1. desember: And Anyway It’s Christmas – !!!

Gleðilegan 1. desember! Í dag hefst jóladagatal Straums – fram að jólum mun straum.is birta eitt jólalag á dag. Fyrir jólin í fyrra gaf hin magnað danssveit !!! eða Chk Chk Chk út jólalagið And Anyway It’s Christmas. Þess má geta að hljómsveitin spilaði á Iceland Airwaves árið 2007 við góðar undirtektir viðstaddra.

Straumur 17. nóvember 2014

 

Í Straumi í kvöld heyrum við efni frá Charli XCX, Tennyson, Parquet Courts, Tobias Jesso Jr, TV On The Radio, Machinedrum og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra frá klukkan 23:00 á X-inu 977.

Straumur 17. nóvember 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Gold Coins – Charli XCX
2) Lay-by – Tennyson
3) You’re Cute – Tennyson
4) Content Nausea – Parquet Courts
5) Pretty Machines – Parquet Courts
6) Nothing At All – Day Wave
7) Jack – Mourn
8) Hollywood – Tobias Jesso Jr.
9) Quartz – TV On The Radio
10) Love Stained – TV On The Radio
11) Tired & True – Machinedrum
12) 2 B Luvd – Machinedrum
13) Site Zero / The Vault – RL Grime
14) iSoap – Mr. Oizo
15) The Kids – Mark Kozelek

TV On The Radio á Sónar í Reykjavík

New York hljómsveitin TV On The Radio mun koma fram á Sónar Reykjavík í febrúar á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni frá því  í morgun. Hljómsveitin vakti mikla lukku þegar hún spilaði á Iceland Airwaves árið 2003 og er frábær viðbót við glæsilega dagskrá hátíðarinnar en sveitin gefur út sína fimmtu plötu Seeds þann 18. nóvember.


Breski raftónlistarmaður Kindness  mun einnig spila á hátíðinni, auk Elliphant og hins einstaka Sophie sem spilar raftónlist sem hefur verið kennd við PC Music. Hinn áhrifamikli plötusnúður Daniel Miller sem stofnaði Mute útgáfuna spilar líka á Sónar auk hins breska Randomer.

Íslensku tónlistarmennirnir DJ Margeir, Ghostigital, Fufanu, DJ Yamaho, Sin Fang, Exos, Gervisykur og Sean Danke voru einnig tilkynntir í morgun.

Sónar Reykjavik fer fram dagana 12, 13 og 14. febrúar 2015 í Hörpu.

 

 

 

 

Laugardagskvöld á Airwaves

Mynd: Matthew Eisman

Á fjórða degi í djammi og Airwaves er maður orðinn pínu lúinn en ég náða samt að rífa mig upp úr rúminu og hjóla niður í off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís þar sem rafgeggjarinn Skuggasveinn var að ljúka sér af. Hann var umkringdur hinum ýmsu hljómborðum og svuntuþeysurum og lék ljúfsárar og hádramatískar melódíur.

Þá sá ég tilraunapoppbandið Asonat á sama stað sem eiga eina bestu íslensku plötu ársins en ég hef aldrei séð live áður. Það er skipað tveimur græjugaurum og einni söngkona og leika seiðandi trip hop í anda þess besta á 10. áratugnum. Sumt hljómaði í áttina að sveitum eins og Thievery Corporation og Morcheepa og raddbeiting söngkonunnar var á köflum ansi Bjarkar-leg.

 

Ég hjólaði þvínæst yfir á Kex Hostel þar sem ég náði í skottið á hinum írsku Girl Band. Þeir léku fast og hratt rokk með afar hörðum kjarna. Þá sá ég bandaríska tónlistarmanna Ezra Furman á áttundu hæð hótelbars sem ég man ekki hvað heitir. Ég sá ekki mikið af honum en hann hljómaði svo vel að ég sá hann aftur síðar um kvöldið á opinberu dagskránni.

 

Eróbískur dansgjörningur

 

Þá var komið að stærsta nafni hátíðarinnar fyrir mig persónulega, ég hef hlustað á Knife í 10 ár og var loksins að sjá þau live á sínum síðustu tónleikum. Ég hafði lesið mér til um túrinn og vissi að þetta yrði skrýtið, en hafði ekki gert mér í hugarlund hversu skrýtið. Þetta hófst með konu sem kynnti tónleikana sem var eins og blanda af Dale Carnegie ræðumanni og eróbikkþjálfara. Síðan hófst sjóið og leikarar voru um 20 manns í skrýtnum búningum en þetta var meira eins og nútímadansverk og gjörningur en tónleikar. Maður var aldrei viss um hver væri að syngja, hver væri að spila hvaða hljóð (ef einhver gerði það á annað borð) eða hverjir meðlimir hljómsveitarinnar voru. Þetta var mjög sérstakt og á köflum fannst mér þetta tilgerðarlegt rúnk en stundum heillandi. Atriðið við Full On Fire var til dæmis mjög tilkomumikið og svo tóku þau flottar útgáfur af gömlu slögurunum Pass This On og We Share Our Mothers Health.

 

Ezra og kærastarnir

 

Eftir Knife náði ég svo nokkrum lögum með Caribou í Listasafninu sem renndi í gegnum bestu lögin af sinni nýjustu plötu af fádæma krafti og öryggi. Hann er einn besti aktívi raftónlistarmaður í heiminum þessi misserin, en ég varð hins vegar svo heillaður af Ezra Furman fyrr um daginn að ég vildi sjá hann á almennilegu venue-i. Ég hélt þess vegna yfir í Iðnó og sá ekki eftir því. Ezra Furman var með bandinu sínu sem hann kallaði The Boyfriends sem voru afar hressir. Hann sjálfur var klæddur í rauðan kjól og með prinsessukórónu og gítar um hálsinn. Tónlistin sem hann leikur er frumlega blanda af poppi, rokki og pönki þar sem saxafónn leikur stóra rullu. Hann var ótrúlega karismatískur á sviðinu og með fáránlega flotta rödd, hráa, rifna og pönkaða.

 

Á þessum tímapunkti fór þreyta í löppum að segja til sín en ég harkaði af mér og fór á Hermigervil í Gamla Bíói. Hann lék ný lög í bland við ábreiður og kom upp þéttri dansstemmningu í flottum salnum. Þá fór ég heim á sofnaði á sófa. Airwaves hátíðin í ár hefur verið mjög skemmtileg en topparnir fyrir mig hafa verið Ezra Furman, Unknown Mortal Orchestra og Roosevelt. Gamla Bíó er frábært nýtt venue eftir að stólarnir voru teknir út, vonandi verður það áfram nýtt í popptónleika því það gæti orðið nýja Nasa. Ég þakka fyrir mig en í kvöld eru það War on Drugs og Flaming Lips.

 

Davíð Roach Gunnarsson  

Airwaves 2014 – þáttur 5

Fimmti og síðasti þátturinn af Iceland Airwaves sérþætti Straums með Óla Dóra verður á dagskrá frá 20:00 – 22:00 í kvöld. Í þættinum í kvöld koma Nóló og Uni Stefson í heimsókn auk þess sem gefnir verða tveir miðar á hátíðina.

Airwaves þáttur 5 – 5. nóvember 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Balance – Future Islands
2) Beautiful Way – Nolo
3) Mali – Nolo
4) Hombre – Nolo
5) Easy – Son Lux
6) Black Horse Pike – Vorhees
7) Words I Don’t Remember – How To Dress Well
8) Þrástef – For a Minor Reflection
9) Manuel – Uni Stefson
10) Kyrie – Uni Stefson
11) Eliza – Anna Calvi
12) The Brea – Yumi Zouma
13) Heartbeats – The Knife
14) Odessa – Caribou
15) Lifeline – Eskmo
16) Best Night – The War On Drugs

Nýtt lag frá Sykur

Hljómsveitin Sykur sendir frá sér nýtt lag á heimasíðu sinni klukkan 12:00 í dag.  Lagið mun vera til niðurhals ókeypis fram yfir Airwaves og hægt verður að nálgast það á www.sykur.com. Lagið sem heitir Strange Loop er fyrsta efnið sem sveitin sendir frá sér síðan að platan Mesópótamía kom út fyrir þremur árum. Hljómsveitin vinnur nú að sinni þriðju plötu sem kemur út á næsta ári.

Malneirophrenia leikur í Mengi

Hljómsveitin Malneirophrenia blæs til hljómleika í Mengi fimmtudagskvöldið 23. október. Malneirophrenia er kammerpönktríó skipað píanói, sellói og rafbassa. Sveitin hefur leikið með hléum í áratug, haldið nokkra kvikmyndatónleika, og gaf út frumburð sinn M árið 2011. Tónlistin er frjálsleg blanda af nýrri og gamalli klassík, kvikmyndatónlist, rokki, óhljóðum og melódramatík. Sveitin spilar nú í fyrsta sinn á heilum tónleikum síðan snemma árs 2012 og vinnur að nýju efni, ásamt endurhljóðblöndunar-verkefni í samstarfi við ólíka raftónlistarmenn.

 

Tónleikarnir í Mengi verða tvískiptir. Fyrst frumflytur sveitin nýtt efni ásamt því að leika brot úr verkum eftir Franz Schubert og David Shire. Að því loknuverður leikið efni af plötunni M undir völdum atriðum úr kvikmyndinni Voyage to the Planet of Prehistoric Women frá 1967.

 

Hverjum seldum tónleikamiða fylgir rafrænt niðurhal af fyrsta hluta endurhljóðblöndunar verkefnisins, M-Theory #1, með verkum frá raftónlistarmönnunum Futuregrapher, Lord Pusswhip og Buss 4 Trikk. Tónleikarnir hefjast kl 21.00 og aðgangur er 2.000 krónur. Hlustið á endurhljóðblöndun Lord Pusswhip af Malneirophrenia hér fyrir neðan.

 

Myndband frá Chroemo

Kanadíski 80’s-legi diskófönkdúettinn Chromeo sendi í dag frá sér nýtt myndband við lagið Old 45’s. Lagið er af nýjustu plötu Chromeo, White Woman, sem kom út fyrr á árinu en í myndbandinu má sjá bregða fyrir systrunum úr hljómsveitinni Haim og Jon Heder, sem helst er þekktur fyrir hlutverk sitt sem Napoleon Dynamite. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Thom Yorke gefur út nýja plötu

Thom Yorke, leiðtogi indí-risans Radiohead, tilkynnti fyrir skömmu nýja sólóskífu sína sem hann gaf svo út samdægurs í gegnum bittorrent forritið. Þetta er önnur sólóskífa Yorke en sú fyrsta, Eraser, kom út árið 2006. Hægt er að hala niður laginu Brain In A Bottle og myndbandi fyrir það ókeypis hér eða kaupa plötuna fyrir litla sex dollara. 

Neutral Milk Hotel í Hörpu í kvöld

Bandaríska indísveitin Neutral Milk Hotel kemur fram í kvöld í Norðurljósasal Hörpu. Sin Fang sjá um upphitun en tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og ennþá eru lausir miðar sem hægt er að nálgast hér. Neutral Milk Hotel gáfu út hina goðsagnakenndu plötu In The Aeroplane Over the Sea árið 1998 og lögðu upp laupanna ári síðar en komu aftur saman til tónleikahalds á síðasta ári. In The Aeroplane Over the Sea nýtur mikillar aðdáunar í kreðsum óháðra tónlistarspekúlanta og var meðal annars valin fjórða besta plata tíunda áratugarins af indíbiblíunni Pitchfork. Þá hefur sveitin haft ómæld áhrif á seinni tíma indísveitir á borð við Arcade Fire og Beirut.