Bandaríski tónlistarmaðurinn Trevor Powers sem gengur undir listamannsnafninu Youth Lagoon mun gefa út sína aðra plötu Wondrous Bughouse þann 5. mars. Youth Lagoon gaf út sína fyrstu plötu The Year Of Hibernation árið 2011og var hún í öðru sæti á lista Straums yfir bestu plötur ársins. Fyrsta smáskífan af plötunni Dropla datt á netið rétt í þessu, hlustið á lagið hér fyrir neðan.
Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður var söngvari og gítarleikari í hljómsveitunum Lödu Sport og Dynamo Fog mun halda útgáfutónleika fyrir sína fyrstu sólóplötu – Sérðu mig í lit? á Faktorý næsta föstudag. Platan er frábrugðin fyrri verkum Jóns á þann hátt að hún er öll sungin á íslensku. Ásamt Jóni mun reykvíska hljómsveitin Gang Related koma fram á tónleikunum sem hefjast á slaginu 23:00. Ýmsir hljóðfæraleikarar sem léku með Jóni Þór á plötunni munu einnig leiða fram krafta sína með honum þetta kvöld. Miðaverð er 1000 krónur og platan Sérðu mig í lit? verður til sölu á góðu verði. Hlustið á lagið Tímavél og horfið á viðtal sem áttum við Jón Þór fyrr í vetur hér að neðan.
Fyrsta Ep plata íslensku hljómsveitarinnar Oyama kemur út á næsta mánudag þann 21. janúar. Platan sem heitir I Wanna er samin, tekin upp og hljóðblönduð af sjálfri hljómsveitinni. Plötuumslagið er hannað af Júlíu Hermannsdóttur sem er meðlimur í bandinu.
Hljómsveitin efnir til útgáfutónleika á Faktorý, föstudaginn 25. janúar næstkomandi þar sem hljómsveitirnar Tilbury og Samaris koma fram ásamt Oyama. Tónleikarnir hefjast upp úr 22:00 og kostar 1000 kr inn – 2000 kr við inngang og platan fylgir með í kaupbæti. Hlustið á lagið Everything Some Of The Time af plötunni hér fyrir neðan.
þriðja plata íslensku hljómsveitarinnar Sin Fang – Flowers kemur út þann 1. febrúar næstkomandi. Hljómsveitin mun gefa plötuna út sem hjólabretti í samstarfi við hjólabretta framleiðandann Alien Workshop áður en hún kemur út á plasti og á stafrænu formi. Tvö mismunandi hjólabretti verða framleidd skreytt málverkum eftir Sindra Má Sigfússon forsprakka Sin Fang ásamt kóða til að hlaða niður plötunni. Áður hafa Alien Workshop framleidd bretti í samstarfi við Panda Bear og Gang Gang Dance.
Flowers var tekin upp af Alex Somers sem áður hefur unnið með Sigur Rós og Jónsa og sá síðast um upptökustjórn á plötunni Twosomeness með Pascal Pinion. Hlustið á væntanlega smáskífu af plötunni Look At The Light hér fyrir neðan.
Í Straumi í kvöld skoðum við væntanlegar plötur frá Guards, Foxygen og Sin Fang. Einnig skoðum við nýtt efni með Duke Dumont, Parquet Courts A$AP Rocky og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á X-inu 977 frá 23:00.
1. hluti:
1. 234 1
2. hluti:
2. 234 2
3. hluti:
3. 234 3
1) Young Boys – Sin Fang
2) No Destruction – Foxygen
3) San Francisco – Foxygen
4) On Blue Mountain – Foxygen
5) Look At The Light – Sin Fang
6) What’s Wrong With Your Eyes – Sin Fang
7) Sunbeam – Sin Fang
8) Borrowed Time – Parquet Courts
9) Clash The Truth – Beach Fossils
10) Lanzarote – Lindstrom/Todd Terje
11) Need U 100% – Duke Dumont
12) Nightmare – Guards
13) Ready To Go – Guards
14) Your Man – Guards
15) Can’t Repair – Guards
16) Hell (feat Santigold) – A$AP Rocky
17) Bad Gifts – Ósk
Norsararnir Todd Terje og Lindstrøm hafa undanfarið framleitt hágæða sci-fi diskó á færibandi og er skemmst að minnast að báðir komu við sögu á árslistum Straums fyrir síðasta ár. Þeir hafa bæði gefið út í eigin nafni en einnig verið iðnir við kolann í endurhljóðblöndunum á lögum hvors annars. Lanzarote er samstarfsverkefni þeirra og slær öðru nýlegu efni þeirra ekkert við, retrófjúturismi af bestu sort í ætt við framtíðarsýn áttunda áratugarins. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og endurhljóðblöndun Diskjokke.
Í nýjasta hefti tímaritsins Reykjavík Grapevine er kunngert um fyrstu titilhafa nýtilkominna tónlistarverðlauna blaðsins, en hugmyndin með þeim er að hvetja og styðja við íslenska tónlistarmenn sem þykja bera af um þessar mundir. Dómnefnd á vegum blaðsins, sem samanstóð af útvarpsmanninum Andra Frey Viðarssyni, Kamillu Ingibergsdóttir frá Iceland Airwaves hátíðinni og fulltrúa tónlistarskríbenta blaðsins, Robert Cluness, valdi verðlaunahafa í sex flokkum í kjölfar stífra fundarhalda sem áttu sér stað við lok desembermánaðar, en einu fyrirmæli sem dómnefndin hlaut var að vera samkvæm sannfæringu sinni og úttala málin almennilega áður en komist væri að niðurstöðu.
Var það einróma dómur nefndarinnar að Hjaltalín hafi átt íslenska plötu ársins með Enter 4, sem kölluð er „framúrskarandi meistaraverk“ í rökstuðningi hennar. Lag ársins 2012 var hið sívinsæla Háa C með Moses Hightower, en þar þykir bæði textagerð, taktur og hljómagangur koma saman og mynda nær fullkomna heild sem seint verður þreytt í spilun.
Rafsveitin langlífa GusGus taldist vera besta tónleikasveit landsins, en þrátt fyrir að hún eigi öfluga keppinauta um þessar mundir og hafi ekki spilað mikið árið 2012 þótti dómnefnd ótækt annað en að sæma hana titlinum í þetta fyrsta skipti sem hann er veittur, enda hafa sporgöngusveitir á borð við Retro Stefson lært mikið af goðsögnunum sjálfum.
Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson þóttu eiga eina vanmetnustu plötu ársins með samstarfsverkefninu The Box Tree, en þeim titli er ætlað að varpa ljósi og vekja athygli á tónlist sem fór ef til vill undir radarinn á liðnu ári en á þó fullt erindi við hlustendur. Af eilítið ólíkum toga er titillinn „Hljómsveit til að muna“ sem hin sívinsæla sveit Botnleðja hlaut að þessu sinni, en þar er ætlunin að hvetja lesendur blaðsins til þess að kynna sér sveitir eða tónlistarmenn sem hafa skarað fram úr á liðnum árum og sett mark sitt með svo óyggjandi hætti að tónlistarlandslag dagsins í dag væri vart hið sama hefði þeirra ekki notið við. Verður ekki annað sagt en að Hafnfirðingarnir knáu séu vel að titlinum komnir.
Það voru svo rokk æringjarnir í Muck sem dómnefndin taldi ástæðu til að verðlauna sem „Hljómsveit til að fylgjast með á komandi ári!“, en þessi háværa rokksveit þykir hafa vaxið úr öllu valdi undanfarin misseri og bíða spekúlantar þess nú spenntir að hún springi í loft upp og hrífi hinn almenna hlustenda með æsispennandi hörkukjarnamúsík sinni.
Í litlu partýi sem haldið var til að fagna verðlaununum á skemmmtistaðnum Dolly sl. föstudag tóku verðlaunahafar við verðlaunapeningum og viðurkenningaskjölum frá dómnefndarfulltrúa, auk þess sem Hjaltalín og rapparinn Gísli Pálmi tóku lagið. „Hugmyndin með þessari verðlaunaafhendingu allri er að gefa fólki klapp á bakið sem á það vonandi skilið,“ segir Haukur S. Magnússon, yfirritstjóri Reykjavík Grapevine. “Við vildum ekki vera með neinn íburð eða neitt, bara búa til litla dómnefnd með kláru fólki og halda svo smá partý með bjór og næs sem fyrst og fremst var ætlað tónlistarmönnunum sjálfum, þar sem þeir gætu boðið vinum og vandamönnum að eiga með sér notalega kvöldstund.”
Auk verðlaunapeninga og viðurkenningaskjala hljóta sveitirnar einnig límmiða til að skreyta plötur sínar með, svo þær geti selt á túristamarkaðnum, en handhafar plötu ársins fengu einnig gistingu á Hótel Búðum og flytjendum lags ársins er boðið út að borða á Tapas Barnum. “Ákaflega margir viðriðnir útgáfu Reykjavík Grapevine hafa jafnframt staðið í tónlistarstússi og við vildum þessvegna reyna að gera þetta bara svona eins og við hefðum sjálf fílað ef við myndum vinna einhver verðlaun. Engar tilnefningar eða stress, bara medalíur og bjór og svona dót sem er vonandi gagnlegt, eins og þessir límmiðar,” segir Haukur.” Eins og allir vita byggjum við á Grapevine afkomu okkar á því að skrifa fyrir ferðalanga og enskumælandi Íslendinga og framlag íslenskra tónlistarmanna til þess að gera landið eftirsóknarvert til heimsókna og jafnvel langdvala verður seint ofmetið. Við reynum að fylgjast glöggt með þessum músíköntum allt árið um kring og umfjallanir um þá eru með vinsælasta efni blaðsins. Því er ekkert eðlilegra en að við reynum að þakka einhvernvegin fyrir okkur og ég held að svona verðlaunanæs sé alveg fín leið til þess.”
Nánari rökstuðning fyrir valinu í hverjum flokki fyrir sig, auk útskýringa á dómnefndarferlinu öllu má finna í nýju hefti Reykjavík Grapevine, sem kom á göturnar og á netið sl. föstudag og er að vanda stútfullt af allskyns kræsingum (meðal annars ótrúlega lofsamlegum dómi um Hjaltalín plötuna).
New York sveitin Yeah Yeah Yeahs tilkynnti fyrr í dag að fjórða plata þeirra muni heita Mosquito og komi út 16. apríl næstkomandi á vegum Interscope. David Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio stjórnaði upptökum með hjálp frá Nick Launay. Horfið á stiklu fyrir plötuna hér fyrir neðan og upptökur af hljómsveitinni flytja tvö lög af plötunni á tónleikum.
Þau Aluna Francis og George Reid sem skipa breska dúóið AlunaGeorge vöktu fyrst athygli fyrir myndband við lag sitt You Know You Like It haustið 2011. Hljómsveitin sendi svo frá sér hið frábæra lag Your Drums á síðasta ári og lagið Diver núna fyrir stuttu. Fyrsta stóra plata þeirra Body Music er væntanleg seinna á þessu ári.
Cashmere Cat:
Ferill norska tónlistarmannsins Magnus August Høiberg hófst þegar hann byrjaði að hlaða inn endurhljóðblöndum af lögum frá listamönnum á borð við Lana Del Rey, Drake, og Jeremih. Fyrsta útgáfa hans Mirror Maru ep kom svo út í haust við einróma lof gagnrýnenda. Það verður spennandi að fylgjast með Cashmere Cat á þessu ári.
Factory Floor:
Breska hljóðgervla hljómsveitin Factory Floor var stofnuð í London árið 2005. Frá þeim tíma hefur hljómsveitin þróast hægt og rólega, sent frá sér nokkrar smáskífur og gert plötusamning við DFA records sem mun gefa út fyrstu stóru plötu þeirra á þessu ári. Hjólin fóru fyrst að snúast hjá hljómsveitinni þegar Stephen Morris remixaði lag með henni fyrir tveimur árum síðan en hljómsveitinni hefur verið líkt við báðar hljómsveitir Morris – New Order og Joy Division. Fyrsta smáskífan af plötu Factory Floor heitir Fall Back og kemur út þann 14. janúar. Horfið á myndbandið við lagið hér fyrir neðan.
Foxygen:
Bandaríska indie-rokk dúóið Foxygen var stofnað árið 2005 í Westlake Village í Kaliforníu af tveimur ungum drengjum sem voru helteknir af hljómsveitinni Brian Jonestown Massacre. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá þeim Jonathan Rado og Sam France sem skipa bandið. Þeir gáfu sjálfir út heilan helling af ep plötum á árunum 2007 til 2011 en margar af þeim eru ekki fáanlegar í dag. Snemma árs 2011 voru þeir svo uppgötvaðir af tónlistarmanninum og upptökustjóranum Richard Swift sem meðal annars er meðlimur hljómsveitarinnar The Shins í dag. Hann tók upp fyrstu stóru plötu Foxygen Take The Kids Off Broadway sem kom út í júlí í fyrra. Núna tæpu hálfu ári eftir útgáfu þeirra plötu er hljómsveitin tilbúin með sína aðra plötu We Are The 21st Century Ambassadors of Peace & Magic sem kemur út þann 22. janúar næstkomandi. Hlustið á lagið No Destruction af plötunni sem er eins og fullkominn blanda af Velvet Underground, Bob Dylan og Pavement.
Guards:
Guards er hugarfóstur Richie Follin, bróðir Madeline Folin söngkonu hljómsveitarinnar Cults. Richie er einnig fyrrverandi gítarleikari þeirrar hljómsveitar. Árið 2010 samdi Richie sjö lög sem hann ætlaði Cults og sendi hann þau til Madeline. Henni fannst lögin frábær en ekki henta hljómsveitinni og lét þau á netið án þess að segja Richie frá því, nokkur blogg fóru á stað og síðan hafa margir beðið spenntir eftir fyrstu stóru plötu Guards. Þessi sjö lög urðu svo Guards ep sem var ofanlega á lista Straums yfir bestu plötur ársins 2010. Guards var að senda frá sér kynningarmyndband með nýju lagi fyrir væntanlega fyrstu plötu sveitarinnar In Guards We Trust sem kemur út 5. febrúar. Horfið á það og hlustið á nýjustu smáskífu Guards hér fyrir neðan.
Haim:
Systra tríóið Haim kemur frá Los Angeles og spila tónlist sem minnir á rokksveitir 8. áratugarins. Hljómsveitin hefur eytt miklum tíma í upptökur á sinni fyrstu plötu sem væntanleg er á þessu ári. Þær hafa hent miklu efni á þeim tíma en lög sem heyrst hafa með sveitinn lofa mjög góðu og margir spá þeim mikilli velgengni á árinu. Hljómsveitin kom fram á Iceland Airwaves í nóvember við mikinn fögnuð viðstaddra.
Parquet Courts:
Síð pönk hljómsveitin Parquet Courts á rætur sínar að rekja til Texas en er nú staðsett í New York. Hljómur sveitarinnar minnir margt á margar af helstu gítarrokk hljómsveitum borgarinnar í gegnum tíðina. Fyrsta plata sveitarinnar leit dagsins ljós seint á síðasta ári og ber hún nafnið Light Up Gold og er stúttfull af metnaðarfullu gítarrokki.
Torres:
Hin 22 ára Mackenzie Scott frá Nashville í Tennessee gengur undir listamannsnafninu Torres sem á ekki eftir að hjálpa henni að google sjálfan sig í framtíðinni. Torres sendi nýlega frá sér hið frábæra lag Honey sem er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu sem kemur út á þessu ári.
Kameljónið David Bowie er 66 ára í dag og hann notaði það tilefni til að gefa frá sér nýtt lag og myndband, og það sem meira er, ný plata er væntanleg frá kappanum í byrjun mars. Bowie hefur látið lítið fara fyrir sér undanfarin ár en þetta verður fyrsta breiðskífa hans frá því Reality kom út árið 2003. Upptökum á plötunni stjórnaði Tony Visconti sem hefur áður unnið með Bowie, meðal annars á plötunum Young Americans, Low og Heroes. Hægt er að horfa á myndbandið við lagið, Where are we now, hér fyrir neðan en það vísar sterkt í dvöl Bowie í Berlín á ofanverðum áttunda áratugnum.