Mynd: Alexander Matukhno
Ég hóf föstudagsdagskránna eins og fyrri daga á off-venu í Bíó Paradís. Þar sá ég bandaríska pönkpopp-bandið Hey Lover þéttri keyrslu. Einfaldleikinn var í fyrirrúmi og bílskúrsrokk í anda Ramones ómaði. Það var engri nótu eða slagi ofaukið, allt var akkúrat eins og það átti að vera. Sykur hækkuðu stemmninguna um 110% með galsafullu rafpoppi sem ætlaði útlendingana að æra, það var crowdsörfað í bíóinu og villtasta andrúmsloft off-venuesins hingað til.
Á eftir gleðipoppinu hélt í þveröfuga átt til að sjá níhílísku rokkstofnunina Singapore Sling spila í plötubúðinni 12 tónum. Sling eru rokk alla leið og gefa engan afslátt. Þarna var fídbakk sem þú fannst á eigin skinni og fyrirlitning og tómhyggja draup af hverjum gítarhljómi. Enginn með sólgleraugu en allir með læti. Rokk í caps lock. Ég rölti næst yfir á Lord Pusswhip á Bar Ananas sem framleiddi skynvillukennt hip hop í hæsta gæðaflokki. Hljóðheimurinn er eins og hryllingsmyndasándtrökk í bland við eitilhörð bít. Þá hafði hann rapparann Svarta Laxness sér til halds og traust sem lagði þétt rímuakkeri við framsækna tónlistina.
Hinn íslenski Good Moon dansflokkur
Ég hóf leikinn á alvöru dagskránni með Helga Val Iðnó sem hefur umkringt sig með ótal hæfileikaríkum tónlistarmönnum. Hann og þeir fluttu lög Helga Vals af fádæma öryggi í síðasta laginu, Love, love, love, love, var öllu tjaldað til með hetjugítarsólói, rappi og öllum pakkanum. Good Moon Deer var í Norðurljósasal Hörpu og bauð upp á skrýtnasta sjó þessarar hátíðar en með honum á sviðinu voru ca níu nútímadansarar og viðvið sögu kom mjólkurkanna, umferðarkeila og risastór fáni.
Ég náði svo í lokin á Hjaltalín en það er langt síðan ég sá þau síðast. Spilamennskan var í hæsta gæðaflokki og bæði hljóð og ljós í Silfurbergi til mikillar fyrirmyndar. Söngur Högna og Sigríðar gjörsamlega dáleiðandi og allt einhvern veginn á hárréttum stað, hvert einasta slag og nóta útpæld, og engu ofaukið. Ég hjólaði svo í snarhasti yfir í Iðnó þar sem Oyama rokkaði af mikilli yfirvegun. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra ábreiðu þeirra af Vinur Vina Minna og ég veitti því athygli að einn áhorfandi bókstaflega faðmaði hátalarann.
Allar leiðir liggja til Ariel Pink
Ég skaust svo yfir á Nasa til að sjá kanadíska indíbandið Braids, sem fluttu framsækið popp og trommuleikarinn þeirra vakti athygli mína með algjörri þrumu keyrslu. Svo hjólaði ég aftur til baka í Hörpu þar sem Grísalappalísa fóru á kostum eins og þeirra er von og vísa. Skepta var í rokna stuði í Listasafninu og grjóthart grime-rappið lagðist vel í troðpakkað Hafnarhúsið. Ariel Pink var hins vegar aðalnúmerið í mínum bókum þetta kvöld og hjólaði ég því í þriðja skiptið þetta kvöld yfir í Hörpu og svo beinustu leið upp í Silfurberg.
Ariel Pink er ákaflega kynlegur kvistur en hann var klæddur eins og umrenningur og sviðsframkoman var út um allt. Hljómsveitin hans var frábær og lék frjóa skynvillupoppið hans Ariel af miklu öryggi. Ég neyddist þó til að fara af dýrðinni til að ná síðustu lögunum með H099009 á Nasa. Þetta var alveg eitilhart og pönkað hip hop, í anda sveita eins og Death Grips og clipping. Frábær endir á kvöldinu
Davíð Roach Gunnarsson