Raftónlist með óperuívafi

Í gær þann 17. júní kom út platan Olympia sem er önnur breiðskífa kanadísku raf hljómsveitarinnar Austra. Bandið inniheldur þau Katie Stelmanis sem syngur og spilar á hljómborð,  bassaleikarann Dorian Wolf og Maya Postepski sem lemur skinn. Árið 2011 gaf Austra út frumraun sína Feel It Break við góðar viðtökur og fjölda tilnefninga til verðlauna. 

Mike Haliechuk úr  hljómsveitinni Fucked Up sá um upptökur á Olympia ásamt Damian Taylor sem vann með hljómsveitinni á fyrstu plötunni ásamt því að hafa unnið með t.d. Björk og Killers. Á nýju plötunni blandast saman léttleikandi danstónar og drungaleg svefnherbergistónlist og á hvort tveggja vel við kraftmikla rödd Katie Stelmanis. Hún er lærð óperusöngkona sem hikar ekki við að reyna á raddböndin og minnir helst á Florence Welch úr Florence and the Machine bæði hvað röddina og útlitið varðar. Gagnrýnendur sem hafa tjáð sig um Olympia eru flestir jákvæðir í garð plötunnar og telja margir hverjir hana framför frá Feel it Break. Textagerðin á plötunni er stundum ekki uppá marga fiska en Katie kemur þeim samt sem áður vel til skila og þeir ættu ekki að skemma áheyrnina fyrir neinum, það væri heldur umslagið sem gæti fælt einhverja frá.

-Daníel Pálsson


Toro Y Moi setur Billie Holiday í nýjan búning

Djass söngkonan Billie Holiday og tjillarinn Toro Y Moi eiga ekki margt sameiginlegt tónlistarlega séð en  sá síðarnefndi hefur nú séð til þess að svo sé.  Billie var ekkert sérstaklega afkastamikil á sínum ferli en „My man“ er eitt þeirra ódauðlegu laga sem hún skildi eftir sig þegar hún lést árið 1959, 44 ára gömul úr ofdrykkju. Toro Y Moi sem fyrr á þessu ári gaf út sína þriðju hlóðversplötu Anything in Return hefur nú í samstarfi við Verve Records gefið út remix af laginu „My Man“  og umbreytt því í sinn tjillbylgju stíl.

 

Tónleikar helgarinnar

Nú sem aðrar helgar er straum.is með heildarsýn á tónleika helgarinnar sem að þessu sinni er í lengri kantinum útaf þjóðhátíðardegi Íslands.

Föstudagur 14. júní

Ensími aflýstu hljómleikum sínum á tónlistarhamförunum Keflavík Music Festival síðustu helgi og ætla þess vegna að halda sárabótartónleika í kvöld klukkan 17:30 í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur í Síðumúla 20. Aðgangur er ókeypis og ekkert aldurstakmark.

Laugardagur 15. júní

Baráttutónleikar gegn niðurrifi tónleikastaðarins Nasa verða haldnir á Austurvelli klukkan 14:00. Listamennirnir sem koma fram eru: Ágústa Eva, Daníel Ágúst, Ellen Kristjáns, Högni Egilsson, Páll Óskar, Ragga Gísla, Raggi Bjarna og Valgeir Guðjónsson, Bryndís Halla Gylfadóttir, Eyþór Gunnarsson, Guðmundur Pétursson, Pétur Grétarsson, Róbert Þórhallsson og Sigrún Eðvaldsdóttir. Þá flytja Áshildur Haraldsdóttir frá Torfusamtökunum, Biggi Veira úr GusGus og Ragnar Kjartansson myndlistar- og tónlistarmaður ávörp.

Fyrsta árlega hjólreiðakeppni Kex Hostels og Kría Cycles hefst kl. 15. Stuttu áður mun Borgarstjóri vor, Jón Gnarr, vígja nýjan almenningsgarð í Vitahverfinu en garðurinn hefur fengið nafnið VItagarður. Eftir keppnina verður boðið upp á tónlist í garðinum þegar hljómsveitirnar Grísalappalísa og Bloodgroup koma þar fram.

Rafsveitin Bloodgroup slær upp hljómleikum á Faktorý. Sveitin sendi frá sér sína þriðju breiðskífu fyrr á þessu ári sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Tónleikarnir eru á efri hæð staðarins sem opnar klukkan 22:00 en tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Skúli mennski telur í blússandi blúsa, búgílög og nokkur vel valin aukalög ásamt Þungri byrði á Café Rosenberg. Hljómsveit skúla skipa Hjörtur Stephensen á gítar, Matthías Hemstock á trommur, Tómas Jónsson á rhodes-orgel, Valdimar Olgeirsson á bassa og Þorleifur Gaukur Davíðsson á munnhörpu. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Sunnudagur 16. júní

Ojba Rasta, Caterpillarmen, Babies og Love and Fog ætla sér að trylla allan þann lýð sem mætir á 30 ára afmælistónleika Rásar 2 og Gamla Gauksins sem fara fram á áðurnefndum Gauk. Aðgangseyrir er 1500 krónur, húsið opnar klukkan 22:00 og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður þeim varpað út beint á Rás 2.

Artwork úr hinni virtu dubstep hljómsveit Magnetic Man þeytir skífum á Faktorý ásamt landsliði íslenskra plötusnúða, svo sem Ewok, Kára og Bensol. Aðgangur er ókeypis og dansinn byrjar að duna um miðnæturbil.

 

30 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 30 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.  Listamennirnir eru: Midlake (US), Emiliana Torrini, FM Belfast, Girls In Hawaii (BE), Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Amiina, Moses Hightower, Sarah MacDougall (CA), Apparat Organ Quartet, Árstíðir, Royal Canoe (CA), Kiriyama Family, Skúli Sverrisson, Hermigervill, Sun Glitters (LU), Captain Fufanu, Sign, Stafrænn Hákon, Tempel (SE), Leaves, Endless Dark, Nóra, 1860, Dimma, Auxpan, Þórir Georg, Emmsjé Gauti, Kjurr og Nini Wilson!

Kveikur komin á netið

Þó svo nýjasta plata Sigur Rósar Kveikur komi ekki út fyrr en á þjóðhátíðardegi Íslendinga hafa þeir Jónsi, Georg Hólm og Orri Páll leyft aðdáendum að taka smá forsmekk á sæluna og sett plötuna í heild sinni á vef Amazon til hlustunar. 16 ár eru liðin síðan fyrsta breiðskífa Sigur Rósar Von kom út en í fyrra sendi bandið frá sér Valtara og bæta þeir nú sjöundu plötunni safnið. Kveikur er fyrsta platan sem Sigur Rós gefur út undir merkjum XL Recordings þó svo XL hafi reyndar eitthvað komið að útgáfu Með suð í eyrum spilum við endalaust en Sigur Rós sleit upp samstarfi við EMI í fyrra. Kjartan Sveinsson kvaddi einnig hljómsveitina í fyrra og er þetta í fyrta skiptið sem Sigur Rós gefur út plötu sem tríó síðan Von kom út.
Kveikur inniheldur 9 lög og nú þegar hafa birst myndbönd við lögin „Ísjaki“, „Brennisteinn“ og nú síðast þann 6. júní bættu þeir við athyglisverðu sjónarspili við titillag plötunnar. Meðlimir sáu sjálfir um upptökur og hafa lýst afrakstrinum sem ágengara efni en áður hefur heyrst frá hljómsveitinni. Plötunni verður svo fylgt vel eftir og eru tónleikar víða um Evrópu á döfinni nú í súmar.

Hlustið á Kveik hér

-Daníel Pálsson

Empire of the Sun dreifir dansvænum tónum

Ástralski rafdúettinn Empire of the Sun hefur nú sleppt frá sér fleiri lögum af komandi plötu Ice on the Dune sem kemur út 14. júní. Luke Steele og Nick Littlemore gerðu aðdáendum kleift að streyma plötuna nú á dögunum og hafa lögin „DNA“ og titillagið bæst í hópinn með „Alive“ og verið gerð aðgengileg hlustunar þó svo sjóræningjar um víða veröld séu þegar farnir að gæða sér á gripnum í heild sinni.
Aðdáendur hljómsveitarinnar hafa beðið óþreyjufullir eftir nýju efni síðan fyrsta plata sveitarinnar Walking on a Dream kom út árið 2008. Hún hlaut mjög góðar viðtökur, innihélt fimm smáskífur og fékk fjölda verðlauna. Þrátt fyrir góðar viðtökur vildu félagarnir í Empire of the Sun gera enn betur með nýju plötunni og fengu til liðs við sem menn sem hafa raðið inn lögum á topplista og ber helst að nefna Mark „Spike“ Stent sem hefur t.d. unnið með Madonnu, Lady Gaga, U2 og Björk. Markmiðið hjá Luke og Nick var að búa til góða plötu en ekki afsala öllu því sem fólk elskaði svo mikið við fyrstu plötuna. “Fólk verður að muna að veitingastaður getur misst kúnna með því að gleyma hvað fólk elskaði við staðinn fyrst þegar það kom sem við vildum  ekki“ sögðu þeir í samtali við Rolling Stone.
Ice on the Dune hefur að geyma 12 lög sem nánast öll hafa burði til að koma út sem smáskífur og gætu fengið ólíklegasta fólk til að dilla sér. Hvort grímuklæddu félagarnir nái að toppa frumburðinn með útgáfu þessarar plötu skal látið ósagt að svo stöddu en það er nokkuð greinilegt að að hér er á ferðinni ein af plötum sumarsins og þessir fersku synthapop/ambiant tónar framtíðarinnar munu eiga vel við í „blíðunni“.

-Daníel Pálsson

Útgáfutónleikar Sin Fang

Íslenska hljómsveitin Sin Fang með Sindra Má Sigfússyni fremstan í flokki heldur útgáfutónleika vegna plötunnar Flowers í Iðnó á morgun kl. 21:00. Um upphitun sjá sigurvegarar músíktilrauna í ár Vök , en þau voru einmitt að skrifa undir útgáfusamning við Record Records. Miðasala á tónleikana er á midi.is eins verður hægt að kaupa miða við hurðina, meðan húsrúm leyfir. 

Sin Fang hefur verið iðinn undanfarnar vikur en hljómsveitin er nýkomin heim úr þriggja vikna tónleikaferð um Þýskaland. Hljómsveitin sendi einnig nýlega frá sér myndband við lagið What’s Wrong With Your Eyes en lagið er að finna á breiðskífunni Flowers. Myndbandinu var leikstýrt af Mána Sigfússyni

mynd: Ingibjörg Birgisdóttir

Straumur 10. júní 2013

Í Straumi í kvöld förum við yfir nýtt efni frá Sigur Rós, Surfer Blood, Boards Of Canada, Camera Obscura, XXYYXX og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977.

Straumur 10. júní 2013 by Olidori on Mixcloud

1) Gemini – Boards Of Canada
2) Pay Attention – XXYYXX
3) Cold Earth – Boards Of Canada
4) Nothing is Real – Boards Of Canada
5) Slasherr (Flume edit) – Rustie
6) Airglow Fires – Lone
7) Tennis Coart – Lorde
8) I Love You (ft. Angel Haze) – Woodkid
9) Gravity – Surfer Blood
10) Say Yes To Me – Surfer Blood
11) This Is Love (feels alright) – Camera Obscura
12) Troublemaker – Camera Obscura
13) Stormur – Sigur Rós
14) Rafstraumur – Sigur Rós
15) Into The Sun – CSS
16) The Bride – Toy & Natasha Khan

 

 

Surfer Blood hafa gert nýju plötuna sína aðgengilega á netinu

Brim rokkararnir í Surfer Blood hafa smellt nýjasta afreki sínu plötunni Pythons inn á netið og  er hægt að hlusta á öll 10 lögin í heild sinni. Hljómsveitin var stofnuð árið 2009 inniheldur John Paul Pitts sem syngur og spilar á gítar, Thomas Fekete á gítar, Kevin Williams á bassa og Tyler Schwarz á trommur. Þetta er annað albúm Surfer Blood sem gáfu út frumburð sinn Astrocoast árið 2010 við góðar undirtektir. Upptökur á Pythons tóku heilar átta vikur var það Gil Norton sem sá um upptökur en hann hefur m.a. unnið með Foo Fighters og Pixies og Maximo Park. Meðlimir sveitarinnar voru mjög ánægðir að fá Norton til liðs við sig og sagði Thomas Fakete í samtali við Rolling Stone að hann mætti segja hvað sem er og gagnrýna það sem hann vill, við virðum það sem hann hefur að segja.
Pythons virðist innihalda aðeins aðgengilegri og ekki jafn hrátt og tilraunakennt lo-fi sem einkenndi fyrstu plötu sveitarinnar, sitt sýnist hverjum um þá þróun og finna má á köflum smá fnyk af dönnuðu háskólarokki. Pythons kemur í svo verslanir á þriðjudaginn 11. þessa mánaðar en fyrr á þessu ári hafði bandið látið frá sér lagið „Weird Shapes“.

Hér er hægt að nálgast plötuna.

http://www.npr.org/2013/06/02/187278374/first-listen-surfer-blood-pythons?sc=fb&cc=fmp

-Daníel Pálsson

Tónleikar helgarinnar

Föstudagur 7. júní 

 

Á Kaffistofunni á Hverfisgötu munu ólíkir tónlistarmenn úr jaðri íslensks tónlistarlífs, ásamt vídjólistamönnum, framkalla einstakan bræðing bjagaðra tóna og sjónræns áreitis með það að markmiði að skapa upplifun ólíka þeirri sem íslenskir tónleikagestir eiga að venjast. Fram koma Pink Street Boys, Knife Fights, Lord Pusswhip (feat. $ardu aka Svarti Laxness & DJ vRONG), $H∆MAN $H∆WARMA og Gervisykur.

 

Sykur spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti. 

 

Laugardagur 8. júní

 

Noise spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti.

 

Ungir umhverfissinnar standa fyrir tónleikum á Loft Hostel með hljómsveitunum Axel Flóvent, Hljómsveitt, Macaya og Nolo. Það kostar ekkert inn, en tekið verður á móti frjálsum framlögum á staðnum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.