Annað kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Eftir að hafa skilað af mér airwaves-grein gærdagsins hjólaði ég beinustu leið í Norræna húsið til að sjá kammerpoppsveitin Útidúr. Þau voru í feiknaformi í sal sem að hæfði þeim vel og hljómmikill flygill hússins kom sterkur inn. Þau léku aðallega nýlegt efni af væntanlegri plötu og lögin eru stór og metnaðarfull með flóknum útsetningum og kaflaskiptingum.

 

Næst sá ég Grísalappalísu sem ég sá einnig kvöldið áður í Hafnarhúsinu en í þetta skiptið léku þeir í plötubúðinni 12 tónum á Skólavörðustíg. Hljómsveitin stóð sig vel í Hafnarhúsinu en það var samt ennþá skemmtilegra að sjá þá í þessu agnarsmáa rými þar sem hljómsveitin var nánast ofan í áhorfendum. Söngvarinn Gunnar Ragnarsson var sem andsetinn í framkomu, eldrauður í framan öskrandi af lífs og sálarkröftum og nýbylgjudansaði fram og aftur eins og flogaveikur hani.

 

Þá var leiðinni haldið í kjallara 11-unnar en þegar ég mætti voru brimrokkararnir í Gang Related að hamra úr sér hjörtun í kröftugum gítarkafla. Þeir hafa bætt við sig nýjum meðlimum og skarta nú þremur gítarleikurum sem mynduðu kröftugan vegg í mestu rokkköflunum og spilagleðin lak af hverri einustu nótu.

Hellismannarokk og naumhyggjudraumur

Fyrsta hljómsveitin sem ég sá á opinberu dagskránni var bandaríska indíbandið Caveman sem góður rómur hafði verið gerður að fyrir hátíðina. Þeir voru smekklega klæddir og spiluðu einstaklega vandað og grípandi indírokk, sveifluðust frá angurværum ballöðum yfir í rokkaða slagara án þess að missa takt á milli.

 

Þvínæst sá ég Hjaltalín í Silfurbergssal Hörpu fremja kynngimagnaðan seið. Sveitin nánast enduruppgvötaði sig á sinni síðustu plötu, Enter 4, og tóku aðallega efni af henni. Þau hentu út hálfu sinfóníuhljómsveitinni sem hafði spilað á síðustu plötu og gerðu eins og margir aðrir á undan þeim, meira úr minna. Sá hljóðheimur skilaði sér frábærlega í Silfurbergi á þessum tónleikum, meiri botn en toppur, nýklassík en kammer, mínímalismi þar sem hvert hljóð fær nægilegt rými til að anda. Söngvararnir Högni og Sigríður stóðu sig með mikilli prýði og samsöngur þeirra var sérstaklega draumkenndur og dáleiðandi í laginu Letter To[…].

Andhetjugítarsóló

Síðasta atriði kvöldsins var svo goðsagnakennda indíbandið Yo La Tengo. Þau voru þrjú og róteruðu reglulega milli hljóðfæra og skiptust einnig á að syngja. Í settinu var talsvert um róleg og þjóðlagaskotin lög, oft án tromma, þar sem raddir voru meira hvíslaðar en sungnar. Þess á milli brast svo á með reffilegu rokki og surgandi rafmagnsgítarfimleikum sem voru skemmtilega óhefðbundnir, eins konar andhetjusóló í anda Sonic Youth. Þá voru einstaka lög fönkí á lágstemmdan hátt, með skoppandi hljómborðum og falsettusöng. Sumt var frábært en annað ekki jafn gott, og ég get ekki neitað því að það hefði verið gaman að heyra aðeins meira efni af plötunum I Can Hear the Heart Beating as One og And Then Nothing Turned Itself Inside-Out sem eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum.

 

Eftir Yo La Tengo var haldið beinustu leið í háttinn þar sem allir þurftu að vakna snemma til að fara í Kraftwerk-röð í dag. Heilt yfir var annað kvöldið á Airwaves stórvel heppnað og ég er búinn að sjá fullt af frábærum tónleikum þrátt fyrir að að hátíðin sé bara tæplega hálfnuð.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *