TV On The Radio á Sónar í Reykjavík

New York hljómsveitin TV On The Radio mun koma fram á Sónar Reykjavík í febrúar á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni frá því  í morgun. Hljómsveitin vakti mikla lukku þegar hún spilaði á Iceland Airwaves árið 2003 og er frábær viðbót við glæsilega dagskrá hátíðarinnar en sveitin gefur út sína fimmtu plötu Seeds þann 18. nóvember.


Breski raftónlistarmaður Kindness  mun einnig spila á hátíðinni, auk Elliphant og hins einstaka Sophie sem spilar raftónlist sem hefur verið kennd við PC Music. Hinn áhrifamikli plötusnúður Daniel Miller sem stofnaði Mute útgáfuna spilar líka á Sónar auk hins breska Randomer.

Íslensku tónlistarmennirnir DJ Margeir, Ghostigital, Fufanu, DJ Yamaho, Sin Fang, Exos, Gervisykur og Sean Danke voru einnig tilkynntir í morgun.

Sónar Reykjavik fer fram dagana 12, 13 og 14. febrúar 2015 í Hörpu.

 

 

 

 

Laugardagskvöld á Airwaves

Mynd: Matthew Eisman

Á fjórða degi í djammi og Airwaves er maður orðinn pínu lúinn en ég náða samt að rífa mig upp úr rúminu og hjóla niður í off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís þar sem rafgeggjarinn Skuggasveinn var að ljúka sér af. Hann var umkringdur hinum ýmsu hljómborðum og svuntuþeysurum og lék ljúfsárar og hádramatískar melódíur.

Þá sá ég tilraunapoppbandið Asonat á sama stað sem eiga eina bestu íslensku plötu ársins en ég hef aldrei séð live áður. Það er skipað tveimur græjugaurum og einni söngkona og leika seiðandi trip hop í anda þess besta á 10. áratugnum. Sumt hljómaði í áttina að sveitum eins og Thievery Corporation og Morcheepa og raddbeiting söngkonunnar var á köflum ansi Bjarkar-leg.

 

Ég hjólaði þvínæst yfir á Kex Hostel þar sem ég náði í skottið á hinum írsku Girl Band. Þeir léku fast og hratt rokk með afar hörðum kjarna. Þá sá ég bandaríska tónlistarmanna Ezra Furman á áttundu hæð hótelbars sem ég man ekki hvað heitir. Ég sá ekki mikið af honum en hann hljómaði svo vel að ég sá hann aftur síðar um kvöldið á opinberu dagskránni.

 

Eróbískur dansgjörningur

 

Þá var komið að stærsta nafni hátíðarinnar fyrir mig persónulega, ég hef hlustað á Knife í 10 ár og var loksins að sjá þau live á sínum síðustu tónleikum. Ég hafði lesið mér til um túrinn og vissi að þetta yrði skrýtið, en hafði ekki gert mér í hugarlund hversu skrýtið. Þetta hófst með konu sem kynnti tónleikana sem var eins og blanda af Dale Carnegie ræðumanni og eróbikkþjálfara. Síðan hófst sjóið og leikarar voru um 20 manns í skrýtnum búningum en þetta var meira eins og nútímadansverk og gjörningur en tónleikar. Maður var aldrei viss um hver væri að syngja, hver væri að spila hvaða hljóð (ef einhver gerði það á annað borð) eða hverjir meðlimir hljómsveitarinnar voru. Þetta var mjög sérstakt og á köflum fannst mér þetta tilgerðarlegt rúnk en stundum heillandi. Atriðið við Full On Fire var til dæmis mjög tilkomumikið og svo tóku þau flottar útgáfur af gömlu slögurunum Pass This On og We Share Our Mothers Health.

 

Ezra og kærastarnir

 

Eftir Knife náði ég svo nokkrum lögum með Caribou í Listasafninu sem renndi í gegnum bestu lögin af sinni nýjustu plötu af fádæma krafti og öryggi. Hann er einn besti aktívi raftónlistarmaður í heiminum þessi misserin, en ég varð hins vegar svo heillaður af Ezra Furman fyrr um daginn að ég vildi sjá hann á almennilegu venue-i. Ég hélt þess vegna yfir í Iðnó og sá ekki eftir því. Ezra Furman var með bandinu sínu sem hann kallaði The Boyfriends sem voru afar hressir. Hann sjálfur var klæddur í rauðan kjól og með prinsessukórónu og gítar um hálsinn. Tónlistin sem hann leikur er frumlega blanda af poppi, rokki og pönki þar sem saxafónn leikur stóra rullu. Hann var ótrúlega karismatískur á sviðinu og með fáránlega flotta rödd, hráa, rifna og pönkaða.

 

Á þessum tímapunkti fór þreyta í löppum að segja til sín en ég harkaði af mér og fór á Hermigervil í Gamla Bíói. Hann lék ný lög í bland við ábreiður og kom upp þéttri dansstemmningu í flottum salnum. Þá fór ég heim á sofnaði á sófa. Airwaves hátíðin í ár hefur verið mjög skemmtileg en topparnir fyrir mig hafa verið Ezra Furman, Unknown Mortal Orchestra og Roosevelt. Gamla Bíó er frábært nýtt venue eftir að stólarnir voru teknir út, vonandi verður það áfram nýtt í popptónleika því það gæti orðið nýja Nasa. Ég þakka fyrir mig en í kvöld eru það War on Drugs og Flaming Lips.

 

Davíð Roach Gunnarsson  

Airwaves 2014 – þáttur 5

Fimmti og síðasti þátturinn af Iceland Airwaves sérþætti Straums með Óla Dóra verður á dagskrá frá 20:00 – 22:00 í kvöld. Í þættinum í kvöld koma Nóló og Uni Stefson í heimsókn auk þess sem gefnir verða tveir miðar á hátíðina.

Airwaves þáttur 5 – 5. nóvember 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Balance – Future Islands
2) Beautiful Way – Nolo
3) Mali – Nolo
4) Hombre – Nolo
5) Easy – Son Lux
6) Black Horse Pike – Vorhees
7) Words I Don’t Remember – How To Dress Well
8) Þrástef – For a Minor Reflection
9) Manuel – Uni Stefson
10) Kyrie – Uni Stefson
11) Eliza – Anna Calvi
12) The Brea – Yumi Zouma
13) Heartbeats – The Knife
14) Odessa – Caribou
15) Lifeline – Eskmo
16) Best Night – The War On Drugs

Nýtt lag frá Sykur

Hljómsveitin Sykur sendir frá sér nýtt lag á heimasíðu sinni klukkan 12:00 í dag.  Lagið mun vera til niðurhals ókeypis fram yfir Airwaves og hægt verður að nálgast það á www.sykur.com. Lagið sem heitir Strange Loop er fyrsta efnið sem sveitin sendir frá sér síðan að platan Mesópótamía kom út fyrir þremur árum. Hljómsveitin vinnur nú að sinni þriðju plötu sem kemur út á næsta ári.

Malneirophrenia leikur í Mengi

Hljómsveitin Malneirophrenia blæs til hljómleika í Mengi fimmtudagskvöldið 23. október. Malneirophrenia er kammerpönktríó skipað píanói, sellói og rafbassa. Sveitin hefur leikið með hléum í áratug, haldið nokkra kvikmyndatónleika, og gaf út frumburð sinn M árið 2011. Tónlistin er frjálsleg blanda af nýrri og gamalli klassík, kvikmyndatónlist, rokki, óhljóðum og melódramatík. Sveitin spilar nú í fyrsta sinn á heilum tónleikum síðan snemma árs 2012 og vinnur að nýju efni, ásamt endurhljóðblöndunar-verkefni í samstarfi við ólíka raftónlistarmenn.

 

Tónleikarnir í Mengi verða tvískiptir. Fyrst frumflytur sveitin nýtt efni ásamt því að leika brot úr verkum eftir Franz Schubert og David Shire. Að því loknuverður leikið efni af plötunni M undir völdum atriðum úr kvikmyndinni Voyage to the Planet of Prehistoric Women frá 1967.

 

Hverjum seldum tónleikamiða fylgir rafrænt niðurhal af fyrsta hluta endurhljóðblöndunar verkefnisins, M-Theory #1, með verkum frá raftónlistarmönnunum Futuregrapher, Lord Pusswhip og Buss 4 Trikk. Tónleikarnir hefjast kl 21.00 og aðgangur er 2.000 krónur. Hlustið á endurhljóðblöndun Lord Pusswhip af Malneirophrenia hér fyrir neðan.

 

Myndband frá Chroemo

Kanadíski 80’s-legi diskófönkdúettinn Chromeo sendi í dag frá sér nýtt myndband við lagið Old 45’s. Lagið er af nýjustu plötu Chromeo, White Woman, sem kom út fyrr á árinu en í myndbandinu má sjá bregða fyrir systrunum úr hljómsveitinni Haim og Jon Heder, sem helst er þekktur fyrir hlutverk sitt sem Napoleon Dynamite. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Thom Yorke gefur út nýja plötu

Thom Yorke, leiðtogi indí-risans Radiohead, tilkynnti fyrir skömmu nýja sólóskífu sína sem hann gaf svo út samdægurs í gegnum bittorrent forritið. Þetta er önnur sólóskífa Yorke en sú fyrsta, Eraser, kom út árið 2006. Hægt er að hala niður laginu Brain In A Bottle og myndbandi fyrir það ókeypis hér eða kaupa plötuna fyrir litla sex dollara. 

Neutral Milk Hotel í Hörpu í kvöld

Bandaríska indísveitin Neutral Milk Hotel kemur fram í kvöld í Norðurljósasal Hörpu. Sin Fang sjá um upphitun en tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og ennþá eru lausir miðar sem hægt er að nálgast hér. Neutral Milk Hotel gáfu út hina goðsagnakenndu plötu In The Aeroplane Over the Sea árið 1998 og lögðu upp laupanna ári síðar en komu aftur saman til tónleikahalds á síðasta ári. In The Aeroplane Over the Sea nýtur mikillar aðdáunar í kreðsum óháðra tónlistarspekúlanta og var meðal annars valin fjórða besta plata tíunda áratugarins af indíbiblíunni Pitchfork. Þá hefur sveitin haft ómæld áhrif á seinni tíma indísveitir á borð við Arcade Fire og Beirut.

Hróarskelda 2014 – Heimur út af fyrir sig

Við skulum byrja þetta á játningu: Ég heiti Davíð, er 31 árs og hef aldrei áður farið á Hróarskeldu. Við skulum svo taka aðra játningu: Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihalda yfirbókaða flugvél, millilendingu í Barcelona og missi af tengiflugi þar var ég lengur í útlöndum en ég ætlaði mér. Ég skrifaði ekki mikið niður af minnispunktum og er þess vegna að fiska atburði og stemmningar upp úr bjórmaríneruðu minni nokkru eftir hátíðina. Það sem á eftir fer er þess vegna ekki vísindalega áreiðanlegur vitnisburður en gefur þó vonandi óljósa mynd af þeirri alhliða upplifun sem Hróarskelda er. Hefst nú ritningin:

 

Þegar við stigum út úr lestinni og komum inn á Hróarskeldusvæðið áttum við eftir að redda tjaldi og tjalda því og það voru tveir tímar þangað til Outkast áttu að byrja. Það hefði átt að vera einfalt verkefni en enginn virtist vita hvar maður gæti keypt tjald eða hvar blaðamannatjaldsvæðið væri og Outkast voru við það að byrja þegar við fundum það. Við tjölduðum á methraða með Bombs Over Baghdad sem undirleik og hlupum síðan yfir á appelsínugula sviðið að sjá eina bestu rapphljómsveit allra tíma. Ég hef verið Outkast aðdáandi helming ævi minnar og þetta var langþráð stund sem stóðst allar væntingar. Ólíkt því sem ég hafði lesið um tónleika þeirra á Coachella hátíðinni voru Andre 3000 og Big Boi í miklu stuði á sviðinu og ekki á þeim að sjá þetta væri gert bara fyrir peninginn. Þeir tóku alla sína helstu slagara og ég ærðist þegar þeir spiluðu Roses. Andre er svalasti núlifandi maður jarðarinnar og fór á kostum á sviðinu og vitnaði meira að segja í dónarappsveitina 2 Live Crew.

Á eftir Outkast voru ellilífeyrisþegarnir í Rolling Stones. Ég hafði ekki miklar væntingar til þeirra, Stones eru orðnir svo mikil stofnun að ég hélt þetta væri bara til að tikka í eitthvað box og getað sagst hafa séð þá. En tónleikarnir fóru langt fram úr vonum mínum og voru með þeim bestu á hátíðinni. Það er ótrúlegt hvernig rödd Mick Jaggers hefur nánast ekkert dalað á 50 árum og Ronnie Woods fór hamförum á gítarnum. Keith Richards var í aukahlutverki á gítarnum en magnaður karakter engu að síður og þeir fengu kór til að aðstoða sig við You can’t always get what you want. Í lokin var svo flugeldum skotið á loft sem var fullkomlega verðskuldað.

 

Dagur 2

 

Vegna þess hve seint við komum á tónleika gærkvöldsins ákváðum við að taka daginn snemma á föstudeginum og byrjuðum með hljómleikum nýsjálenska sýrurokkarans Connan Mockasin klukkan 2 um daginn. Hann lék LSD-legna síkadelíu ekki ósvipaða áströlsku sveitinni Tame Impala og sló góða upptakt fyrir þá stífu tónleikadagskrá sem fram undan var. Næst var haldið í Arena tjaldið þar sem bandaríska indírappsveitin Dialated Peoples var að koma sér fyrir. Þeir rokkuðu Arena-tjaldið með rokna sviðsframkomu og plötusnúðurinn Babu sýndi ótrúlega fingrafimi í villtum skrats-sólóum.

Við röltum svo í annað svið yfir á kvennabandið Warpaint sem myndaði rafmagnaða stemmningu með dökkum hljómi og þéttum samsöng. Þar á eftir fékk norski raftónlistarmaðurinn Cashmere Cat okkur til að dansa í besta setti dagsins hingað til, sem innhélt kraftmikla blöndu af tekknói, dubstep og hústónlist. Þvínæst héldum við yfir á Arena sviðið að sjá hinn feikilega fjölhæfa Damon Albarn. Albarn er nýbúinn að gefa út sína fyrstu sólóskífu undir eigin nafni sem er virkilega fín en nokkuð í rólegri kantinum. Flutningur Damons og hljómsveitar var afbragð en gefið var í á seinni hluta tónleikana og hápunktinum náð þegar De La Soul stigu á sviðið og fluttu Gorillaz slagarann Feel Good Inc.

Rafdúettinn Darkside sem samanstendur af Nicolas Jaar og gítarleikaranum Dave Harrington stóð svo sannarlega undir nafni því tónleikar þeirra voru þeir myrkustu á hátíðinni, svo dimmt var í tjaldinu að ekki sást vottur af tvímenningunum á sviðinu. Þrátt fyrir að vera mikill aðdáandi tónlistar sveitarinnar var leiðinlegt að sjá ekki mennina á bakvið hana, svo við héldum því yfir á annan rafdúett, hina bandarísku Classixx. Þeir voru öllu líflegri, spiluðu á bassa og hljómborð, og framleiddu fönkí graut af hús- og diskótónlist meðan Kraftwerk-legri grafík var varpað á skjá fyrir aftan.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru fætur föruneytisins orðnir ansi lúnir eftir næstum því hálfan sólarhring af tónleikastandi og labbi milli sviða. Við vorum þó staðráðnir í að sjá tribute-bandið The Atomic Bomb! Band, sem leikur tónlist hins dularfulla nígeríska synthafönkmeistara, William Onyeabor. Hljómsveitin er skipuð einvalaliði hljóðfæraleikara úr mörgum heitustu indísveitum samtímans auk ýmissa afrískra snillinga. Þá komu söngvarar eins og Luke Jenner úr Rapture og Joe Goddard úr Hot Chip við sögu en toppurinn var þó þegar Damon Albarn kom óvænt á sviðið og flutti helsta slagara Onyeabor, Fantastic Man. Þá fann ég ekki fyrir neinni þreytu lengur í löppunum og dansaði og öskraði mig hásan inn í nóttina við óstöðvandi grúvið. Þetta var einn af hápunktum hátíðarinnar og við héldum dauðþreyttir en með risabros á vör heim í tjaldið.

Dagur þrjú

 

Eftir pakkaða dagskrá gærkvöldsins leyfðum við okkur að slaka aðeins á fyrri part dags og drekka bjór í sólinni við tjaldsvæðið. Þrátt fyrir að tónlistin sé aðalatriðið er líka hluti af stemmningunni við hátíðina að rölta um, kynnast nýju fólki og vera ekki allt of rígbundinn við stífa dagskrá. Við sáum bandarísku R&B píuna Kelelu flytja á tilfinningaþrungin hátt framsækna popptónlist með rafrænni áferð. Þá var fransk/spænski reggíhippinn Manu Chao í fínasta stuði á aðalsviðinu en ég hef samt aldrei verið mikill aðdáandi hans svo haldið var yfir á breska raftónlistarmanninn James Holden.

 

James Holden er sér á báti í raftónlistarsenu samtímans, leikur kosmíska hljóðasúpu með geigvænlegum drunum og áhrifum frá sækadelik og súrkálsrokki. Hann var í mjög þéttri keyrslu og fór á kostum í hljóðgervlafimleikum og tilraunakenndum töktum.

 

Artic Monkies héldu táningunum í stuði á stóra sviðinu, Kavinsky héldu eitursvölu kúlinu sínu og Interpol voru svellkaldir eins og venjulega. Major Lazer áttu dónalegasta sett hátíðarinnar en á meðan Diplo og félagar dældu út sóðalegu Dancehall-i voru fimm dansapíur í tannþráðs G-strengjum að twerka eins og þær fengju borgað fyrir það (sem þær gerðu alveg örugglega). Það síðasta sem við sáum þetta kvöldið var svo hávaðapoppbandið Sleigh Bells sem gjörsamlega rokkuðu himininn af tjaldinu. Alexis Krauss, söngkona sveitarinnar, fór á kostum í tryllingslegri sviðsframkomu þar sem hún steig yfir vegginn fyrir framan sviðið og bókstaflega labbaði ofan á áhorfendum.

 

Dagur 4

 

Eitt af því skemmtilegasta við tónlistarhátíðir með óteljandi hljómsveitum er að ramba óvænt á eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt áður. Í gönguferð í leit að morgunmat rákumst við inn á tónleika með malísku feðgunum Toumani & Sidiki Diabate. Toumani þessi er víst þekktur fyrir samstarf sitt við Ali Farka Touré en þarna var hann með syni sínum og þeir framkölluðu forn grúv með módernísku tvisti á svokallaðar Kora-hörpur.

 

Deerhunter áttu mjög góða spretti og forsprakki hennar, Bradford Cox, sem lítur út eins og tveggja metra alnæmissjúklingur með vörubílsstjóraderhúfu, lék á alls oddi í mögnuðum gítaræfingum. Það var hins vegar aldraða undrabarnið og æringinn Stevie Wonder sem átti bestu tónleika sunnudagsins. Studdur hljómsveit á heimsmælikvarða keyrði hann í gegnum úrval af sínum óteljandi hitturum og maður sá útgeislunina skína úr augum hans þrátt fyrir dökk sólgleraugun. Að sjá þann sjónlausa flytja lög eins og Master Blaster (Jammin), My Cherie Amor, Living For The City og Superstition í félagsskap minna bestu vina í glampandi sólskyni gerði mig allan meyran og hamingjuþrungin hitatilfinning byrjaði að kræla á sér innra með mér og hríslast um allan líkamann. Wonder-inn var eins mikið með’etta og hægt er að vera að upplifunin ólík öllu öðru á hátíðinni.

 

Jack White lokaði svo hátíðinni með stæl og hóf leikinn á White Stripes klassíkinni Icky Thump. Reglulega brast á með villtum gítarsólóum og áhorfendur tóku við sér svo um munar í White Stripes lögum eins og Fell in Love With a Girl og Hotel Yorba. Hann lokaði svo hátíðinni endanlega með hinu anþemíska Seven Nation Army þar sem tugir þúsunda sungu með og sló þannig vel rokkaðan botn í ógleymanlegt festival.

Að upplifa Hróarskeldu í fyrsta skiptið er samt ekki hægt að lýsa til fullnustu með neinum orðum, jafnvel ekki svona rosalega mörgum eins og ég hef reynt í þessari grein. Hátíðin er eins og önnur vídd þar sem stjórnlaus gleði ræður ríkjum sem fer þó aldrei úr böndunum. Þarna eru samankomnir rúmlega 100.000 manns og það sást ekki vesen eða leiðindi á einum einasta. Þetta var mín fyrsta hátíð en verður svo sannarlega ekki sú síðasta.

 

Davíð Roach Gunnarsson

MC Bjór frumsýnir myndband

Rapparinn MC Bjór frumsýndi í gær myndband við lag sitt Hrísgrjón. Í því kemur meðal annars við sögu bílferð í geimnum og belja úr Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum á stórleik í aukahlutverki. Í laginu nýtur hann aðstoðar rapparanna BRR og Bjarka B-Nice sem sjá um gestavers og koma einnig fram í myndbandinu.

 

Mc Bjór er kynngimagnaður rappari sem hefur bruggað listrænan mjöð neðanjarðar um nokkurt skeið sem er nú loks farinn að freyða upp á yfirborðið. Bjórinn sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins. Rennsli Bjórsins er ekki bundið hefðbundnum farvegum og flæðir ítrekað yfir alla mögulega bakka. Hann sækir innblástur og hugmyndafræði í andans jöfra 20. aldarinnar á borð við Old Dirty Bastard og Nate Dogg. Sér til halds og trausts á tónleikum hefur hann hljómsveitina Bland sem eltir orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita.

Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.