Grísalappalísa syngur Megas

Reykvíska hljómsveitin Grísalappalísa gefur út 7 tommu vinylplötu á morgun, fimmtudaginn 14. nóvember.  Platan ber nafnið Grísalappalísa syngur Megas en hljómsveitin heiðrar verndara sinn og upprunalega andagift og leggur fram sínar eigin útgáfur af tveim tónsmíðum meistara Megas. Hið fyrra heitir Björg og kom upphaflega út á hljómplötunni Loftmynd árið 1987, en seinna lagið, Ungfrú Reykjavík, kom út á hljómplötunni Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella árið 1990.

Í tilefni útgáfunnar, sem hljómsveitin stendur á bak við, mun eiga sér stað útgáfuhóf annað kvöld í plötubúðinni Lucky Records á Rauðarárstíg á milli 20:00 og 22:00. Hljómsveitin býður upp á léttar veigar, áritanir eftir óskum og þeytir skífum.

Platan var tekinn upp á einum degi í æfingahúsnæði hljómsveitarinnar, Járnbraut. Upptökustjóri var Albert Finnbogason, en Finnur Hákonarson sá um hljómjöfnun. Ljósmynd á kápu á Magnús Andersen en umslagsskrift á Tumi Árnason. Einnig má geta að þetta er fyrsta hljóðritun Grísalappalísu sem 7-manna sveitar, en Rúnar Örn Marínóson hóf leik með sveitinni stuttu eftir útgáfu breiðskífunnar ALI. Hér fyrir neðan má heyra lögin.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *