Arctic Monkeys tilkynna útgáfudag nýrrar plötu

Bresku „indie“ rokkararnir í Arctic Monkeys  gefa út sína fimmtu breiðskífu  9. september. Platan mun innihalda 12 lög og hefur hlotið titilinn AM og sagði Alex Turner forsprakki sveitarinnar í viðtali við NME að það væri stolin hugmynd frá Velvet Underground plötunni VU.
Tvær smáskífur af AM „Do I Wanna Know?“ og „R U Mine“ hafa verið verið gefnar út en nýlega hafa þeir byrjað að flytja lagið „Mad Sounds“ sem einnig fær pláss á plötunni. James Ford og Ross Orton sáu um upptökur og hefur sá fyrrnefndi áður unnið með bandinu. Josh Homme úr Queens Of The Stone Age mun bregða fyrir á nýju plötunni en hann er Arctic Monkeys vel kunnur þar sem hann kom að upptökum á Humbug þriðju plötu þeirra ásamt James Ford. Alex Turner átti framlag á …Like Clockwork nýjustu plötu Queens Of The Stone Age þar sem hann söng, spilaði á gítar og samdi texta. „ Þetta snérist bara um að endurgjalda greiða, hann settist niður með okkur og lét til sín taka. Framlag hans til plötunnar var mjög skemmtilegt og líklega mitt uppáhalds, eitthvað sem ég hef aldrei heyrt áður.“ Sagði Alex Turner um aðkomu Josh Homme. Einnig munu þeir Bill Ryder Jones fyrrum meðlimur The Coral og trymbill Elvis Costello; Pete Thomas koma við sögu á AM.
Platan á að gefa góða mynd af þeirri stefnu sem Arctic Monkeys leggja upp með og á lagið „R U Mine?“ að gefa aðdáendum upp í hugarlund um hvað verður á boðstólnum þann 9. september þegar AM verður raðað hillur plötubúða.

Azealia Banks í hljóðveri með Disclosure

Breska upptökuteymið og bræðurnir í Disclosure tóku upp efni með bandaríska rapparnum Azealia Banks á dögunum samkvæmt Twitter skilaboðum frá Banks.

Disclosure bræður eru ekki óvanir samstarfi, á sinni fyrstu plötu Settle sem kom út fyrir stuttu unnu þeir m.a. með Jessie Ware, Aluna Francis, Sam Smith, Jamie Woon, Eliza Doolittle, London Grammar og fleirum. Upp á síðkastið hefur Banks deilt út upplýsingum á Twitter um sína fyrstu plötu Broke With Expensive Taste sem hefur verið lengi í bígerð. Samkvæmt Banks mun platan innihalda 16 lög – þar á meðal smellinn 212. Hún hefur einnig skýrt frá því að Pharrell Williams og þrír aðrir gestasöngvarar verði á plötunni og að hún sé 80% tilbúin.

Straumur 24. júní 2013

Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Austra, Kanye West, Todd Terje, jj, Sophie og mörgum öðrum. Við verðum einnig með umfjöllun um tónlistarhátiðina All Tomorrows Parties sem verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi um næstu helgi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Við hittum þau Barry Hogan og Deborah Kee Higgins aðstandendur hátíðarinnar á dögunum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977!

Straumur 24. júní 2013 by Olidori on Mixcloud

1) Super Duper Rescue Heads! – Deerhoof
2) Strandbar (bonus version) – Todd Terje
3) Bipp – Sophie
4) Rise – Du Tonc
5) Góða Tungl (Sei A remix) – Samaris
6) What We Done? – Austra
7) New Slaves – Kanye West
8) Send It Up – Kanye West
9) Bound 2 – Kanye West
10) Flood’s New Light – Thee Oh Sees

– Viðtal við Barry Hogan og Deborah Kee Higgins frá ATP

11) I Need Seeds – Thee Oh Sees
12) The Perfect Me – Deerhoof
13) Heavenmetal – Chelsea Light Moving
14) 3am Spirtual – Smith Westerns
15) Glossed – Smith Westerns
16) XXIII – Smith Westerns
17) Fågelsången – jj

Remix af skoskri raftónlist

Groundislava eða Jasper Tatterson er lítt þekktur tónlistamaður sem kemur frá Bandaríkjunum. Hans helstu einkenni eru frumleg hljóð úr hinum ýmsu áttum eins og tölvuleikjum og 80‘ tímabilinu. Nú á dögunum sendi Groundislava frá sér dansvænt remix af laginu „Gun“ með skosku rafhljómsveitinni CHVRCHES. Hann frískar vel upp á lagið og gefur rödd Lauren Mayberry söngkonu CHRCHES nýjan lit auk þess að bæta við þægilegu píanóspili undir lokin.

Robyn sendir frá sér myndband

Þó svo þrjú ár séu liðin frá útgáfu Body Talk sjöundu breiðskífu sænsku tónlistarkonunnar Robyn þá stoppar það hana ekki í að gefa út myndband við lagið „U Should Know Better“ sem er tekið af plötunni. Snoop Dog aðstoðaði Robyn við lagið en kemur þó ekkert fram í myndbandinu heldur er það kvenkyns tvífari Snoop sem bregður fyrir og karlkyns tvífari Robyn.

Nýtt lag frá jj

Það er alltaf nóg að frétta af sænskum tónlistarmönnum og nú sendir sænski rafdúettinn jj frá sér nýtt lag sem ber titilinn „Fågelsången“ eða „fuglalagið“. Bandið hefur gefið út tvær breiðskífur n°2 árið 2009 og n°3 árið 2010. Það eru þau Joakim Benon og Elin Kastlander sem mynda jj og hefur stíll þeirra verið kenndur við „balearic beat“ stefnuna sem er einn angi „house“ tónlistar. Tónlist þeirra er þó fjölbreytileg og draumkennt „indie“ og þjóðlaga raftónlist komast líka ágætlega upp með að lýsa stefnu jj og á það vel við lagið „Fågelsången“.

 

Tónleikar helgarinnar

Í hinu vikulega helgaryfirliti straum.is er stiklað á stóru og smáu í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu.

Fimmtudagur 20. júní

Jóhann Kristinsson og Loji munu hefja leikinn í sumartónleikaröð í Bíó Paradís  kl 22:00! Ókeypis inn!

Heiladans 25 á Litlu Gulu Hænunni kl. 21 – 01. Samaris, Tonik, Einar Indra og Dj Kári spila.

Föstudagur 21. júní

Ultra Mega Technobandið Stefán spilar á ókeypis tónleikum í kjallaranum á Bar 11. Hljómsveitin er þessa daganna að leggja lokahönd á næstu plötu sína og því ekki ólíklegt að nýtt efni fái að líta dagsins ljós á þessum tónleikum. Tónleikarnir byrja klukkan 12.

Ólöf Arnalds verður með árlega Sumarsólstöðutónleika í Café Flóru, Föstudaginn 21. júní. Þetta er í þriðja sinn sem Ólöf er með sumarsólstöðutónleika í Café Flóru. Ásamt Ólöfu koma fram Klara Arnalds söngkona og Ingibjörg Elsa bassaleikari sem helst eru þekktar sem meðlimir hinnar vinsælu danshljómsveitar Boogie Trouble. Prógrammið verður ljúf blanda af lögum úr pokahorni tónlistarkvennanna, þar sem sóldýrkun og leikgleði verða í fyrirrúmi. Tónleikar hefjast kl. 21.00.  Miðaverð 2.000kr og verða miðar seldir við inngang.

Laugardagur 22. júní

Saktmóðigur og Ofvitarnir spila í Lucky Records, Rauðarárstíg 6. Tónleikarnir eru opnir öllum aldurshópum,aðgengilegir fólki í hjólastólum og hefjast klukkan 14:00.

Mono Town, Leaves og Tilbury munu koma fram á útitónleikum á laugardaginn 22. júní kl. 15 í Vitagarðinum við KEX Hostel. Tónleikarnir eru þeir fyrstu í nýrri tónleikaröð sem nefnist Vitinn. Röðin mun fara fram með reglulegu millibili á laugardögum í sumar fram að Menningarnótt. Aðgangur að garðinum og tónleikum þar er að sjálfsögðu ókeypis og allir velkomnir, ungir sem aldnir.

RVK Soundsystem kynnir ROTOTOM SUNSPLASH Launch Party á Faktorý! Kl. 22:00 Aðgangseyrir: 2.000 kr.
> HJÁLMAR
> OJBA RASTA
> AMABA DAMA
> PANORAMIX

 

Raftónlist með óperuívafi

Í gær þann 17. júní kom út platan Olympia sem er önnur breiðskífa kanadísku raf hljómsveitarinnar Austra. Bandið inniheldur þau Katie Stelmanis sem syngur og spilar á hljómborð,  bassaleikarann Dorian Wolf og Maya Postepski sem lemur skinn. Árið 2011 gaf Austra út frumraun sína Feel It Break við góðar viðtökur og fjölda tilnefninga til verðlauna. 

Mike Haliechuk úr  hljómsveitinni Fucked Up sá um upptökur á Olympia ásamt Damian Taylor sem vann með hljómsveitinni á fyrstu plötunni ásamt því að hafa unnið með t.d. Björk og Killers. Á nýju plötunni blandast saman léttleikandi danstónar og drungaleg svefnherbergistónlist og á hvort tveggja vel við kraftmikla rödd Katie Stelmanis. Hún er lærð óperusöngkona sem hikar ekki við að reyna á raddböndin og minnir helst á Florence Welch úr Florence and the Machine bæði hvað röddina og útlitið varðar. Gagnrýnendur sem hafa tjáð sig um Olympia eru flestir jákvæðir í garð plötunnar og telja margir hverjir hana framför frá Feel it Break. Textagerðin á plötunni er stundum ekki uppá marga fiska en Katie kemur þeim samt sem áður vel til skila og þeir ættu ekki að skemma áheyrnina fyrir neinum, það væri heldur umslagið sem gæti fælt einhverja frá.

-Daníel Pálsson


Toro Y Moi setur Billie Holiday í nýjan búning

Djass söngkonan Billie Holiday og tjillarinn Toro Y Moi eiga ekki margt sameiginlegt tónlistarlega séð en  sá síðarnefndi hefur nú séð til þess að svo sé.  Billie var ekkert sérstaklega afkastamikil á sínum ferli en „My man“ er eitt þeirra ódauðlegu laga sem hún skildi eftir sig þegar hún lést árið 1959, 44 ára gömul úr ofdrykkju. Toro Y Moi sem fyrr á þessu ári gaf út sína þriðju hlóðversplötu Anything in Return hefur nú í samstarfi við Verve Records gefið út remix af laginu „My Man“  og umbreytt því í sinn tjillbylgju stíl.

 

Tónleikar helgarinnar

Nú sem aðrar helgar er straum.is með heildarsýn á tónleika helgarinnar sem að þessu sinni er í lengri kantinum útaf þjóðhátíðardegi Íslands.

Föstudagur 14. júní

Ensími aflýstu hljómleikum sínum á tónlistarhamförunum Keflavík Music Festival síðustu helgi og ætla þess vegna að halda sárabótartónleika í kvöld klukkan 17:30 í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur í Síðumúla 20. Aðgangur er ókeypis og ekkert aldurstakmark.

Laugardagur 15. júní

Baráttutónleikar gegn niðurrifi tónleikastaðarins Nasa verða haldnir á Austurvelli klukkan 14:00. Listamennirnir sem koma fram eru: Ágústa Eva, Daníel Ágúst, Ellen Kristjáns, Högni Egilsson, Páll Óskar, Ragga Gísla, Raggi Bjarna og Valgeir Guðjónsson, Bryndís Halla Gylfadóttir, Eyþór Gunnarsson, Guðmundur Pétursson, Pétur Grétarsson, Róbert Þórhallsson og Sigrún Eðvaldsdóttir. Þá flytja Áshildur Haraldsdóttir frá Torfusamtökunum, Biggi Veira úr GusGus og Ragnar Kjartansson myndlistar- og tónlistarmaður ávörp.

Fyrsta árlega hjólreiðakeppni Kex Hostels og Kría Cycles hefst kl. 15. Stuttu áður mun Borgarstjóri vor, Jón Gnarr, vígja nýjan almenningsgarð í Vitahverfinu en garðurinn hefur fengið nafnið VItagarður. Eftir keppnina verður boðið upp á tónlist í garðinum þegar hljómsveitirnar Grísalappalísa og Bloodgroup koma þar fram.

Rafsveitin Bloodgroup slær upp hljómleikum á Faktorý. Sveitin sendi frá sér sína þriðju breiðskífu fyrr á þessu ári sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Tónleikarnir eru á efri hæð staðarins sem opnar klukkan 22:00 en tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Skúli mennski telur í blússandi blúsa, búgílög og nokkur vel valin aukalög ásamt Þungri byrði á Café Rosenberg. Hljómsveit skúla skipa Hjörtur Stephensen á gítar, Matthías Hemstock á trommur, Tómas Jónsson á rhodes-orgel, Valdimar Olgeirsson á bassa og Þorleifur Gaukur Davíðsson á munnhörpu. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Sunnudagur 16. júní

Ojba Rasta, Caterpillarmen, Babies og Love and Fog ætla sér að trylla allan þann lýð sem mætir á 30 ára afmælistónleika Rásar 2 og Gamla Gauksins sem fara fram á áðurnefndum Gauk. Aðgangseyrir er 1500 krónur, húsið opnar klukkan 22:00 og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður þeim varpað út beint á Rás 2.

Artwork úr hinni virtu dubstep hljómsveit Magnetic Man þeytir skífum á Faktorý ásamt landsliði íslenskra plötusnúða, svo sem Ewok, Kára og Bensol. Aðgangur er ókeypis og dansinn byrjar að duna um miðnæturbil.