Meðlimir bresku hljómsveitarinnar The xx eru staddir hér á landi. Heyrst hefur að þau séu komin hingað til að taka upp sína þriðju plötu í Greenhouse Studios hjá Bedroom Community. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu XX árið 2009 og hlaut hún gríðarlega jákvæðar viðtökur í bresku tónlistarpressunni. Önnur plata þeirra, Coexist, kom út árið 2012, og þó viðtökurnar hafi ekki verið jafn einróma þá eru vafalaust margir sem eru spenntir að heyra að hljómsveitin sé aftur að hreiðra um sig í stúdíói
Category: Uncategorized
Tónleikahelgin 24.-27. júlí
Fimmtudagur 24. júlí
Boogie Trouble og Soffía Björg leiða saman bassaleikara sinn á tónleikum næstkomandi fimmtudag á Gauknum. Um er að ræða fyrstu opinberu tónleika Boogie Trouble á höfuðborgarsvæðinu síðan á síðustu Airwaves hátíð. Frítt er inn fyrir mannverur sem bera nafnið Steinunn en aðrir þurfa að reiða fram þúsundkall fyrir aðgang að gleðinni. Hurðin opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar.
Dúettinn Dreprún, Helgi Valur og Katastrofa koma fram á Dillon en þau eiga það öll sameiginlegt að fást að einhverju leiti við hip hop tónlist. Ballið byrjar 21:00 og það er fríkeypis inn.
Reggíbandið Ribbaldarnir munu leika hljómlist fyrir gesti Loft Hostel klukkan 21:00 og það kostar ekki neitt að berja þá augum.
Tilraunasöngkonan Bonnie Lander frá Fíladelfíu og flautuleikarinn Berglind Tómasdóttir koma fram í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00.
Hljómsveitin Artic Roots kemur fram á Húrra en tónleikar þeirra byrja 22:00 og aðgangur er ókeypis.
Föstudagur 25. júlí
MC Bjór & Bland, Reykjavíkurdætur og Caterpillarmen munu koma fram á Húrra en þar verður einnig frumsýnt myndbandi við nýjasta lag MC Bjórs, Hrísgrjón. Gleðin hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er enginn.
Metalsveitirnar Wistaria og Trust the Lies spila á Gauknum og hefja leik 22:00.
Hljómsveitin Börn heldur upp á útgáfu nýrrar LP plötu með tónleikum á Dillon ásamt hljómsveitinni Kvöl. Börn er drungapönkhljómsveit sem reis upp úr ösku hljómsveitarinnar Tentacles of Doom en ókeypis er inn á tónleikana sem byrja klukkan 22:00.
Laugardagur 26. júlí
Söngkonan Mr. Silla kemur fram á tónleikum í Mengi en þar mun hún frumflytja ný lög í bland við eldra efni. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.
All Tomorrow’s Parties – Hátíð í Herstöð
Mynd: Ozzo.is
Það er mikið gleðiefni að All Tomorrow’s Parties hátíðin sé haldin í annað skipti á kalda landinu og í ár stækkaði hátíðin og bætti við sig þriðja deginum, auk tjaldsvæðis og partýtjalds. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihéldu Hróarskeldu, millilendingu í Barcelona og yfirbókaða flugvél var ég erlendis fram á fimmtudagsnótt og komst því miður ekki á fyrsta kvöldið, en heyrði mjög vel látið af Shellac og Mogwai, en heldur verr af rigningunni.
Gotnesk keyrsla
Þegar ég mætti á tónleikasvæðið var Sóley að syngja sitt hugljúfa krúttpopp og skapaði mjög notalega stemmningu í hinu risastóru flugskýli sem er aðalsvið hátíðarinnar. Rigningin lét sem betur fer ekki sjá sig þetta kvöldið og því myndaðist skemmtilegt andrúmsloft fyrir utan Atlantic Studios þar sem fólk sat og spjallaði á bekkjum, fékk sér að borða eða brá sér inn í partýtjaldið þar sem plötusnúðar léku listir sínar. Liars er band sem ég hef ekki hlustað á áður en þeir voru þrumuþéttir í þungri rokkkeyrslu. Þetta var nokkurs konar dimmt og gotneskt synþarokk mitt á milli Depache Mode og Bauhaus.
Næstir á svið í Atlantic voru svo gömlu skóglápskempurnar í Slowdive, sem margir voru spenntir fyrir. Þeir framleiddu hnausþykka gítarveggi yfir hægfljótandi trommubít og helltu úr fötum af fídbakki yfir áhorfendur. Þetta var afskaplega vandað hjá þeim en fyrir þá sem eru ekki kunnugir höfundaverki sveitarinnar varð þetta nokkuð keimlíkt þegar á leið.
Árás á augu og eyru
Næst á svið voru trip hop hetjurnar frá Bristol, Portishead, og flugskýlið fylltist óðum þegar líða dró nær miðnætti. Það var ljóst að þau voru helsta aðdráttarafl kvöldsins og eftirvæntingin í salnum var áþreifanleg þegar ljósin voru slökkt og beðið var eftir goðunum. Það sem gerðist næsta einn og hálfa tímann var útpæld árás á eyru og augu úr öllum mögulegum áttum. Tíu manna hljómsveitin framdi svartagaldur á sviðinu en fyrstu lögin komu af þriðju plötu sveitarinnar, Third. Beth Gibbons er sönglegt náttúruafl og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Rauntíma myndböndum af hljómsveitinni á sviðinu voru brengluð með sækadelískum síum og varpað á risastórt tjald fyrir aftan þau sem hafði dáleiðandi áhrif.
Þau tóku góðu blöndu af öllum ferlinum en áhorfendur tóku við sér svo um munar í lögum af Dummy eins og Wandering Star, Sour Times og Glory Box þar sem allir sungu hástöfum með. Eftir rúman klukkutíma fóru þau af sviðinu og ég hef sjaldan séð áheyrendur jafn æsta í uppklappi. Þegar Rhodes hljómarnir úr Roads byrjuðu að óma byrjaði gæsahúðafiðringur að læða sér upp mænuna og ég gat ekkert gert annað en staðið dolfallinn og opinmynntur að drukkið í mig flutninginn. Síðasta lagið var We Carry On af Third sem er undir sterkum áhrifum frá þýsku súrkálsrokki og þá var myndavélunum beint út í áhorfendaskarann sem var að missa legvatnið í sameiginlegri hópsturlun. Þetta var performans á heimsmælikvarða og bestu tónleikar sem ég hef séð á Íslandi í ár.
Ég þurfti dágóðan tíma í fersku lofti til að jafna mig eftir Portishead en Fuck Buttons voru í essinu sínu að fremja hljóðræn hryðjuverk þegar ég mætti aftur inn í Atlantic Studios skemmuna. Þetta var marglaga óhljóðasúpa en við djúpa hlustun tóku melódíur að rísa upp úr eins og gárur á vatni. Ansi tilkomumikið og góður endir á kvöldinu en bliknaði samt í samanburði við myrkramessuna hjá Portishead.
Kvöld tvö
Ég hóf leikinn með Sin Fang sem hefur gjörbreytt tónleikum sínum frá því ég sá hann síðast. Í stað venjulegrar hljómsveitar kemur hann fram með tveimur trommuleikurum en sjálfur djöflast hann í hinum ýmsu raftólum ásamt því að eiga við eigin rödd með ýmis konar effektum. Þetta var hressileg tilbreyting og feikilega vel myndskreytt og lög eins og Young Boys og Look at the Light öðluðust annað líf í nýjum útsetningum.
Skandínavískt myrkur
Breska raftríóið Eaux voru næst á dagskrá í Andrews Theater með líflega blöndu af tekknói og súrkálsrokki undir nokkuð sterkum áhrifum frá kvikmyndatónlist John Carpenters. Tónlistin var mjög góð en algjört myrkur var í salnum og engin ljós á sviðinu. Það er erfitt að tengjast hljómsveit þegar þú sérð ekki andlitin á þeim og þó hljómurinn væri myrkur hefði ég viljað aðeins meiri birtu í salnum.
Eftir bíóið var haldið aftur í Atlantic Studios þar sem danska bandið I Break Horses voru að koma sér fyrir. Þau spiluðu draumkennt rafpopp með melankólískum melódíum undir áhrifum frá 9. áratugnum. Tónlistin var einhvern veginn mjög skandínavísk og minnti talsvert á sveitir eins og Bat For Lashes, Knife og Robyn. Þetta var vel gert hjá þeim og alls ekki leiðinlegt en samt ekki mjög eftirminnilegt.
Hvorki staður né stund
Devandra Banhart er hæfileikaríkur tónlistarmaður sem var þó mjög illa staðsettur á laugardagskvöldinu. Að fara á svið klukkan hálf 11 á undan Interpol á hinu risastóra Atlantic Studios sviði einn með gítar var hreinlega ekki að virka fyrir hann. Hann spilaði mjúkt og söng lágt þannig að kliðurinn nánast yfirgnæfði tónlistina nema maður væri fremst við sviðið. Lögin og framkoman voru líka hálf stefnulaus og hvorki fugl né fiskur.
Kuldalegt rokk og fötur af fídbakki
Aðalnúmer kvöldsins var síðan New York kuldarokkararnir í Interpol. Þeir stóðu fyllilega fyrir sínu og héldu þéttri keyrslu og góðum dampi í settinu í tæpan einn og hálfan tíma og áhorfendur sungu hástöfum með í helstu slögurunum. Lokaatriði hátíðarinnar var síðan leðurklædda költið Singapore Sling sem komu fram í viðhafnarútgáfu þar sem gamlir meðlimir eins og Einar Sonic, Ester Bíbí og Hákon stigu á stokk og voru þau mest um tíu á sviðinu. Rafmagnsgítarsurgið og fídbakkið var allsráðandi og slagarar eins og Life is Killing My Rock and Roll voru fluttir á tilkomumikinn hátt. Þau enduðu svo frábært sett á mínu uppáhalds Sling lagi, Guiding Light. Þrátt fyrir að fáir hafi verið eftir í salnum sló þetta tilheyrandi botn í epíska hátíð.
Það er svo sannarlega vonandi að All Tomorrow’s Parties sé komin til að vera á Íslandi því hátíðin í ár var frámunalega vel heppnuð á helstu mælikvarða sem hægt er að setja á tónlistarhátíðir. Dagskráin menntaðarfull og fjölbreytt, hljóðið til fyrirmyndar, umhverfið sjarmerandi og andrúmsloftið afslappað. Öll atriði byrjuðu á réttum tíma og ég verð að hrósa ljósameisturunum sérstaklega, það er sjaldgæft á Íslandi að lýsing sé í þeim gæðaflokki sem var á ATP. Atlantic Studios er með bestu tónleikastöðum á landinu í sínum stærðarflokki og það væri óskandi að skemman væri nýtt undir slíkt í auknum mæli.
Davíð Roach Gunnarsson
Good Moon Deer með nýtt lag
Rafdúettinn Good Moon Deer sem er skipaður þeim Guðmundi Inga Úlfarssyni og Ívari Pétri Kjartansyni sendi frá sér nýtt lag í dag sem ber heitið Begin. Lagið sem verður á plötu sem kemur út í haust var tekið upp og mixað af þeim sjálfum og masterað af Hermigervill.
Nýtt lag með Quarashi
Hin aldna rappsveit Quarashi voru rétt í þessu að gefa frá sér fyrsta nýja lag sitt í næstum áratug. Lagið er þrungið vísunum í upphafsár sveitarinnar, bæði í hljóm og texta. Til að ná sína upprunalega „sándi“ voru grafnar upp upptökugræjur sem voru í notkun á upphafsárum 10. áratugarins. Sveitin starfaði frá árunum 1996 til 2005 en hún hyggur á stærri útgáfu síðar á árinu. Hlustið á lagið Rock On hér fyrir neðan.
Disclosure á Secret Solstice
Núna rétt í þessu var verið að tilkynna að breski rafbræðradúettinn Disclosure verði á meðal listamanna sem spila á Secret Solstice hátíðinni sem haldin verður í Laugardaglnum 20.-22. júní í sumar. Disclosure náðu feikna vinsældum á síðasta ári með plötu sinni Settle, en við í Straumi völdum hana næstbestu plötu ársins. Einnig var tilkynnt um komu hins virta velska plötusnúðs Jamie Jones á hátíðina en meðal annarra sem koma fram eru Massive Attack, Schoolboy Q, Skream og Ben Pearce.
Tónleikahelgin 10. – 12. apríl
Fimmtudagur 10. apríl
Kammersveit Hallvarðs Ásgeirssonar kemur fram í Mengi við Óðinsgötu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 2000 kr inn.
Bugun, Drulla og Pungsig koma fram á Dillon. Það er frítt inn og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00
Á Gamla Gauknum heldur hátíðin Gerum upp Gaukinn áfram með rapp og hipp hopp kvöldi þar sem Reykjavíkurdætur, Cryptochrome, Cesar A, Lamako og MC Bjór og Bland koma fram. Festivalpassi kostar 5000 kr en stök kvöld 1500 kr. Húsið opnar 21:00
Föstudagur 11. apríl
Belgíska hljómsveitin Augures kemur fram í Lucky Records klukkan 16:15
Sin Fang tónleikar í Mengi við Óðinsgötu. Miðaverð er 2000 kr og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00
Hljómsveitirnar Elín Helena, Morgan Kane og Pungsig leiða saman hesta sína með tónleikum á Dillon. Frítt inn og hefjast leikar klukkan 21:35
Canis og Trust The Lies halda tónleika á Dillon. Það er frítt inn og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00
Á Gamla Gauknum heldur hátíðin Gerum upp Gaukinn áfram með þunkarokks kvöldi þar sem Darknote, Wistaria, Endless Dark, Bootlegs, Angist og Muck koma fram. Húsið opnar 21:00
Laugardagur 12. apríl
Á Gamla Gauknum fer fram lokakvöld hátíðarinnar Gerum upp Gaukinn með með tónleikum frá Nolo, Kviku, Johnny and the rest og kimono. Húsið opnar 21:00
Belgíska hljómsveitin Augures kemur fram ásamt Godchilla og Pyrodulia á Harlem. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00
Blúshátíð í Reykjavík hefst kl. 14 á Skólavörðustígnum með böski frá fremstu blúsurum landsins. Landslið blúsara böska frá kirkju og niðurúr. Tónleikar á Borgarbókasafni kl 16. Urmull óvæntra atriða alla hátíðadagana en hátíðin stendur til 17. apríl.
Tónleikahelgin 27. – 29. mars 2014
Fimmtudagur 27. mars 2014
Systurnar í SamSam halda tónleika á Rosenberg. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.20.30 og er miðaverð 1500 krónur.
Markús and Diversion Sessions & Per: Segulsvið koma fram á Café Ray Liotta við Hverfisgötu 26. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.
Á Bravó fer fram Heiladans númer 33. G. Larsen / Snooze Infinity / Epic Rain / It Is Magic koma fram og byrjar dansinn á slaginu 21. Ókeypis inn.
Hljómsveitirnar Bob, Strigaskór nr. 42 og The Cocksuckerband halda tónleika á Gauk á Stöng. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og það kostar 1000 kr. inn.
Urban Lumber frumsýna nýtt myndband á Hressó og halda tónleika strax á eftir. Myndbandið verður sýnt klukkan 23:00 og það er frítt inn. Mosi sér um upphitun.
Föstudagur 28. mars 2014
Reykjavíkurdætur og Dj Flugvélar og geimskip koma fram á tónleikum Undiröldunnar klukkan 17:30 Í Hörpu. Ókeypis aðgangur
Kaleo spila á tónleikum á Dillon. Það kostar 500 kr inn og hefjast tónleikarnir klukkan 22:00
Laugardagur 29. mars 2014
Hlustið á Bryan Ferry með Todd Terje
Norski geimdiskóboltinn Todd Terje gerði nýverið lagið Johnny And Mary aðgengilegt, en í því nýtur hann aðstoðar flauelsbarkans og fyrrum Roxy Music söngvarans Bryan Ferry. Lagið er ábreiða af lagi enska söngvarans Robert Palmer og verður á væntanlegri breiðskífu Todd Terje, It’s Album Time, sem kemur út 8. apríl. Terje hefur þó áður unnið með Bryan Ferry en hann hefur endurhljóðblandað lögin Love is the Drug, Don’t Stop the Dance og Alphaville með Roxy Music. Hlustið á lagið hér fyrir neðan ásamt Delorean Dynamite sem einnig verður á plötunni. Þá látum við endurhljóðblöndun Todd Terje af Love is the Drug fylgja í kaupbæti.
Neutral Milk Hotel spila í Hörpu
Hin goðsagnakennda bandaríska indísveit Neutral Milk Hotel er væntanleg til landsins í sumar og mun leika á tónleikum í Silfurbergssal Hörpu þann 20. ágúst. Hljómsveitin er frægust fyrir plötuna In an Aeroplane over the Sea sem kom út árið 1998 en stuttu eftir úgáfu hennar lagðist hún í langan dvala og er fyrst núna að koma saman aftur. Miðasala á tónleikana hefst 5. apríl á harpa.is en upphitun verður tilkynnt þegar nær dregur. Hlustið á upphafslag In an Aeroplane over the Sea hér fyrir neðan.