Nýtt lag frá Sykur

Hljómsveitin Sykur sendir frá sér nýtt lag á heimasíðu sinni klukkan 12:00 í dag.  Lagið mun vera til niðurhals ókeypis fram yfir Airwaves og hægt verður að nálgast það á www.sykur.com. Lagið sem heitir Strange Loop er fyrsta efnið sem sveitin sendir frá sér síðan að platan Mesópótamía kom út fyrir þremur árum. Hljómsveitin vinnur nú að sinni þriðju plötu sem kemur út á næsta ári.

Lokakvöld Sónar

Mynd: A. Albert

Lokakvöld Sónar-hátíðarinnar fyrir mig hófst með tónleikum Low Roar í flóanum. Hljómsveitin sem leidd er af Ryan var á sinni fyrstu plötu á ljúfsárum akústískum nótum hefur nú aukið við hljóðheiminn og er komin út í talsvert rafrænni pælingar og er það vel. Sveitin kom fram í viðhafnarútgáfu en auk Loga Guðmundssonar sem sér um trommur og hljómborð nutu þeir liðsinnis Mike úr Tung og Leifs Bjarnasonar á synþa. Því miður voru fáir mættir svona snemma því tónleikarnir voru hreint afbragð og sérstaklega var flutningur lokalagsins tilkomumikill. Þvínæst hljóp ég upp í Norðurljósasal þar sem ég náði síðasta lagi með Highlands, en bílskúrs og hússkotin popptónlistin þeirra lofar mjög góðu.

 

Reif í bergið

 

Þá var röðin komin að Mind in Motion, íslenskri rafsveit sem var starfandi á rave-tímabilinu í byrjun 10. áratugarins, en hafði komið saman aftur í tilefni Sónar eftir hvatningu á facebook. Þeir léku hreint og tært óldskúl hardcore, með hröðuðum raddsömplum og öllum pakkanum, og köstuðu meira að segja glowsticks út í salinn. Þá voru aðdáendur þeirra fremst við sviðið með dómaraflautur og það mátti sjá miðaldra reivara með bros á vör út um allan sal.

 

Fm Belfast voru í feikna stuði í Silfurbergi en löngu nóturnar hans Árna Vil komu öllum í mikið stuð, ekki síst í nýlegri lögum eins og Faster Than You. Þá sá ég Sykur í flóanum en þau nýttu tækifærið einnig í að koma með nýtt efni og sérstaklega hljómaði lagið Strange Loops, frábærlega sungið af Agnesi söngkonu, eins og verðandi slagari. Það geislaði af þeim á sviðinu og hljómurinn var hreint út sagt óaðfinnanlegur.

 

Fínir penslar og breiðir bassar

 

Ég gat hreinlega ekki ákveðið mig hvort ég færi á Trentemöller eða Major Lazer svo ég rölti bara á milli og tók inn sitt lítið af hvoru. Bæði atriði voru frábær en á mjög svo ólíkan hátt. Trentemöller var með hljómsveit með sér af mjög færum músíköntum og bauð upp á drungalegt tekknó með útpældum uppbyggingum og alls konar hljóðrænum smáatriðum.

 

Major Lazer hópurinn keyrði hins vegar allt í botn og sló áhorfendur í hausinn með tónlistarlegu ígildi sleggju, samsettri úr dancehall, dub step og hip hoppi. Það voru engin fíngerð blæbrigði í tónlistinni en bassinn var blastaður og sjóið í fyrirrúmi, með dönsurum, konfettí-sprengjum og öllum pakkanum. Á ákveðnum tímapunkti steig svo forsprakkinn Diplo inn í risastóra glæra plastkúlu og rúllaði í henni yfir áhorfendaskarann sem öskraði af ástríðu.

 

Á sama tíma að ári

 

Þegar ég fór aftur inn í Norðurljósasalinn hafði Trentemoller heldur betur gefið í í lokalaginu en þá var gítarleikarinn kominn út í villtan feedback kafla í anda Sonic Youth. Ég hélt svo út í nóttina þrunginn af bassa og með suð í eyrunum sem entist langt fram á kvöld.

 

Hátíðin í ár var feikilega vel heppnuð í nánast alla staði, hljóð og myndskreytingar voru í heimsklassa, tímasetningar stóðust og framkvæmd og hegðun hátíðargesta var til fyrirmyndar. Það er þess vegna mikið gleðiefni að þegar sé búið að tilkynna að hátíðin verði haldin aftur að ári. Umfjöllun straums um fyrri kvöld hátíðarinnar má lesa hér og hér.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar hefst í dag – 10 spennandi listamenn

Tónlistarhátíðin Sónar hefst í dag og við hvetjum alla tónlistaráhugamenn sem vettlingi geta valdið til að mæta á þá þriggja daga veislu sem fram undan er. Hátíðin sem hefur verið haldin árlega í Barcelona síðan 1994 fór fram í fyrsta skipti hér á landi í Hörpu á síðasta ári og var feikilega vel heppnuð eins og lesa má um hér. Það eru meira en 60 tónlistarmenn og plötusnúðar sem spila á hátíðinni en hér verða kynntir 10 sem við mælum sérstaklega með. Fylgist vel með á straum.is næstu daga því við verðum með daglega tónleikarýni af hátíðinni.

Major Lazer

Major Lazer er tónlistarhópur sem er leiddur af ofurpródúsernum Diplo sem hefur undir því nafni framleitt tvær plötur þar sem Dancehall, dubstep, reggí og gamaldags dub er málað með breiðum penslum og skærum litum á striga nútímalegrar danstónlistar.

 

Trentemoller

Danski tekknóboltinn Trentemoller hefur þeytt skífum á Íslandi oftar en hönd á festir og er með þeim bestu í því stuðfagi. Eftir hann liggja margar meistaralegar endurhljóðblandanir og þrjár sólóskífur en sú síðasta, Lost, var með betri raftónlistarplötum síðasta árs og nokkuð poppaðari en fyrri verk hans þar sem margir gestasöngvarar komu við sögu. Hann mun koma fram með live hljómsveit á Sónar.

 

Gus Gus

Gus Gus eru aðals- og kóngafólk íslensku danstónlistarsenunnar og þurfa engrar frekari kynningar við. Fyrir utan það að sveitin er tilbúin með nýja plötu og ekki er ólíklegt að eitthvað af henni heyrist á tónleikunum.

 

Jon Hopkins

Hopkins er rúmlega þrítugur Breti sem hefur undanfarið starfað með Brian Eno auk þess að gefa út eigið efni. Með sinni þriðju breiðskífu, Immunity, sem kom út á síðasta ári skaust hann hins vegar upp á stjörnuhimininn en hún lenti ofarlega á árslistum margra tímarita og spekúlanta. Tónlistin þræðir einstigið milli sveimtónlistar og tekknós af miklu listfengi en hann sótti Ísland heim á síðustu Airwaves hátíð en þeir tónleikar voru einn af hápunktum hátíðarinnar.

 

Bonobo

Bonobo er einyrki en í tónlist sinni vefur hann persneskt teppi úr þráðum ólíkra hljóðbúta úr öllum áttum og heimsálfum. Hann er á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu, sem m.a. gefur út Aphex Twin og Boards of Canada, en platan hans Dial M for Monkey er algjört meistarastykki og ævintýri fyrir eyrun.

 

James Holden

James Holden er breskur plötusnúður og tónlistarmaður sem lét fyrst að sér kveða með kosmískri endurhljóðblöndun á lagi Nathan Fake, The Sky Is Pink. Hans nýjasta skífa, The Inheritors, sem kom út á síðasta ári er tilraunakennd diskósúpa undir sterkum áhrifum frá súrkáls- og síðrokki.

 

Sykur

Ein af hressari elektrósveitum landsins skartar grípandi lagasmíðum og groddalegum synþahljóm, en þau er vön því að tjalda öllu til á tónleikum.

 

Paul Kalkbrenner
Kalkbrenner er þýsk tekknógoðsögn sem varð gerð ódauðleg í myndinni Berlin Calling sem kortlagði hina víðfrægu berlínsku klúbbasenu.

 

Hermigervill

Sveinbjörn Thoroddsen, betur þekktur sem Hermigervill, hefur um árabil verið í fremstu víglínu íslenskrar raftónlistar. Í byrjun ferilsins með hugmyndaríkum Trip Hop plötum en í seinni tíð með hljóðgervladrifnum útgáfum af íslenskum dægurlögum og samstarfi við Retro Stefson. Hann er nú að vinna að sinni næstu breiðskífu og mun flytja nýtt efni á tónleikum sínum á Sónar.

 

Tonik

Einn af innlendu hápunktum síðustu Airwaves hátíðar var raftónlistarmaðurinn Tonik en melankólískt og sálarþrungið tekknóið bræddi bæði hjörtu og fætur í salnum. Hann kemur iðulega fram með selló- og/eða saxafónleikara sem gaman er að fylgjast með á sviði.

Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: siggi

Ég hóf leikinn á föstudeginum með því að sjá eins manns sveitina M-Band á Skuggabarnum við Hótel Borg. Ég hafði þó séð hann áður á hátíðinni því þessi fjölhæfi tónlistarmaður kom einnig fram með Nolo og Tonik. Hann leikur framsækið rafpopp og kemur fram með risastórt hlaðborð af alls konar tækjum og tólum og gaman að segja frá því að engin tölva var þar á meðal. Mér finnst eins og það sé langt síðan ég sá síðast performans hjá raftónlistarmanni þar sem engin Apple tölva er í augsýn. Hann var líflegur á sviðinu þar sem hann djöflaðist í græjum og söng og settið var skemmtilegt en þó stutt, og það hefði verið gaman að sjá fleiri í salnum.

 

Ferðinni var svo haldið í Hörpu þar sem ég hafði heyrt góða hluti um norsku sveitina Electric Eye. Þeir léku sýrulegna sækadelíu, mestmegnis án söngs, og náðu góðu flugi í löngum spunaköflum og framsæknum hljóðpælingum. Ég sótti síðan tónleika múm í Fríkirkjunni en þar náði röðin heilan hring í kringum bygginguna. Mikilfengleg kirkjan rammaði inn frábæra frammistöðu og lágstemmt rafpoppið töfraði safnaðarmeðlimi upp úr spariskónum.

 

Hugvíkkandi Hljóðsúpa

 

Úr Fríkirkjunni hjólaði ég beinustu leið yfir í Hörpu þar sem John Grant kom fram ásamt hljómsveit sinni. Ég hafði verið i mikilli varnarstöðu gagnvart honum sem tónlistarmanni vegna þrálátrar mótþróaröskunar og yfirgengilegrar ástar alls landsins á þessum mesta íslandsvini síðari tíma. En hann náði að vinna mig á sitt band með frábærum tónleikum í sumar og hann sveik engan í Silfurbergi þetta kvöld. Hljómsveitin er þrusuþétt og hann er einstaklega karismatískur frontmaður. Nýja efnið hans er þó er sérstöku uppáhaldi hjá mér, enda pródúserað af Bigga Veiru úr Gus Gus og hljómurinn minnir um margt á þá frábæru sveit.

 

Eftir það hélt ég yfir í Norðurljósasalinn þar sem sænska sækadelik-hljómsveitin Goat kom fram. Þau voru eitt af þeim böndum sem ég var hvað spenntastur fyrir og stóðu undir öllum mínum væntingum. Þau blanda alls kyns afrískum áhrifum og rokki í hugvíkkandi hljóðsúpu og koma fram með grímur í einhvers konar töfralæknabúningum. Söngkonurnar tvær frömdu magnaðan galdur og dönsuðu um allt sviðið auk þess sem lyfjuðu myndbandi var varpað á vegginn fyrir aftan þau. Þetta minnti helst á einhvers konar trúarathöfn hjá frumstæðum ættbálki og var feikilega fínt heppnað.

 

Besti söngvarinn á ballinu

 

Eftir frábæra tónleika Goat kom síðan annar hápunktur strax á eftir í formi kanadíska söngvarans Sean Nicholas Savage. Hann kom fram ásamt einum hljómborðsleikara og spilaði lo-fi popp í anda 9. áratugarins, mörg lögin voru í grunninn hálfgerðar “prom” ballöður. Hann er hreint út sagt frábær söngvari og nánast reif út eigið hjarta og matreiddi fyrir áhorfendur, svo tilfinningaþrunginn var flutningurinn.

 

Eftir þessa tvo framúrskarandi tónleika náði ég í skottið á harðkjarnabandinu Fucked Up sem voru afskaplega líflegir á sviði en aðallega utan þess. Söngvari sveitarinnar var greinilega með mjög langa míkrafónsnúru því hann hljóp salinn á enda og dansaði við áhorfendur og krádsörfaði af miklum móð. Tónlistin þeirra er ekki alveg mín ella en spilagleðin og krafturinn voru smitandi. Til að loka kvöldinu sótti ég svo tónleika Sykurs í þjóðleikhúskjallaranum sem settu allt í botn og keyrðu á trylltum dansi inn í nóttina.

 

Þriðja kvöldið á Airwaves var það besta hingað til og Goat og Sean Nicholas Savage eru toppar hátíðarinnar hjá undirrituðum. Umfjöllun straums um fyrstu tvö kvöldin má lesa hér og hér.

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrsta kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.

 

Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.

 

Harður, hrár og pönkaður kjarni

 

Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.

 

Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.

 

Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó

 

Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.

 

Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.

 

Hámörkuð gleði

 

Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.

 

Emiliana á heimavelli

 

Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.

Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves yfirheyrslan – Agnes í Sykur

Agnes Björt Andradóttir söngkona hljómsveitarinnar Sykur hefur vakið mikla athygli síðustu ár fyrir magnaða sviðsframkomu og feikna sterka rödd. Agnes spilar í ár á sinni þriðju Airwaves hátíð ásamt hljómsveit sinni Sykur.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni? 

Það var árið 2008. Það sem var eftirminnilegast á hátíðinni það árið voru tónleikar hljómsveitarinnar Mae Shi sem er experimental indie band frá Los Angeles sem átti vel við litlu rebel Agnesi. Svo fór ég í eftirminnilegt pottapartí í ókunnugu húsi þar sem alklæðnaður var skylda, það er frekar ógirnilegt að fara í heitapott í gallabuxum ásamt 20 manns.


Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Fyrsta skipti sem ég spilaði á airwaves var árið 2011. Það var sturluð upplifun. Við spiluðum á Nasa, klukkan 3, aðfaranótt sunnudags fyrir troðfullan sal af sveittu fólki sem þráði ekkert annað en að dansa og skemmta sér. Stemningin var helluð. Við komum með lítið brimbretti með okkur og Stefán sörfaði krádið. Þetta er í top 3 af skemmtilegustu giggum sem að ég hef einhverntíman spilað. R.I.P Nasa!

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað? 

Í ár er ég að spila á þriðju hátíðinni minni. Ég spilaði 2011 og 2012 með Sykur.


Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur? 

Mae Shi

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því af því að mér finnst ég hafa breyst svo mikið sjálf. En ég hef tekið eftir því að fleiri erlendir gestir hafa bæst í hópinn og stemningin og undirbúningurinn eykst með hverju árinu finnst mér. Fyrir mér hefur hátíðin stækkað og þetta er orðið bara svona eins og jólin eða páskarnir.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið? 

Fyrst og fremst að vera prófessjonal, halda einbeitingu, sofa vel, ekki vera þunn/ur. Airwaves er hátíð þar sem fólk kemur saman, óháð aldri, búsetu eða whatever-the-shit-they’re-about með það eitt í huga að skemmta sér. Yfir krádinu ríkir ákveðið frelsi og jákvæðni. Þau gigg sem bjóða uppá þetta krád eru bestu giggin til að spila á, þau geta kennt manni svo margt á ljúfan máta. Ef þú ert að spila í fyrsta skipti á airwaves, njóttu þess og ekki vera feimin/n að leyfa sjálfum þér að upplifa þig eina/n af krádinu.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Uppskera, árshátíð og góð tenging fyrir senuna út í heim.


Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?  

Metið er minnir mig sjö tónleikar árið 2011. Við spilum fjóra tónleika í ár.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo? 

Kraftwerk

 

Listasafnið eða Harpa?

Fer eftir ýmsu

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér? 

Ég er að spila með Sykur. Hérna er dagskráin okkar —

miðvikudagur = Jör klukkan 17:00 (off venue)

föstudagur = Þjóðleikhúskjallarinn klukkan 2:10

laugardagur = Laundromat Cafe klukkan 15:00 (off venue) og Harpa Norðurljós klukkan 00:40

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Hlakka til að sjá ykkur elskur! LET’S GO!

 

 

Major Lazer á Sónar í Reykjavík

Nú hafa fyrstu listamennirnir sem munu spila á næstu Sónar hátíð í Reykjavík verið tilkynntir og þar ber hæst Major Lazor hópinn sem leiddur er af Diplo. Lagið Get Free var feikivinsælt á síðasta ári og að mati þessarar síðu annað besta lag ársins, og platan Free The Universe sem kom út í byrjun þessa árs var reggískotinn partýbræðingur af bestu sort. Þá mun Daphni koma fram á hátíðinni, en það er hliðarverkefni Daniel Snaith sem er best þekktur sem Caribou, en hann sótti Ísland heim undir því nafni árið 2011 og hélt stórbrotna tónleika á Nasa. Þá hefur þýski plötusnúðurinn Kölsch verið bókaður og íslensku sveitirnar Hjaltalín, Sykur og Sometime hafa verið staðfestar. Sónar hátíðin fer fram í Hörpu dagana 13. til 15. febrúar næstkomandi en hún var fyrst haldin hér á landi í febrúar á þessu ári en umfjöllun straum.is um hátíðina má nálgast hér. Miðasala á hátíðina fer fram á midi.is og hægt er að hlusta á Major Lazer og Daphni hér fyrir neðan.

Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 16. júlí

R&B stórstjarnan Frank Ocean heldur tónleika í  Laugardalshöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það kostar 8.900 kr í stæði og 13900 í stúku, enn er hægt að kaupa miða á midi.is

Stroff, Skelkur í bringu og Sindri Eldon spila á neðri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á jazzkvöldi KEX kemur fram kvartett kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Samuel J. Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigtryggur Baldursson á conga trommur. Tónlistin hefst kl. 20:30 og stendur í u.þ.b. 2 klst., með hléi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis

 

Miðvikudagur 17. júlí

Hjómsveitin Chic undir styrkri handleiðslu stofnandans Nile Rodgers mun koma fram á tónleikum í Silfurbergi Hörpu. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sisi Ey munu opna kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Enn er hægt að kaupa miða á midi.is og kostar 8.500 kr inn.

Raftónlistarpartý á Harlem -Tvíeykið MRC Riddims frá New York [nánar tiltekið Harlem] leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem (áður Volta). Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims. Partýið stendur frá 22:00 – 01:00 og kostar 1000 kr. inn.

Ylja, Hymnalaya og Stormur halda tónleika á efri hæð Faktorý sem hefjast klukkan 22:00. Það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 18. júlí

Hljómsveitin Boogie Trouble spilar ljóðrænan diskó í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum kl 17:00.

NÆNTÍS VEIZLA í boði Sindra Eldon á Harlem Bar: TREISÍ, JÓN ÞÓR og SINDRI ELDON & THE WAYS koma fram auk þess sem Sindri mun Dj-a til lokunnar.

Gítarveisla í Bíó Paradís en þar stíga á stokk hljómsveitirnar Stroff, Skelkur í Bringu, Bárujárn og Dreprún. Tónleikarnir hefjast 22:00 og er frítt inn.

Sign og We Made God spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 19. júlí

Hljómsveitin Hymnalaya hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Hymns“. Sveitin ætlar að fagna því með léttum ókeypis tónleikum í 12 Tónum á Skólavörðustíg sem hefjast klukkan 17:30.

Moses Higtower og 1860 spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Laugardagur 20. júlí

KEX Hostel, KEXLand og bandaríska útvarpsstöðin KEXP ætla að bjóða öllum á útitónleikana KEXPORT við Kex Hostel laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í portinu við Kex Hostel og hefjast kl. 12 á hádegi og lýkur um miðnætti. Alls munu 12 hljómsveitir koma fram á klukkutímafresti á þessum maraþon tónleikum. Fram koma: BABIES // BOOGIE TROUBLE // HJALTALÍN // KIPPI KANINUS // LOJI // MOSES HIGHTOWER // MUCK // NOLO // SAMÚEL J SAMÚELSSON BIG BAND // SÍSÍ EY // SYKUR //

 

Hjaltalín heldur tónleika á Faktorý, laugardagskvöldið 20. júlí. Um upphitun sér hljómsveitin Japam. Húsið opnar klukkan 22 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22:45. Miðasala fer eingöngu fram við hurð og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

 

 

 

 

 

Tónleikar helgarinnar

Föstudagur 7. júní 

 

Á Kaffistofunni á Hverfisgötu munu ólíkir tónlistarmenn úr jaðri íslensks tónlistarlífs, ásamt vídjólistamönnum, framkalla einstakan bræðing bjagaðra tóna og sjónræns áreitis með það að markmiði að skapa upplifun ólíka þeirri sem íslenskir tónleikagestir eiga að venjast. Fram koma Pink Street Boys, Knife Fights, Lord Pusswhip (feat. $ardu aka Svarti Laxness & DJ vRONG), $H∆MAN $H∆WARMA og Gervisykur.

 

Sykur spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti. 

 

Laugardagur 8. júní

 

Noise spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti.

 

Ungir umhverfissinnar standa fyrir tónleikum á Loft Hostel með hljómsveitunum Axel Flóvent, Hljómsveitt, Macaya og Nolo. Það kostar ekkert inn, en tekið verður á móti frjálsum framlögum á staðnum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.

 

Tónleikar helgarinnar 24. – 26. maí

Föstudagur 24. maí

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess hefst. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi.

Kex Hostel:

20:00: Þórir Georg

20:45: Withered Hand

Volta:

21:15: Tonik

22:00: Good Moon Deer

22:50: Bloodgroup

23:40: PVT

00:40: Sykur

 

 

Laugardagur 25. maí

MC Bjór og Bland spilar sína fyrstu tónleika í verslun Lucky Records, Rauðarárstíg 6 klukkan 17:00.

Reykjavík Music Mess heldur áfram:

Kex Hostel:

20:00: Good Moon Deer

20:45: Stafrænn Hákon

Volta:

21:15: Just Another Snake Cult

22:00: OYAMA

22:50: Muck

23:40: DZ Deathrays

00:40: Mammút

Ofvitarnir, Sayatan og Skerðing koma fram á Dillon. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast á slaginu 22:00.

 

Sunnudagur 27. maí

Síðasti dagur Reykjavík Music Mess:

Kex Hostel:

20:00: Just Another Snake Cult

20:45: MMC

Volta:

21:15: Loji

22:00: Stafrænn Hákon

22:50: Withered Hand

23:40: Monotown