3. desember: Jesús Jólasveinn – Gang Related

 

Fyrir jólin 2011 sendi reykvíska rokksveitin Gang Related frá sér jólalagið Jesús Jólasveinn. Lagið sem er sungið til Jesús, fjallar um mann sem er með flest allt á hornum sér sem snýr að jólunum, og kallar Jesús jólasvein. Ljóst er að jólin eru ekki allra. Myndbandið sem var gert af hljómsveitinni er stórskemmtilegt.

Airwaves yfirheyrslan – Helgi Gang Related

Helgi Pétur Hannesson trommari hefur spilað með hinum ýmsu hljómsveitum á Iceland Airwaves frá árinu 2003. Í ár spilar Helgi með Gang Related og Þóri Georg. Við ræddum við Helga um reynslu hans af hátíðinni.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég spilaði fyrst árið 2003 með hljómsveitinni Dáðadrengir, það var alveg ótrúlega gaman. Ég hafði aldrei farið áður, nema bara á staka tónleika, þannig að þetta var allt saman mjög nýtt og spennandi og maður var mjög þakklátur og spenntur fyrir að fá að spila. En ég man satt að segja eftir fáu sem ég sá það árið eða hvernig tónleikar okkar dáðadrengja tókust

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað? 

Ég er búinn að spila á öllum hátíðum síðan þá, þannig að þetta verður mín ellefta í ár


Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Tv on the radio á gauknum, 2003 líklega, það eru ennþá eftirminnilegustu og bestu tónleikar sem ég hef séð á airwaves. !!! voru líka veeel trylltir

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur? 

Lokatónleikar dáðadrengja á gauknum 2005. Það var mjög skrítið allt saman


Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir hvernig hátíðin hefur breyst, aðal breytingin hefur líklega átt sér stað hjá mér sjálfum. Ég er orðinn eldri, latari og leiðinlegri og er eiginlega hættur að setja á mig pressu um að þurfa að sjá allt það sem mig langar til að sjá (nema í ár!). Ef það er löng röð á stað sem mig langar á þá fer ég yfirleitt bara á aðra staði og tjekka á random böndum. Það er alltaf næs að detta inn á einhverja góða hljómsveit sem maður hefur aldrei heyrt í áður. En auðvitað lætur maður sig hafa það að tjilla í röð fyrir einhverja snilld

 

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Grand Rokk/Faktorý var alltaf í miklu uppáhaldi

 

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Dirty Projectors

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent? 

Það er alveg ótrúlega mikið að góðum böndum/tónlistarmönnum í ár. Ég er spenntastur fyrir Fucked up, Mac DeMarco, Metz og Goat

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

Frekar mikla held ég. Airwaves er í rauninni svona árleg vítamínsprauta fyrir hljómsveitir, þeas þær hljómsveitir sem spila á hátíðinni

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Í fyrra spilaði ég 8 eða 9 sinnum, það er mitt persónulega met. Met sem ég hyggst ekki slá neitt á næstunni

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

2003 og eflaust 2013

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Kraftwerk

 

Listasafnið eða Harpa?

Listasafnið

 

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

GANG RELATED: Gaukurinn, föst, kl 20.  / Amsterdam, sun, kl 21 / Bar11, fim, kl 18:30 (off-venue)

ÞÓRIR GEORG: Amsterdam, fim, kl 22:30.

MORÐINGJARNIR: bar11, lau, kl 16:30 (off-venue)

 

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

*písmerki*

Jón Þór með útgáfutónleika

Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður var söngvari og gítarleikari í hljómsveitunum Lödu Sport og Dynamo Fog mun halda útgáfutónleika fyrir sína fyrstu sólóplötu – Sérðu mig í lit? á Faktorý næsta föstudag. Platan er frábrugðin fyrri verkum Jóns á þann hátt að hún er öll sungin á  íslensku.  Ásamt Jóni mun reykvíska hljómsveitin Gang Related koma fram á tónleikunum sem hefjast á slaginu 23:00.  Ýmsir hljóðfæraleikarar sem léku með Jóni Þór á plötunni munu einnig leiða fram krafta sína með honum þetta kvöld. Miðaverð er 1000 krónur og platan Sérðu mig í lit? verður til sölu á góðu verði. Hlustið á lagið Tímavél og horfið á viðtal sem áttum við Jón Þór fyrr í vetur hér að neðan.


Annar í Airwaves

Mynd: Iona Sjöfn

Ég hóf annað kvöld Airwaves á Kex Hostel þar sem tvær Hip Hop sveitir frá Seattle lögðu saman krafta sína. Shabazz Palaces er verkefni Ishmael Butler, sem var forsprakki rappsveitarinnar Digable Planets í byrjun tíunda áratugarins og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá undirrituðum. Í Shabazz Palaces rær hann þó á tilraunakenndari mið með bassaþungum og draugalegum hljóðheimi og afar pólitískum textum. Hann kom fram ásamt trommara og kvennarappsveitinni Theesatifaction. Tónleikarnir voru um margt góðir en aðstæður á Kex Hostel eru þó ekki til fyrirmyndar, ekkert svið er til staðar svo það er nánast ómögulegt að sjá hljómsveitina.

Hressilegt powerpopp

Eftir að hafa sett batteríin í hleðslu með bjórsötri í heimahúsi hélt ég niður í Hafnarhúsið að sjá bandarísku indísveitina Phantogram. Þau voru einungis þrjú á sviðinu en hljóðheimurinn var í engu samræmi við fjöldann. Hljómsveitin spilar nokkurs konar maximalískt powerpopp með hip hop áhrifum og þau náðu upp mjög góðri stemmningu í pökkuðu listasafninu. Eftir að þau höfðu lokið sér af rölti ég yfir á Amsterdam og fylgdist með Gang Related sem voru í rokna rokkstuði. Hljóðið var frábært og letilegt slakker-rokkið var flutt af strákslegri gleði sem skein af hverju riffi.

Upplýstar trommur

Þvínæst rölti ég yfir götuna á Þýska barinn og náði þremur lögum með rapparanum Gísla Pálma. Það er hægt að nota mörg orð um Gísla Pálma en hefðbundið er ekki eitt af þeim. Mér finnst eins og hann sé ekki alvöru persóna heldur karakter úr bíómynd eftir Todd Solondz eða Harmony Korine. Það er alltaf upplifun að sjá hann á sviði og hann rappaði af guðs náð og áhorfendur hreinlega átu stemmninguna úr lófa hans. Þá var haldið aftur í Hafnarhúsið til að sjá hæpaðasta band kvöldsins, Purity Ring. Þau voru tvö á sviðinu, söngkona og græjukall, og fluttu framsækið tölvupopp af miklu öryggi. Sérstaklega skemmtilegt voru einhvers konar lampatrommur, sem að hljómuðu eins og stáltrommur og lýstust upp þegar barið var á þær. Tónleikarnir voru frambærilegir en stóðu kannski ekki alveg undir hæpinu og stemmningin var líflegri hjá Phantogram.

Skipulögð óreiða

Eftir að Purity Ring höfðu lokið sér af fór ég ásamt góðum hópi íslendinga og Kanadabúa yfir á Iðnó til að sjá listamanninn Doldrums frá Montreal. Tónlistin sem hann framreiddi var alveg dásamlega skipulögð óreiða. Hann kom fram ásamt trommuleikara og græjugellu en sjálfur sá hann um söng og óheyrilegt magn af tólum og tækjum, þar á meðal plötuspilara. Söngröddin hans var kraftmikil og afskaplega kvenleg og hann dansaði um sviðið og djöflaðist í græjum milli þess sem hann söng af innlifun og sveiflaði hljóðnemanum í allar áttir. Frábær lokapunktur á öðrum í Airwaves og hressasta atriðið hingað til.

 

Davíð Roach Gunnarsson

1. í Airwaves – Straumur fer á flakk

Mynd: Alexander Matukhno

Það er alltaf mikil eftirvænting í loftinu fyrsta dag Airwaves hátíðarinnar og í ár var engin undantekning. Það er legið yfir útkrotuðum dagskrám og reynt að merkja við hljómsveitir sem maður er spenntur fyrir, skoða árekstra, og gá hvort að hægt sé að bæta þá upp með off-venue dagskránni. Fyrsta kvöldið voru nánast engin erlend bönd að spila en fréttaritari straums fór á gott flakk milli íslenskra hljómsveita þrátt fyrir nístingskuldann úti.

 

Leikurinn hófst á Kaffibarnum þar sem Gang Related höfðu komið sér fyrir úti í horni og sörf-rokkuðu fyrir bjórþyrsta hipstertúrista af mikilli innlifun. Reffileg riff og hressilegur samsöngur strákanna slógu góðan upptakt fyrir hátíðina og mér tókst að gleyma síberíska veðrinu úti og kúpla mig í rétta Airwaves-gírinn. Á eftir þeim tók stórsveitin Útidúr við með sitt hádramatíska indí popp. Þau léku mikið af nýju efni sem margt var undir sterkum áhrifum frá spagettívestratónlist Ennio Morricone, og tveir trompetleikarar sveitarinnar fóru á kostum.

Flæðandi fönk og seiðandi sveimur

Ég hafði hvorki séð né heyrt af bandinu Funk that shit! fyrir hátíðina en það var eitthvað við titilinn sem kallaði í mig svo ég hoppaði upp á hjólið og brunaði niður á Amsterdam. Á sviðinu voru þrír skjannahvítir strákar um tvítugt að fönka eins þeir væru að leika undir blaxplotation mynd frá 1972. Verkfærin voru gítar, bassi og trommur og þrátt fyrir að frumleikinn hafi ekki beint verið í fyrirrúmi var þetta afskaplega vandað og mikil flugeldasýning í hljóðfæraleik og sólóum. Þá hélt ég aftur upp eftir til að sjá raftónlistarmanninn Prince Valium spila á efri hæð Faktorý. Hann sat á bak við tölvu og mixer og uppsetningin var ekki mikið fyrir augun. Tónlistin var hins vegar gullfalleg; draumkennt, melódískt og seiðandi Ambíent sem er án efa gott að láta gæla við hljóðhimnurnar í góðum heyrnartólum.

Jakob Fusion Magnússon

Næst var förinni haldið í Hörpuna að sjá reggísveitina Ojba Rasta. Hún er að mínu mati eitt fremsta tónleikaband Íslands í dag og stóð svo sannarlega fyrir sínu í Silfurbergi í gær. Mikil orka og einlæg spilagleðin skein af þeim og undirritaður hefur sjaldan ef nokkurn tímann heyrt þau spila í jafn góðu hljóðkerfi. Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég frá að hverfa í hljóðver X-ins til að ræða hátíðina í útvarpsarmi Straums. Eftir það var haldið aftur í Hörpuna til að sjá Jack Magnet Quintet-inn hans Jakobs Frímanns. Hann bauð upp á fusion djass með afrískum áhrifum með einvalaliði hljóðfæraleikara en Bryndís dóttir hans sá um söng.

Fer vel af stað

Lokaatriði kvöldsins voru svo Retro Stefson í Silfurbergi og þau tóku salinn með trompi. Þau spiluðu nánast einungi efni af nýútkominni plötu sem er samnefnd sveitinni og nutu aðstoðar Hermigervils á svuntuþeysurum, Sigtryggs Baldurssonar á áslætti og Sigríðar Thorlacios í bakröddum. Stuðstuðullinn var feikilega hár og náði hámarki í danskeppni sem Unnsteinn stjórnaði í lok tónleikanna.

 

Heilt yfir var fyrsta kvöld hátíðarinnar vel heppnað þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið álíka hátt og í Alaska. Þá er mikill missir af Nasa en margar sterkustu Airwaves minningar mínar eru þaðan og stemmningin í Hörpunni er einfaldlega ekki sú sama. Silfurberg er þó ágætis sárabót og um margt góður salur, sérstaklega þegar kemur að hljómburði og ljósabúnaði.

Davíð Roach Gunnarsson