Two Step Horror á Harlem í kvöld

Hljómsveitin Two Step Horror kemur fram ásamt Rafsteini og Captain Fufanu á Harlem í kvöld en ritstjórar straum.is munu sjá um að þeyta skífum á milli atriða. Two Step Horror hafa getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir hægfljótandi og draumkennt trommuheilarokk sem sækir áhrif jafnt í shoegaze, rokkabillí og kvikmyndir David Lynch. Tónleikarnir eru haldnir til fjáröflunar fyrir væntanlega ferð sveitarinnar til Berlínar þar sem hún kemur fram í tónleikaröðinni Fifth Floor Event í desember ásamt The Blue Angel Lounge og The Third Sound.

Þá er væntanleg breiðskífan Nyctophilia frá sveitinni sem kemur út á vínil öðru hvoru megin við áramótin. Áður hafa Two Step Horror gefið út plöturnar Living Room Music árið 2011 og Bad Sides and Rejects í fyrra en báðar hlutu afbragðs dóma gagnrýnanda.

Einyrkinn Rafsteinn sem einnig kemur fram leikur framsækinn rafbræðing undir áhrifum frá sveimtónlist og sækadelíu. Þá kemur fram fyrrum tekknódúettinn Captain Fufanu sem nýlega hafa umbreyst í live hljómsveit með gítar, trommum og tilheyrandi, en þeir stóðu sig frábærlega á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *