Nýtt lag frá Ojba Rasta

Íslenska reggí hljómsveitin Ojba Rasta sendi á dögunum frá sér lagið Hreppstjórinn sem verður að finna á væntanlegri plötu sveitarinnar. Lagið er eftir Teit Magnússon hljómsveitarmeðlim en texti lagsins  á sér tvær uppsprettur báðar frá 19. öld; annars vegar er erindið brot úr Bragnum um Þorstein á Skipalóni, hins vegar eru viðlögin tvö erindi úr ljóði eftir Kristján Jónsson Fjallaskáld. Textinn var síðan mótaður og túlkaður af höfundi og flytjanda lagsins. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Dream Central Station sjónvarpsviðtal

Við hittum þau Hallberg Daða Hallbergsson og Elsu Maríu Blöndal forsprakka hljómsveitarinnar Dream Central Station á heimili Hallbergs fyrir stuttu. Hallberg var áður í hljómsveitinni Jakobínarína og Elsa María í Go-Go Darkness. Þau tóku órafmagnaða útgáfu af einu lagi og sögðu okkur m.a. frá  sögu sveitarinnar, Berlín og tónleikahaldi hér á landi.

Útgáfutónleikar My Bubba & Mi

Nýkántrí hljómsveitin My Bubba & Mi mun halda tvenna útgáfutónleika vegna útgáfu plötunnar Wild & You, sem kom út á vegum Kimi Records fyrir stuttu. Þeir fyrri verða á Græna Hattinum fimmtudaginn 30. ágúst kl. 21 og þeir seinni í Norræna húsinu laugardaginn 1. september kl. 21. Tónlistarkonan Sóley mun koma fram með My Bubba & Mi á báðum tónleikum.

Wild & You er stuttskífa og inniheldur 5 lög eftir þær My Larsdotter frá Svíþjóð og Guðbjörgu Tómasdóttur frá Íslandi. Þær hafa starfað saman sem My Bubba & Mi undanfarin 4 ár og hafa áður gefið út breiðskífuna How It’s Done in Italy. Hlustið á lagið Wild & You hér fyrir neðan.

Heimildarmynd um Sudden Weather Change

Á næsta fimmtudag klukkan 22:00 verður frumsýnd í Bíó Paradís heimildarmynd um íslensku hljómsveitina Sudden Weather Change.  Myndin ber nafnið Ljóðræn Heimildarmynd og er eftir söngvara og gítarleikara sveitarinnar Loga Höskuldsson, sem fylgdist með árángri hljómsveitarinnar eftir að hún vann Björtustu Vonina á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2009. Myndin  inniheldur m.a. innskot frá stuttum evróputúr, upptökum á nýju efni ásamt því að hljómsveitarmeðlimir bregða gjarnir á leik í nokkrum atriðum hennar. Aðgangur að viðburðinn er ókeypis. Eftir sýningu myndarinnar mun hljómsveitin OYAMA troða upp í bíósalnum. Kvöldið er fimmta kvöldið í röð fastakvölda á fimmtudögum í Bíó Paradís, þar sem boðið verður upp á fjölbreytt úrval tóna og takta, fyrir bíó- og tónleikaþyrsta gesti. Horfið á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan.

Nýtt myndband með Tilbury

Hljómsveitin Tilbury sendi í gær frá sér sitt annað myndband af sinni fyrstu plötu Exorcise sem kom út í vor. Myndbandið við lagið Drama sýnir andsetna garðveislu og  er  kvikmyndað í einu skoti. Því er  leikstýrt af Helga Jóhannssyni og framleitt af Atla Viðari Þorsteinssyni. Tilbury mun spila á tíu ára afmæli Innipúkans, sem fram fer um Verslunarmannahelgina. Hljómsveitin fer á svið klukkan 2:00 á laugardagskvöldinu í Iðnó. Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir neðan.

Bombay Bicycle Club Remixa Of Monsters and Men

Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men sendi í dag frá sér endurhljóðblöndun af lagi sínu Little Talks sem breska hljómsveitin Bombay Bicycle Club gerði. Lagið er talsvert breytt frá upprunalegu útgáfunni. Hlustið á það hér fyrir neðan.

 

DREΛMCΛST

Hinn 18 ára gamli raftónlistarmaður Sigurður Ýmir Kristjánsson, sem hefur tekið upp tónlist undir listamannsnafninu DREΛMCΛST um nokkurt skeið, sendi á dögunum frá sér lagið Floral Bloom á Soundcloud síðu sinni. Tónlist DREΛMCΛST má skilgreina sem draumkennt rafpopp undir áhrifum frá erlendum listamönnum líkt og Neon Indian, Toro Y Moi og Washed Out. Lagið Floral Bloom er hér fyrir neðan auk lagsins Lost Dreams sem DREΛMCΛST sendi frá sér í fyrra sumar.

Smáskífa frá Borko

Reykvíski tónlistarmaðurinn Borko sendir í dag frá sér lagið Born to be Free. Lagið er titillag væntanlegrar breiðskífu og verður fáanlegt á tónlistarveitunni Gogoyoko í dag og á öðrum rafrænum tónlistarveitum í kjölfarið. “B-hlið” smáskífunnar inniheldur endurhljóðblöndun af laginu eftir raftónlistarmanninn Hermigervil. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan, auk endurhljóðblöndunnar.

Born to be Free (single version)


Born to be Free (Hermigervill Remix)