Casablancas og Pharrel Williams á nýju Daft Punk?

Nýja Daft Punk platan sem allir diskóboltar og danstónlistarnerðir heimsins bíða eftir eins og endurkomu krists kemur út 21. maí en í dag bárust fregnir af öllum tónlistarmönnum sem leika gestahlutverk á henni. Áður hefur verið sagt frá því að Nile Rodgers og Giorgio Moroder hafi komið að gerð hennar en í dag upplýsti franska vefsíðan konbini.com að Julian Casablancas, söngvari Strokes, syngi í einu lagi og Pharrel Williams í tveimur. Þar kemur einnig fram að Noah Lennox úr Animal Collective syngi eitt lag og gamla House-kempan Todd Edwards, sem einnig söng á Discovery, annað. Þetta hefur þó ekki verið opinberlega staðfest af Daft Punk-liðum en upplýsingarnar koma þó heim og saman við það sem áður hefur komið fram um plötuna. Ef þetta er rétt er svo sannarlega enn meiri ástæða til að vera spenntur, fréttaritari straums er alla vega við það að pissa á sig. Fyrir neðan má skoða allan gestalistann á plötunni sem að kombini sagði frá en titlar laganna eru enn á huldu.

1 – Nile Rodgers (Guitar), Paul Jackson Jr. (Guitar) – 4:34
2 – Instrumental – 5:21
3 – Giorgio Moroder (Synth) – 9:04
4 – Gonzales (Piano) – 3:48
5 – Julian Casablancas (Vocals) – 5:37
6 – Loose yourself to dance – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 5:53
7 – Paul Williams (Vocals and Lyrics) – 8:18
8 – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 6:07
9 – Paul Williams (Lyrics) – 4:50
10 – Instrumental – 5:41
11 – Todd Edwards (Vocals) – 4:39
12 – Noah Benjamin Lennox (Panda Bear – Vocals) – 4:11
13 – Dj Falcon – 6:21

Straumur fer í Sónar – Seinni hluti

Ég datt inn í nokkuð tóma Hörpu um sjöleitið til þess að sjá Samaris og það var ljóst að ýmsir voru eftir sig eftir föstudagskvöldið. Nokkur töf varð á tónleikunum en ég náði fyrstu tveimur lögunum sem voru hreint afbragð, dökkt döbstep, og klarinettleikur og söngur stelpnanna til mikillar fyrirmyndar. Þvínæst lá leiðin í Norðurljósasalinn til að sjá goðsögnina Ryuichi Sakamoto sem lék á píanó og Alva Noto sem sá um rafleik. Þetta var lágstemmd og mínímalísk nýklassík með sérlega smekklegum myndböndum varpað á skjá, gott og rólegt veganesti fyrir æsinginn sem var væntanlegur seinna um kvöldið.

Táldregin tilraunadýr

James Blake var líklega stærsta númer helgarinnar og Silfurbergsalurinn var fljótur að fyllast þegar upphaf tónleika hans nálgaðist. Hann kom fram ásamt tveimur meðreiðarsveinum sem spiluðu á trommur, gítar og raftól en sjálfur sá hann um söng og hljóðgervlaleik. Blake er ákaflega smáfríður og strákslegur og kurteis sviðsframkoman bræddi eflaust tugi hjarta á svæðinu. Hann baðst afsökunar á því að nota áhorfendur sem tilraunadýr fyrir ný lög en það var algjör óþarfi því flest hljómuðu þau vel, sum byrjuðu rólega en umbreyttust síðan í kröftuga danssmelli. Hann flutti samt einnig sína helstu slagara og kliður fór um salinn þegar upphafstónarnir úr Limit to your Love og Wilhelm Scream tóku að hljóma. Hann endaði tónleikana á Retrograde, fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu, sem hafði komið út einungis viku áður og salurinn starði agndofa.

Lyftingar og LED-hjálmar

Þvínæst spiluðu Gluteus Maximus, dúett Stephans Stephanssonar og Dj Margeirs, sem hljómar dálítið eins og dekkra hliðarsjálf Gus Gus. Þeir komu þó ekki fram einir heldur höfðu heilt tvíkynja kraftlyftingarlið með sér á sviðinu sem lyftu lóðum í takt við munúðarfulla tónlistina. Næst á dagskrá í Silfurbergi var goðsögnin Tom Jenkinson, Squarpusher, sem var einn helsti fánaberi Warp útgáfunnar á 10. áratugnum. Það var nokkuð langt síðan ég hafði hlustað á meistarann sem tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu, en það kom ekki að sök, ég var dáleiddur frá fyrsta takti. Hann var á bakvið græjupúlt með LED skjá framan á, risastór skjár var á bak við hann og á höfðinu bar hann hjálm í ætt við Daft Punk sem einnig hafði LED skjá framan á sér sem náði niður fyrir augu. Hvernig hann sá út um þetta apparat veit ég ekki en hitt var ljóst, það sem áhofendur sáu var show á heimsmælikvarða.

Reif í heilann

Það er erfitt að lýsa tónlistinni en hún hefur verið flokkuð í geira sem er kallaður Intellegent Dance Music (gæti útleggst heiladans á íslensku). Þessi nafngift hefur farið í taugarnar á mér, hún hljómar hrokafull og tilgerðarleg en þarna skyldi ég loks hvað átt er við. Tónlistin var oft of flókin fyrir líkamann til að dansa við en í framheilanum voru taugafrumur í trylltum dansi. Jenkinson er ryðmískur meistari og á það til að brjóta hvern takt niður í frumeindir sínar og endurraða síðan eins og legókubbum með frjálsri aðferð. Þetta var allt saman ótrúlega villt, galið og kaótískt en á sama tíma hárnákvæmt. Grafíkin á öllum þremur skjáum fylgdi síðan tónlistinni ótrúlega vel eftir og ég gapti opinmynntur í þann eina og hálfa klukkutíma sem hann spilaði. Eftir að hann var klappaður upp fór hann frá græjunum á borðinu og tók upp bassa við gríðarleg fagnaðarlæti áhorfenda. Síðasti hluti tónleikanna var spunakennd stigmagnandi sturlun sem ég vonaði að myndi aldrei enda. Eitt myndband segir líklega meira en þau tæplega 300 orð sem ég hef skrifað um herlegheitin og sem betur fer var einhver að nafni Páll Guðjónson sem festi hluta af þessu á filmu, þó það jafnist engan veginn á við að hafa verið viðstaddur.

Mugison á Mirstrument

Eftir að hafa náð andanum eftir Squarepusher hljóp ég yfir í Norðuljósasalinn og náði síðustu lögunum með Mugison sem kom fram ásamt bandi og spilaði á heimasmíðaðan hljóðgervil sem hann kallar Mirstrument. Hann endaði á þekktustu lögunum af Mugimama…, I Want You og Murr Murr sem var gaman að heyra en ég hafði þó vonast til að hann myndi taka eylítið róttækari snúning á lögum sínum en boðið var upp á. Eftir þetta fór ég niður í bílakjallarann og dansaði við Pechanga Boys inn í nóttina.

Hátíðin var í flestalla staði stórvel heppnuð og verður vonandi að árlegum viðburði í Reykjavík þar sem nánast ekkert annað er um að vera í tónlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. Hápunkturinn fyrir mig var Squarepusher en Diamond Version á föstudagskvöldinu var ekki langt á eftir og voru uppgötvun helgarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun – Fyrri hluti

Sónar hátíðin er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur og fyrra kvöld hátíðarinnar var mögnuð upplifun og sannkölluð flugeldasýning fyrir skilningarvitin. Fyrsta atriðið sem ég sá dagskránni var plötusnúðatvíeykið Thugfucker í Silfurbergi sem samanstendur af hinum íslenska Hólmari og Greg frá New York. Þeir dúndruðu drungalegu tekknói í mannskapinn og stjórnuðu dansinum eins og brúðumeistarar með útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum.

Kraftwerk á krakki

Þvínæst rölti ég yfir í Norðurljósasalinn og til að sjá Diomond Version sem ég hafði aldrei heyrt um áður en smekkvís kunningi hafði mælt með þeim. Sá vissi greinilega hvað hann söng því þetta var ein magnþrungnasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið vitni að undanfarin misseri. Tveir menn á bakvið tölvur og græjur en fyrir framan þá var nokkurs konar hávaðalínurit og fyrir aftan þá tveir skjáir með alls konar grafík, svona pixlaðir skjáir með áferð eins og ljósaskilti í Vegas. Þetta var í stuttu máli sagt eins og Kraftwerk á krakki. Tónlistin var grjóthart iðnaðarsalt, rifið bassasánd, taktar úr pumpandi pistónum bílvéla og færibanda. Allt saman kalt, hrátt og steinsteypt. Sjónræna hliðin var svo dýrindis djöflasýra og allt virkaði þetta eins og stórskotahríð á skilningarvitin.

Kampavín og sígarettur

Modeselektor voru það band sem ég var spenntastur fyrir þetta kvöldið og voru stórgóðir en bliknuðu þó eylítið í samanburði við Diamond Version. Tónleikarnir voru þó skemmtilegir og fjölbreyttir og snertu á dubstep, tekknói, hip hop og almennri gleðitónlist. Á milli laga töluðu þeir með effekti á röddinni sem lét þá hljóma eins og íkorna og á ákveðnum tímapunkti tilkynntu þeir að nú myndu þeir taka sígarettulagið. Og kveiktu sér í. Ég fylgdi þeirra fordæmi. Þvínæst opnuðu þeir kampavínsflösku og sprautuðu yfir salinn eins og þeir hefðu sigrað í formúlu 1. Þetta var stórgóð skemmtun og tilraunakenndum myndböndum var einnnig varpað á skjá til að auka upplifunina.

Nýtt efni frá Gus Gus

Gus Gus byrjuðu tónleika sína á nýju lagi sem var sérdeilis æðislegt. Hljómaði eins og fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu og viðlagið sungið af Högna var löðrandi í grípandi danstónlistarnostalgíu; „Do you remember the days, when we started to crossfade.“ Tónleikarnir voru heilt yfir frábær skemmtun en ég hef þó séð þau betri, fjarvera Urðar var nokkuð truflandi, en rödd hennar var spiluð af bandi í einstaka viðlagi. Högni og Daníel Ágúst stóðu sig þó með glæsibrag og fleiri ný lög ómuðu sem lofa góðu fyrir komandi plötu.

Ógrynni af Ást

Þá hljóp ég yfir í norðurljósasalinn og náði þremur lögum með Retro Stefson sem rokkuðu salinn í ragnarök. Það var ekki þurr flík í húsinu og Unnsteinn hafði salinn í hendi sér og lét fólk hoppa, skoppa og dansa asnalega milli þess sem hann kynnti hljómsveitina. Trentemoller var síðasta atriði á dagskrá og settið hans sveik engan. Dunandi og pumpandi tekknó sem var aðgengilegt en samt framsækið og helling af hnefum á lofti í salnum. Þegar hérna var komið við sögu var ölvun orðin umtalsverð og þegar hann spilaði I feel Love með Donnu Summer missti ég stjórn á öllum hömlum og hoppaði um og veifaði höndunum í algleymisdansi.

Eftir það sagði skylduræknin til sín og kíkti á dj-settið hjá James Blake í bílakjallaranum. Það var ekki alveg jafn mikið rave og ég hafði ímyndað mér, einungis smátt svæði hafði verið afmarkað í kjallaranum, en tónlistin var þó nokkuð góð. Dubstep, Dancehall og reggískotin danstónlist voru hans helstu vopn og krúnudjásnið var frábært remix af Drop it like it’s hot með Snoop Dogg. Hér gæti ég sagst hafa farið heim til að fylla á rafhlöðurnar fyrir síðara kvöldið, en það væri lygi. Allt í allt var fyrra kvöld Sónarsins frábærlega vel heppnað og sannkölluð árshátíð fyrir augu og eyru.

Davíð Roach Gunnarsson

Spennandi tónar á Sónar – Seinni hluti

Sónar tónlistarveislan hefst í dag og Straumur hvetur alla sem á hanska geta haldið til að sjá eftirtalda listamenn en þegar þetta er skrifað eru enn til miðar á hátíðina.

James Blake

Hinn breski Blake er einungis 24 ára gamall en skaust upp á stjörnuhimininn með sinni fyrstu breiðskífu samnefndri listamanninum sem kom út í byrjun árs 2011. Þar blandaði hann saman dubstep og sálartónlist á einstaklega smekklegan hátt og var tilnefndur til hinnar virtu Mercury tónlistarverðlauna fyrir vikið. Fyrsta smáskífan af breiðskífu sem er væntanleg í vor kom út í síðustu viku og vonandi fáum við að heyra nýtt efni frá kappanum á tónleikum hans á laugardaginn. Þá mun hann einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpu á föstudagskvöldinu.

Gus Gus

Gus Gus eru fyrir löngu orðin að stofnun í íslenskri raftónlist og tónleikar þeirra eru á heimsmælikvarða á alla hljóð- og sjónræna kanta. Þeirra síðasta plata, Arabian Horse, fékk nánast einróma lof gagnrýnandi og er af mörgum talin þeirra besta verk. Þeir munu frumflytja nýtt efni á hátíðinni.

Trentemøller

Anders Trentemøller er einn fremsti raftónlistarmaður í Danaveldi og hefur heiðrað Íslendinga ófáum sinnum bæði með live tónlistarflutningi og skífuþeytingum. Hann mun leggja stund á hið síðarnefnda á í Norðurljósasal Hörpu á laugardagskvöldið og undirritaður getur staðfest að enginn verður svikinn af Trentemøller dj-setti. Þau eru  þung en jafnframt aðgengileg þar sem hann spilar oft eigin remix af þekktum poppslögurum.

Mugison

Ólafur Örn Elíasson, betur þekktur sem Mugison, hefur verið ein helsta poppstjarna Íslands undanfarin ár og selt meira en 30.000 eintök af sinni nýjustu plötu. Í byrjun ferilsins spilaði þó raftónlistin meiri rullu í tónlist hans og á Sónar hátíðinni mun hann notast við hljóðgervil sem hann smíðaði sjálfur, ásamt Páli Einarssyni félaga sínum, frá grunni. Ekki er ólíklegt að hann muni sína á sér sjaldséða hlið á hátíðinni og enginn ætti að láta það fram hjá sér fara.

Hermigervill

Hermigervill er frábær tónlistarmaður sem á sínum tveimur síðustu plötum hefur dundað sér við að uppfæra helstu dægurlagasmelli Íslandssögunnar yfir í rafrænan búning. Tónleikar með honum eru einstök upplifun þar sem hann kemur fram einn ásamt lager af raftólum og djöflast af mikilli innlifun á hljóðgervla, samaplera, plötuspilara, þeramín, og grípur jafnvel í fiðlu ef vel liggur á honum. Heyrst hefur að hann sitji á nýju frumsömdu efni og verður spennandi að heyra það á tónleikum hans um helgina.

Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti

Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.

Squarepusher

Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.

Sísí Ey

Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.

Modeselektor

Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.

LFO

LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.

Alva Noto og Ryuichi Sakamoto

Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.

Skynörvandi myndband frá Tame Impalia

Ástralska sýrurokksveitin Tame Impalia gaf í gær út myndband við lagið Feels like we only go backwards. Lagið er af annarri plötu sveitarinnar, Lonerism, sem kom út í síðasta mánuði og er ein af bestu plötum ársins. Myndbandið er feikilega litríkt  og skynörvandi og minnir mikið á LSD-drifna sækadelíu sjöunda áratugarins eins og tónlist sveitarinnar. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

TAME IMPALA- Feels Like We Only Go Backwards from Becky & Joe on Vimeo.

Lokauppgjör Airwaves – Laugardagur og Sunnudagur

Mynd: Óskar Hallgrímsson

 

Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.

 

Skógláp í kjallara

 

Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.

 

Hnökralaus flutningur

 

Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.

 

Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.

 

Sunnudagskvöld

 

Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.

 

Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.

 

Bassinn tekinn í göngutúr

 

Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.

 

 

Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.

Davíð Roach Gunnarsson

Giorgio Moroder kominn á Soundcloud

Hinn goðsagnakenndi pródúsant og lagahöfundur Giorgio Moroder stofnaði nýverið ekki bara eina, heldur tvær soundcloud síður. Þar hefur hann hlaðið upp ótal lögum frá löngum og farsælum ferli, en sumt af því er afar sjaldgæft efni. Hinn ítalski tónlistarmaður var helsti lagahöfundur og upptökustjóri Donnu Summer á hápunkti ferils hennar en hann hefur einnig gefið út tónlist undir eigin nafni og samið tónlist við fjölda kvikmynda, þar á meðal Scarface, Midnight Express og Top Gun. Þá hefur hann unnið með mörgum stjórstjörnum svo sem Bonnie Tyler, Freddy Mercury, David Bowie og Debby Harry og hlotið þrjú óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist. Hann hætti að mestu afskiptum af tónlistarbransanum í byrjun 10. áratugarins en hefur síðan öðlast költ status meðal margra tónlistaráhugamanna. Hér fyrir neðan má hlusta á endurhljóðblandaða útgáfu af From here to Eternity frá 1977 og lag af plötunni EINZELGÄNGER frá 1975.