Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 22. júní 2015

Í Straumi í kvöld verður farið yfir nýtt efni frá Chet Faker, Totally Mild,  Keys N Krates, Ducktails, Widowspeak, Sun Kill Moon og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld milli ellefu og tólf á X-inu 977.

Straumur 22. júní 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Know Me From – Stormzy
2) Bend – Chet Faker
3) Save Me (ft. Katy B) – Keys N Krates
4) Can’t You See – Skylar Spence
5) L’Esprit de I’Escalier – Domenique Dumont
6) St. Catherine – Ducktails
7) Krumme Lanke – Ducktails
8) When Im tired – Totally Mild
9) Move On – Totally Mild
10) Girls – Widowspeak
11) This Is My First Day And I’m Indian And I Work At A Gas Station – Sun Kil Moon
12) Kicks – FKA Twigs

Tónlistarmarkaður – Bernhöfts Bazaars

Bernhöfts Bazaar er nýr og skemmtilegur fjölþema útimarkaður sem haldinn verður á laugardögum frá 20 júní – 25 júlí á Bernhöftstorfu, horni Bankastrætis og Lækjargötu. Fyrsti markaður sumarsins snýr að tónlist og fer hann fram laugardaginn 20 júní frá klukkan kl 13 – 18.

Tónlistarunnendur, útgáfufyrirtæki og listamenn munu bjóða uppá breitt safn af tónlistartengdum varningi, nýútgefnu efni, vínylplötum, geisladiskum og kassettum fyrir alla aldurshópa. Veitingarstaðurinn Torfan verður á svæðinu og selur svalandi veitingar fyrir fjölskylduna, DJ Óli Dóri þeytir skífum og tónlistarfólk spilar.

https://www.facebook.com/events/578058362331947/

Straumur 15. júní 2015

Í Straumi í kvöld verður flutt nýtt efni frá Beck, Goldlink, Weaves, Daphni, Ezra Furman, The Weeknd og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld milli ellefu á tólf á X-inu 977.

Straumur 15. júní 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Tick – Weaves
2) Dreams – Beck
3) Can’t Feel My Face – The Weeknd
4) Dance On Me – Goldlink
5) Beautiful Life (ft. Action Bronson & Joey Bada$ – Statik Selektah
6) Lukey World – SKEPTA
7) Usha – Daphni
8) Hark! to the Moon – Ezra Furman
9) Wobbly – Ezra Furman
10) Ordinary Life – Ezra Furman
11) Truce – jj
12) Kalt – Kælan Mikla
13) La Disco – Giorgio Moroder
14) The Lost Drum Beat – Mikael Seifu

Tónleikahelgin 11.-13. júní

Fimmtudagur 11. júní

 

Sóley fagnar útkomu plötunnar Ask the Deep með útgáfutónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík. Húsið opnar 20:00, tónleikarnir hefjast halftime síðar og aðgangseyrir er 2500 krónur.

 

Magnús Tryggvason Elíassen leiðir hóp slagverksleikara í spunastund í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og byrjar 21:00.

 

Stærðfræði harðkjarnasveitin In The Company Of Men spilar á Dillon. Ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Föstudagur 12. Júní

 

Það verður garðpartý á Hverfisgötu 88. Ojba Rasta og Sturla Atlas koma fram.

 

TV Smith sem var í bresku pönksveitinn Adverts spilar á Dillon og Caterpillarmen hita upp. Ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Hollenska proggsveitin Focus leikur í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Tónleikarnir byrja klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 8900 krónur.

 

Jo Berger Myhri og Óbó spila í Mengi. Byrja 21:00 og kostar 2000 inn.

 

Laugardagur 13. júní

 

Straumur stendur fyrir sýningu á heimildarmyndinni Finding Fela í Bíó Paradís klukkan 20:00. Myndin fjallar um lífshlaup afróbít frumkvöðulsins Fela Kuti en að sýningu lokinni mun hljómsveitin Bangoura Band leika afróbít fyrir dansi.

 

Snorri Ásmundsson verður með tónleika/gjörningakvöld í Mengi. Byrjar 21:00 og aðgangseyrir 2000.

 

Reggísveitin Barr spilar á Dillon, byrjar 22:00 og ókeypis inn.

 

Breiðholtfestival fer fram í breiðholti yfir daginn frá 13:00-22:00. Það má finna allt um það hér.

Finding Fela

Straumur í samstarfi við Bíó Paradís sýnir heimildamyndina Finding Fela laugardaginn 13. júní klukkan 20:00 í Bíó Paradís.

Myndin fjallar um líf Fela Kuti , tónlistina hans og mikilvægi hans í félagslegu og pólitísku samhengi. Hann var upphafsmaður tónlistarhreyfingarinnar Afróbeat, þar sem hann vildi nýta tónlist sem pólitískt vopn gegn Nígerískum stjórnvöldum áttunda og níunda áratugarins. Fela Kuti var áhrifavaldur að lýðræðisbreytingum í Nígeríu ásamt því að breiða boðskapinn í alþjóðlegu samhengi, en hann á vel við í nútímanum þar sem fjöldi manns berst enn fyrir frelsinu. Kvikmyndinni er leikstýrt af Óskarsverðlaunahafanum Alex Gibney.

Fending Fela er önnur í röð sýninga tengdri tónlist sem Straumur og Bíó Paradís munu standa fyrir einu sinni mánuði. Miðaverð er 1400 kr og hin stórbrotna afrobeat sveit The Bangoura Band mun spila eftir myndina.

Hér má lesa grein sem birtist á þessari síðu um Fela Kuti.

Primavera Sound minnir á sig

Primavera sound er fimm daga tónleikahátíð sem er haldin í Barcelona á Spáni, í maí-mánuði á ári hverju. Hátíðin, sem var fyrst haldin árið 2001, er þekkt fyrir að vera með fjölbreytt úrval af tónlist, þó aðal fókusinn sé á rokk, elektró og hip hop. Á daginn fer hátíðin fram á mörgum sviðum í almenningsgarði í miðborg Barcelona sem nefnist Parc del Fòrum en eftir miðnætti taka við klúbbar í miðbænum. Hátíðinni mætti lýsa sem blöndu af Hróaskeldu og Iceland Airwaves. Tæplega 175 þúsund manns sækja hana á ári hverju. Hátíðin stendur yfir frá miðvikudegi alveg til sunnudags.

Miðvikudagur 27. maí

Fyrsti listamaðurinn sem ég sá á Primavera í ár var Albert Hammond gítarleikari The Strokes. Hammond, sem spilaði ásamt trommara, bassaleikara og fiðluleikara á strærsta sviði hátíðarinnar, framleiddi hágæða gítarsurg og var hápunktur tónleikanna þegar hann stóð á gítarnum og vaggaði sér fram og til baka til að ná sem mestu feedbakki.Eftir tónleika Hammond kom ég við á stærsta sviðinu þar sem 80s hetjurnar í Orchestral Manoeuvres in the Dark spiluðu á vel sóttum tónleikum. Eins góð og mér þykir þeirra síðasta plata þá heilluðu þeir mig ekki í þetta skiptið. Strax á eftir þeim var röðin kominn að Benjamin Booker sem spilaði á klúbb í grendinni sem nefnist BART, þar kom einnig fram Har Mar Superstar. Þetta voru frábærir tónleikar. Eftir að hafa spilað 45 sekúndur hófu hljómsveitarmeðlimir að rífast við dyraverði og úr varð stríð þeirra á milli. Þetta var gífurlega vandræðalegt og ég sá ekkert annað í stöðunni nema að yfirgefa svæðið.

Fimmtudagur 28. maí

Eitt af því skemmtilegasta við tónlistarhátíðir með óteljandi hljómsveitum er að ramba óvænt á eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt áður. Í gönguferð í leit að mat rákumst við inn á tónleika með Viet Cong sem stóðu fyrir sínu og áttu þrusu gott sett á Pitchfork sviðinu. Á tónleikunum hitti ég nokkrur bönd sem voru spennt fyrir að spila á sama sviði daginn eftir. Þá var runnin upp sú stund sem ég hafði beðið eftir, bandaríska rokksveitin The Replacements voru að fara að spila sína næst síðustu tónleika á Primavera-sviðinu. Þeir stóðu fyrir sínu og gott betur en það og fylltu vel upp í það skarð sem skildu eftir þegar þeir hættu árið 1991.

Það sem kom mér mest á óvart við þennan fyrsta dag á Primavera svæðinu var hversu auðvelt það reyndist að neyta áfengis á hátíðinni. Til þess að neyta áfengis þarf maður að fara í sértök tjöld á svæðinu sem selja það og þarf maður að drekka á staðnum. Maturinn á svæðinu þótti mér góður en hefði mátt vera fjölbreyttari.

Nú var röðin komin að Tyler the creator, sem er fyrir þá tónleikagesti sem vilja halda áfram eftir að tónleikunum lýkur. Fyrirkomulagið er á þann hátt að tónleikar eru haldnir í 3 klúbbum sem eru dreifðir um svæðið. Þetta er svona svipað og ef Iceland Airwaves væri haldið í Kópavogi, Skeifunni og í miðbæ Reykjavíkur. Allir þessir klúbbar eru frekar litlir og þess vegna þarf maður að vera snar í snúningum til þess að komast inn á þá. Ólíkt Iceland Airwaves getur maður ekki kíkt á tónleika í næsta nágrenni ef húsið er fullt. Fyrsta kvöldið stefndi ég á að sjá Chet Faker á tónleikum sem voru mjög öflugir. Þegar þanngað var komið beið mín röð sem minnti á það allra versta í sögu Iceland Airwaves og þó ég hefði blaðamannapassa var mér ekki veittur aðgangur. Það var því ekkert annað í stöðunni en að taka rölt á næstu tónleika sem tók um hálftíma. Ég fór á svið á miðju svæðinu sem hýsti James Blake, Jungle og fleiri og fór í rúmið sáttur.

Föstudagur 29. maí

New York  rokkarinn  og Strokes söngvarinn Julian Casablancas  hóf leikinn á föstudeginum á Primavera ásamt hljómsveit sinni The Voidz. Hljómsveitin gaf út hina furðulegu breiðskífu – Tyranny í fyrra. Tónleikar þeirra á hátíðinni voru misjafnir og voru þeir ekki klappaðir upp í ár. Strax á eftir þeim kom svo sjálf Patti Smith. Hún átti ekki síðri tónleika og sannaði það hún er ekki aðeins frábær sönkona heldur gítarleikari af guðs náð. Tobias Jesso Jr. spilaði svo á Pitchfork sviðinu og þeyttu flösu milli þess sem hann spilaði lög af hinni einstöku plötu Goon sem kom út í byrjun ársins. Belle & Sebastian spiluðu svo á ATP sviðinu, fluttu lög af öllum skífum sínum og gerðu það af stakri prýði. Næst á svið á eftir þeim voru riotgrrrl bandið Sleater Kinney. Tónleikar þeirra voru kraftmiklir og spiluðu þau lög frá eldri plötum í bland við nýtt. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar þær tóku þekkta slagara. Næst var það hin goðsagnkennda shoe-gaze band Ride sem áttu ágætis spretti. En ég fór svo aftur á Pitchfork sviðið þar sem Ariel Pink var með sitt leikhús í fullum gangi. Þá var röðin komin að Jon Hopkins en hann nýtti hljóðkerfi hátíðarinnar til hins ýtrasta, keyrði allt í botn svo þú fannst fyrir drungalegu tekknóinu með öllum líkamanum en ekki bara eyrunum. Klúbbastemmningin var allsráðandi og Hopkins stjórnaði dansandi skaranum eins og her af strengjabrúðum. Ratatat lauk svo kvöldinu með frábærum tónleikum sem innihéldu lög af nýjustu plötu þeirra – Magnifique sem kom út fyrr á þessu ári. Eftir þetta kvöld var ég mjög sáttur.

Laugardagur  30. maí

Eftir þriggja daga tónleikastand er maður orðinn pínu lúinn en ég náði þó að koma mér út úr húsi til að sjá kanadíska gítarpopparann Mac DeMarco á Heineken-sviðinu klukkan 20:00. Tónleikarnir voru hreinlega frábær skemmtun og skrifast það ekki síst á einstaka útgeislun og persónutöfra listamannsins. Tónlistin er undir talsverðum áhrifum frá svokölluðu pabbarokki úr ýmsum áttum, smá Springsteen og Fleetwood Mac, með háum og tærum gítarhljóm sem minnir talsvert á Dire Straits. Það eru samt fullt af vinstri beygjum í tónlistinni og Mac tók sig alls ekki alvarlega, tók oft örstuttar kover útgáfur af þekktum pabba-rokks lögum. Frábær byrjun á kvöldinu.

Næst voru það Foxygen, en tónleikar þeirra voru það slakir að best er að eyða ekki of mörgum 0rðum í þá. Interpol áttu góða spretti á Heineken en næst var það stundin sem flestir voru að bíða eftir, hljómsveitin The Strokes að spila á Primavera sviðinu. Engin hálftíma sóló, engar djúpar og ofur mínímalískar þagnir heldur hreint og beint, hávaðasamt og hressilegt rokk og ról. Fimmmenningarnir leðurklæddir í réttu stellingunum og Julian muldrandi milli laga rétt eins og nýstiginn úr Scorsesemynd. Áður en maður vissi var sveitin búin að renna sér í gegnum snilldina sem Is this it? og fleiri plötur. Snaggaraleg en skotheld efnisskrá frá 5 plötu sveit. Ég hjó eftir að áhorfendur voru á skemmtilega breiðu aldursskeiði, allt frá 15 upp í 45, og allir með á nótunum.

Underworld átti mjög góða tónleika og spilaði efni af öllum plötum sínum. Næst á dagskrá voru svo tónleikar Caribou. Caribou spilaði flest sín frægustu lög og einnig þau nýjustu. Eftir að Caribou lauk sér af dreif ég mig heim, sáttur eftir góðan dag á hátíðinni.

Sunnudagur 31. maí

Eftir 4 daga tónleikaveislu veiktist ég og missti því alveg af síðasta deginum sem fór fram á klúbbum rétt hjá tónleikasvæðinu.

Það sem stóð upp úr að mínu mati í ár var The Strokes, Mac DeMarco og The Replacements. Lítið var um vonbrigði þrátt fyrir að F0xygen hefði getað staðið sig betur..  Primavera-sound er ein af skemmtilegri hátíðum sem ég hef farið á og ég get auðveldlega mælt með henni fyrir alla tónlistaráhugamenn sem vilja upplifa þá stemmingu sem einkennir stórar tónlistarhátíðir og kosti þess að vera staðsettur í miðborg stórborgar. Að upplifa Primavera í fyrsta skiptið er samt ekki hægt að lýsa til fullnustu með neinum orðum, jafnvel ekki svona rosalega mörgum eins og ég hef reynt í þessari grein. Hátíðin er eins og önnur vídd þar sem stjórnlaus gleði ræður ríkjum sem fer þó aldrei úr böndunum. Þarna eru samankomnir tæplega 200.000 manns og það sást ekki vesen eða leiðindi á einum einasta. Þetta var mín fyrsta hátíð en verður svo sannarlega ekki sú síðasta.

Óli Dóri

Tónleikar helgarinnar 5. – 6. júní

Föstudagur 5. júní

Tónlistarmennirnir Helgi Valur, Ósk og Brynja koma fram á Sumargleði Bíó Paradís klukkan 17:00.

Tónlistarmaðurinn Onsen öðru nafni Trevor Welch heldur útgáfutónleika í Mengi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 2000 kr inn.
The Bangoura Band, Unnur Sara, Caterpillarmen og Mc Bjór og Bland halda tónleika á Gauknum. Ókeypis inn og hefjast tónleikarnir á slaginu 23:00.
Laugardagur 6. júní

DJ Flugvél og Geimskip kemur fram í Reykjavík Record Shop klukkan 16:00 í tilefni af útgáfu nýjustu plötu sinnar Hafsbotninn.

Skemmtistaðurinn Húrra fagnar 1. árs afmæli með stuðveislu sem hefst klukkan 18:00. Saga Garðarsdóttir, loldrottning Íslands, mun fara með gamanmál. Milkywhale, nýtt verkefni Árna Rúnars Hlöðverssonar úr FM Belfast og Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur frumflytja sitt stöff og svo mun Babies Flokkurinn tjúlla kosmósið með sínu þrumustuði langt fram á kvöld þar til DJ Óli Dóri tekur við og pakkar þessu saman.

Tónleikahelgin 27.-31. maí

Miðvikudagur 27. maí

 

Tónlistarmaðurinn Helgi Valur Ágústson fagnar útgáfu sinnar fjórðu plötu, Notes From The Underground, á Húrra. Með honum kemur fram einvalalið hljóðfæraleikara úr hljómsveitum eins og Grísalappalísu, Muck, Oyama og Útidúr. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Múm mun koma fram sem dúett Örvars Smárasonar og Gunnars Tynes og leika raftóna af fingrum fram við þýsku kvikmyndina Menschen am Sonntag frá 1930. Sýningin hefst 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Fimmtudagur 28. maí

 

MIRI, Loji og hljómsveitin Eva koma blása til tónleikahalds á Húrra. Þetta verða fyrstu tónleikar MIRI síðan 2012 en tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Rokkbandið Pink Street Boys kemur fram á Dillon. Aðgangur er ókeypis og drengirnir byrja um 10 leitið.

 

Danski bassaleikarinn, Richard Andersson, hefur búið í Reykjavík í tæp tvö ár og unnið með fjölda tónlistarmanna úr djassheiminum en hyggur nú á brottför. Til að kveðja íslendinga kemur hann einn fram á tónleikum í Mengi. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Föstudagur 29. maí

 

Diskóbullurnar í Boogie Trouble efna til dansleiks á Húrra. Það er ókeypis inn og ballið byrjar 22:00.

 

Laugardagur 30. Maí

 

Tónskáldið, píanóleikarinn og hljóðinnsetningarlistamaðurinn Maya Dunietz flytur verkið Boom fyrir píanó, rödd, vídeó og rafhljóðfæri. Miðaverð er 3000 krónur og flutningurinn hefst 21:00.