Straumur 31. ágúst 2015

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Small Black, Percussions, Protomartyr, Dreamcrusher, Toro y Moi, Tropic Of Cancer og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 31. ágúst 2015 by Straumur on Mixcloud

1) No One Wants It To Happen To You – Small Black
2) Digital Arpeggios – Percussions
3) Tilted (Paradis remix) – Christine and the Queens
4) Soul Traveling – ASO
5) Dope Cloud – Protomartyr
6) Orah – John Roberts
7) Intro – Sumar Stelpur
8) Girlfriend for the Summer – Sumar Stelpur
9) West Coast – FIDLAR
10) Adore – Dreamcrusher
11) Power Of Now – Toro y Moi
12) bytheneck – Toro y Moi
13) You’re So Cool – Nicole Dollanganger
14) I Woke Up And The Storm Was Over – Tropic Of Cancer

 

Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tónlistarmarkaður – Bernhöfts Bazaars

Bernhöfts Bazaar er nýr og skemmtilegur fjölþema útimarkaður sem haldinn verður á laugardögum frá 20 júní – 25 júlí á Bernhöftstorfu, horni Bankastrætis og Lækjargötu. Fyrsti markaður sumarsins snýr að tónlist og fer hann fram laugardaginn 20 júní frá klukkan kl 13 – 18.

Tónlistarunnendur, útgáfufyrirtæki og listamenn munu bjóða uppá breitt safn af tónlistartengdum varningi, nýútgefnu efni, vínylplötum, geisladiskum og kassettum fyrir alla aldurshópa. Veitingarstaðurinn Torfan verður á svæðinu og selur svalandi veitingar fyrir fjölskylduna, DJ Óli Dóri þeytir skífum og tónlistarfólk spilar.

https://www.facebook.com/events/578058362331947/

Tónleikar helgarinnar 5. – 6. júní

Föstudagur 5. júní

Tónlistarmennirnir Helgi Valur, Ósk og Brynja koma fram á Sumargleði Bíó Paradís klukkan 17:00.

Tónlistarmaðurinn Onsen öðru nafni Trevor Welch heldur útgáfutónleika í Mengi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 2000 kr inn.
The Bangoura Band, Unnur Sara, Caterpillarmen og Mc Bjór og Bland halda tónleika á Gauknum. Ókeypis inn og hefjast tónleikarnir á slaginu 23:00.
Laugardagur 6. júní

DJ Flugvél og Geimskip kemur fram í Reykjavík Record Shop klukkan 16:00 í tilefni af útgáfu nýjustu plötu sinnar Hafsbotninn.

Skemmtistaðurinn Húrra fagnar 1. árs afmæli með stuðveislu sem hefst klukkan 18:00. Saga Garðarsdóttir, loldrottning Íslands, mun fara með gamanmál. Milkywhale, nýtt verkefni Árna Rúnars Hlöðverssonar úr FM Belfast og Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur frumflytja sitt stöff og svo mun Babies Flokkurinn tjúlla kosmósið með sínu þrumustuði langt fram á kvöld þar til DJ Óli Dóri tekur við og pakkar þessu saman.

Tónleikahelgin 21.-24. maí

Fimmtudagur 21. maí

 

Sveinn Guðmundsson, slowsteps og Four Leaves Left verða með akústíska tónleika á Dillon. Það er frítt inn og tónleikarnir byrja 22:00.

 

Föstudagur 22. maí

 

Pink Street Boys fagna útgáfu plötunnar HITS #1 á kaffistofu nemendagallerýs Listaháskólans á Hverfisgötu. Ásamt þeim koma fram Singapore Sling, russian.girls, Godchilla og Seint. Aðgangseyrir er 1000 krónur og veislan byrjar klukkan 21:00. Þeir sem hyggjast neyta áfengra veiga meðan tónleikunum stendur er bent á að koma með þær að heiman.

 

Hljómsveitin Ylja og tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon ásamt hljómsveit blása til tónleikaveislu á Cafe Rósenberg. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja klukkan 22:00.

 

Laugardagur 23. maí

 

Tónleikar til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Nepal verða á Gamla Gauknum. Fram koma í þessari röð: Meistarar dauðans, Daníel Hjálmtýsson, DJ Smutty Smiff, Art Show/Auction, Greyhound, The 59’s, Q4U, Dikta, Kontinuum og Esja. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir byrja 17:00.

 

Í Mengi verða flutt sex verk eftir Báru Gísladóttur fyrir klarínettu, kontrabassa, saxafón og rafhljóð. Miðaverð er 3000 krónur og flutningurinn hefst 21:00

 

Sunnudagur 24. maí

 

Hilmar Jensson leikur spunakennd verk í Mengi ásamt bandaríska djasstrommaranum Jim Black og norska bassaleikaranum Jo Berger Myhre. Miðaverð er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 21:00.

Tónleikar helgarinnar 22. – 26. apríl 2015

Miðvikudagur 22. apríl

Hafnfirðingar kveðja veturinn og bjóða fólki heim til sín í tónleikaveislu í kvöld. Tónlistarhátíðin HEIMA verður haldin í annað sinn og spila 13 hljómsveitir/listamenn í 13 HEIMA-húsum í miðbæ Hafnarfjarðar: Eivör Pálsdóttir ásamt hljómsveit, KK, Lúðrasveit Þorlákshafnar ásamt leynigesti, Berndsen, Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson, Dimma, Herbert Guðmundsson og Hjörtur Howser, Jens Hansson, Janis Carol, Langi Seli og Skuggarnir, Jón Jónsson og Friðrik Dór, Margrét Eir og Thin Jim, Emmsjé Gauti & Agent Fresco, Ragga Gísla & Helgi Svavar, Kiriyama Family

 

 

Holy Hrafn, Alvia Islandia, Átrúnaðargoðin, Þriðja Hæðin og Shades of Reykjavík koma fram á Húrra. Það kostar 1000 kr inn og tónleikarnir byrja á slaginu 20:00
Lágtíðin og Secret Solstice kynna Secret Solstice 2015 launch party á Palóma.
Uppi:
22:30 – 23:30 // KSF
23:30 – 24:00 // Alvia Islandia
24:00 – 01:00 // Gervisykur
01:00 – 01:20 // GKR
01:20 – 02:00 // Gísli Pálmi
02:00 – 03:00 // Shades of Reykjavik
03:00 – 04:30 // Árni Kocoon

Niðri:
23:00 – 01:00 // Ómar Borg
01:00 – 02:00 // DJ Yamaho
02:00 – 03:40 // Skeng b2b Tandri
03:40 – 04:30 // Hidden People

 

 

Fimmtudagur 23. apríl

Unnur Sara og Teitur Magnússon koma fram á Rósenberg. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar 1500 kr inn og 1000 kr fyrir námsmenn.

 

Guðmundur Herbertsson kemur fram á Hlemmur Square. Tónleikarnir byrja klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 
Föstudagur 24. apríl
Reykjavík Grapevine og Húrra kynna: Langtframánótt hip hop partý með nokkrum helstu öðlingum þess geira á Húrra. Bent, Gísli Pálmi & Emmsjé Gauti manna mæka, meðan sjálfur Logi Pedro skaffar beatz+vibez. Fjölmargir, handvaldir gesta MCs og performers bregða á leik. Logi leikur til lokunar. Miðaverð: 1500 kr og byrjar kvöldið klukkan 23:00

 
Mr. Silla og Teitur halda tónleikar á Loft Hostel. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

Pungsig og Elín Helena spila á Bar 11. Leikar hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

 

Laugardagur 25. apríl

Pink Street Boys og norska hljómsveitin The Wednesdays Knights munu trođa upp á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn.

Sunnudagur 26. apríl

Hljómsveitin Hugar halda sína fyrstu tónleika í Gym & Tonic á Kex Hostel. Tónleikarnir verða einskonar útgáfutónleikar þeirra fyrstu plötu sem kom út sumarið 2014 en þó verða leikin ný lög í bland við efni plötunnar. Tónleikarnir hefjast tímanlega kl. 20:30 og er aðgangur ókeypis. Eftir tónleikana verður síðan frír bjór á barnum á meðan birgðir endast.

Jón Þór – Stelpur

Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður gerði garðinn frægan í hljómsveitum á borð við Isidor, Lödu Sport og Dynamo Fog gaf út nýtt lag í dag að nafninu Stelpur. Jón gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2012 og fylgir henni hér eftir með þessu lagi. Lagið er að okkar mati eitt af hressari lögum sem komið hefur út hér á landi í langan tíma.

Sónarskoðun #3: Hvítt fönk, dubstep og djöfulgangur

 

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Ég mætti rúmlega 9 í Silfurberg til að sjá sænsku táningarappsveitinn Young Lean and the Sad Boys. Þeir spiluðu nokkurs konar átótjúnað emo-rapp, og ég meina það ekki á neikvæðan hátt. Þvínæst sá ég japanska stelpnatríóið Nisennenmondai. Þær spiluðu á bassa, trommur og gítar og framkölluðu dáleiðandi mínímalíska tekknótónlist þar sem taktföst endurtekningin hamraði sér leið inn í undirmeðvitundina.

Nisennenmondai

Þær virtust algjörlega í leiðslu og stemmningin var eins og týndi hlekkurinn milli frumstæðra ættbálkaathafna og nútíma tekknóklúbba. Stelpan á trommunum hélt úti mekanískri keyrslu allan tímann og missti ekki úr slag, og úr gítarnum komu hljóð sem minntu sitt á hvað á bílvél eða draugagang. Eftir svona hálftíma var ég samt farinn að þrá smávægilega tilbreytingu, það sem gerði þetta kúl var naumhyggjan og endurtekningin en það vantaði bara eitthvað pínu ponsu meira; þetta var einum of einsleitt en næstum því frábært.

reyan_hems2

Plötusnúðurinn Ryan Hemsworth spilaði léttari tónlist en margir aðrir plötusnúðar á hátíðinni en hann bauð upp á fjölbreytta blöndu af Hip Hop, R’n’B og poppuðu Dub Step og jók tempóið eftir því sem leið á settið. Næst á dagskrá var hinn breski sláni Adam Bainbridge sem gengur undir vinalega listamannsnafninu Kindness. Hann kom fram með heljarinnar hljómsveit og blökkum bakraddasöngkonum og lék fágað fönk og grúví diskó af fádæma öryggi næstu þrjú kortérin eða svo.

kindness

Ég hafði ekki heyrt neitt af tónlist hans áður en smitaðist af ryþmanum frá fyrsta lagi. Af og til var splæst bútum úr lögum eftir listamenn eins og Prince, Bobbie Womack og Art of Noise inn í settið og á einum tímapunktu brast á með Conga-röð hljómsveitarmeðlima um allt sviðið þar sem allir höfðu kúabjöllu, hristu eða annað ásláttarhljóðfæri í hönd. Þetta var algjört funkathon og skemmtilegustu tónleikar hátíðarinnar fyrir mig persónulega.

 

Þá var bara stærsta nafn hátíðarinnar eftir, ameríski dubstep æringinn Skrillex, sem er dáður eins og guð af glataðri æsku, en litinn hornauga af gömlum, bitrum og sjálfskipuðum spekingum eins og mér. Ég gat samt ekki sleppt því tækifæri að fylgjast með tónleikunum og sé alls ekki eftir því. Ég myndi ekki nenna að hlusta á þessa tónlist heima hjá mér, en þetta var allsherjar loftárás á skilningarvitin af nördalegum unglingi með allt of dýrar græjur. Og ég meina það á góðan hátt. Svona tiltölulega. Þarna var dropp-um, grafík, lazer-um og reyk bombað í fésið á þér á hverju sekúndubroti þannig ekki gafst tækifæri til að hugsa eða greina eina einustu einingu, því þá var nýtt áreiti komið á sjóndeildarhringinn. Hann henti svo Björk, Stars Wars laginu og íslenska fánanum inn í settið meðan hann klifraði, hoppaði og bara almennt djöflaðist í og ofan á tækjaborðinu sínu.

skrillex4

Eftir þessa æskudýrkun og fjallstind sem Skrillex var fór ég alla leið niður í bílakjallaran til að sjá einn langlífasta og farsælasta plötusnúð landsins, DJ Margeir. Hann spilar tónlist sem er einhvern veginn viðeigandi hvar sem er fyrir hvern sem er, harðan kjarna með mjúkri áferð. Þar dönsuðu gestir með öllum frumum líkama sinna og reyndu hvað þeir gátu að halda lífsmarki í Sónarnum þegar endirinn var yfirvofandi.

margeir

En allt spennandi endar og Sónar hátíðin er engin undantekning þar á. Hún var samt frábærlega heppnuð og minningarnar lifa, allavega þangað til við fáum öll alzheimer eða drepumst. Ég er strax farinn að hlakka til næstu hátíðar en þangað til getið þið lesið umfjallanir Straums um fimmtudagskvöldið, föstudagskvöldið eða fyrri hátíðir.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tólf góð atriði á Sónar

Sónar hátíðin hefst í Hörpu í dag og Straumur mun að sjálfsögðu verða á svæðinu næstu daga með daglegar fréttir af hátíðinni. Til þess að hita upp höfum við tekið saman lista yfir 12 atriði á hátíðinni sem við mælum sérstaklega með. Listinn er þó alls ekki tæmandi þar sem yfir 60 atriði eru á hátíðinni og mjög mikið af rjóma þannig að erfitt var að velja. En hér er listinn og gleðilegan Sónar!

Todd Terje

 

Terje-inn hefur verið í uppáhaldi hjá ritstjórn Straums um alllangt skeið, en hann átti eina allra bestu breiðskífu síðasta árs, It’s Album Time, sem var hans fyrsta plata í fullri lengd. Hann er jafnfær á ítalódiskó og evrópskt spæjarafönk og algjör meistari í hljóðgervlum.

 

SBTRKT

 

Breski pródúsantinn SBTRKT hefur getið sér geisigott orð fyrir dubstep-skotið rafpopp af bestu sort. Smellurinn Wildfire sem söngkonan Yukumi Nagato syngur tröllreið dansgólfum beggja vegna Atlantshafsins árið 2011.

 

Randomer

 

Bretinn Randomer sækir jöfnum höndum í tekknó-arfleið Detroit og Berlínar í dökkum og dúndrandi hljóðheimi sínum.

 

Tonik Ensemble

 

Raftónlistarmaðurinn Anton Kaldal sem leiðir Tonik Ensemble er einn allra fremsti pródúsant þjóðarinnar og í Tonik Ensemble fær hann til liðs við sig selló- og saxafónleikara ásamt söngvaranum Herði Má úr M-Band. Útkoman er tregafullt sálartekknó sem hittir beint í mark og miðar bæðið á mjaðmir og hjarta. Hans fyrsta breiðskífa, Snapshots, kom út í vikunni og er feikilega sterkur frumburður.

 

Jamie xx

 

Forsprakki mínímalísku indípoppsveitarinnar xx er með allra heitustu plötusnúðum Bretlands um þessar mundir.

 

Yung Lean

 

Þessi knái sænski rappari er einungis 19 ára gamall og textarnir hans eru uppfullir af tilvísunum í samtímapoppmenningu minecraft kynslóðarinnar.

 

Paul Kalkbrenner

 

Þýski tekknójálkurinn Paul Kalkbrenner átti að koma á síðustu Sónar hátíð en neyddist til að afboða koma sína vegna augnsýkingar. Það eru því margir sem bíða komu hans með mikilli eftirvæntingu í ár.

 

Kindness

 

Kindness er listamannsnafn hins breska Adam Bainbridge sem er þekktur fyrir að blanda saman poppi, sálartónlist, R&B og diskói í ómóstæðilegan bræðing.

 

M-Band

 

Hörður Már Bjarnason framleiðir vandaða dansmúsík undir áhrifum frá tónlistarmönnum eins og Jon Hopkins, Gus Gus og Caribou. Hann átti að mati Straums bestu íslensku plötu síðasta árs, Haust, og eitt af bestu lögunum líka, Never Ending Never.

 

Nina Kraviz

 

Hin rússneska plötusnælda Kraviz hefur á skömmum tíma skotist upp á stjörnuhiminn alþjóðlegu plötusnúðasenunnar. Frumleg blanda af tekknói og acid house hefur fleytt henni í helstu dansklúbba veraldar.

 

Ametsub

 

Japanskur tónlistarmaður sem skapar undurfalleg hljóðræn landslög úr ambíent og umhverfishljóðum.

 

Páll Ívan frá Eiðum

 

Tónskáldið, myndlistarmaðurinn, forritunarneminn og djókarinn Páll Ívan frá Eiðum var einn óvæntasti nýliðinn í raftónlistinni á árinu. Með laginu Expanding og glæsilegu myndbandi stimplaði hann sig rækilega inn, meðan lög eins og Lommi farðu heim og Atvinnuleysi fyrir alla eru þrusugóð þó þau séu gerð með glott á brá.

 

Tónleikar helgarinnar 5. – 8. febrúar 2015

Fimmtudagur 5. febrúar

Félagarnir Jo Berger Myhre, Magnús Trygvason Eliassen og Tumi Árnason verja kvöldinu saman í Mengi í frjálsum spuna. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

Tónleikar með Teiti Magnússyni í Gym & Tonic á Kex Hostel. Teitur er annar aðallagahöfunda Obja Rasta og mun hann koma fram ásamt fullskipaðri hljómsveit. Miðaverð er 1500 kr. “Tuttugu og sjö” platan með Teiti á CD + miði á tónleika = 2500 kr.

In The Company Of Men, Ophidian I & Mannvirki á Húrra. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 500 kr inn.

Föstudagur 6. febrúar

Oyama og Tilbury spila á Húrra Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og það kostar 1500 kr inn.

Krakkkbot heldur útgáfutónleika í styttugarði Listasafns Einars Jónssonar í tilefni að Safnanótt Vetrarhátíðar, en þar mun Krakkkbot flytja plötu sína Blak Musik í heild sinni.  Tónleikarnir hefjast klukkan 20:45.

Hjalti Þorkelsson og hljómsveit leika lög Hjalta á Café Rósenberg. Aðgangseyrir er 1000 kr og hefjast tónleikarnir klukkan 21:30.

Gyða Valtýsdóttir og Shahzad Ismaily koma fram í Mengi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

Laugardagur 7. febrúar

Oberdada von Brútal mætir til leiks íj Mengi með frumflutning á antí-músíkverkinu PNTGRMTN, en Harry Knuckles ætlar að hita upp fyrir hann og flytja nokkur tilbrigði við stefið hávaða. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

Hip-hop hljómsveitin Cheddy Carter frumflytur nýtt efni fyrir gesti og gangandi á Kex Hostel. Tónlistarmaðurinn Vrong mun mýkja hljóðhimnur gesta frá kl. 21:00, áður en Cheddy Carter stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.

Sunnudagur 8. febrúar

Rafdúóið Mankan sem skipað er þeim Guðmundi Vigni Karlssyni og Tom Manoury koma fram á Lowercase kvöldi á Húrra. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:30 og það er frítt inn.