Primavera Sound minnir á sig

Primavera sound er fimm daga tónleikahátíð sem er haldin í Barcelona á Spáni, í maí-mánuði á ári hverju. Hátíðin, sem var fyrst haldin árið 2001, er þekkt fyrir að vera með fjölbreytt úrval af tónlist, þó aðal fókusinn sé á rokk, elektró og hip hop. Á daginn fer hátíðin fram á mörgum sviðum í almenningsgarði í miðborg Barcelona sem nefnist Parc del Fòrum en eftir miðnætti taka við klúbbar í miðbænum. Hátíðinni mætti lýsa sem blöndu af Hróaskeldu og Iceland Airwaves. Tæplega 175 þúsund manns sækja hana á ári hverju. Hátíðin stendur yfir frá miðvikudegi alveg til sunnudags.

Miðvikudagur 27. maí

Fyrsti listamaðurinn sem ég sá á Primavera í ár var Albert Hammond gítarleikari The Strokes. Hammond, sem spilaði ásamt trommara, bassaleikara og fiðluleikara á strærsta sviði hátíðarinnar, framleiddi hágæða gítarsurg og var hápunktur tónleikanna þegar hann stóð á gítarnum og vaggaði sér fram og til baka til að ná sem mestu feedbakki.Eftir tónleika Hammond kom ég við á stærsta sviðinu þar sem 80s hetjurnar í Orchestral Manoeuvres in the Dark spiluðu á vel sóttum tónleikum. Eins góð og mér þykir þeirra síðasta plata þá heilluðu þeir mig ekki í þetta skiptið. Strax á eftir þeim var röðin kominn að Benjamin Booker sem spilaði á klúbb í grendinni sem nefnist BART, þar kom einnig fram Har Mar Superstar. Þetta voru frábærir tónleikar. Eftir að hafa spilað 45 sekúndur hófu hljómsveitarmeðlimir að rífast við dyraverði og úr varð stríð þeirra á milli. Þetta var gífurlega vandræðalegt og ég sá ekkert annað í stöðunni nema að yfirgefa svæðið.

Fimmtudagur 28. maí

Eitt af því skemmtilegasta við tónlistarhátíðir með óteljandi hljómsveitum er að ramba óvænt á eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt áður. Í gönguferð í leit að mat rákumst við inn á tónleika með Viet Cong sem stóðu fyrir sínu og áttu þrusu gott sett á Pitchfork sviðinu. Á tónleikunum hitti ég nokkrur bönd sem voru spennt fyrir að spila á sama sviði daginn eftir. Þá var runnin upp sú stund sem ég hafði beðið eftir, bandaríska rokksveitin The Replacements voru að fara að spila sína næst síðustu tónleika á Primavera-sviðinu. Þeir stóðu fyrir sínu og gott betur en það og fylltu vel upp í það skarð sem skildu eftir þegar þeir hættu árið 1991.

Það sem kom mér mest á óvart við þennan fyrsta dag á Primavera svæðinu var hversu auðvelt það reyndist að neyta áfengis á hátíðinni. Til þess að neyta áfengis þarf maður að fara í sértök tjöld á svæðinu sem selja það og þarf maður að drekka á staðnum. Maturinn á svæðinu þótti mér góður en hefði mátt vera fjölbreyttari.

Nú var röðin komin að Tyler the creator, sem er fyrir þá tónleikagesti sem vilja halda áfram eftir að tónleikunum lýkur. Fyrirkomulagið er á þann hátt að tónleikar eru haldnir í 3 klúbbum sem eru dreifðir um svæðið. Þetta er svona svipað og ef Iceland Airwaves væri haldið í Kópavogi, Skeifunni og í miðbæ Reykjavíkur. Allir þessir klúbbar eru frekar litlir og þess vegna þarf maður að vera snar í snúningum til þess að komast inn á þá. Ólíkt Iceland Airwaves getur maður ekki kíkt á tónleika í næsta nágrenni ef húsið er fullt. Fyrsta kvöldið stefndi ég á að sjá Chet Faker á tónleikum sem voru mjög öflugir. Þegar þanngað var komið beið mín röð sem minnti á það allra versta í sögu Iceland Airwaves og þó ég hefði blaðamannapassa var mér ekki veittur aðgangur. Það var því ekkert annað í stöðunni en að taka rölt á næstu tónleika sem tók um hálftíma. Ég fór á svið á miðju svæðinu sem hýsti James Blake, Jungle og fleiri og fór í rúmið sáttur.

Föstudagur 29. maí

New York  rokkarinn  og Strokes söngvarinn Julian Casablancas  hóf leikinn á föstudeginum á Primavera ásamt hljómsveit sinni The Voidz. Hljómsveitin gaf út hina furðulegu breiðskífu – Tyranny í fyrra. Tónleikar þeirra á hátíðinni voru misjafnir og voru þeir ekki klappaðir upp í ár. Strax á eftir þeim kom svo sjálf Patti Smith. Hún átti ekki síðri tónleika og sannaði það hún er ekki aðeins frábær sönkona heldur gítarleikari af guðs náð. Tobias Jesso Jr. spilaði svo á Pitchfork sviðinu og þeyttu flösu milli þess sem hann spilaði lög af hinni einstöku plötu Goon sem kom út í byrjun ársins. Belle & Sebastian spiluðu svo á ATP sviðinu, fluttu lög af öllum skífum sínum og gerðu það af stakri prýði. Næst á svið á eftir þeim voru riotgrrrl bandið Sleater Kinney. Tónleikar þeirra voru kraftmiklir og spiluðu þau lög frá eldri plötum í bland við nýtt. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar þær tóku þekkta slagara. Næst var það hin goðsagnkennda shoe-gaze band Ride sem áttu ágætis spretti. En ég fór svo aftur á Pitchfork sviðið þar sem Ariel Pink var með sitt leikhús í fullum gangi. Þá var röðin komin að Jon Hopkins en hann nýtti hljóðkerfi hátíðarinnar til hins ýtrasta, keyrði allt í botn svo þú fannst fyrir drungalegu tekknóinu með öllum líkamanum en ekki bara eyrunum. Klúbbastemmningin var allsráðandi og Hopkins stjórnaði dansandi skaranum eins og her af strengjabrúðum. Ratatat lauk svo kvöldinu með frábærum tónleikum sem innihéldu lög af nýjustu plötu þeirra – Magnifique sem kom út fyrr á þessu ári. Eftir þetta kvöld var ég mjög sáttur.

Laugardagur  30. maí

Eftir þriggja daga tónleikastand er maður orðinn pínu lúinn en ég náði þó að koma mér út úr húsi til að sjá kanadíska gítarpopparann Mac DeMarco á Heineken-sviðinu klukkan 20:00. Tónleikarnir voru hreinlega frábær skemmtun og skrifast það ekki síst á einstaka útgeislun og persónutöfra listamannsins. Tónlistin er undir talsverðum áhrifum frá svokölluðu pabbarokki úr ýmsum áttum, smá Springsteen og Fleetwood Mac, með háum og tærum gítarhljóm sem minnir talsvert á Dire Straits. Það eru samt fullt af vinstri beygjum í tónlistinni og Mac tók sig alls ekki alvarlega, tók oft örstuttar kover útgáfur af þekktum pabba-rokks lögum. Frábær byrjun á kvöldinu.

Næst voru það Foxygen, en tónleikar þeirra voru það slakir að best er að eyða ekki of mörgum 0rðum í þá. Interpol áttu góða spretti á Heineken en næst var það stundin sem flestir voru að bíða eftir, hljómsveitin The Strokes að spila á Primavera sviðinu. Engin hálftíma sóló, engar djúpar og ofur mínímalískar þagnir heldur hreint og beint, hávaðasamt og hressilegt rokk og ról. Fimmmenningarnir leðurklæddir í réttu stellingunum og Julian muldrandi milli laga rétt eins og nýstiginn úr Scorsesemynd. Áður en maður vissi var sveitin búin að renna sér í gegnum snilldina sem Is this it? og fleiri plötur. Snaggaraleg en skotheld efnisskrá frá 5 plötu sveit. Ég hjó eftir að áhorfendur voru á skemmtilega breiðu aldursskeiði, allt frá 15 upp í 45, og allir með á nótunum.

Underworld átti mjög góða tónleika og spilaði efni af öllum plötum sínum. Næst á dagskrá voru svo tónleikar Caribou. Caribou spilaði flest sín frægustu lög og einnig þau nýjustu. Eftir að Caribou lauk sér af dreif ég mig heim, sáttur eftir góðan dag á hátíðinni.

Sunnudagur 31. maí

Eftir 4 daga tónleikaveislu veiktist ég og missti því alveg af síðasta deginum sem fór fram á klúbbum rétt hjá tónleikasvæðinu.

Það sem stóð upp úr að mínu mati í ár var The Strokes, Mac DeMarco og The Replacements. Lítið var um vonbrigði þrátt fyrir að F0xygen hefði getað staðið sig betur..  Primavera-sound er ein af skemmtilegri hátíðum sem ég hef farið á og ég get auðveldlega mælt með henni fyrir alla tónlistaráhugamenn sem vilja upplifa þá stemmingu sem einkennir stórar tónlistarhátíðir og kosti þess að vera staðsettur í miðborg stórborgar. Að upplifa Primavera í fyrsta skiptið er samt ekki hægt að lýsa til fullnustu með neinum orðum, jafnvel ekki svona rosalega mörgum eins og ég hef reynt í þessari grein. Hátíðin er eins og önnur vídd þar sem stjórnlaus gleði ræður ríkjum sem fer þó aldrei úr böndunum. Þarna eru samankomnir tæplega 200.000 manns og það sást ekki vesen eða leiðindi á einum einasta. Þetta var mín fyrsta hátíð en verður svo sannarlega ekki sú síðasta.

Óli Dóri