Fimmtudagskvöldið á Iceland Airwaves

Mynd: Florian Trykowski

Annan daginn á Airwaves reif ég mig upp upp úr hádegi og hélt á Airwaves Off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís. Þar plantaði ég mér á stól og sat það sem eftir lifði dags. Það fyrsta á dagskránni var einyrkinn Laser Life. Hann kom fram með barítóngítar, synþa, tölvu og helling af pedölum og dúndraði út rokkaðri Nintendótónlist. Af mörgum fínum dráttum var sérstaklega ánægjulegt hvernig gítarinn kallaðist á við hljómborðslínuna í Castle. Eins og fullkominn bræðingur af megaman og guitar hero.

 

Gunnar Jónsson Collider spilar nokkurs konar skynvilluraftónlist og hóf leikinn á drunum og óhljóðum. En síðan kikkaði bítið sem minnti talsvert á Boards Of Canada. Gunnar virðist sæka innblástur í 90’s gáfumannaraftónlist og þegar best tekst upp nær hann að miðla anda sveita eins og Autechre, Future Sound Of London og Aphex Twin. Næst á svið var danska sveitin Sekuoia sem ég hafði aldrei heyrt áður. Hún er skipuð tveimur gaurum sem eru með lagar af tækjum og tólum sem ég kann ekki að nefna og spila einnig á gítar og hljómborð.

 

Engin apple tölva í augsýn

 

Tónlistin sem þeir framreiddu var léttpoppað elektró með mjög smekklegum taktpælingum. Þrátt fyrir að vera að syngja ekki notuðustu þeir meikið við radd sömpl, sem þeir oft “spiluðu” á með því að berja trommukjaða í rafgræju. Þetta var flauelsmjúkt og nálgunin skemmtilega “hands on”, þeir snertu ekki tölvu allan tímann.

 

Raftónlistarmaðurinn Tonik notast heldur ekkert við tölvu í sínum flutningi en hann byrjaði settið sitt á djúpum bassadrunum áður en takturinn kikkaði inn. Hann spilaði melódískt og dáleiðandi tekknó, með alls konar míkrótöktum og mögnuðum uppbyggingum og tilheyrandi sprengingum. MSTRO kom fram með gítar og tölvu og spilaði framsækið indípopp með mjög áheyrilegum söng. GKR sló svo botninn í dagskrána í Bíó Paradís og fékk allan salinn til að hoppa með sér við slagarann Morgunmat.

 

On-Venue dagskrána hóf ég svo í Hafnarhúsinu þar sem Sykur voru í rokna rafsveiflu að flytja slagarann Strange Loops. Þau tóku einni talsvert af nýju efni og söngkonan Agnes bauð upp á mikla flugeldasýningu í raddbeitingu, fór á kostum í bæði söng og rappi. Þvínæst var haldið á Gauk Á Stöng þar sem ég náði rétt svo í skottið á Just Another Snake Cult áður en spænska stelpubandið Hinds steig á stokk. Þær voru þrusuþéttar og spiluðu poppað gítarpönk með keim af motown og 60’s stelpuböndum.

 

Mellur og Messías Fönksins

 

Í Hörpunni sá ég svo gamla póstpönkbandið The Pop Group. Þeir renndu beint í sinni helsta slagara, We Are All Prostitutes, og rokkuðu af firnakrafti miðað við aldur og fyrri störf. Tónlistin rambar á barmi pönks og fönks og söngvarinn er með svipaða hugmyndafræði í raddbeitingu og Mark E Smith, talar, öskrar og röflar í míkrafóninn. Hann mætti líka með gjallarhorn. Fimm stjörnur á það. En ég náði bara rúmum tíu mínútum því leið mín lá á LA Priest í Gamla Bíói. Hann var klæddur í hvít silkináttföt og fönkaði eins djúpt og hvítum manni er unnt. Vopnaður gítar, hljómborði og vörulager af raftólum spilaði hann tilraunakennt bútasaumsfönk sem fékk alla til að dilla sér. Á einum tímapunkti samplaði hann meira að segja krádið og bjó til bít úr því live. Maðurinn er spámaður grúvsins og fönk á færibandi. Lof sé honum og dýrð.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *