Tónleikahelgin 21.-23. nóvember

Hér verður stiklað á stóru sem smáu í tónleikahaldi helgarinnar.

Fimmtudagur 21. nóvember

Þungarokkstónleikar verða á Gauk á stöng og hljómsveitirnar Jötunmóð, Aeterna, Moldun og Wistaria koma fram. Aðstandendur tónleikana vilja sjá slamm, sveitta moshpitta og bjór í hverri hendi en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 22. nóvember

Söngkonan Lay Low blæs til útgáfutónleika fyrir nýútkomna plötu sína Talking About The Weather í Fríkirkjunni. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Snorri Helgason en þeir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.

Það verður sannkölluð Pönkveisla á Gauknum þegar hin fornfræga sveit Fræbbblarnir halda upp á 35 ára afmæli sitt. Fræbbblarnir munu stíga á stokk með gamalt og nýtt efni að vopni en þeir hafa unnið hörðum höndum að nýju plötustórvirki undanfarið. Einnig munu þeir sýna áhrifavöldum sínum virðingu sína og spila klassískar pönklagasmíðar sem mótuðu Fræbbblana. Húsið opnar klukkan 9 og það er frítt inn.

Ghostigital verða með dj sett ásamt Steindóri Jónssyni í hliðarsal Harlem. Dansveislan hefst upp úr miðnætti og stendur eins lengi og lög um vínveitingar leyfa og það er ókeypis inn.

Mánaðarlegur reggae/dub/dancehall viðburður RVK Soundsystem verður haldinn á Dollý. Gestur kvöldsins er 7berg sem hefur hingað til verið kenndur við Hip Hop en í þetta skiptið ætlar hann að rokka mækinn yfir reggítaktinn. Gleðin hefst klukkan 23:00 og stendur fram eftir nóttu.

Laugadagur 23. nóvember

Pick a Piper sem er hliðarverkefni Brad Weber, trommara Caribou, spilar á tónleikum í hliðarsal Harlem. Sveitin spilar samblöndu af líf- og rafrænni tónlist og tvö trommusett verða nýtt á tónleikunum. Raftónlistarmaðurinn Tonik sem átti stjörnuleik á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð hitar upp en tónleikarnir hefjast hálf 12 og aðgangur er ókeypis.

Þungarokkstónleikar verða á Gauk á Stöng en fram koma Shogun, We Made God, Endless Dark og Conflictions. Hurðin opnar 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur en einn bjór er innifalinn í því verði.

11 Lou Reed ábreiður

 

Lewis Allan Reed kvaddi þennan heim sunnudaginn fyrir viku 71. árs að aldri. Áhrif hans á tónlistarsögu og poppkúltur síðustu aldar verða seint vanmetin. Ritstjórar þessarar síðu hafa ósjaldan  yljað sér við verk Reed í gegnum tíðina. Við minnumst þessa áhrifamikla tónlistarmanns með 11 frábærum ábreiðum af lögum hans sem sýna kannski best þau áhrif sem hann hafði á aðra listamenn á ferli sínum – Satellite’s gone up to the skies!

 

 

Morrisey -Satellite of love

Morrisey hefur aldrei farið leynt með hrifningu sína á Reed. Fyrir tveim árum breiddi hann yfir þetta einstaka lag sem kom út á  Transformer árið 1972, á tónleikum sínum á Glastonbury hátíðinni..

 

 

Cowboy Junkies – Sweet Jane

Lou Reed lagði blessun sína yfir þessa mögnuðu útgáfu kanadísku hljómsveitarinnar Cowboy Junkies af laginu Sweet Jane sem upprunalega kom út á síðustu plötu Velvet Underground, Loaded, árið 1970. Útgáfan vakti mikla athygli árið 1995 í kvikmynd Oliver Stone, Natural Born Killers, í eftirminnilegri senu.

 

David Bowie & The Riot Squat – Waiting For The Man

Útgáfu fyrstu plötu Velvet Underground var seinkað vegna dómsmáls sem snerti umslag plötunnar. David Bowie fékk eintak gefins frá umboðsmanni sínum áður en það gerðist en sá hafði fengið plötuna afhenta í ferð sinni til New York árið 1966. Bowie var svo hrifinn af því sem hann heyrði að hann gaf út lagið Waiting For The Man af plötunni með hljómsveit sinni The Riot Squat áður en Velvet höfðu náð að leysa úr lagaflækju sinni sem gerðist ári seinna.

 

Nirvana – Here She Comes Now

Velvet Underground platan White light/White heat var ein af uppáhalds plötum Kurt Cobain. Árið 1991 gaf hljómsveit hans Nirvana út sameiginlega 7 tommu með Melvins  þar sem þeir breiddu yfir Here She Comes Now af plötunni og Melvins – Venus In Furs.

 

Big Star – Femme Fatale

Hljómsveitin Big Star með Alex Chilton í broddi fylkingar tók lagið Femme Fatale á sinni fyrstu plötu Third/Sister Lovers árið 1978.

 

The Runaways – Rock ‘N Roll

Eitt af þekktari lögum stúlkna bandsins The Runaways var ábreiða þeirra af Velvet Underground laginu Rock ‘N Roll sem þær gerðu svo sannarlega að sínu.

 

The Strokes – Walk On The Wild Side

Áhrif Lou Reed á New York hljómsveitina The Strokes á þeirra fyrstu plötu Is This It? eru augljós. Það kom þvi kannski fáum á óvart þegar að hljómsveitin sýndi fyrirmynd sinni þann heiður að breiða yfir lag hans Walk On The Wild Side á tónleikum árið 2006 með afslöppuðum og skemmtilegum hætti.

 

Twin Shaddow – Perfect Day

Fljótlega eftir að fréttir þess efnis að Lou Reed væri allur tóku að berast fóru tónlistarmenn útum víða veröld að sýna honum virðingu sína með ábreiðum af lögum hans. Twin Shaddow sendi frá sér þessa drungalegu útgáfu af heróín laginu Perfect í byrjun síðustu viku.

 

The Kills – Pale Blue Eyes

Fyrir tveim árum gáfu breska tvíeykið The Kills út þessa frábæru útgáfu af laginu Pale Blue Eyes af samnefndir plötu Velvet Underground frá árinu 1969. 

 

Rainy Day – I’ll Be Your Mirror

Hljómsveitin Rainy Day var einhverskonar stjörnuband meðlima hljómsveita úr Paisley Underground senunni í Kaliforníu um miðjan 9. áratuginn. Hljómsveitin gaf út eina plötu sem var safn laga hljómsveita sem höfu haft áhrif á senuna. Þar á meðal var þessi yndislega útgáfa þeirra af laginu I’ll Be Your Mirror af fyrstu plötu Velvet.

Emiliana Torrini – Stephanie Says

Þessi magnaða útgáfa Emiliönu af Stephanie Says kom út á plötu hennar Merman frá árinu 1996. Þó hún vilji ekki mikið kannast við þessa plötu í dag (hún hefur aldrei endurútgefið hana fyrir erlendan markað) þá er þessi ábreiða nóg til að réttlæta tilveru hennar.

Óli Dóri

Fyrsta kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.

 

Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.

 

Harður, hrár og pönkaður kjarni

 

Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.

 

Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.

 

Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó

 

Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.

 

Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.

 

Hámörkuð gleði

 

Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.

 

Emiliana á heimavelli

 

Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.

Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves yfirheyrslan – Tonik

Í yfirheyrslu dagsins þjörmuðum við að Antoni Kaldal Ágústsyni sem framleiðir græjumúsík undir listamannsnafninu Tonik. Hann var auðveldur viðureignar og sagði okkur allt sem hann veit um Airwaves hátíðina í svo mörgum orðum.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2003. Trabant á Nasa og svo var Mugison með eftirminnilega frammistöðu á Pravda.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

Sama ár á Grandrokk (síðar Faktory/iðnaðarsvæði/eitthvað random hótel). Lék með tölvuprojektinu Tonik, Jón Þór úr Lada Sport/Love & Fog spilaði á gítar. Spiluðum á undan Sk/um, sem var samstarfsverkefni Jóhanns Ómarssonar (Skurken) og Þorsteins Ólafssonar (Prince Valium).

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Níu hátíðum.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?
Útitónleikarnir með Elektro Guzzi í fyrra voru frekar eftirminnilegir. Einnig gæti ég talið til Dirty Projectors og Moderat.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Erfitt val. Þegar kemur að Tonik, þá hafa síðustu ár farið í markvissar tilraunir og þróun með lifandi flutning og því margt sem kemur upp í hugann. Þessi þróun er enn í gangi, en tónleikarnir í fyrra eru þó eftirminnilegir. Þar varð til eitthvað á sviði sem við erum að skrásetja og koma á plötu.

Tonik – Snapshot One (Live at Iceland Airwaves Festival 2012) from Tonik on Vimeo.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mest megnis hafa breytingar verið af jákvæðum toga og eiga skipuleggjendurnir mikið lof
skilið. Ég upplifi hátíðina markvissari en áður. Augljós breyting er að ferðamenn eru í meiri hluta. Það mun koma betur í ljós í ár hvernig dagsetningarnar kring um mánaðamótin október nóvember séu að virka.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Satt best að segja á ég mér ekki uppáhalds tónleikastað.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Sumarið eftir að Klaxons spilaði, þá sá ég svolítið eftir að hafa ekki séð þá.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Njóta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Úr erlendu deildinni væru það Sun Glitters, Anna Von Hausswolff og Jon Hopkins. Ég sá Gold Panda árið 2010 og get mælt með honum. Úr íslensku deildinni mun ég reyna að sjá Úlf Eldjárn, Emiliönu Torrini og Samúel Jón Samúelsson Big Band.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Heilmikla.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig?

Allskonar. Það eru ýmis tækifæri sem hægt er að rekja beint til Iceland Airwaves.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Jon Hopkins?

 

Listasafnið eða Harpa?

Harlem?

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Það mun vera Tonik. http://facebook.com/tonikmusic

Tonik – Snapshot Two (feat. Jóhann Kristinsson) from Tonik on Vimeo.

Boogie Trouble breiða yfir Britney

Diskóboltarnir í Boogie Trouble deildu ábreiðu sinni af Britney Spears slagaranum Toxic á Soundcloud síðu sinni í gær, fríkeypis til niðurhals og streymis. Það hefur síðustu misseri ómað ótt og títt á tónleikum sveitarinnar en í meðförum hennar er það grúvað allharkalega upp með skokkandi diskóbassa og suddalegum sörfgítar. Lagið er tilvalið veganesti inn í helgina og hægt er að hlusta á ábreiðuna, eða jafnvel setja hana á í partýi, hér fyrir neðan. It’s Britney, bitch!

Tónleikar vikunnar

Það er af nægu að taka í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins þessa vikuna og hér verður farið yfir það helsta.

 

Miðvikudagur 16. október

Reggístórsveitin Ojba Rasta fagnar útgáfu annarrar plötu sinnar með hlustunarteiti á Harlem. Teitin hefst klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis, sem og veigar fyrir þá sem mæta snemma.

Skelkur í bringu, Godchilla og Kælan Mikla stíga á stokk á Gamla Gauknum á tónleikum sem bera yfirskriftina „Punk is not Dead“ eða „Ræflarokkið er ekki látið“ eins og það gæti útlagst á ástkæra ylhýra. Þau skilaboð er vert að minna á reglulega en ókeypis er inn á tónleikana sem hefjast klukkan 21:00

Fimmtudagur 17. október

Systrasveitin Bleached frá Los Angeles heldur tónleika á  Harlem. Tónleikarnir hefjast kl. 22 og um upphitun  sér íslenska harðkjarnasveitin Muck. Bleached er ein heitasta jaðarsveit Los Angeles í dag og er skipuð systrunum Jennifer og Jessie Clavin. Þær gáfu nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Ride Your Heart, sem hefur fengið einkar góða dóma hjá helstu tónlistarmiðlum, meðal annars 4/5 í Mojo. Tónleikar þeirra eru þeir fyrstu í langri tónleikaferð þeirra um alla Evrópu en miðasala er á midi.is og í verslunum Brim, Laugavegi og Kringlunni, miðaverð er 2000 krónur.

Harðkjarnatónleikar verða á Gamla Gauknum en þar koma fram Klikk, Trust the Lies, Mercy Buckets og Icarus. Aðgangseyrir er 1000 krónur og kjarninn byrjar að harðna klukkan 21:00.

Rafpoppsveitin Vök sem sigraði músíktilraunir fyrr á árinu fagnar útgáfu EP-plötunnar Tensions á Kex Hostel. Húsið opnar 20:30, tónleikarnir hefjast hálftíma síðar og miðaverð er 1500 krónur.

Föstudagur 18. október

Amaba Dama, Retrobot og Tuttugu efna til tónleikahalds á Gamla Gauknum. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gleðin hefst upp úr 22:00.

Pönkhljómsveitin Slugs sem er leidd af Sindra Eldon fagnar útgáfu sinnar annarrar plötu, Þorgeirsbola, á Bar 11. Þetta verða fyrstu tónleikar sveitarinnar í 3 ár en Skelkur í Bringu koma einnig fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 11 og kostar 500 kr inn.

Maya Postepski, trommuleikari kanadísku indie-elektró hljómsveitarinnar Austra, þeytir skífum á Harlem. Austra hefur átt mikilli velgengni að fagna beggja vegna Atlantshafs og var hljómsveitin meðal annars tilnefnd til Polaris verðlaunanna 2011 og komu fram á Iceland Airwaves sama ár. Postepski hefur leikinn á miðnætti í hliðarsal Harlem og aðgangur er ókeypis.

Laugardagur 19. október

Útgáfutónleikar Flugvélar og Geimskips verða á Kex Hostel. Sveitin gaf nýverið út plötuna Glamúr í Geimnum en á tónleikunum verða einnig í boði, kraftaverk, furðuleg kvikmynd, töfrar og ljósadýrð eins og fram kemur í tilkynningu frá sveitinni. Ævintýrið hefst 21:00 og það kostar 1000 krónur að taka þátt í því.

Tónleikar helgarinnar

Eins og flestar vikur er fjölbreytt úrval tónleika á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi og hér verður farið yfir það helsta.

Miðvikudagur 7. ágúst

Tónlistarhópurinn Tónleikur mun halda sína stærstu tónleika hingað til á Rósenberg í kvöld. Tónleikur er hópur sem samanstendur af listamönnum sem öll eiga það sameiginlegt að semja sína eigin tónlist og í kvöld munu koma fram yfir tugur flytjenda; Martin Poduška, Raffaella, Ragnar Árni, slowsteps, val kyrja/Þorgerður Jóhanna, Tinna Katrín, Þorvaldur Helgason, Jakobsson, FrankRaven, Johnny and the Rest, Hljómsveitt og Forma. Fjörið hefst klukkan 20:30 og ókeypis er inn, en hattur verður á staðnum til að taka við frjálsum framlögum.

Hljómsveitin Eva verður öfug, hinsegin og alls konar á Kíkí í kvöld þar sem hún hitar upp fyrir Gay Pride gönguna sem verður um helgina. Leynigestur kvöldsins verður engin önnur en hin íðilfagra Ólafía Hrönn og mun hún flytja áheyrendum nokkur af sínum einstöku lögum. Öfurheitin hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari og Ingimar Andersen saxófónleikari leika djass frá 10 til 1 á Boston. Báðir eru þeir búsettir erlendis og taka hér höndum saman eftir langan aðskilnað og ókeypis er inn á viðburðinn.

Fimmtudagur 8. ágúst

Hljómsveitin Orfía, samstarfsverkefni Arnar Eldjárns og Soffíu Bjargar, spilar á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Örn og Soffía stofnuðu hljómsveitina Orfía árið 2011 eftir að hafa starfað saman í hljómsveitinni Brother grass um árabil.

Hljóðverk eftir Berglindi Jónu Hlynsdóttir & Guðmund Stein Gunnarsson verður flutt af Hljómskálanum í Hljómskálagarðinum klukkan 18:00. Verkið er hljóðinnsetning og myndverk í almenningsrými sem nýtir Hljómskálann sjálfan, sögu hans, staðsetningu í borginni og umhverfi til þess að lífga við þessa táknmynd sem er í senn minnisvarði, hús og svæði sem hefur sérstakt menningarlegt og sögulegt gildi í borginni.

Opnunarhátíð Hinsegindaga verður haldin í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 21:00. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun. Aðgangseyrir er 2500 krónur.

Föstudagur 9. ágúst

Retro Stefson og Hermigervill munu kveðja hinn ástsæla tónleikastað Faktorý. Segja má að hljómsveitin hafi stigið sín fyrstu spor á staðnum þegar hún kom fram á Airwaves hátíðinni 2006 þó að staðurinn hafi þá borið heitið Grand Rokk. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Brimbrettarokksveitin Bárujárn efnir til tónleika til að fagna nýútkomnum geisladiski sínum. Tónleikarnir munu fara fram í kjallara skemmtistaðarins Bar 11 að Hverfisgötu 18 og hefjast leikar klukkan 22:00. Á tónleikunum verða öll lögin af disknum leikin, en auk þess hefur sveitin rifjað upp nokkur af sínum gömlu lögum og má því búast við löngu og sveittu prógrammi. Um upphitun sér hin stórefnilega brimrettarokksveit Godchilla og ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Aðgangur er ókeypis en bjór og geisladiskar verða til sölu á tilboðsverði.

Strengja-og vélasveitin Skark gerir atlögu að tónleikaforminu í bílastæðahúsi Hörpu. Verk eftir Pál Ragnar Pálsson, Viktor Orra Árnason, György Ligeti, Alfred Schnittke og John Wilbye verða flutt en atlagan hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 10. ágúst

Helgi Rafn, söngvari og lagahöfundur, flytur 10 ný “kammer pop” lög á íslensku og ensku fyrir raddir og strengi ásamt Bartholdy strengjakvartettnum frá London. Tónleikarnir verða í húsnæði Leikfélags Kópavogs, en það rými var valið svo hægt væri að skapa leikræna og nána stemmingu. Aðgangseyrir er 1200 krónur og hljómleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Sunnudagur 11. ágúst

Frá upphafi hefur Faktorý átt sér heitan draum um stefnumót við stórhljómsveitina Gus Gus. Nú mun sá draumur loks verða að veruleika því hljómsveitin hefur þáð heimboð á Faktorý. Til slíks viðburðar er ekkert kvöld meira viðeigandi en síðasta kvöld staðarins, sunnudagurinn 11. ágúst. Gestir ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því hljómsveitin ætlar að spila gamla slagara í bland við nýtt óútgefið efni af væntanlegri plötu sveitarinnar. Uppselt er á viðburðinn en þeim lesendum sem eru virkilega heitir er bent á barnaland.

 

 

 

TV ON THE RADIO MEÐ SITT FYRSTA LAG Í TVÖ ÁR

 

Það hefur verið rólegt í tíðinni hjá TV On the Radio undanfarið þó hljómsveitin hafi komið fram reglulega hefur nýtt efni staðið á sér allt frá útgáfu síðustu plötu þeirra Nine Types of Light. Nú hefur bandið hins vegar snúið aftur með kraftminn smell sem ber titilinn „Mercy“. Lagið er öllu þyngra og rokkaðara heldur en efnið á Nine Types of Light og gæti vel verið tekið af meistarastykkinu Return To Cookie Mountain sem kom út 2006 og hljóta það að teljast góð tíðindi.

Tónleikar helgarinnar

Þessa síðustu helgi júlímánaðar er margt á döfinni í hljómleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu og verður hér farið yfir helstu atriði sem endranær.

Miðvikudagur 24. júlí

Hljómsveitirnar Amiina og Sin Fang halda tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík klukkan 20:30. Báðar hljómsveitir hafa sent frá sér nýtt efni á árinu og hafa verið iðnar við tónleikahald erlendis, en ekki komið mikið fram á Íslandi. Aðgangseyrir er 2500.

Tónleikar til heiðurs alþjóðlega tungumálsins Esperantó verða haldnir á Gamla gauknum. Fram koma Sindri Eldon & The Ways og harmonikkuleikarinn Kimo sem spilar ska tónlist og syngur á esperantó. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Bam Margera úr Jackass og Viva La Bam ásamt hljómsveitinni CKY kynna F***KFACE UNSTOPPABLE en þeir munu halda tónleika og ýmis uppátæki á Spot í Kópavogi. Vitleysingurinn Brandon Novak úr Jackass og Viva La Bam kemur einnig fram og hin frábæra íslenska hljómsveit Morðingjarnir munu taka sín bestu lög og sjá um að trylla lýðinn. Gleðskapurinn hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 4900 krónur.

Kvennarappkvöld verður haldið á 11-unni og hefst það klukkan 21:00.  Þar verður rappað, stappað, ljóðaslammað, sungið, spilað, bítboxað, spunnið, klappað og allur andskotinn að sögn skipuleggjanda. Fram kemur heill kvennaskari: Alvia Miakoda Islandia, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórdís Nadia Semichat, Solveig Pálsdóttir, Kolfinna Nikulásdóttir, Anna Tara Andrésdóttir, Katrín Helga Andrésdóttir, Agnes Björgvinsdóttir, La La Bitches!, Tinna Sverrisdóttir og fleiri nettar. Aðgangur eru ókeypis.

Fimmtudagur 25. júlí

Úr dimmum skúmaskotum Kópavogs, þar sem ungir pönkarar og vandræðaunglingar héngu áður fyrr mun nú aftur óma framandi tónlist. Hljóðgjörningafélagið HULK hefur hóað saman tónlistamönnum úr ýmsum áttum til að fylla undirgöngin undir Hamraborg (við Digranesveg) aftur af óhljóðum. Fram koma Rafmagnús, Mudd Mobb, Krakkbott og DJ Flugvél og geimskip. Ólætin hefjast klukkan 19:00 og standa fram eftir kvöldi og eru fríkeypis öllum sem mæta.

Fríða Dís Guðmundsdóttir spilar og syngur draumkennda tóna á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Fríða Dís flytur efni af væntanlegri sóló plötu sinni en hún hefur starfað um árabil með hljómsveitunum Klassart og Eldum. Pikknikk tónleikarnir eru hluti af órafmagnaðri Pikknikk tónleikaröð sem haldin er á fimmtudögum í sumar. Veitingar eru seldar í afgreiðslu Norræna hússins og bornar fram í pikknikk körfum.

Íslandselskhuginn John Grant kemur fram á tveimur tónleikum á Faktorý sem eru á sínum lokametrum fyrir yfirvofandi lokun í Ágúst. Uppselt er á tónleikana sem hefjast klukkan 22:00 en vegna mikilla eftirspurnar var bætt við öðrum tónleikum klukkan 19:30 sem enn eru til miðar á en aðgangseyrir er 3000 krónur. Grant sendi frá sér sýna aðra breiðskífu „Pale Green Ghosts“ fyrr á þessu ári og hefur hún fengið góða dóma hjá flestum helstu tónlistartímaritum heims.

Slegið verður upp Næntís Veizlu á barnum Harlem en skipuleggjendur hennar vilja koma eftirfarandi á framfæri: „Nú er kominn tími til að rifja upp gullna öld, öld þar sem menn voru ennþá viðkvæmir og misskildir og konur voru ennþá of kúl fyrir skólann sem þær voru ekki í. Já, ég er að tala um tíunda áratug síðustu aldar, áratug Doc Martens, köflóttra skyrtna og hettupeysna bundna um mittið.“  Á kvöldinu koma fram Dýrðin, Treisí, Sindri  Eldon & The Ways og svo mun Sindri Eldon þeyta skífum þar til opnunartíma þrýtur. Veislan byrjar 21:00, öllum er boðið og það er ókeypis inn.

Fjölsveitahópurinn Tónleikur heldur áfram að troða upp á Loft Hostel. Að þessu sinni stíga á stokk Ragnar Árni, val kyrja, Tinna Katrín, Pocket, Brynja, Ósk, FrankRaven og Johnny and the Rest. Leikar hefjast 20:30 og allir geta notið þeirra óháð efnahags.

Heiladanskvöld númer 26 verður haldið á hinum nýopnaða Bravó við laugaveg 22 og þar verður framsækinni raftónlist komið á framfæri sem endranær. Í þetta skipti munu DJ Dorrit, Atom Max, Radio Karlsson og Árni² leiða heilafrumur viðstaddra í trylltum dansi en ókeypis er inn á viðburðinn. Dansinn byrjar að duna klukkan 21:00.

Föstudagur 26. júlí

Hljómsveitin Grísalappalísa efnir til tónleika í plötubúðinni og höfuðstöðvunum 12 Tónum á Skólavörðustíg. Grísalappalísa hefur undanfarin misseri verið að gera garðinn frægan fyrir hnífskarpan flutning sinn og ólætin í söngvaranum honum Gunnari. Plata þeirra, ALI, kom út 10. júlí síðastliðin og hefur fengið einróma lof og hylli þjóðar og gagnrýnanda. Lætin byrja klukkan 18:00.

Hljómsveitirnar Agent Fresco, Mammút og Benny Crespo’s Gang kveðja Faktorý með tónleikum eins og margar af helstu sveitum landsins hafa gert undanfarið. Efri hæð opnar 22:00, tónleikar hefjast 23:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Laugardagur 27. júlí

Hljómsveitirnar RIF og Kjarr leiða saman hesta sína og blása til allsherjar sumargleði á Rósinberg. Lagið Sól í sinni með RIF hefur verið að sörfa ljósvakann í sumar við góðann orðstýr en strákarnir eru nú að sjóða saman í sína fyrstu breiðskífu. Kjarr gaf út plötu samnefnda sveitinni fyrir tveimur árum síðan en hefur enn ekki flutt efnið fyrir okkur íslendinga, þar má finna smelli eins og Beðið eftir sumrinu og Quanum leap. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

Sunnudagur 28. júlí

Snorri Helgason heldur tónleika ásamt hljómsveit í Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Hann hefur spilamennsku stundvíslega klukkan 16:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

 

 

 

 

Lord Pusswhip rímixar Oyama

Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum  lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.