Árslisti Straums 2013

20) Forest Swords – Engravings

Fyrsta plata breska tónlistarmannsins Matthew Barnes er smekkleg blanda af  house, dub, post-rock, hip-hop og jafnvel shoegaze sem endar í draumkenndri dúlúð sem óhætt er að mæla með.

 

 

19) Mutual Benefit – Love’s Crushing Diamond

Brooklynbúinn Jordan Lee gaf út sína fyrstu plötu undir nafninu Mutal Benefit í ár. Platan er ferðalag inn í fallegan hugarheim Lee sem byggir á sterkum hljóðheimi sem nær hámarki í hinu mjög svo fallega lagi Advanced Falconry.

 

 

18) Boards Of Canada – Tomorrow’s Harvest

Eins og elding úr heiðbláum himni dúkkaði upp dularfull vínilplata merkt Boards of Canada í plötubúð í New York í maí. Á plötunni var ekkert nema vélræn rödd sem las upp talnarunu en hún setti af stað atburðarás sem á endanum leiddi í ljós fyrstu plötu BoC í 7 ár. Þegar Tomorrow’s Harvest kom loksins út olli hún engum vonbrigðum og hljómur hennar sór sig í ætt við fyrri verk sveitarinnar. Yfir verkinu hvílir ákveðinn heimsendadrungi en þó glittir í ægifegurð inni á milli. Heyra má bjagaðar og hálffalskar synthalínur, gnauðandi eyðimerkurvinda og strengi sem eru svo snjáðir að þeir hljóma eins og upptaka úr margra áratuga gömlu fischer price segulbandstæki. Gæti verið draugurinn í vélinni eða bergmál siðmenningar sem nýlega hefur verið eytt. Raftónlist sem smýgur inn í undirmeðvitundina og marar þar eins og kjarnorkukafbátur.

 

 

17) My Bloody Valentine – m b v

Írska shoegaze hljómsveitin My Bloody Valentine gaf út sína þriðju plötu, þá fyrstu frá því að platan Loveless kom út árið 1991, 2. febrúar. Platan mbv er níu laga og er vel biðarinnar virði. Söngvari sveitarinnar Kevin Shields skýrði frá því á síðasta ári að hann hefði hafið gerð plötunnar á tíunda áratugnum og sögusagnir segja að hann hafi hent gríðarlega miklu efni við gerð hennar.

 

 

16) King Krule – 6 Feet Beneath the Moon

Undrabarnið King Krule gaf út þessa frábæru plötu á 19 ára afmælisdegi sínum þann 24. ágúst. Þrátt fyrir ungan aldur býr Krule yfir rödd sem minnir oft á köflum á gamlan blúsara á plötu fullri af tregafullum tónsmíðum sem snerta taug með hverjum tón. 

 

 

 

15) Mount Kimbie – Cold Spring Fault Less Youth

Lágstemmd en þó kraftmikil og dansvæn plata og stórt skref fram á við fyrir breska dúettinn. Sérstaklega er gaman að heyra samstarf þeirra við hinn hæfileikaríka söngvara King Krule í tveimur lögum þar sem ólíkir stílar listamannanna smella eins og flís við rass.

 

 

 

14) Sky Ferreira – Night Time, My Time

Bandaríska tónlistarkonan Sky Ferreira sendi frá sér hina frábæru plötu Night Time, My Time 29. október. Platan er stúttfull af metnaðarfullum poppsmíðum sem smjúga inn í heilahvolfið og staldra þar við í góðan tíma eftir hlustun.

 

 

13) Arcade Fire – Reflektor

Arcade Fire snéru til baka á árinu með plötu sem innihélt efni sem var talsvert rafrænna og dansvænna en megnið af eldra efni sveitarinnar. Platan er enn eitt stórvirkið frá þessu kanadíska bandi sem nutu meðal annars aðstoðar James Murphy við gerðar hennar.

 

 

12) Daft Punk – Random Access Memories

Meðan Boards of Canada héldu sig við það sem þeir kunna best þá umbreyttust Daft Punk liðar enn einu sinni við skiptar skoðanir aðdáenda. Random Access Memories er þeirra lífrænasta plata til þessa, 75 mínútna ferlíki af diskói, progrokki, fullorðinspoppi og vélrænum trega. Á henni var leitast við að endurskapa hljóðverðsstemmningu 8. áratugarins og tölvum og stafrænni tækni hent út í veður og vind. Þrátt fyrir að það hefði verið hægt að skera hana aðeins niður er ekki annað hægt en að dást að handverkinu og metnaðinum. Fyrir utan að gefa okkur sumarsmellinn Get Lucky, eru ótalmörg fantafín lög á plötunni eins og Doin’ it Right, Loose Yourself to Dance og Giorgio By Moroder.

 

 

11) Classixx – Hanging Gardens

Bandaríska DJ dúóið Classixx vakti fyrst athygli á sér með frábærum endurhljóðblöndunum á lögum með hljómsveitum á borð við Phoenix, Major Lazer og Yacht. Fyrsta smáskífa þeirra I’ll Get You kom út árið 2009 og frá því hafa margir beðið spenntir eftir fyrstu plötu þeirra sem kom loks út í lok maí. Hanging Garden er björt plata full af gæða rafpoppi sem á svo sannarlega heima á dansgólfinu á heitum sumarkvöldum.

 

Plötur í 10.-1. sæti

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *