Laugar- og sunndagskvöld á Airwaves

Mynd: Alexander Matukhno

Ég hóf fjórða í Airwaves á off-venue tónleikum Helga Vals í Bíó Paradís. Það var afslappaðra en tónleikarnir í Iðnó kvöldið áður og hann brá meðal annars á leik með tveimur frábærum ábreiðum af rapparanum Saul Williams. Á fjórða degi eru menn nokkuð lúnir ég setti því batteríin í hleðslu fram að tónleikum indísveitarinnar Beach House í Silfurbergi. Þau léku sitt hæglætis draumapopp af öryggi en eitthvað var þó um tæknilega örðugleika sem ollu pirringi hjá hljómsveitinni. Þá hefði líklega verið skemmtilegra að sjá þau á minna sviðið en algjörlega troðpökkuðum Silfurbergssalnum.

 

Næst hélt ég yfir á helíum hello kitty popparann QT og hafði enga hugmynd um við hverju ég ætti að búast, vissi ekki einu sinni hvort þetta var hljómsveit eða einstaklingur, stelpa eða strákur. Það sem við mér blasti á sviðinu var, að því er virðist, stelpa með bleikt hár að fremja einhvers konar DJ sett. Tónlistin var vissulega í anda PC Music en einnig var einstaka Rihönnu rímixi hent með.

 

Træbalískt stærðfræðirokk

 

Þvínæst voru það stærðfræðirokkararnir í Battles sem fluttu dáleiðukennda og træbalíska súrkálstónlist með flottasta trommara hátíðarinnar hingað til, einn diskurinn hans var í ca tveggja metra hæð á trommusettinu. Þá var það bara hið íslenska kóngafólk danstónlistarinnar, hinn háheilagi Gusgus flokkur, sem áttu eftir að slá botninn í kvöldið. Þeir keyrðu allt í botn eins og þeirra er von og vísa, fóru um lendur helstu slagara og prufukeyrðu meiraðsegja nýtt lag sem hljómaði feikivel.

 

Á sunnudeginum var Vodafone höllin það eina sem komst að. Ég mætti einungis til að komast að talsverðri seinkun en náði í smávegis af Agent Fresco áður en ég fór upp í Extreme Chill salinn þar sem DJ Flugfél og Geimskip var í góðri framúrstefnusveiflu. Úlfur Úlfur héldu salnum við efnið í miklu stuði en eru bara ekki alveg mitt kaffi of choice.

 

Eins breskt og það gerist

 

Á eftir þeim á stóra sviðinu var svo breska sveitin Sleaford Mods, og hún er alveg eins bresk og þær gerast. Einhvers staðar mitt á milli The Streets og The Fall, úber breskur hreimur „söngvara“ sem talar/hrækir út úr sér lýsingu á lífi bresku lágstéttarinnar og ádeilu á kapítalisma og óréttlæti. Eða það segir mér fólk, því ég heyrði ekki neitt fyrir hreimnum. Svo gerði hinn gaurinn ekki neitt nema að ýta á play á tölvu og kinka kolli og drekka bjór. Nokkuð sérstakt allt saman.

 

This is the End

 

En allir voru að bíða eftir Hot Chip og þeir sviku engan í þetta fjórða skipti sem þeir koma fram á Íslandi. Maður fann gólfið í Vodafone höllinni dúa þegar allur salurinn hoppaði í takt í Over and Over og Ready for the Floor og Bruce Springsteen smellurinn Dancing in the Dark framkallaði alsælu hjá ungum sem öldnum. Þá var það bara síðustu tónleikar hátíðarinnar og lokatónleikar Árna Vill sem er víst á förum frá FM Belfast. Þau héldu uppi þeirri dúndrandi stemmningu sem Hot Chip höfðu skapað og dönsuðu á nærbuxunum inn í nóttina eins og enginn væri mánudagurinn daginn eftir. Airwaves 2015 var lokið og við teljum niður í næstu. Sjáumst þar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *