Moby gerir plötuna Innocents aðgengilega

 

Skallapopparinn Moby kemur til með að gefa út sína elleftu breiðskífu Innocents um næstkomandi mánaðarmót en platan hefur nú þegar verið gerð aðgengileg á netinu.
Moby var ekki einmanna í hljóðverinu við gerð plötunnar og voru það Mark Lanegan, Damien Jurado, Skyler Grey og Wayne Coyne úr The Flaming Lips ásamt fleiri listamönnum sem lögðu hönd á plóg. Upptökustjórinn Mark „Spike“ Stent stjórnaði upptökum á plötunni en hann hefur m.a. unnið með Björk, Muse, Oasis, Massice Attack, Coldplay og svo mætti lengi telja. Útkoman er vönduð svæfandi raftónlist sem fer um víðan völl en kemur líklegast ekki til með heyrast á diskótekum.

Hlustið hér

Danny Brown gefur út titillag væntanlegrar plötu

 

Krúttbomban  Danny Brown kemur til með að senda frá sér sína þriðju breiðskífu Old um næstu mánaðarmót og hefur hann nú sent frá  sér titillag plötunnar „Side A (Old)“. Einnig hefur hann birt stutt  „teaser“ myndband fyrir plötuna sem ætti að láta hip-hop aðdáendur fá vatn í munninn.

Brjálað að gera hjá Beck

 

Beck Hansen situr ekki auðum höndum þessa dagana. Hann vinnur nú að tveimur breiðskífum auk þess hefur hann gefið út þrjár smáskífur sem ekki munu koma við sögu á væntanlegum plötum. Sú þriðja var að bætast í safnið og kallast „Gimme“. Lagið er nokkuð furðulegt, marg raddað og tilraunakennt með flóknum takti en sílófónninn stelur alveg senunni.

SBTRKT með nýtt lag

 

SBTRKT hefur nú tendrað í aðdáendum sínum með nýju lagi sem nefnist „IMO“. Nýtt efni ekki hefur ekki komið frá þeim bænum síðan sjálftitluð plata kom út árið 2011 en ekki er vitað hvort ný plata sé í bígerð. Lagið gerði SBTRKT í minningu bróður síns Daniel og var það Lorenzo Durantini sem bjó til sjónarspilið við lagið sem er „instrumental“ og ómasterað.

Lorde – “Team”

 

Þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gömul lítur út fyrir að hin ný sjálenska Lorde verði risa nafn  í poppheiminum áður en langt um líður. Stelpan gefur út frumburð sinn Pure Heroin þann 30. september og hefur hún nú sent frá sér sína þriðju smáskífu af plötunni. Lagið heitir „Team“ og er í takt við fyrra efni, flottur texti og ljúf melódía. Pure Heroin verður klárlega ein af athyglisverðari plötum ársins.

Fyrsta lagið af væntanlegri plötu Phantogram

 

Phantogram hafa ekki gefið út nýtt efni frá því EP-platan Nightlife kom út árið 2011 en síðan þá hefur bandið tekið þátt í samstörfum við ekki ólíkari listamenn en  The Flaming Lips og Big Boy. Dúettinn vinnur að sinni annari plötu þó ekki sé kominn staðfestur útgáfudagur. Fyrsta smáskífan til að heyrast af væntanlegri plötu er „Black Out Days“ og ber lagið nafn með rentu þar sem dimmir og drungalegir raftónar eru einkennandi.

Dagskráin á Airwaves tilbúin

 

Það eru aðeins 48 sólahringar í að Iceland Airwaves hátíðin verði flautuð á og orðið tímabært að finna út hvar og hvenær þú vilt vera á meðan veislan stendur yfir. Dagskráin er tilbúinn, uppselt er á hátíðina og þeir sem eiga miða skulu því setjast niður með kaffibolla eða mjólkurglas og rýna gaumgæfilega yfir uppsetninguna.

Dagskrána er að finna hér.

Önnur plata Grouplove aðgengileg

 

Bandraríska stuðsveitin Grouplove gefur út sína aðra breiðskífu Spreading Rumours þann 17. september en hún er nú þegar aðgengileg á veraldarvefnum.  Frumburður bandsins Never Trust A Happy Song kom út árið 2011 og innihélt platan meðal annars lögin „Itchin On A Photograph“, „Colours“ og „Tounge Tied“ sem ætti að svíða í eyrum flestra eftir að Coca Cola misþyrmdi laginu rækilega í auglýsingaherferð.
Spreading Rumours er enginn stökkbreyting frá fyrri plötunni og inniheldur hún pumpandi harðkjarna popp þar sem lög eins og „Ways To Go“, „Hippy Hill“ og Pixies-lega lagið „Raspberry“ standa öðrum framar.

Hlustaðu á Spreading Rumours hér

 

Toro Y Moi – “Campo”

 

Toro Y Moi hefur verið iðinn við kolann á þessu ári og heldur hann áfram sínu striki með útgáfu á smáskífunni „Campo“. Strákurinn bregður aðeins út af vananum  í laginu og er ekki laust við að það sé smá sveitafnykur af þessu ágæta lagi þar sem órafmagnaður kassagítar, bongó og þægindi eru í fyrirrúmi.