Lag frá Cut Copy og plata á leiðinni

 

Það lá í loftinu að ástralska sveitin Cut Copy myndi gefa út plötu á árinu eftir að hafa sent frá sér lagið „Let Me Show You“ á dögunum. Nú hefur það verið staðfest og afrekið væntanlegt  5. nóvember.  Til að peppa plötuna hefur bandið sent frá sér sumarlegu smáskífuna „Free Your Mind“ þar sem bongóið tekur öll völd.

Streymið nýjustu plötu MGMT

 

Þó sjálftitluð þriðja plata MGMT komi ekki út fyrr en 17. september hefur áhugasömum gefist tækifæri á að hlusta á plötuna í heild sinni í gegnum vefsíðuna www.rdio.com. Til að geta gætt sér á gripnum þarf að gerast notandi af síðunni og klikka sig í gegnum nokkur þrep en það ætti að vera fyrirhafnarinnar virði þegar band á borð við MGMT á í hlut.
Upphaflega átti platan að koma út fyrr í sumar en  sökum þess að meðlmimir voru ekki sáttir við útkomuna ákváðu þeir að fresta henni og fullkomna hljóminn. Til að leggja dóm á plötuna þurfa hlustendur að gefa henni meira en eina hlustun þar sem innihaldið er krefjandi og tilraunakennt efni. Skráðu þig inn og hlustaðu hér.

 

Cults – “High Road”

 

Indíbandið Cults tilkynnti nýlega útgáfu breiðskífunnar Static sem mun koma út 15. Október. Í kjölfarið fylgdi smáskífan „I Can Hardly Make You Mine“  og hefur sveitin nú deilt laginu „High Road“.
Nýja efnið er myrkrara en áður hefur heyrst frá bandinu, þó ljúft og fylgir vel á eftir sjálftitluðum frumburði Cults sem kom út árið 2011.

Fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu Sleigh Bells

Hávaða poppdúóið Sleigh Bells hefur sent frá sér lagið “Bitter Rivals“ ásamt vídeói og er það fyrsta smáskífan sem heyrist af væntanlegri  plötu og jafnframt titillag hennar. Breiðskífan kemur út þann 8. október, verður það þriðja plata sveitarinnar og fylgir á eftir Reign Of Terror sem kom út í fyrra. 10 lög munu verða að finna á plötunni sem Andrew Dawson mixaði en hann er helst þekktur fyrir vinnu sína með Kanye West og Jay-Z. Alexis Krauss söngkona sveitarinnar gefur þessum tveimur spöðum ekkert eftir í laginu“Bitter Rivals“ og spittar sig í gegnum þétt hávaða riff í boði  Derek E. Miller gítarleikara.

Arctic Monkeys – “Stop The World I Wanna Get Off With You”

 

Arctic Monkeys hafa nú þegar sent frá sér þrjár smáskífur af breiðskífunni AM sem kemur út föstudaginn næstkomandi en hljómsveitin hefur nú deilt einu þeirra laga sem stóðst ekki niðurskurðinn á plötuna „Stop The World I Wanna Get Off With You“.
Töluvert léttara er yfir þessu lagi en þeim sem heyrst hafa af AM, þétt gítar riff, pumpandi trommusláttur og beinskeytt textasmíð Alex Turner er þó ekki vanta frekar en fyrri daginn.

alt-j flytja nýtt lag á tónleikum

Ekkert nýtt efni hefur heyrst frá indí rokkurunum í Alt-J frá því þeir gáfu út frumburðinn An Awesome Wave fyrir rúmu ári síðan (fyrir utan kvikmyndatónlist) og margir beðið spenntir síðan. Síðustu helgi fór hljómsveitin á heimaslóðir og koma fram á Reading Festival í Englandi þar sem hún frumflutti nýtt lag sem ber titilinn „Warm Foothills“.
Rólegheit , flautuleikur og þægindi eru í fyrirrúmi í þessu nýja lagi sem gefur góð fyrirheit um nýtt efni frá bandinu sem stefnir í hljóðver í næsta mánuði.

Icona Pop nútímavæðir 60‘ smellinn „It‘s My Party“

 

Sænsku partýpíurnar í Icona Pop hafa verið afkastamikilar undanfarið og hafa nú í samstarfi við landa þeirra Zebra Katz gefið út lagið „My Party“. Tríóið styðst við lag Lesley Gore „It‘s My Party“ frá árinu 1965 þó útgáfurnar eigi lítið sameiginlegt.

Síðbúinn sumarsmellur frá Holy Ghost

 

Diskódúettinn Holy Ghost hefur sent frá sér lagið „Okay“ sem mun verða að finna á væntanlegri plötu þeirra sem kemur út 10. September undir titlinum Dynamics. Nick Millahiser og Alex Frankel eru mennirnir á bakvið baneitraða danstóna Holy Ghost og hafa þeir áður gefið út eina sjálftitlaða plötu árið 2011 sem unnin var í samstarfi við James Murphy úr LCD Soundsystem. Ekki er laust við að drengirnir séu enn undir áhrifum lærimeistarans og svipar „Okay“ óneitanlega til lagsins „I Can Change“ með síðargreindu bandi.

Zammuto senda frá sér lag

 

Bóndinn Nick Zammuto er lítt þekkt nafn innan tónlistarinnar en hann er helst þekktur sem helmingur hljómsveitarinnar The Books sem lagði upp laupana á síðasta ári. Nú er hann fjórðungur tilraunakenndu raf hljómsveitarinnar Zammuto sem hefur gefið út eina plötu og er önnur í vinnslu.
Nýverið sendu þeir frá sér lagið „Corduroys“ sem minnir helst á gamalt og gott TV on the Radio lag, ekki er það leiðum að líkjast.