Raftónlistarkvöld til heiðurs Biogen

Á næsta laugardag mun fara fram raftónlistarkvöld til minningar um raftónlistarmanninn Sigurbjörn Þorgrímsson sem var þekktastur undir listamannsnafninu Biogen. Kvöldið er haldið undir yfirskriftinni Babel, sem var minna þekkt listamannsnafn Sigurbjarnar sem lést fyrir tveimur árum. Kvöldið er haldið af Weirdcore samsteypunni í samstarfi við Möller forlagið á skemmtistaðnum Dolly frá klukkan 22:00 til 1:00 þann 23. febrúar en Sigurbjörn hefði orðið 38 ára á miðnætti það kvöld.

Þeir tónlistarmenn sem heiðra minningu Biogen þetta kvöldið eru Futuregrapher & Árni Vector, Tanya & Marlon, Bix, Agzilla, Thizone, Beatmakin Troopa og Skurken, ásamt því sem spilað verður viðtal við Biogen sem Hallur Örn Árnason tók á sínum tíma.

Sigurbjörn Þorgrímsson var einn af frumkvöðlum í íslensku dans- og raftónlistarsenunni. Hann var meðlimur í reifsveitinni Ajax og naut mikillar virðingar fyrir tónlist sína innanlands sem utan. Hann gaf út 3 plötur undir viðurnefninu Biogen ásamt því að gefa út plötuna ‘B-Sides The Code Of B-Haviour’ hjá Elektrolux forlaginu undir listamannsheitinu Babel.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *