Tíunda Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í kvöld fyrstu listamennina sem koma fram í ár. Þeir eru: Borko, Duro, Futuregrapher, Jónas Sig, Langi Seli, Oyama, Prinspóló og Ylja. Það má lesa nánar um þessa listamenn á vef Aldrei fór ég suður.
Tag: Íslenskt
Raftónlistarkvöld til heiðurs Biogen
Á næsta laugardag mun fara fram raftónlistarkvöld til minningar um raftónlistarmanninn Sigurbjörn Þorgrímsson sem var þekktastur undir listamannsnafninu Biogen. Kvöldið er haldið undir yfirskriftinni Babel, sem var minna þekkt listamannsnafn Sigurbjarnar sem lést fyrir tveimur árum. Kvöldið er haldið af Weirdcore samsteypunni í samstarfi við Möller forlagið á skemmtistaðnum Dolly frá klukkan 22:00 til 1:00 þann 23. febrúar en Sigurbjörn hefði orðið 38 ára á miðnætti það kvöld.
Þeir tónlistarmenn sem heiðra minningu Biogen þetta kvöldið eru Futuregrapher & Árni Vector, Tanya & Marlon, Bix, Agzilla, Thizone, Beatmakin Troopa og Skurken, ásamt því sem spilað verður viðtal við Biogen sem Hallur Örn Árnason tók á sínum tíma.
Sigurbjörn Þorgrímsson var einn af frumkvöðlum í íslensku dans- og raftónlistarsenunni. Hann var meðlimur í reifsveitinni Ajax og naut mikillar virðingar fyrir tónlist sína innanlands sem utan. Hann gaf út 3 plötur undir viðurnefninu Biogen ásamt því að gefa út plötuna ‘B-Sides The Code Of B-Haviour’ hjá Elektrolux forlaginu undir listamannsheitinu Babel.
Lag með múm og Kylie Minogue
Samstarfsverkefni íslensku hjómsveitarinnar múm og söngkonunnar Kylie Minogue leit dagsins ljós í dag. Lagið Whistle var unnið með Árna Rúnari úr FM Belfast og var notað í kvikmyndinni Jack & Diane. Hljómsveitin stefnir á útgáfu á nýrri plötu næsta haust og er líklegt að lagið verði þar að finna.
Opnunartónleikar Volta í kvöld
Tónleikastöðum í Reykjavík hefur farið fækkandi undanfarið, það var sorglegt að sjá á eftir Nasa og nú styttist í að Faktorý verði rifinn vegna uppbyggingar á reit Hjartagarðarins. Þess vegna fagna því allir góðir menn þegar nýir tónleikastaðir opna og Straumur er þar ekki undanskilinn. Í kvöld opnar skemmti- og tónleikastaðurinn Volta á Tryggvagötu 22 með stórtónleikum þar sem fram koma Hjaltalín, Bloodgroup, Ojba Rasta og Sóley.
Þetta er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur en Hjaltalín hafa hlotið mikið lof fyrir sína nýjustu plötu, Enter 4, sem meðal annars var valin plata ársins af tímaritinu Grapevine. Stórdöbbsveitin Ojba Rasta hefur einnig hlotið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á árinu og Bloodgroup gáfu út sína þriðju plötu Tracing Echoes fyrir örfáum dögum en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þá hefur Sóley verið að sigra heiminn á liðnu ári með undurfögrum söng sínum.
Miklu hefur verið tjaldað til með staðinn sem er á tveimur hæðum með fatahengi, kokteilbar og setustofu á neðri hæð en bar, dansgólfi, reykherbergi og sviði með heimsklassa hljóðkerfi og hágæða ljósabúnaði á þeirri efri. Straumur hvetur alla þá sem geta haldið á hanska að láta sjá sig og styðja við þessa nýjustu viðbót í tónleikaflóru borgarinnar.
Sindri Sin Fang opnar sig loksins um ást sína á hip-hop tónlist
Sindri Már Sigfússon er skrambi afkastamikill náungi. Ekki aðeins tekst honum að gleðja fólk reglulega með hljómsveitinni Seabear, heldur gefur hann líka út plötur og kemur fram undir nafninu Sin Fang, sem er einskonar sóló-hliðarverkefni Sindra (skemmtileg staðreynd: Seabear var einusinni sólóverkefni líka, en svo breyttist Seabear í hljómsveit). Svo tekur hann stundum líka upp plötur með öðrum tónlistarmönnum og aðstoðar þá í hvívetna (hann vann t.d. að síðustu plötu öðlingsins Snorra Helgasonar, hinni stórgóðu Winter Sun).
Nema hvað, það eru alltaf að koma út plötur með Sindra og nú er ný slík á leiðinni undir merkjum Sin Fang. Heitir sú Flowers og er alveg bráðskemmtileg. Sindri ætlar að fagna útgáfu plötunnar á skemmtistaðnum Harlem í kvöld (fimmtudag, sko) og lofar í viðburðarsíðu partýsins að hann ætli að spila fullt af kræsilegri hip hop músík. Þetta er auðvitað mikið gleðiefni, enda platan stórkostleg áhlustunar og svo er líka alltaf gaman að drekka bjór og hlusta á næs hip hop. Af því tilefni sendum við Sindra tölvupóst og báðum hann að segja okkur aðeins frá hip hopinu í lífi sínu.
Sæll Sindri, til hamingju með nýju Sin Fang plötuna!
Halló! Takk!
Ég er búinn að hlusta aðeins á hana. Þetta er gæða gripur! En það er helst til lítið rappað á henni. Af hverju er það?
Takk! Við klipptum út allt rappið á seinustu stundu í mixinu.
[Look at the Light af breiðskífunni Flowers. Rappleysi lagsins er tiltölulega áberandi]
Gætirðu hugsað þér að gera einhverntíman rapp plötu?
Nei ég held að ég leyfi ekta röppurum að sjá um það. Ég held að ég myndi ekki vera neitt rosalega sannfærandi rappari. því miður.
En að búa til takta fyrir einhvern annan sem rappar?
Já, það gæti verið gaman að prófa.
Að öllu gamni slepptu, þá hefur ekki farið fram hjá neinum að þú ert mikill hiphop aðdáandi, eins og sjá má ef maður eltir þig á Twitter og viðlíka samskiptamiðlum. Af hverju höfðar hip hop tónlist svona sterklega til þín? Hvað er það við hip hop músík sem gerir hana ómótstæðilega í þínum eyrum?
Ég veit það ekki alveg. stundum finnst mér lögin bara vera fyndinn en stundum finnst mér eins og maður sé að fá að kíkja inní einhvern heim sem er frekar langt frá mínum veruleika. Og stundum eru þetta bara svo skemmtileg lög.
Hverjar eru helstur rapp-hetjurnar sem þú hlustar á? Aðhyllistu einhvern sérstakan skóla hip hops (suðurríkjaskólann, gangsta rabb, old skool, etc)?
Ég hlustaði eiginlega bara á hip hop og rapp þegar að ég var unglingur. Þá var það Wu Tang, Smiff n Wessun, Black Moon, Outkast, Redman, Roots osfv. Svo tók ég reglulega upp Kronik þáttinn sem Robbi Rapp stýrði á kassettu. Hlusta á það í bland við nýtt svo að ég myndi bara segja að ég hlusti á ’90s rapp í bland við svona nýtt hóstasafts pillu rapp.
Hvað finnst þér um svona bakpokarapp, eins og Sole og allt Anticon gengið. Og Slug og þá.
Kveikti eiginlega aldrei á þeirri bylgju.
Hverjir finnst þér svona bestir allra tíma? Og af hverju?
Wu Tang? Enter the 36 Chambers?
Hver er besta hip hop plata allra tíma að þínum dómi og af hverju?
Þær plötur sem ég hef örugglega hlustað á mest eru Doggystyle með Snoop og Ready to Die með Biggie. Hlusta ennþá á þær.
En hverju hefurðu verið að veita athygli svona upp á síðkastið? Hvaða nýja gengi ertu að fíla?
A$AP Rocky finnst mér vera mjög skemmtilegt. veit ekki hvort að R. Kelly falli undir hip hop en ég hlusta mikið á hann. Sérstaklega ef að ég er að fá mér.
Talandi um A$AP Rocky, hvað finnst þér um það gengi allt? Er eitthvað varið í þetta?
Mér finnst A$AP Rocky sjálfur allavegana mjög skemmtilegur. Hef ekki tékkað á miklu frá hinum röppurunum í þessu gengi. Peso, Purple Swag, Fucking Problems eru allt æðisleg lög.
En Odd Future krakkana. Eru textarnir of hómófóbískir/kvenfyrirlitaðir til að maður geti haft gaman af þessu með góðri samvisku?
Ég er ekki ennþá búinn að kveikja á þessu. Fíla samt Frank Ocean plötuna mjög vel. Held að þessir krakkar séu samt að reyna að sjokkera frekar en að vera einhverjir homophobes eða kvennhatarar.
Hvaðan færðu þínar upplýsingar um rabbmúsík? Það er ekki mikið fjallað um hana í íslenskum fjölmiðlum, ef frá er talinn frábær þáttur Danna Delúx á Rás 2. Ertu að sækja þessa músík mest erlendis frá?
Bara frá vinum og blogg síðum. Hef ekki tékkað nógu oft á þættinum hans Danna Delúx en ætla að bæta úr því.
Hefurðu veitt íslensku hip hopi sérstaka athygli? Hverja fílarðu þar, og hvers vegna?
Hef ekki fylgst neitt sérstaklega vel með því seinustu ár. Fíla Gísla Pálma mjög vel þessa dagana.
Hvað finnst þér um Afkvæmi Guðanna?
Eru þeir ekki hættir? Hættu að hringja í mig hættu að senda mér smsss.
Tókstu afstöðu með Móra eða Poetrix í bífinu þeirra?
Haha nei.
En Móra eða Erpi?
Neibb.
En Erp eða Subta krewinu?
Nei ég vil ekki vera drepinn. Er samt til í að dissa eitthvað indie band sko.
Hver er frægasti rappari sem þú hefur hitt?
Hitaði einusinni upp fyrir Ghostface Killah. Held að ég hafi ekki heilsað honum samt.
Hver er flottasta ríma sem þú hefur heyrt?
“You say no to drugs / Juicy J can’t”
Ef þú mættir gera lag með einum rappara, hver yrði það?
Ol’ Dirty Bastard.
Hvort finnst þér mikilvægara upp á gott hip hop lag, takturinn (músíkin) eða textinn?
Bara misjafnt. Textinn þarf nú ekki að vera merkilegur. Held að þetta ég hafi spilað þetta lag oftast í fyrra, þar sem textinn er aðalega um að hann búi við hliðina á kobe bryant.
Hvor finnst þér betri, 50 Cent eða Eminem?
Eminem finnst mér skárri.
Hvað verðurðu svona helst að spinna í Sin Fang partýinu á fimmtudagskvöld? Hvað verður mikið af fríbjór?
Bara eitthvað nýtt í bland við gamalt. Það verður vonandi bara nóg af bjór. Annars kaupi ég kannski bara kassa af Hennesy.
Viðtal og myndvinnsla: Haukur S. Magnússon. Haukur er á Twitter. Það var og.
Íslensk-kanadískur hrærigrautur á Faktorý
Tónleikahaldararnir Oki Doki sjá um íslensk-kanadíska risahrærigrautstónleika sem fram fara á Faktorý í kvöld. Viðburðurinn hefur fengið nafnið Sonic Waves og fram koma Prins Póló og Benni Hemm Hemm ásamt kanadísku tónlistarmönnunum Woodpigeon, Clinton St. John, Samantha Savage Smith og Laura Leif.
Tónlistarmennirnir vinna um þessar mundir saman að umfangsmiklu verkefni, þar sem þeir leika á tónleikum á Íslandi og í Kanada. Tónleikarnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem allir munu bæði koma fram með eigið efni sem og saman í einum hrærigraut. Miðaverð á tónleikana er 1000 kr og hefjast þeir á slaginu 22:00. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Oki Doki tóku á æfingu hjá tónlistarmönnunum á dögunum.
Fyrstu listamennirnir tilkynntir á Airwaves
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 12 listamenn sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Þeir erlendu listamenn sem tilkynntir voru eru; Gold Panda, Goat, Omar Souleyman, Fatima Al Qadiri, Anna Von Hausswolf og No Joy. Hátíðin tilkynnti einnig um sex íslenska listamenn; Hjaltalín, Pascal Pinon, Valdimar, Tilbury, Ojba Rasta og Momentum. Hægt er að nálgast upplýsingar um þessa listamenn á heimasíðu Iceland Airwaves.
Ný plata frá Nolo á netinu
Reykvíska hljómsveitin Nolo sendi í kvöld frá sér plötuna Human á Bandcamp síðu sinni. Á plötunni eru sjö nýleg lög og ein endurhljóðblöndun. Hlustið á plötuna hér.
Jón Þór með útgáfutónleika
Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður var söngvari og gítarleikari í hljómsveitunum Lödu Sport og Dynamo Fog mun halda útgáfutónleika fyrir sína fyrstu sólóplötu – Sérðu mig í lit? á Faktorý næsta föstudag. Platan er frábrugðin fyrri verkum Jóns á þann hátt að hún er öll sungin á íslensku. Ásamt Jóni mun reykvíska hljómsveitin Gang Related koma fram á tónleikunum sem hefjast á slaginu 23:00. Ýmsir hljóðfæraleikarar sem léku með Jóni Þór á plötunni munu einnig leiða fram krafta sína með honum þetta kvöld. Miðaverð er 1000 krónur og platan Sérðu mig í lit? verður til sölu á góðu verði. Hlustið á lagið Tímavél og horfið á viðtal sem áttum við Jón Þór fyrr í vetur hér að neðan.