Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 30 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Listamennirnir eru: Midlake (US), Emiliana Torrini, FM Belfast, Girls In Hawaii (BE), Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Amiina, Moses Hightower, Sarah MacDougall (CA), Apparat Organ Quartet, Árstíðir, Royal Canoe (CA), Kiriyama Family, Skúli Sverrisson, Hermigervill, Sun Glitters (LU), Captain Fufanu, Sign, Stafrænn Hákon, Tempel (SE), Leaves, Endless Dark, Nóra, 1860, Dimma, Auxpan, Þórir Georg, Emmsjé Gauti, Kjurr og Nini Wilson!
Month: June 2013
Kveikur komin á netið
Þó svo nýjasta plata Sigur Rósar Kveikur komi ekki út fyrr en á þjóðhátíðardegi Íslendinga hafa þeir Jónsi, Georg Hólm og Orri Páll leyft aðdáendum að taka smá forsmekk á sæluna og sett plötuna í heild sinni á vef Amazon til hlustunar. 16 ár eru liðin síðan fyrsta breiðskífa Sigur Rósar Von kom út en í fyrra sendi bandið frá sér Valtara og bæta þeir nú sjöundu plötunni safnið. Kveikur er fyrsta platan sem Sigur Rós gefur út undir merkjum XL Recordings þó svo XL hafi reyndar eitthvað komið að útgáfu Með suð í eyrum spilum við endalaust en Sigur Rós sleit upp samstarfi við EMI í fyrra. Kjartan Sveinsson kvaddi einnig hljómsveitina í fyrra og er þetta í fyrta skiptið sem Sigur Rós gefur út plötu sem tríó síðan Von kom út.
Kveikur inniheldur 9 lög og nú þegar hafa birst myndbönd við lögin „Ísjaki“, „Brennisteinn“ og nú síðast þann 6. júní bættu þeir við athyglisverðu sjónarspili við titillag plötunnar. Meðlimir sáu sjálfir um upptökur og hafa lýst afrakstrinum sem ágengara efni en áður hefur heyrst frá hljómsveitinni. Plötunni verður svo fylgt vel eftir og eru tónleikar víða um Evrópu á döfinni nú í súmar.
-Daníel Pálsson
Empire of the Sun dreifir dansvænum tónum
Ástralski rafdúettinn Empire of the Sun hefur nú sleppt frá sér fleiri lögum af komandi plötu Ice on the Dune sem kemur út 14. júní. Luke Steele og Nick Littlemore gerðu aðdáendum kleift að streyma plötuna nú á dögunum og hafa lögin „DNA“ og titillagið bæst í hópinn með „Alive“ og verið gerð aðgengileg hlustunar þó svo sjóræningjar um víða veröld séu þegar farnir að gæða sér á gripnum í heild sinni.
Aðdáendur hljómsveitarinnar hafa beðið óþreyjufullir eftir nýju efni síðan fyrsta plata sveitarinnar Walking on a Dream kom út árið 2008. Hún hlaut mjög góðar viðtökur, innihélt fimm smáskífur og fékk fjölda verðlauna. Þrátt fyrir góðar viðtökur vildu félagarnir í Empire of the Sun gera enn betur með nýju plötunni og fengu til liðs við sem menn sem hafa raðið inn lögum á topplista og ber helst að nefna Mark „Spike“ Stent sem hefur t.d. unnið með Madonnu, Lady Gaga, U2 og Björk. Markmiðið hjá Luke og Nick var að búa til góða plötu en ekki afsala öllu því sem fólk elskaði svo mikið við fyrstu plötuna. “Fólk verður að muna að veitingastaður getur misst kúnna með því að gleyma hvað fólk elskaði við staðinn fyrst þegar það kom sem við vildum ekki“ sögðu þeir í samtali við Rolling Stone.
Ice on the Dune hefur að geyma 12 lög sem nánast öll hafa burði til að koma út sem smáskífur og gætu fengið ólíklegasta fólk til að dilla sér. Hvort grímuklæddu félagarnir nái að toppa frumburðinn með útgáfu þessarar plötu skal látið ósagt að svo stöddu en það er nokkuð greinilegt að að hér er á ferðinni ein af plötum sumarsins og þessir fersku synthapop/ambiant tónar framtíðarinnar munu eiga vel við í „blíðunni“.
-Daníel Pálsson
Útgáfutónleikar Sin Fang
Íslenska hljómsveitin Sin Fang með Sindra Má Sigfússyni fremstan í flokki heldur útgáfutónleika vegna plötunnar Flowers í Iðnó á morgun kl. 21:00. Um upphitun sjá sigurvegarar músíktilrauna í ár Vök , en þau voru einmitt að skrifa undir útgáfusamning við Record Records. Miðasala á tónleikana er á midi.is eins verður hægt að kaupa miða við hurðina, meðan húsrúm leyfir.
Sin Fang hefur verið iðinn undanfarnar vikur en hljómsveitin er nýkomin heim úr þriggja vikna tónleikaferð um Þýskaland. Hljómsveitin sendi einnig nýlega frá sér myndband við lagið What’s Wrong With Your Eyes en lagið er að finna á breiðskífunni Flowers. Myndbandinu var leikstýrt af Mána Sigfússyni
mynd: Ingibjörg Birgisdóttir
Straumur 10. júní 2013
Í Straumi í kvöld förum við yfir nýtt efni frá Sigur Rós, Surfer Blood, Boards Of Canada, Camera Obscura, XXYYXX og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977.
Straumur 10. júní 2013 by Olidori on Mixcloud
1) Gemini – Boards Of Canada
2) Pay Attention – XXYYXX
3) Cold Earth – Boards Of Canada
4) Nothing is Real – Boards Of Canada
5) Slasherr (Flume edit) – Rustie
6) Airglow Fires – Lone
7) Tennis Coart – Lorde
8) I Love You (ft. Angel Haze) – Woodkid
9) Gravity – Surfer Blood
10) Say Yes To Me – Surfer Blood
11) This Is Love (feels alright) – Camera Obscura
12) Troublemaker – Camera Obscura
13) Stormur – Sigur Rós
14) Rafstraumur – Sigur Rós
15) Into The Sun – CSS
16) The Bride – Toy & Natasha Khan
Surfer Blood hafa gert nýju plötuna sína aðgengilega á netinu
Brim rokkararnir í Surfer Blood hafa smellt nýjasta afreki sínu plötunni Pythons inn á netið og er hægt að hlusta á öll 10 lögin í heild sinni. Hljómsveitin var stofnuð árið 2009 inniheldur John Paul Pitts sem syngur og spilar á gítar, Thomas Fekete á gítar, Kevin Williams á bassa og Tyler Schwarz á trommur. Þetta er annað albúm Surfer Blood sem gáfu út frumburð sinn Astrocoast árið 2010 við góðar undirtektir. Upptökur á Pythons tóku heilar átta vikur var það Gil Norton sem sá um upptökur en hann hefur m.a. unnið með Foo Fighters og Pixies og Maximo Park. Meðlimir sveitarinnar voru mjög ánægðir að fá Norton til liðs við sig og sagði Thomas Fakete í samtali við Rolling Stone að hann mætti segja hvað sem er og gagnrýna það sem hann vill, við virðum það sem hann hefur að segja.
Pythons virðist innihalda aðeins aðgengilegri og ekki jafn hrátt og tilraunakennt lo-fi sem einkenndi fyrstu plötu sveitarinnar, sitt sýnist hverjum um þá þróun og finna má á köflum smá fnyk af dönnuðu háskólarokki. Pythons kemur í svo verslanir á þriðjudaginn 11. þessa mánaðar en fyrr á þessu ári hafði bandið látið frá sér lagið „Weird Shapes“.
Hér er hægt að nálgast plötuna.
http://www.npr.org/2013/06/02/187278374/first-listen-surfer-blood-pythons?sc=fb&cc=fmp
-Daníel Pálsson
Tónleikar helgarinnar
Föstudagur 7. júní
Á Kaffistofunni á Hverfisgötu munu ólíkir tónlistarmenn úr jaðri íslensks tónlistarlífs, ásamt vídjólistamönnum, framkalla einstakan bræðing bjagaðra tóna og sjónræns áreitis með það að markmiði að skapa upplifun ólíka þeirri sem íslenskir tónleikagestir eiga að venjast. Fram koma Pink Street Boys, Knife Fights, Lord Pusswhip (feat. $ardu aka Svarti Laxness & DJ vRONG), $H∆MAN $H∆WARMA og Gervisykur.
Sykur spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti.
Laugardagur 8. júní
Noise spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti.
Ungir umhverfissinnar standa fyrir tónleikum á Loft Hostel með hljómsveitunum Axel Flóvent, Hljómsveitt, Macaya og Nolo. Það kostar ekkert inn, en tekið verður á móti frjálsum framlögum á staðnum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.
Portugal. The Man gefa út nýja plötu undir leiðsögn Danger Mouse
Portugal. The Man er bandarískt psychedelic pop/rock band sem gefur í dag þann 4. júní út sína sjöundu breiðskífu Evil Friends. Hljómsveitin hefur liggur við átt heima í hljóðveri frá árinu 2006 þegar þeir gáfu út sína fyrstu plötu Waiter: „You Vultures!“. Síðan þá hafa þeir gefið út plötu árlega allt til ársins 2011 þegar In the Mountain in the Cloud kom út. Nú tók hljómsveitin með þá John Gourley og Zach Carothers í farabroddi sér lengri tíma við gerð plötunnar og fengu þeir til liðs við sig snillinginn Brian Joseph Burton eða Danger Mouse eins og hann er betur þekktur sér til aðstoðar við upptökur á plötunni. Leikarinn Kane Ritchotte trommar í fyrsta skipti með Portugal. The Man á þessari plötu en auk hans hefur hljómborðsleikarinn Kyle O‘ Quin gengið til liðs við bandið.
Danger Mouse er ekki þekktur fyrir að senda frá sér efni nema það sé vænlegt til árangurs og má þar nefna Broken Bells, Gnarls Barkley og Sparklehorse verkefnin því til stuðnings. Hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn og virðist hafa fínpússað stefnu sveitarinnar og komið þeim í aðeins útvarpsvænni búning. Platan ber vott af tilraunastarfsemi og hefur að geyma frumleg syntha hljóð sem hafa einkennt fyrri plötur sveitarinnar. Aðdáendur Portugal. The Man gætu orðið fyrir vonbrigðum og fundist þeir vera poppa sig of mikið upp en bassaleikarinn Zach Carothers hefur ekki áhyggjur af því. „Ég elska popp, ég vil búa til góða popp tónlist og gera hana kúl. Við höfum ákveðin stíl og náum ennþá að fylgja honum eftir.“ Markmið Carothers virðist hafa tekist með Evil Friends og gæti hún alveg prílað upp lista hér og þar og fengið spilun í útvarpi með undirskriftinni aðgengilegt psychadelic pop/rock.
-Daníel Pálsson
Queens of the Stone Age með alvöru drottningu um borð
Rauðhærði eyðimerkurrokkarinn Josh Homme og félagar hans í hljómsveitinni Queens of the Stone Age gefa út sína sjöttu breiðskífu …Like Clockwork í dag þann 3. júní. Þetta er fyrsta plata hljómsveitarinnar í 6 ár og hafa upptökur staðið síðan í nóvember árið 2011. Bassaleikarinn Michael Shuman og hljómborðs og gítarleikarinn Dean Fertita tóku í fyrsta skiptið fullan þátt í gerð plötu með hljómsveitinni en gítarleikarinn Troy Van Leeuwen spilar inn á sína þriðju. Það dugði ekkert hálfkák við gerð plötunnar og koma þrír þungavigta trommuleikarar að gerð hennar og fer þar fremstur í flokki Dave Grohl en hann tók við af Joey Castillo sem hætti í miðjum klíðum.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Grohl skuli hafa gripið í kjuðana fyrir félaga sinn Homme en að Sir Elton John og Jake Shears úr Scissor Sisters leynast á plötunni kann að stinga suma í augun. Elton John bauð sér sjálfum á plötuna og hringdi í Homme á meðan þeir voru að taka upp og sagði „Það eina sem bandinu þínu vantar er alvöru drottning“. Homme hélt að þarna væri einhvern að gera grín en svaraði um hæl „hunang… þú segir ekki“ og úr varð lagið „Fairweather Friends“. Heimsskauta apinn Alex Turner lætur á sér bera á …Like Clockwork og auk þess að spila á gítar og syngja í laginu „If I Had a Tail“ semur hann texta við lagið „Kalopsia“ en níu tommu naglinn Trent Reznor hjálpar til með að koma textanum til skila.
Þó svo …Like Clockwork hafi að geyma allan þennan hóp af gestaspilurum og söngvörum þá er platan af eyðimerkurokk/hasshausarokk stílnum og keimlík fyrri plötum sveitarinnar þó ekki jafn þung og þær þyngstu. Meðlimir voru ekkert að kikna í hnjáliðunum þó að Sir Elton væri mættur í stúdíó og semja dramatíska ballöðu heldur varð drottningin bara að gjöra svo vel og rokka. Sexí gítarsóló, smá „growl“ í boði Trent Reznor og djúsí „fuzz“; það er enginn alvöru rokkari að fara kvarta undan þessum gæða grip þó svo þetta sé kannski ekki besta plata Queens of the Stone Age til þessa.
Daníel Pálsson
Streymið Tomorrow’s Harvest klukkan 20:00
Hægt verður að hlusta á streymi af Tomorrow’s Harvest, nýjustu plötu Boards of Canada, á youtube síðu sveitarinnar nú klukkan 8 í kvöld. Hægt verður að hlusta á plötuna aðeins í þetta eina skipti þannig að aðdáendur þurfa setjast við tölvurnar klukkan 8 til að ná henni frá byrjun. Í síðustu viku var haldið hlustunarpartý fyrir plötuna í skemmtigarði í miðri Arizona eyðimörkinni og fyrir um tveimur vikum sendu Boards-liðar frá sér myndband við fyrsta lagið af plötunni, Reach For The Dead, sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan. Tomorrow’s Harvest kemur út þann 10. júní næstkomandi og er beðið með mikilli eftirvæntingu af æstum aðdáendahóp sveitarinnar.