Beck endurtúlkar Sound And Vision

Í tilefni af því að 26 ár eru síðan smellurinn Sound and Vision með David Bowie kom út hefur hinn vísindakirkjurækni Beck í samstarfi við hljómsveit á stærð við her smáríkis tekið upp sína eigin túlkun af laginu. Hún er níu mínútna löng og á köflum hádramatísk og gæsahúðarvaldandi. Herlegheitin voru svo tekin upp með nýrri 360º myndbandstækni og hægt á að vera að upplifa flutninginn úr hvaða sæti sem er í salnum með því að velja mismunandi sjónarhorn á síðunni helloagain á næstu dögum. Þangað til það verður geta lesendur horft á hefðbundna upptöku hér fyrir neðan sem er þó ein og sér alveg stórbrotin upplifun.

Opnunartónleikar Volta í kvöld

Tónleikastöðum í Reykjavík hefur farið fækkandi undanfarið, það var sorglegt að sjá á eftir Nasa og nú styttist í að Faktorý verði rifinn vegna uppbyggingar á reit Hjartagarðarins. Þess vegna fagna því allir góðir menn þegar nýir tónleikastaðir opna og Straumur er þar ekki undanskilinn. Í kvöld opnar skemmti- og tónleikastaðurinn Volta á Tryggvagötu 22 með stórtónleikum þar sem fram koma Hjaltalín, Bloodgroup, Ojba Rasta og Sóley.

Þetta er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur en Hjaltalín hafa hlotið mikið lof fyrir sína nýjustu plötu, Enter 4, sem meðal annars var valin plata ársins af tímaritinu Grapevine. Stórdöbbsveitin Ojba Rasta hefur einnig hlotið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á árinu og Bloodgroup gáfu út sína þriðju plötu Tracing Echoes fyrir örfáum dögum en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þá hefur Sóley verið að sigra heiminn á liðnu ári með undurfögrum söng sínum.

Miklu hefur verið tjaldað til með staðinn sem er á tveimur hæðum með fatahengi, kokteilbar og setustofu á neðri hæð en bar, dansgólfi, reykherbergi og sviði með heimsklassa hljóðkerfi og hágæða ljósabúnaði á þeirri efri. Straumur hvetur alla þá sem geta haldið á hanska að láta sjá sig og styðja við þessa nýjustu viðbót í tónleikaflóru borgarinnar.

 

Nýtt lag með James Blake

Enski rafsálartónlistarmaðurinn James Blake sem er á leiðinni til Íslands á Sonar hátíðina eftir viku frumflutti nýtt lag í útvarpsþætti á BBC í dag. Lagið heitir Retrograde og sver sig í ætt við hans bestu lög eins og Wilhelm Scream og Limit to Your Love. Ægifögur röddin er í forgrunni en þegar líða tekur á lagið taka sírenuhljómandi hljóðgervlar að óma og undirstrika sálarfullan sönginn. Þetta er fyrsta lagið af væntanlegri plötu, Overgrown, sem kemur út 8. apríl. James Blake mun bæði halda tónleika og þeyta skífum á Sonar hátíðinni næstu helgi en tilkynnt var í gær að bætt hafi verið við fleiri miðum á hátíðina vegna mikillar eftirspurnar. Hlustið á lagið hér fyrir neðan sem hefst eftir einnar mínútu viðtal og lesendum er ráðlagt að hækka í botn þar sem hljóðstyrkurinn á upptökunni er í lægri kantinum.

Bird by Snow hefur Evróputúr á Faktorý

Bandaríski folk-tónlistarmaðurinn Bird by Snow mun hefja tónleikaferðalag sitt um Evrópu með því að troða upp á Faktorý næsta laugardagskvöld. Hann spilar lágstemmda þjóðlagatónlist og hefur verið líkt við listamenn á borð við Mount Eerie og Karl Blau. Á tónleikunum koma einnig fram kammerpoppsveitin Útidúr sem hyggjast gefa út EP plötu í vor, lo-fi skrýtipopp sveitin Just Another Snake Cult og spunakenndi rafdúettinn Good Moon Deer. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Geimdiskóið streymir frá Noregi

Norsararnir Todd Terje og Lindstrøm hafa undanfarið framleitt hágæða sci-fi diskó á færibandi og er skemmst að minnast að báðir komu við sögu á árslistum Straums fyrir síðasta ár. Þeir hafa bæði gefið út í eigin nafni en einnig verið iðnir við kolann í endurhljóðblöndunum á lögum hvors annars. Lanzarote er samstarfsverkefni þeirra og slær öðru nýlegu efni þeirra ekkert við, retrófjúturismi af bestu sort í ætt við framtíðarsýn áttunda áratugarins. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og endurhljóðblöndun Diskjokke.

Bowie 66 ára í dag – gefur út nýtt lag

Kameljónið David Bowie er 66 ára í dag og hann notaði það tilefni til að gefa frá sér nýtt lag og myndband, og það sem meira er, ný plata er væntanleg frá kappanum í byrjun mars. Bowie hefur látið lítið fara fyrir sér undanfarin ár en þetta verður fyrsta breiðskífa hans frá því Reality kom út árið 2003. Upptökum á plötunni stjórnaði Tony Visconti sem hefur áður unnið með Bowie, meðal annars á plötunum Young Americans, Low og Heroes. Hægt er að horfa á myndbandið við lagið, Where are we now, hér fyrir neðan en það vísar sterkt í dvöl Bowie í Berlín á ofanverðum áttunda áratugnum.

Önnur smáskífa Child of Lov

Listamaðurinn Child of Lov sendi frá sér eiturhressa smellinn Heal síðasta haust og nú hefur litið dagsins ljós myndband við aðra smáskífu af væntanlegri plötu hans. Lagið heitir Give Me og hljómurinn er sótsvart og saurugt fönkgrúv sem gæti hafa komið úr smiðju Madlib. Á komandi breiðskífu nýtur hann meðal annars aðstoðar Damons Albarn og rapparans MF Doom, en persóna listamannsins sjálfs er þó enn á huldu. Hér fyrir neðan má horfa á myndbandið ásamt myndbandinu við Heal.

Pedro Pilatus rímixar Pascal Pinion

Logi Pedro, sem í dagvinnunni sinni höndlar bassann í Retro Stefson, framleiðir einnig raftónlist undir nafninu Pedro Pilatus og hefur gefið frá sér EP plötu og fjölda laga undir því nafni. Í dag sendi hann frá sér endurhljóðblöndun af laginu Rifrildi af nýjustu plötu Pascal Pinion. Hljómurinn er nokkuð feitari en í hinni angurværu upprunalegu útgáfu og botninn er í aðalhlutverki. Það mætti segja að þetta væri hálfgildings dubstep útgáfa og hún er tilvalin til að fleyta manni inn í helgina. Hlustið á báðar útgáfur hér fyrir neðan.

Skynörvandi myndband frá Tame Impalia

Ástralska sýrurokksveitin Tame Impalia gaf í gær út myndband við lagið Feels like we only go backwards. Lagið er af annarri plötu sveitarinnar, Lonerism, sem kom út í síðasta mánuði og er ein af bestu plötum ársins. Myndbandið er feikilega litríkt  og skynörvandi og minnir mikið á LSD-drifna sækadelíu sjöunda áratugarins eins og tónlist sveitarinnar. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

TAME IMPALA- Feels Like We Only Go Backwards from Becky & Joe on Vimeo.

Lokauppgjör Airwaves – Laugardagur og Sunnudagur

Mynd: Óskar Hallgrímsson

 

Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.

 

Skógláp í kjallara

 

Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.

 

Hnökralaus flutningur

 

Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.

 

Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.

 

Sunnudagskvöld

 

Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.

 

Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.

 

Bassinn tekinn í göngutúr

 

Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.

 

 

Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.

Davíð Roach Gunnarsson