10) Christopher Owens – Lysandre
Þegar Christopher Owens tilkynnti um endarlok Girls á twitter síðu sinni síðasta sumar fór hrollur um marga aðdáendur þessarar einstöku sveitar sem skildi eftir sig tvær frábærar plötur – Album (2009) og Father, Son, Holy Ghost (2011). Í upphafi þessa árs var ljóst að þessar áhyggjur voru óþarfar þar sem Owens sendi frá sér plötu sem mætti segja að væri beint framhald af því sem hann gerði með fyrrum hljómsveit sinni. Lög á plötunni höfðu meira að segja sum heyrst á tónleikum Girls. Lysandre er heilsteypt þema plata um stúlku sem Owens varð ástfanginn af á tónleikaferð með Girls.
9) Adam Green & Binki Shapiro – Adam Green & Binki Shapiro
Anti-folk söngvarinn Adam Green og Binki Shapiro úr Little Joy gáfu út þessa einlægu samnefndu plötu í byrjun ársins. Platan minnir margt á samstarf þeirra Lee Hazlewood og Nancy Sinatra á sjöunda áratugnum. Tregafullar raddir þeirra Green og Shapiro smellpassa saman og platan rennur ljúflega í gegn líkt þytur í laufi.
8) Youth Lagoon – Wondrous Bughouse
Svefnherbergis pródúserinn Trevor Powers átti eina af betri plötum árins 2011 með The year of hibernation. Á þessari annari plötu Powers undir nafni Youth Lagoon er hann kominn út úr svefnherberginu inn í hljóðver og útkoman er stærri hljóðheimur án þess að gefa eftir í lagasmíðum.
7) Kanye West – Yeezus
Að upphefja sjálfan sig hefur alltaf verið stór hluti af hipp hoppi en Kanye West hefur þó á undanförnum árum sett nýjan mælikvarða á mikilmennskubrjálæði sem jaðrar við að vera sjálfstætt listform. Yeezuz er tónlistarlega og textalega hans dekksta og harðasta verk og hann tekst á við kynþáttahatur á frumlegan og djarfan hátt í lögum eins og New Slaves og Black Skinhead.
6) Jon Hopkins – Immunity
Immunity stígur jafnvægisdans á milli draumkennds tekknós og seiðandi ambíents listlega vel og hljómurinn er silkimjúkur draumaheimur þar sem gott er að dvelja í góðum heyrnatólum.
5) Kurt Vile – Walkin On A Pretty Daze
Síðasta plata Vile Smoke Ring for My Halo var efsta platan á lista Straums yfir bestu plötur ársins 2011. Á Walkin On A Pretty Daze heldur Vile áfram uppteknum hætti þó hún sé ögn epískari á köflum.
4) Vampire Weekend – Modern Vampires Of The City
Þriðja plata Vampire Weekend er þrátt fyrir asnalegan titil alveg hreint frábært verk og gefur þeim fyrri lítið eftir. Þeir vinna í fyrsta skiptið með utanaðkomandi upptökustjóra sem skilar sér aukinni tilraunamennsku og skrefum út fyrir sinn hefðbundna hljóðramma, auk þess sem lagasmíðar eru sterkar og grípandi.
3) Waxahatchee – Cerulean Salt
Hin 24 ára gamla Katie Crutchfield sendi frá sér aðra plötuna undir nafninu Waxahatchee á innan við ári núna í mars. Á Cerulean Salt er að finna pönkaða þjóðlagatónlist flutta með ótrúlegri tilfinningu og heiðarleika sem skín í gegn í hverju einasta lagi.
2) Settle – Disclosure
Bræðra dúóið Disclosure gáfu út sína fyrstu plötu Settle þann 3. júní. Þrátt fyrir ungan aldur sýna þeir Guy (fæddur 1991) og Howard (fæddur 1994) Lawrence ótrúlegan þroska í lagasmíðum á plötunni sem er ein heilsteyptasta dansplata sem komið hefur frá Bretlandi í langan tíma.
1) Foxygen – We Are The 21st Century Ambassadors Of Peace And Magic
Foxygen eru tveir rétt rúmlega tvítugir strákar frá Kaliforníu sem á þessari frábæru breiðskífu fara á hundavaði yfir margt af því besta í rokktónlist frá seinni hluta 7. áratugarins og fyrri hluta þess 8. Söngvarinn Sam France stælir Mick Jagger, Lou Reed og Bob Dylan jöfnum höndum en samt aldrei á ófrumlegan eða eftirhermulegan hátt. San Fransisco er eins og týnd Kinks ballaða og On Blue Mountain bræðir saman Suspicous Minds með Elvis og groddalegustu hliðar Rolling Stones. Ótrúlega áheyrileg plata sett saman af fádæma hugmyndaauðgi og smekkvísi.