklega vel og voru samstíga allan tímann í því að fylgja eftir tölvutaktinum sem hefur einkennt FM Belfast frá upphafi. Það vantaði ekki að dansandi áhorfendurnir fækkuðu margir flíkum þegar lagið ‘Underwear’ hljómaði. Það er ekki að undra þar sem það er eitt af vinsælustu lögum hópsins. FM Belfast hafa spilað mikið á erlendri grundu seinustu ár og vakið mikla athygli víðsvegar. Það sást þó ekki á þeim að þau hefðu gleymt því hvernig ætti að skemmta Íslendingum. Dansinn er jú tungumál sem allir skilja. Eftirminnilegt var þegar Gunnar í Grísalappalísu steig upp á svið með hestagrímu og plakat framan á sér merkt sveit sinni. FM Belfast tóku honum fagnandi þegar hann byrjaði að dansa á meðan loka lagið hljómaði.

FM Belfast luku tónleikunum með miklu látum og þéttum danstónum sem allir þekktu. Þetta voru fjölbreyttir tónleikar sem stigmögnuðust vel. Tónleikagestirnir voru vingjarnlegir og samstíga í gleðinni frá byrjun til enda. Það var frábært að fá að heyra samspil yngri og eldri tónlistarmanna. Sumt hefði líklega hljómað betur í tónleikasal en útitónleikar eru sjaldgjæf upplifun á Íslandi svo að hún gengur fyrir. Listahátíð unga fólksins Austurlandi býr yfir einstökum eiginleikum. Þar er frelsandi, friðsælt og skemmtilegt að vera. Fólkið á bak við þessa hátíð á hrós skilið fyrir að halda vel heppnaða hátíð sem endaði á vel heppnuðum tónleikum.

Alexander Jean Edvard Le Sage de Fontenay

 

 

Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

Útgáfupartý Grísalappalísu

Fyrsta plata reykvísku sveitarinnar Grísalappalísu kemur út í dag og ber hún heitið Ali. Platan er ferskur andblær í íslenska tónlistarsenu, hrærigrautur af fönkuðu pönki, nýbylgju og súrkáli með íslenskum textum sem eiga meira skylt við ljóð en hefðbundna rokktexta. Í tilefni af útgáfunni verður haldið teiti á KEX Hostel klukkan 20:00 í kvöld en þá verður frumsýnt myndband við lagið Hver er ég? Léttar veigar verða í boði og hljómsveitirnar Amaba Dama og Létt á bárunni leika fyrir dansi og gleði.

Straumur 8. júlí 2013

Í Straumi í kvöld heyrum nýtt efni með I Break Horses, AlunaGeorge, Postiljonen, Grísalappalísu, Plúseinum og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 8. júlí 2013 by Straumur on Mixcloud

1) ATM Jam (ft. Pharrell Williams) – Azealia Banks
2) Denial – I Break Horses
3) Bad Idea – AlunaGeorge
4) Reach Out Feel – Debukas
5) Slip – Baauer
6) Empire – Plúseinn
7) Plastic Panorma – Postiljonen
8) Atlantis – Postiljonen
9) Hver er ég? – Grísalappalísa
10) Kraut Í g – Grísalappalísa
11) All Is Well – Ras G & The Afrikan Space Program
12) Holy Grail (ft. Justin Timberlake) – Jay Z
13) Cape Town (Panama Remix) – Clubfeet
14) Be All Be Easy – Woods

Tónleikar helgarinnar

 

Miðvikudagur 3. júlí


Hljómsveitirnar Nóra, Boogie Trouble og dj. flugvél og geimskip spila á Faktorý. Efri hæð opnar kl. 21:00, tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og það kostar litlar 1000 kr. inn.

 

Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus flytur safn laga af væntanlegri breiðskífu sinni á Loft Hostel. Auk þeirra verða leikin eldri lög úr höfundaverki Maus, Krónu og fleira í nýjum útsetningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 

Fimmtudagur 4. júlí

 

Hin árlega götuhátíð Jafningjafræðslunnar verður haldin á Austurvelli frá 14:00 til 16:00. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Elín Ey, 12:00, Haffi Haff og Kjurr.

 

Hljómsveitin Blágresi ásamt Einari Má Guðmundssyni halda tónleika á Café Flóru í Grasagarðinum. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Ragnar Árni og val kyrja munu hita upp.

 

Bandaríska skógláps bandið Mice Parade spilar á Faktory. Um upphitun sjá Nini Wilson, Kría, Bob Justman og Snorri Helgason. Miðaverð eru 1500 kr. og fer miðasalan fram við hurð. Húsið opnar 21.00 og fjörið byrjar einhvern tíma eftir það.

 

Tónleikar á café haiti með The Bangoura Band kl: 21.00 kostar 1.000 kr inn.

 

KRAKKBOT og ENKÍDÚ spila á sumartónleikaröð Bíós Paradísar í anddyri bíósins kl. 22:00 og það er ókeypis aðgangur!

 

Rauðhærði rafgeggjarinn Hermigervill spilar á Boston í kvöld í boði Funkþáttarins. Það er orðið langt um liðið síðan gervillinn spilaði síðast á landinu þannig enginn ætti að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00 og aðgangseyrir er enginn. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verða tónleikarnir í beinni útsendingu funkþáttarins á X-inu 977.

 

Danska kráin stendur fyrir tónleikahátíð til heiðurs Hróaskelduhátíðinni 4-7 júlí og er FRÍTT inn alla helgina. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 White Signal
19:15 Ferja
20:30 Yellow void
21:45 Kjurr

 

KEX Hostel stendur fyrir hátíðinni KEX Köntrí alla helgina þar sem bandarískri menningu verður fagnað með mat og tónlist frá Tennessee og Kentucky. Í kvöld er dagskráin þessi:
20:00 – Ryan MacGrath (CA)
21:00 – Brother Grass (IS)

 

 

Föstudagur 5. júlí

 

Tónleikar til heiðurs minningu og lífs Björns Kolbeinssonar, hann var einnig þekktur sem Bjössi Skáti og stundum sem El Buerno. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope og þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn til Kvennaathvarfsins. Fram koma:
Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

19:00 Lame Dudes
20:15 Brimlarnir
21:30 Distort City
22:45 Stafrænn Hákon

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Hudson Wayne (IS)

21:00 – Blágresi (IS)

 

Laugardagur 6. júlí

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

20:15 Momentum
21:30 We made god
22:45 Mammút

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Illgresi (IS)

21:00 – Lambchop (US)

 

 

Sunnudagur 7. júlí


Bandaríska jaðarkántrísveitin Lambchop mun enda Evróputónleikaferð sína með tónleikum í Iðnó. Lay Low mun einnig koma fram á tónleikunum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa til miðnættis. Miðasala fer fram á www.midi.is og kostar 3990 kr inn.

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 Hjalti Þorkelsson
19:15 Trausti Laufdal
20:30 Myrra Rós
21:45 Bellstop

Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Tilkynnt um fleiri listamenn á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um yfir  20 listamenn sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Þeir erlendu listamenn sem tilkynntir voru eru; AlunaGeorge, Zola Jesus, Robert Foster, Mariam The Believer, On An On, DIANA og Stealing Sheep. Þeir íslensku listamenn sem bættust í hópinn eru; Mammút, Pedro Pilatus, Muck, Grísalappalísa, Vök, In The Company Of Men, Aragrúi, Reptilicus, Rúnar Magnússon, Jónas Sen, Þóranna Dögg Björnsdótir/Trouble, Björk Viggósdóttir/Lala Alaska og AMFJ.