Tónleikar um Hvítasunnuhelgina

Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.

Fimmtudagur 16. maí

Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 17. maí

Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.

Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.

Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.

Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.

Laugardagur 18. maí

Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.

Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.

Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.

Sunnudagur 19. maí

Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.

Tónleikar helgarinnar 8. -12. maí

Miðvikudagur 8. maí

Mosi Frændi, Fræbblarnir, Hellvar, Saktmóðgur og Skelkur í bringu spila á Gamla Gauknum, tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það er ókeypis inn.

Á Volta koma fram hljómsveitirnar Ojba Rasta, Mammút og Geimfarar. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 9. maí

Á Loft Hostel verða ókeypis tónleikar með Útidúr sem hefjast klukkan 21.

Birgir Örn Steinarsson sem var áður í hljómsveitinni Maus og Hjalti Jón Sverrisson úr Miri munu halda tónleika á Hemma á Valda. Frítt inn og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 22.

Shadez of Reykjavík kynna new school djöflashit ásamt Freskimos og GERViSYKUR. Húsið opnar 22 og það kostar 1000 kr inn.

 

 

Föstudagur 10. maí

Hljómsveitin Sykur fagnar próflokum með ókeypis tónleikum á Bar 11. Tónleikarnir hefjast   klukkan 22.

Dikta, Friðrik Dór og 1860 koma fram á próflokadjammi Faktory. Armband fyrir föstudag og laugardag  kostar 3000 kr. Stakir miðar á 2.000 kr  við inngang á tónleikadag ef húsrúm leyfir.

 

 

Laugardagur 11. maí

Vínylmarkaðurinn mætir aftur til leiks á Kex Hostel næstkomandi laugardag. Þar verður hægt að kaupa íslenskar vínylplötur.Markaðurinn hefst kl. 13 og stendur til kl. 20. Hljómsveitir koma fram og leika listir sínar af útgefnum vínylplötum!

15:00 Kippi Kaninus
16:00 Low Roar
17:00 Valdimar
18:00 Hjaltalín

FM Belfast og Vök koma fram á próflokadjammi Faktory. Armband fyrir föstudag og laugardag  kostar 3000 kr. Stakir miðar á 2.000 kr  við inngang á tónleikadag ef húsrúm leyfir.

Langi Seli og Skuggarnir koma fram á tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það er frítt inn.

 

 

Mynd: Elín Lóa

Tónleikar helgarinnar

Í föstum liðum eins og venjulega mun Straumur leiðbeina lesendum um rjómann í tónleikahaldi á þessari fyrstu helgi maí mánuðar.

Fimmtudagur 2. maí

Það verður þungarokksmessa í Austurbæ í kvöld þegar tvær helstu þungarokkssveitir landsins, Dimma og Sólstafir, leiða saman hesta sína. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðinni „Náttfararnir“ en sveitirnar hafa ferðast saman um landið síðustu misseri til að kynna nýjustu plötur sínar fyrir rokkþyrstum áheyrendum. Dimma gáfu út plötuna Myrkraverk í lok síðasta árs sem fékk einróma lof gagnrýnenda og verður hún flutt í heild sinni á tónleikunum ásamt vel völdu eldra efni. Sólstafir eru nýkomnir úr mánaðarlöngu tónleikaferðalagi um Evrópu og er þess vegna í rokna rokkformi um þessar mundir. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er 2900 krónur.

Föstudagur 3. maí

Pink Street Boys, Foma og Lord Pusswhip koma fram á fríkeypis tónleikaröð Dillon sem haldin eru vikulega og samviskusamlega á föstudagskvöldum. Pink Street Boys var stofnuð á grunni hinnar stórskemmtilegu sækadelik hljómsveitar Dandelion Seeds sem nú hefur lagt upp laupana. Lord Pusswhip er pródúsant, plötusnúður og rappari að nafni Þórður Ingi Jónsson sem gerir hip hop tónlist undir áhrifum frá fjólubláu hóstasafti, djassi, kvikmyndatónlist, skóglápsrokki og ýmsu öðru. Hann hefur smíðað takta fyrir inn- og erlenda rappara úr ýmsum áttum, þar á meðal fyrir Mudd Mob crew-ið sem hann er meðlimur í. Á tónleikunum mun hann njóta aðstoðar rapparans Svarta Laxness. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Kiriyama Family er um þessar mundir að semja efni á nýja breiðskífu en hafa ákveðið að taka sér hlé frá hljóðverinu og halda tónleika á Hressó með nýkrýndum sigurvegurum músíktilrauna Vök. Tónleikarnir eru ókeypis og hefjast klukkan 22:00.

Grasrótartónleikarröðin heldur áfram á Faktorý og að þessu sinni koma fram sveitirnar Sónn og Klaus. Sónn er nýstofnuð sveit skipuð ungum tónlistarnemum úr FÍH og spila vandaða dægurtónlist með tregafullum og sálarskotnum undirtón. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 23:00 og það er fríkeypis inn.

Laugardagur 4. maí

Það verður boðið upp á heljarinnar rokk- og diskókokteil á Volta þar sem sveitirnar Oyama, Muck, The Heavy Experience og Boogie Trouble venda kvæðum sínum í kross. Allar þessar sveitir eru með hressari tónleikaböndum landsins og að þær safnist saman undir sama þaki ætti virka ákaflega stuðvekjandi á áhorfendur. Gleðinnar dyr opnast klukkan 22:00 og 1000 krónur veita inngöngu að þeim.

 

Skúli mennski flytur brot af sínum bestu verkum frá árunum 2010-2013 auk þess sem óútgefnar perlur fá að njóta sín á Rósenberg. Við verkið mun hann njóta aðstoðar úrvals hljóðfæraleikara á bassa, gítar, trommur og munnhörpu en flutningurinn hefst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

 

Tónlistarkonan Lay Low bryddar upp á þeirri nýbreytni að halda tónleika heima í stofu hjá sér sem verður streymt í gegnum veraldarvefinn. Streymið af tónleikunum er hægt að nálgast án gjalds á þessari vefslóð og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 21:00.

 

Rokkbrýnin í Brain Police halda tónleika ásamt Alchemiu og Why Not Jack á Gamla Gauknum. Miðaverð er 1500 krónur og húsið opnar klukkan 21:00.

Sunnudagur 5. maí

Straumur vill vekja athygli á Sunnu-djazzinum, vikulegum djasstónleikum á Faktorý þar sem ungir og efnilegir spilarar leika efni úr ýmsum áttum af fingrum fram. Þeir eru á hverjum sunnudegi og hefjast ávallt 21:30 í hliðarsalnum og ókeypis er inn.

 

 

Tónleikar helgina 25.- 28. apríl

Fimmtudagur 25. apríl

Erlend Oye úr Kings of Convenience mun troða upp á afmæli Slippbarsins.

 

 

Föstudagur 26. apríl

Kristján Hrannar flytur lög af væntanlegri plötu sinni Anno 2013 á Stúdentakjallaranum. Aðgangur ókeypis og tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.

Ásgeir Trausti heldur tónleika á efri hæð Faktorý ásamt Pétri Ben. Efri hæð opnar kl. 22 og hefjast tónleikarnir kl. 23:00. Miðaverð er 2500 kr.

 

Skúli mennski spilar ásamt Þungri byrði á Rósenberg. Það kostar 1500 krónur inn og tónleikar hefjast klukkan 22:00.

Skelkur í Bringu heldur tónleika á Kaffibarnum og spila lög af væntanlegri plötu. Krystal Carma hitar upp með ýmisum gjörningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

 

 

Laugardagur 27. apríl

Morgan Kane og Axeorder halda ókeypis tónleika á Dillon sem hefjast klukkan 22:00.

Tónleikar með Retrobot, Kjurr, Vök og Just Another Snake Cult á Gamla Gauknum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Hjálmar spila á efri hæðinni á Faktorý laugardagskvöldið. Miðaverð: 2000 kr. Efri hæð opnar kl. 22:00.

 

 

 

Sunnudagur 28. apríl

Tónleikar með órafmagnaða blústríóinu Debess Blues Station frá Færeyjum á Cafe Haiti. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er aðgangur 1000 krónur.

Tónleikar helgarinnar

 

Fimmtudagur 18. apríl

Hljómsveitirnar Casio Fatso, Japanese Super Shift and the Future Band og Sindri Eldon & The Ways sjá um menningarlega fræðslu lýðsins á Stúdentakjallarnum.  Fyrsta band á svið kl 22:30 og aðgangur ókeypis

 

Heiladans 23 fer fram á Litlu Gulu Hænunni COLD / JÓNBJÖRN / VÖK / SKENG spila og aðgangur er ókeypis.

 

 

Föstudagur 19. apríl

 

Ste Mccabe tónlistarmaður frá Liverpool og hljómsveitin Klikk sem inniheldur meðal annars meðlimi hljómsveitanna Logn og Swords Of Chaos halda tónleika á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn.

 

Laugardagur 20. apríl

 

Alþjóðlegi plötubúðadagurinn (International Record Store Day) verður haldinn hátíðlegur í 6. skipti. Í Lucky Records á Rauðarárstíg verður nóg um að vera og tónlistarmenn og DJ’ar munu halda uppi stuðinu frá opnun til lokunar.

12:00 – Þórir Georg

12:30 – DJ sett

14:00 – Monotown

14:30 – DJ Andri Freyr

16:00 – Samúel Jón Samúelsson Big Band

17:00 – Robert and the Roomates

17:30 – DJ sett

 

Mugison spilar á Tískudögum í Smáralind klukkan 14:00.

 

Hljómsveitirnar Plastic Gods, The Heavy Experience, Tundra og Godchilla halda heljarinnar tónleika á Volta, Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir byrja um 22:00. Aðgangseyrir 1000 kr.

 

 

Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Tónleikar helgarinnar 4. – 6. apríl

 

Fimmtudagur 4. apríl:

Á Kex Hostel mun Grísalappalísa gefa áhugasömum formsmekk af nýrri plötu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Hljómsveitirnar Legend, Muck og Japam slá til tónleikaveislu á Volta Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og byrja tónleikarnir stuttu eftir það. Miðaverð er 1000 kr. 

Agent Fresco og Kiriyama Family halda tónleika á efri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og kostar 1500 kr inn.

 

Föstudagur 5. apríl 

Plötuverslunin 12 Tónar fagnar nú 15 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður opið hús á Skólavörðustíg 15 næstkomandi föstudag, 5. apríl á milli 17 og 19. Hljómsveitin Rökkurró mun leika nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Boðið verður uppá veitingar að hætti hússins og eru allir vinir, velunnarar og viðskiptamenn 12 Tóna hjartanlega velkomnir.

Hljómsveitirnar Babies og Beatless leiða sama hesta sína með hjartslætti og rythma svo að allir geti farið dansandi inn í helgina á Faktory. Beatless hefja tónleikana kl 23:00 og Babies spila uppúr miðnætti. Miðaverð er 1000 kr. 

Skúli hinn mennski heldur tónleika á Rósenberg ásamt Þungri byrði. Tónleikarnir klukkan 22:00. Verðið er ákkúrat mátulegt eða 1500 krónur á mann og ofbeldi ógildir miðann.

 

Laugardagur 6. apríl

VORVINIR 2013: Í tilefni af væntanlegri plötuútgáfu hefur hljómsveitin Mammút ákveðið að blása til heljarinnar söfnunartónleika svo hægt sé að klára plötuna með stæl. Uppáhaldshljómsveitir Mammút voru svo yndislegar að leggja bandinu lið og eru þar samankomnar helstu kanónur og snillingar tónlistarsenunnar í dag. Ásamt Mammút munu OJba Rasta, Samaris og Oyama koma fram. Húsið (efri hæð Faktorý) opnar kl 21 og tónleikarnir hefjast STUNDVÍSLEGA kl 22. Miðaverð er 1500 kr. 

Tónlistarmaðurinn Jón Þór mun heiðra tónleikagesti á Bar 11 með nærveru sinni og flytja þar lög af sinni fyrsti breiðskífu, Sérðu mig í lit. Húsið opnar klukkan 21:00 og er aðgangur ókeypis.

Tónleikar um páskahelgina

Miðvikudagur 27. mars:

Partíþokan verður haldin á Faktory.  Siggi Frændi opnar dyrnar klukkan 21.00 og setur einhverja dúndrandi snilld á fóninn til að hita upp salinn. Hann tekur við greiðslukortum og aðgangseyrir er 2000 krónur. Klukkan 22.00 stígur hinn óviðjafnanlegi Jónas Sigurðsson á svið ásamt hljómsveit, dúndurþétt að vanda. Klukkan 22.50 er röðin komin að strandamanninum Birni Kristjánssyni og strákunum í Borko. Það er svo um Klukkan 23.40 að Sin Fang hefur að trylla lýðinn með eitursvölum nýbylgjuballöðum. Prins Póló stígur  á svið 30 mínútum eftir miðnætti  og slær botninn í dagskránna með Tipp Topp, Niðrá strönd og fleiri mjaðmaæfingum. Kynnir kvöldsins er útvarpsmaðurinn, bóksalinn, og trommarinn Kristján Freyr Halldórsson og það borgar sig að taka vel eftir því hann kemur til með að draga úr happdrætti Partíþokunnar um miðbik kvöldsins. Við gefum ekkert upp um verðlaunin hér, en þau eru ekki af þessum heimi svo ekki sé meira sagt.

Fimmtudagur 28. mars

Volta:  Stephen Steinbrink, einnig þekktur sem The French Quarter, er fjölhæfur lagahöfundur, hljóðfæraleikari og sjónlistamaður frá Arizona. Hann spilar ásamt Snorra Helgasyni og Just Another Snake Cult á Volta á skírdag. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og er aðgangseyrir 500 kr.

Á Hemma og Valda munu fimm tónlistarkonur leiða saman hesta sína. Þær eru; Brynjahttps://soundcloud.com/hestur KirstiÓsk (https://soundcloud.com/oskmusic), Tinna Katrín og Þorgerður Jóhanna (https://soundcloud.com/user6539071). Aðgangur er ókeypis og hefst fjörið klukkan 20!

Á Dillon verður haldið annað Desibel kvöldið þar sem heiðraðir eru listamenn sem sérhæfa sig í noise, drone, industrial, crust, hardcore punk eða dark ambient tónlist. Sveitirnar World Narcosis og Skelkur Í Bringu munu koma og spila. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og er ókeypis inn. 

Föstudagur 29. mars 

Black metal böndin Ash Borer og Fell Voices koma fram á Gamla Gauknum á föstudeginum langa eftir miðnætti. Með þeim verða böndin Azoic og NYIÞ. 1000 kr inn. 

Laugardagur 30. mars

Á Gamla Gauknum munu hljómsveitirnar Cosmic Call og Waveland halda tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór. Frítt er inn og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 22:30.

Í fyrsta sinn verður Páskagleði haldin í Listasafni Reykjavíkur. Á tónleikunum koma fram listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að spila tónlist sem einkennist af gleði og það á heldur betur við um páskana. Fram koma; Ásgeir Trausti, Sísý Ey, Þórunn Antonía, DJ Margeir og Daníel Ágúst. Gleðin hefst klukkan 20 og kostar 4900 kr inn.

Tónleikahelgin 21.-24. Mars

Þessa helgi eins og allar helgar er nóg að gerast í tónlistarlífi höfuðborgarinnar, það eina sem þarf er að leita eftir því. Straumur vonar að þessi samantekt geti orðið tónþyrstum sálum einhver hjálp í þeim efnum.

Fimmtudagur 21. mars

Heiladanskvöldin hafa um langt skeið hafið framsækna danstónlist til vegs og virðingar á Íslandi og í kvöld á Hemma og Valda munu koma fram Bistro Boy, Steve Sampling, Skurken og Bypass. Tónleikarnir hefjast klukkan 10 og aðgangur er ókeypis.

 

Á Volta verður hljóðgervlaþema en þar koma saman rauðskeggjaði 80’s dýrkandinn Berndsen og Housedívurnar í Sísí Ey. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn á herlegheitin.

Föstudagur 22. mars

Á stúdentakjallaranum verður slegið upp heljarinnar dansiballi en þar munu stíga á stokk diskóboltarnir í Boogie Trouble og þjóðlagapoppsveitin 1860. Að tónleikunum loknum munu kanilsnældur þeyta skífum eins lengi og lög um opnunartíma veitingastaða leyfa. Aðgangur er ókeypis.

 

Biggi Hilmars sem er þekktastur fyrir söng sinn með hljómsveitinni Ampop treður upp á Faktorý. Biggi gaf nýverið út sólóskífuna All we can be og verða lög leikin af henni og einnig frumsýnt nýtt myndband sem að myndlistarkonan María Kjartansdóttir gerði við lagið Fools af plötunni. Aðgangseyrir er 1500 krónur og tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 10.

Laugardagur 23. mars

Tónlistarveitan Gogoyoko efnir til tónleika í Stúdentakjallaranum en þar koma fram skóglápararnir í Oyama og tilraunapoppdúettinn Nolo. Oyama gáfu í janúar út EP-plötuna I Wanna og snéru nýverið heim úr afar vel heppnuðu tónleikaferðalagi í Noregi og Englandi þar sem þau léku m.a. á ByLarm hátíðinni í Olsó. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og tekið er fram að þeir hefjist afar stundvíslega klukkan 21:00.

 

Á Faktorý verður boðið upp á Reggíveislu en á efri hæð staðarins verða Ojba Rasta með tónleika klukkan klukkan 22:00 og í hliðarsal verða síðan plötusnúðar úr hópnum RVK Soundsystem sem þeyta skífum inn í nóttina. Á tónleikana með Ojba Rasta kostar þúsund krónur en enginn aðgangseyrir er að RVK Soundsystem kvöldinu í hliðarsalnum. Þá er vert að minnast á það að eistneskur gestasnúður, Tarrvi Laamann, mun vera RVK Soundsystem-liðum til halds og trausts en hann er meðlimur í plötusnúðahópnum Bashment KingzSound.

 

Boogie Trouble verða aftur á ferðinni á laugardagskvöldinu en í þetta skiptið munu þau hengja upp diskókúlu sína á rokkbarnum Dillon. Í tilkynningu frá sveitinni kemur fram að markmið hennar sé að færa Diskó inn á hvert heimili landsins og láta miskunnarleysi grúvsins hrista pöpulinn upp úr sófunum til að slengja skönkunum til í hrynþrunginni tilbeiðslu. Hvort þetta verður að veruleika á Dillon eða ekki látum við áhorfendur um að dæma. Þá kemur einnig fram að sveitin er um þessar mundir að vinna í upptökum á sinni fyrstu breiðskífu í samstarfi við Hermigervil.

Sunnudagur 24. mars

Nóra blása til útgáfutónleika í Iðnó í tilefni af útkomu annarrar breiðskífu sinnar, “Himinbrim”, sem kom út skömmu fyrir jól. Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, og mun sveitin fá til liðs við sig strengjakvartett og slagverksleikara til að koma plötunni í heild sinni sem best til skila. Platan var tekin upp víða, m.a. í Orgelsmiðjunni og Sýrlandi og annaðist hljómsveitin sjálf upptökur á henni ásamt Magnúsi Öder. Hún hefur hlotið góðar viðtökur og lenti meðal annars á árslistum ýmissa tónlistarspekúlanta fyrir síðasta ár. Miðaverð er 1900 krónur og um upphitun sér tónlistarkonan Jara.

Tónleikadagskrá helgarinnar

Fimmtudagur 14. mars

Hljómsveitin Bloodgroup gaf nýverið út sína þriðju plötu, Tracing Echoes. Af því tilefni blæs sveitin til heljarinnar útgáfutónleika í Iðnó. Hægt er að kaupa miða hér: http://midi.is/tonleikar/1/7507  Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, en Bloodgroup heldur síðan í tónleikaferð um Evrópu til að fylgja eftir plötunni og því er þetta síðasta tækifæri til að sjá sveitina í Reykjavík um óákveðinn tíma. Hljómsveitin Samaris sér um upphitun á tónleikunum

Fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð á Faktorý í samstarfi við Tuborg – Grasrótin á Faktorý hefjast í kvöld. Á fyrstu tónleikunum munu hljómsveitirnar Kajak og Dreamcast koma fram. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22 og er frítt inn. Bent er á að hljómsveitir og tónlistarmenn sem hafa áhuga á að koma fram á Grasrótinni á Faktorý geta sent umsóknir á bokanir@faktory.is

Reykjavík Sex Farm kynnir hið dularfulla kvöld Death Is Not The End á Litlu gulu hænunni. Þar koma fram; Queerwolf frá Montreal og DJ Ravensclaw (aka Krummi úr Legend). Miðaverð er 500 og hefst kvöldið klukkan 21:30.

 

 

Föstudagur 15. mars:

Hljómsveitin Nóra mun spila á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast klukkan 22:00

Hljómsveitirnar Jan Mayen og Morgan Kane halda tónleika á Bar 11 og er ókeypis inn. Jan Mayen gerðu garðinn frægan á síðasta áratug og hafa spilað á vel völdum stöðum undanfarna mánuði. 

Á Kaffistofunni verða haldnir tónleikar með Helga Mortalkombat, Sindra Eldon & The Ways og Tamarin/(elWis). Hefjast þeir á slaginu 20:00

Tónleikar til styrktar Geðhjálp fara fram á KEX klukkan 20:30 og er miðaverð 1500 kr. Fram koma: Robert The Roommate, Ylja og Ultra Mega Technobandið Stefán.

 

Breski plötusnúðurinn Midland þeytir skífum á Volta. Til upphitunar verða íslensku DJarnir Skeng og Jon Edvald. Húsið opnar kl. 23:00. Miðinn kostar aðeins 1000 kr. í forsölu á Miði.is. Midland er þekktur fyrir óhefðbundinn hljóðheim sinn þar sem saman blandast rætur techno og house tónlistar, með bassahljómi úr dubstep tónlist auk tilraunakenndra hljóma úr sígildri elektróníku.

 

 

Laugardagur 16. mars

Hljómsveitin MUCK mun halda sína fyrstu tónleika á árinu á Dillon við Laugarveg. Hljómsveitin er nýkomin heim frá New York þar sem hún vann að nýju efni af komandi plötu sem mun líta dagsins ljós seinna á árinu. Ekkert kostar inn og tónleikarnir hefjast 23:00.

Reyk Veek í samstarfi við Reykjavík Fashion Festival og Reyka Vodka kynna viðburðinn ULTRA VIOLENCE á Volta sem er blanda af tónlist, tísku og klúbba upplifun. Þeir sem koma fram eru:Karíus, Juan Solo, D’or, Orang Volante og Thizone. Aðgangseyrir er 1000 kr og hefst fjörið um miðnætti. 

Útgáfutónleikar John Grant í Silfurbergi Hörpu, í tilefni af útgáfu nýju plötunnar, Pale Green Ghosts. Það kostar 6400 kr inn og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.
Sunnudagur 17. mars

Bandaríski tónlistarmaðurinn Colin Stetson heldur tónleika á Volta. Stetson er saxófónleikari frá Michigan fylki Bandaríkjanna en hefur gert út frá Montreal í Kanada undanfarin ár. Hann hefur starfað með fjölmörgum tónlistarfólki og hljómsveitum síðustu árin samhliða því að reka sinn eigin sólóferil. Arcade Fire, Tom Waits, TV on the Radio, Bon Iver, LCD Soundsystem, The National, David Byrne og Feist eru meðal þeirra sem hafa unnið með Colin Stetson. Um upphitun sér Úlfur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.