Áfram með Airwaves: Kvöld tvö

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson

 

Ég hóf annan í Airwaves á Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís þar sem bandaríska indí pían Frankie Cosmos steig á stokk. Hún flutti ótrúlega kjút og áferðafallegt indípopprokk undir áhrifum frá 10. áratugnum og bauð upp á frábærar lagasmíðar og smekklegar útsetningar. Par-Ðar voru í síkadelískri sveiflu á gauknum og löng lög með miklum kaflaskiptingum. Stundum sungu allir fimm meðlimirnir saman og öðrum stundum brast á með löngum instrumental djamm-köflum.

 

Ég náði þremur lögum með draumarokksveitinni Oyama sem ég hafði ekki séð lengi en þau voru algjörlega frábær í Silfurbergi. Gítarsándin riðluðust á hvort öðru í massívum pedalaorgíum og mónótónísk rödd söngkonunnar gnæfði yfir öllu saman. En ég þurfti frá að hverf því ég hafði heyrt góðu hluti af kanadísku söngkonunni Juliu Holter.

 

Móðurlífsvæl

 

Það reyndist slæm ákvörðun því þetta var óttalegt móðurlífsvæl sem barst af sviðinu í Listasafninu. Týpist krúttindí sem náði engu flugi heldur var álíka flatt og Danmörk. Þannig ég hélt aftur í Silfurberg til að sjá rokkstofnunina Singapore Sling sem eru tónlistarleg andstæða þess sem gekk á í Listasafninu. Kvöldið áður hafði ég séð hina frábæru hljómsveit Hatari, og Sling eru líklega eina bandið á Airwaves sem hata meira en þeir.

 

Söngvar Satans

 

Þeir klæða heldur níhílismann sinn ekki í ljóðrænt orðskrúð heldur kemur fyrirlitningin hrein og tær, beint úr krananum: You are Scum/You must die kyrjar Henrik með fjarrænt blik í augunum. Þarna voru söngvar Satans og konsentreruð illska og spilað á rafmagnsgítara með rifjárnum. Næstir á svið voru Fufanu sem hljóta að teljast undir talsverðum áhrifum frá Sling. Ískalt töffararokk sem sækir jöfnum höndum í póstpönk og krautrokk, hellingur af gítarslaufum með gommu af reverbi. Þeir hreyfa sig hins vegar talsvert meira á sviðinu og söngvarinn lék á als oddi og prílaði upp á hátala. Tók meira að segja rökkstjörnu spark í trommusettið í blálokin á settinu.

 

Aldraðir æringjar

 

Eftir tvö rosaleg rokkbönd hélt ég í allt aðra sálma og settist niður í Kaldalóni til að sjá raftónlistarmanninn Tonik. Hann framreiddi seigfljótandi djúpsjávartekknó og lágstemmda algleði og hafði tvo frábæra hljóðfæraleikara með sér. Þá voru bara háöldruðu bílskúrsæringjarnir í The Sonics eftir. Aldurinn sást svo sannarlega ekki á þeim og spilagleðin var áþreifanlega á sviðinu í Silfurbergi. Þeir voru klæddir í jakkaföt í sörfbandastíl og voru með saxafón, orgel og attitúd í gámavís. Lögin voru þó nokkuð keimlík eftir ákveðinn tíma og hljóðstyrkurinn var nánast óbærilega hár. En þetta var samt mjög gaman og ég missti mig þegar þeir tóku smellin Pshyco.

 

Annað kvöldið á Airwaves var mjög vel heppnað þrátt fyrir mikla rigningu, en það hefur sem betur fer stytt upp í dag. En það er hellingur eftir og Straumur heldur áfram að færa ykkur daglegar fréttir af hátíðinni. Svo verður Straumur með sitt eigið kvöld á hátíðinni í Gamla Bíó í kvöld þar sem Frankie Cosmos, Prins Póló, Berndsen, Hermigervill og margir fleiri um spila, sem við hvetjum alla til að mæta á.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrsti í Iceland Airwaves

Mynd: Florian Trykowski

Útvarp Airwaves. Klukkan er margt.

Davíð Roach Gunnarsson les fréttir:

Þó þetta sé 15. Iceland Airwaves hátíðin mín finn ég ennþá alltaf fyrir fiðringi í maganum á fyrsta degi. Bærinn fyllist af fólki og óræð spennuþrungin boð um yfirvofandi uppgötvanir þeysast um andrúmsloftið. Þannig leið mér þegar ég brunaði á hjólinu mínu gegnum bæinn eftir vinnu til að ná nýja rafpoppbandinu aYia í últra off off office-venue tónleikum á skrifstofu The Reykjavík Grapevine. aYia spila einhvers konar ofur nútímalegt trip hop, kinka kolli til FKA Twisgs og Kelelu en samt tilraunakenndari. Þau gera síðan mjög vel í að framreiða flókna elektróníkina á tónleikum með alls konar trommupödum, hljóðborðum og mixerum. Frábær byrjun á hátíðinni.

 

Níhílískt ljóðapönk

 

Næst sá ég annað spánýtt bandi sem heitir Hatari (fyrst hélt ég að það væri borið fram hatarí, en komst síðan að því að þetta er íslenskun á hater, þ.e. hatari). Þeir voru í einu orði sagt stórkostlegir á sviðinu í Iðnó og ólíkt öllu öðru í íslensku senunni. Þetta er nokkurs konar elektrópönk undir áhrifum frá slam-ljóðum og gjörningalist. Trommarinn spilar standandi á raftrommur með leðurgimp-grímu í andlitinu. Hinier tveir eru klæddir í eitthvað sem lítur út eins og nasista einkennisklæðnaður og annar þeirra syngur angurvært og spilar á gítar, en hinn ljóðarantar ómengaðan níhílisma. Textarnir eru kapítuli út af fyrir sig og ég var aftur og aftur dolfallinn af orðsnilldinni. Línur eins og „Saltinu úr grautnum er / er stráð, í sárin“ ómuðu í kollinum á mér löngu eftir að tónleikarnir voru búnir.

 

Næst á svið í Iðnó var Sigrún, sem áður hefur gert garðinn frægann með böndum eins og Orphic Oxtra. Hún framreiddi rosalega fríkí tilraunapopp með alls konar skrýtnum slaufum, óhljóðum, röddunum og kaflaskiptingum. Mjög áhugavert en það var dálítið erfitt að koma á eftir sprengju eins og Hatara, samanburðurinn verður aldrei sanngjarn.

 

Rafræn síkadelía

 

Þegar hér er komið við sögu er ekki hægt að komast hjá því að minnast á að fyrsta kvöld Airwaves var ansi rakt, og þá er ég ekki bara að tala um áfengisinntöku. Það er mjög hlýtt miðað við nóvember og stanslaus útlandarigning, það mikil að ég er alvarlega að íhuga að festa kaup á regnhlíf þar sem þegar þetta er ritað er ekki ennþá hætt að rigna. En út í þessa rigningu fór ég samt til að sjá Gunnar Jónsson Collider á Húrra. Hann byrjaði einn með tölvu og gítar og spilað ambíent í anda Boards Of Canada. Síðan bætust við trommu-, bassa- og hljómborðsleikari og helltu sér út í helsíkadelískt rokk sem blastaði skynfærin. Þvínæst fóru þeir út í rafindírokk sem minnti mig talsvert á Radiohead. Allt í allt, mjög gott stöff.

 

Eftir þetta þurfti ég því miður frá að hverfa þar sem ég er þræll í kapítalísku hagkerfi og þurfti að mæta snemma til vinnu í morgun. En fylgist með næstu daga því Straumur heldur áfram að segja daglegar fréttir af hátíðinni.

Primavera Sound – Eldhaf af gleði

Fyrr í sumar sótti ritstjórn Straums heim tónlistarhátíð á Spáni. Á henni var rituð dagbók, en vegna anna og tæknilegra annmarka birtist hún ekki fyrr en nú. Hún fer hér á eftir og við vonum að þið fyrirgefið tafir og annan suddaskap. Lesist á eigin ábyrgð.

Primavera Sound hátíðin í Barcelona er einstök í sinni röð. Ég hef rennt yfir dagskrár helstu tónlistarhátíða Evrópu síðustu ár og nánast undantekningarlaust er Primavera með sterkasta lænöppið. Hún hefur líka þann kost að vera borgarhátíð fyrir þá sem höndla illa marga sturtulausa daga í röð og tjaldsvæði sem lítur út eins og endalok siðmenningarinnar (hóst, Hróarskelda, hóst). Þriðji kosturinn er sá að Barcelona er bæði fáránlega svöl (í töfflegri merkingu) og heit (í veðurfarslegri merkingu) borg sem hefur upp á ýmisleg að bjóða fyrir utan hátíðina.

Þangað var ég kominn í fríðu föruneyti þriggja öðlingsdrengja tveimur dögum fyrir hátíð á sviplaust íbúðahótel. Dagarnir tveir fyrir festival voru vel nýttir, m.a. í góðan mat, enn betri kokteila, tekknóklúbba, mikið labb og strandarhangs þar sem ég náði að lenda í stingandi faðmlagi við grimma marglyttu í flæðarmálinu. Fyrsta dagurinn á hátíðinni var í rólegri kantinum og við vorum mættir um níuleitið á hátíðarsvæðið að sjá sænsku hljómsveitina Goat. Þau voru öll klædd í litríka kufla með afrískar grímur og spila blöndu af afróbít og sækadelik rokki. Þetta var tilkomumikið sjónarspil og söngkonurnar tvær stigu spriklandi regndans af miklum móð sem var árangurslaus (sem betur fer, það rigndi ekkert á hátíðinni) en tilkomumikill.

Næstir á stóra sviðið voru gömlu britpoppararnir í Suede. Ég er enginn fanboy, þekki bara allra stærstu slagara, en skemmti mér samt stórvel – ekki síst yfir villtum töktum söngvarans Bret Andersons sem 20 árum yngri frontmaður hefði geta verið stoltur af. Önnur dagskrá miðvikudagsins var á klúbbum niðrí miðbæ borgarinnar þangað sem við fórum sérstaklega til að sjá kanadísku rafsöngkonuna Jessy Lanza. Hún var klædd í diskókjól og kom fram ásamt kvenásláttarleikara með raftrommur og lék á eigin rödd með hlaðborð af effektapedölum við mikinn fögnuð áhorfenda. Eftir Jessy var haldið heim – þó með stuttu stoppi á næturklúbbi – og öll batterí sett í hleðslu fyrir komandi átök.

Fimmtudagur

Fimmtudagurinn var tekinn snemma og hersingin leigubílaði yfir á hátíðarsvæðið um eftirmiðdaginn til að sjá norska geimdiskógeggjarann Todd Terje. Þegar hér er komið við sögu vil ég reyna að lýsa hátíðarsvæðinu. Það er staðsett í nokkurs konar listigarði (þó með malbikuðum stígum) í útjaðri Barcelona sem er akkúrat passlega stór. Barcelona er líka svona borg þar sem öll mannvirki eru mikilfengleg, meira að segja skrifstofubyggingar, vöruskemmur og verksmiðjur eru arkíttektúrísk stórvirki sem gætu verið túristagildrur í „venjulegum“ borgum. Á svæðinu sjálfu eru sex misstór svið og einn „strandklúbbur“ og það tekur í mesta lagi 20 mínútur að labba milli þeirra sviða sem lengst eru frá hvort öðru. Það hjálpar líka að þú labbar bara á malbiki en ekki grasi sem gerir alla yfirferð hraðari og markvissari.

En téður norsari, Todd Terje, var einmitt að spila á strandklúbbnum en versta var að það var engin leið að komast inn í hann þar sem hann var stappfullur. Það kom þó ekki að mikilli sök þar sem tónlistin ómaði út fyrir klúbbinn og tilvalið tana sig í sólinni með kokteil að spjalla og njóta. Á eftir Terje tók ritstjórn straums strategíska ákvörðun um að mæta hálftíma snemma á Car Seat Headrest til að komast alveg fremst, en hann á að mínu mati á langbestu indírokk plötu ársins hingað til, sem kom út um mánuði fyrir tónleikana. Hann á grípandi lög og margir í fremstu röð kunnu textana hans utan að en hann er líklega feiminn og aðhyllist svona shoegaze/Singapore Sling sviðsframkomu: í staðinn fyrir að horfa á áhorfendur finnur hann sér punkt fyrir ofan sjónlínuna og starir út í tómið meðan hann spilar. Það jók samt bara á níhílíska töffarasjarmann en maður sá hann missti grímuna stundum á milli laga og brosti einlægt. Hann var að spila á sínum stærstu tónleikum fram að þessu og það var eins og hann væri fyrst að fatta: „Vó sjitt er ég orðinn svona vinsæll? Ég gæti kannski bara lifað af þessu.“

Úr því nýjasta nýja fórum við svo á gömlu (útbrunnu?) kempurnar í Air sem hafa ekki látið til sína taka í mörg ár. Þeir stóðu samt fyllilega fyrir sínu og svuntuþeysuðu áhorfendur út í hafsauga. Þeir hafa elst aðeins í andlitunum en búa enn yfir fágaða fransmannasjarmanum og klæddust hvítum samfestingum og keyrðu í gegnum sína ótalmörgu slagara. Þeir enduðu á La Femme D’argent og suddalegur bassaleikur Nicholas Godin kafaði dýpra en mínar myrkustu botnvonir.

Næst á dagskrá var keisari síkadelíu nútímans, Kevin Parker, einnig þekktur sem Tame Impala. Eftir stutt intró lét hann engan tíma fara til spillis og dýfði sér beint í Let It Happen. Tilfinningunni að vera með sínum bestu vinum í byrjun þess lags þegar gleðimettað hamingjuþykkni byrjar að fossast út í æðakerfið á sama tíma og confettisprengjum er hleypt af á sviðinu verður ekki lýst frekar hér – En hún var svo sannarlega til staðar og lifði út tónleika Tame Impala sem voru vægast sagt magnþrungnir.

Þetta var kvöld var skammt stórra högga á milli því næst á dagskrá var upprisa LCD Soundsystem, sem hafði hætt með pompi og prakt fimm árum áður. James Murphy hefur greinilega engu gleymt og söng af áþreifanlegri ástríðu milli þess sem hann lamdi kúabjölluna an afláts eins og enginn væri morgundagurinn. Bandið var síðan selspiksfeitt, bæði fönkí og mekanískt, villt og agað. Þegar þau tóku Dance Your Self Clean undir lokin ætlaði allt að ærast og eftir þessa tónleika get ég vottað að það er ekki hægt að deyja úr of stórum skammti af kúabjöllu.

Neon Indian var næstur á dagskrá og 80’s sósað synþapoppið kom fiðringi í kroppinn og söngvarinn lék á alls oddi og dansaði eins og ungur diet Micheal Jackson, hvítklæddur frá toppi til táar. Þvínæst lá leiðin á Hudson Mohawke til að trappa sig niður áður en haldið var heim á leið til að safna orku fyrir næstu daga.

Föstudagur

Vaninn er sá að eftir því sem lengra dregur á hátíðina er maður lengur og lengur að koma sér út úr húsi og það átti við þessa hátíð líka. Smá þreyta farin að segja til sín en við vorum samt mættir klukkan 8 að sjá kvennapóstpönkhljómsveitina (þetta er allt of langt orð) Savages. Þær voru þrusuþéttar og spiluðu drungalegt síðpönk í anda Joy Division og Siouxsie and the Banshies. Beirut er í miklu uppáhaldi hjá mér á plötu og Zach Condor er afburða tónlistarmaður en tónleikarnir þeirra á stóra sviðinu voru daufir á einhvern hátt sem ég kann ekki alveg að útskýra. Það var allt rétt gert en vantaði einhvern neista.

Dinasour Jr. hins vegar voru ekki fullkomnir en í ljósum logum af innlifun og óreiðu. Ég þekki lítið til þeirra en þeir eru mjög virtir í vissum kreðsum, annar þeirra leit út eins og gandálfur og galdrarnir á gítarinn voru í hans anda. Eftir risaeðluna var það Radiohead og þó að Creep sé komið á sama stall og Stál og Hnífur í mínum huga fékk ég engu að síður gæsahúð þegar ég fylgdist með tugþúsundum syngja það í kór svo langt sem augað eygði.

Animal Collective voru í sínum allra súrasta fasa, settöppið þeirra var eins og ef Kraftwerk samanstæði af fjórum afrískum töfralæknum. Þetta var allt saman mjög trippy og áhugavert á köflum en fór of oft út í rúnk. Það mikilvægasta við tónleika er samt að enda vel og þeir kunnu það, tóku sólskinsveðraða smellinn Florida og komu öllum í gott skap. Af þeim skokkuðum við til að ná Black Devil Disco Club og það var svitans og áreynslunnar fullkomlega virði. Þessi aldraði Frakki sem gaf út sín helstu verk seint á 8. áratugnum var í banastuði og músíkin – sem væri hægt að kalla draugahouse eða drungatekknó – dunaði í frábæru hljóðkerfinu og skyldi ístaðið í eyranu mínu eftir í lamasessi af unaði.

Það kom mér á óvart hvað letur íslenska rafdúettsins Kiasmos var stórt á plakatinu fyrir Primavera en það var ekki að ástæðulausu: Þeir spiluðu klukkan hálf 2 á einu af stærsta sviðinu og tugir þúsunda dönsuðu í algleymi við nýklassíska tekknóið þeirra. Stemningin var í efri kantinum og margir virtust þekkja helstu slagarana þeirra og uppbyggingarnar í lögunum. Avalanches héldu svo gott mót með diskó- og fönkuppbyggðu dj-setti er líða tók á aðfaranótt laugardagsins og síðan var haldið heim á leið.

Laugardagur

 

Fyrsta mál á dagskrá var aldraði strandstrákurinn Brian Wilson. Röddin hans er komin af léttasta skeiði en hann var fallegt að sjá hann við hljómborðið. Hljómsveitin var í fremsta flokki og gömlu slagararnir voru raddaðir af innlifun sem var augljóslega ekki bara fyrir peningana. Næst á dagskrá í allt öðrum sálmum þá var það Rapparinn Pusha T  sem drap mig með töffaraskap í tonnatali og attitúdi á áður óþekktum skala. Hann heitir það sem hann heitir og það vita þeir sem vilja vita.

Við náðum restinni af PJ Harvey sem stóð fyrir ýmsu og Sigur Rós rokkuðu stóra sviðið á sínum fyrstu tónleikum í langan tíma, og þeim fyrstu eftir að þeir urðu tríó. Þeir tóku nýtt lag og líka nokkur af Ágætis byrjun sem hafa ekki heyrst lengi. Svo var sjónræna hliðin var til mikillar fyrirmyndar með frábærum ljósum og myndböndum. Næst var förinni heitið á bandarísku harðkjarna hryllingsrappsveitina H09909. Það var líklega harðasta sjitt helgarinnar, pönkuð hryllingsmyndabít og hakkað rapp, mosh pit, stage dive og allra handa djöfulgangur. Þú varst hvergi öruggur með bjórinn þinn því mosh pittinn ferðaðist á hraða ljóssins og gat komið aftan að þér hvaðan og hvenær sem var.

Eftir H09909S fórum við á næsta svið þar sem Roosewelt voru í rafrænu fönk- og diskóstuði. Þeir tóku mjög flott cover af stórum 80’s slagara en í svipinn man ég ómögulega hvaða lag það var og skriftin í nótbúkkinu mínu frá þessum tímapunkti er gjörsamlega óskiljanleg. Þá var haldið á DJ sett í strandklúbbnum þar sem síðustu lögin voru Please Stay (royksopp rímixið) og Smalltown Boy með Bronski Beat og þar var dansað þar til tilfinningar í andliti og útlimum glötuðust.

Að fara á tónlistarhátíð með vinum sínum í útlöndum er góð skemmtun. Vægast sagt. Það er nánast engin betri til. Barcelona er góð borg. Með þeim allra bestu sem ég hef heimsótt. Ef félagsskapur, hljómsveitaskipan og veður er jafn þétt skipað og í þessari ferð er nánast ekkert í veröldinni meiri gleði. Primavera Sound var allt það sem ég óskaði mér og hún og átti líka ýmislegt óvænt í pokahorninu. Ef þið hafið færi á að fara: DO IT.

Óli Dóri

Laugardagskvöld á Sónar

Á þriðja degi Sónarsins var ég mættur í Hörpu klukkan 8 að sjá nýstyrnið Karó í Norðurljósasalnum. Hún söng munúðarfullt og nútímalegt R og B ásamt hljómsveit sem innihélt meðal annars Loga Pedro sem pródúserar hana. Næstur á svið í sama sal var svo einn efnilegasti rappari landsins um þessar mundir, GKR. Hann kom fram klæddur í hvítt frá toppi til táar og lék á alls oddi. Hann rappaði af lífs og sálarkröftum og hoppaði og skoppaði fram og til baka um allt sviðið. Það er ekki vottur af tilgerð í honum og einlægnin og gleðin yfir því að vera á sviðinu þetta kvöld skein úr hverju orði og hreyfingu.

 

Ég hélt mig á sama stað en Sturla Atlas var næstur á svið og þá var aldeilis búið að fjölga í salnum og æskan söng hástöfum með 101 Boys og San Fransisco. Ég náði nokkrum mínútum af settinu hans B-Ruff á Sonarpub sem spilaði hip hop skona raftónlist þar sem rímix af Dead Prez gladdi mig mikið.

 

Hudson droppar

 

Ofurpródúserinn Hudson Mohawke var næstur í Silfurbergi og maxímalista trap-tónlistin hans fékk allan salinn á hreyfingu. Það voru bassadrop, massív ljós og taumlaus gleði. Koreless spilaði tilraunakennda raftónlist sem ég kann ekki að skilgreina í Kaldalóni en hún var tilkomumikil engu að síður.

 

Ég náði nokkrum lögum af settinu hjá Boys Noiz í Silfurbergi sem spilaði gróft elektró sem tók mig aftur til ársins 2007 þegar Justice og svipaðar sveitir voru upp á sitt besta. Upphrópunarmerkin þrjú lokuðu svo kvöldinu með fönkaðri og grúví danstónlist sem fór beint í útlimina.

 

Sérstaða Sónar

 

Fjórða Sónarhátíðin fór einstaklega vel fram og það er mikið gleðiefni fyrir unnendur framsækinnar tónlistar að hún hafi náð að festa sig í sessi í íslensku tópnlistarlífi. Þar sem áður var bara Iceland Airwaves höfum við nú fjórar stórar alþjóðlegar hátíðir á tónlistarárinu sem eru allar ólíkar í fókus og umgjörð. Sónar hefur þar algjöra sem felst í fókus á raftónlist/hiphop, frábæru hljóð og einstökum metnaði í sjónrænni umgjörð tónleika. Á engri íslenskri hátíð hef ég séð jafn flott ljós og vídjóverk og á Sónar, og allir tónleikarnir eru í Hörpu sem er langsamlega besta hús landsins þegar kemur að hljóði. Takk fyrir mig.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Föstudagskvöld á Sónar

Mynd: Anita Björk. Squarepusher í Silfurbergi.

Ég hóf leikinn á öðrum í Sónar með því að sjá ofursveitina Gangly í Silfurbergi. Raddir Sinda, Úlfs og Jófríðar harmóneruðu með og án átótúns og framsækin trip hop bítin minntu um margt á hljóðheim Bjarkar og FKA Twigs. Á eftir þeim sá ég Tonik spila frábært sett á Sonarpub. Hann stóð fyllilega fyrir sínum án Harðar sem oft syngur með honum. Sándið hans er hlýtt og taktarnir uppfullir af hliðrænu braki og brestum. Þá átti Tumi saxafónleikar frábæra innkomu.

 

Kraftwerk + Rokk + Bach

 

Apparat Organ Quartet fóru á kostum í Silfurbergi. Þeir byrjuðu í rokkaðri keyrslu og héldu fullum dampi þegar fram leið eins og vel smurð dísilvél. Sándinu þeirra og sviðsframkomu mætti lýsa sem Kraftwerk + Rokk + Bach, sem er ansi gott reikningsdæmi. Ég rölti svo yfir í Norðurljósasalinn á Vaginaboys sem voru að vinna með nýtt live setup. Einn hljómborðsleikari og nokkrir gaurar með klúta fyrir andlitunu sem stundum sátu við tölvu eða bara röltu um sviðið. En tónlistin var ægifögur, nokkurs konar vangalög nýrrar kynslóðar. Svo var ótrúlega flottum myndböndum varpað á tjald, þau voru eins og tónlist Vaginaboys væmin, klámfengin og listræn í jöfnum hlutföllum.

 

Næst sá ég svo tónlistarkonuna Holly Herndon sem var mjög sérstök upplifun. Þetta var brotakennd og yfirdrifið agressív raftónlist mörkuð af áunnum athyglisbresti internetkynslóðarinnar. Hún vann mikið með eigin rödd live og klippti, beyglaði og teygði í allar áttir. Þá hafði hún tölvugaur meðferðis sem skrifaði texta á tölvuna í rauntíma sem birtis á tjaldi fyrir aftan þau og vann með mjög framúrstefnulega vídjóverk. Þá náði ég nokkrum lögum með Floating Points sem voru með live band og spiluðu danstónlist með djass- og krautrokkáhrifum.

 

Hljóð- og sjónræn hryðjuverk

 

Þá var röðin komin Oneohtrix Point Never í Norðurljósasalnum en ekkert hafði undirbúið mig fyrir þá upplifun. Þetta var tónlist sem tengir fram hjá sálinni og miðar beint á líkamann. Þú finnur fyrir henni á húðinni. Þetta er list sem er hafin yfir einfaldar skilgreiningar eins og „taktar“ og „melódíur“ og er eiginlega bara einn allsherjar samruni. Svo voru þeir með strobeljós sem voru svo öflug að ég held þau hafi verið kjarnorkuknúin. Ég var á tímabili hræddur um að skemma í mér augun. Oneohtrix Point Never framkvæmdu hljóð- og sjónræn hryðjuverk á skynfærum saklausra áhorfenda þetta kvöld og það var unun að vera fórnarlamb þeirra.

 

Squarepusher kom fram grímuklæddur og flutti sína snældutrylltu tónlist af fádæma öryggi. Hann er meistari taktsins, tekur hann í sundur live eins og legókubba og raðar saman aftur á endalausa frumlega vegu. Eftir uppklappið kom hann svo fram grímulaus og tók upp sitt aðalhljóðfæri, bassann, og grúvaði inn í nóttina. Þá var bara eftir að loka kvöldinu með ferð í bílastæðakjallarann að hlýða á plötusnúðinn Bjarka. Þar var niðamyrkur og steinhart dýflissutekknó í gangi og troðstappaður kjallarinn dansaði inn í eilífðina.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fimmtudagskvöld á Sónar

Angel Haze í Silfurbergi. Mynd: Brynjar Snær

 

Ég hóf leikinn í myrkrakompunni Sonarlab sem er staðsett í bílastæðakjallara Hörpunnar. Fáir voru mættir um kvöldmatarleytið þegar fyrstu atriðin hófust en plötusnældan Julia Ruslanovna spilaði þokkafullt tekknó sem fengu fyrstu hræður kvöldsins til að hreyfa sig, en dansinn átti eftir að aukast umtalsvert eftir því sem kvöldinu leið fram.

 

Ég náði svo örfáum lögum með Vök í Silfurbergi þar sem stemmningin var myrk og tónlistin í anda the xx og Portishead með vænum skammti af saxafóni á völdum köflum. R’n’B söngvarinn Auður fór á kostum í Kaldalóni og flaut um sviðið með þokkafullum danshreyfingum og seyðandi söng. Hann er líka einn besti pródúser á landinu á sínu sviði og sándið hans minnir um margt á Weeknd, Frank Ocean og það besta sem gerist í þessum geira vestanhafs.

 

Reif í kjallarann

 

Í reifkjallaranum var Yamaho að matreiða hústónlist ofan í mannskapinn en talsvert hafði fjölgað í kjallaranum frá því fyrr um kvöldið og hreyfing komin á liðið. Ég náði svo í skottið á samstarfi Martin Kilvady & Mankan og Íslenska dansflokksins en í lok sýningarinnar fóru dansararnir af sviðunu og dönsuðu á meðal og jafnvel við áhorfendur á gólfinu í Norðurljósasalnum. Good Moon Deer var næstur í sama sal og hann hafði einnig nútímadansara með sér á sviðinu til stuðnings sundurklipptum töktum og annars konar rafsturlun.

 

En ég þurfti frá að hverfa til að sjá eitilhörðu rapppíuna Angel Haze í Silfurbergi. Hún var agnarsmá og mjó en með rödd og flæði á við Dettifoss á góðum leysingardegi. Gólfið nötraði undan bassanum og Angel Haze spítti út úr sér rímum á ógnarhraða og af fádæma krafti og öryggi. Eftir þessa bestu tónleika kvöldsins lá leið okkar enn og aftur í kjallarann þar sem Ellen Allien bauð upp á grjóthart tekknósett með miklum 90’s áhrifum. Ég dansaði í myrkrinu við ómstríðar hljómborðslínur, hvíslandi hæ-hatta, snerla sem slógu mig utan undir og bassadrunur sem fengu eistun til að titra.

 

Pall-íettu Power Ranger

 

Undir lok kvöldsins náði ég nokkrum lögum með Páli Óskari sem var eins og búast mátti við glysflugeldasýning kvöldsins. Hann kom fram í einhvers konar pallíettu Power Rangers galla og hafði sér til fulltingis fjóra dansara í diskókúlualbúningum. Glimrandi glimmerendir á skemmtilegu kvöldi. Í kvöld er það svo Oneohtrix Point Never, Squarepusher, Floating Points og fleiri, fylgist með áframhaldandi fréttum af Sónar á straum.is næstu daga.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Hvað ert’að Sónar?

 

Fjórða Sónar hátíðin í Reykjavík hefst á morgun og býður upp á drekkfullt hlaðborð af tónlistarmönnum og plötusnúðum í hæsta gæðaflokki heimsins um þessar mundir. Straumur verður að sjálfsögðu á staðnum og mun flytja fréttir af herlegheitunum en hér að neðan getur að líta þá erlendu tónlistarmenn sem fá okkar allra bestu meðmæli.

 

Oneohtrix Point Never

 

Bandaríkjamaðurinn Daniel Lopatin framleiðir tilraunakennt hljómsalat úr sveimi, drónum og mismiklum óhljóðum sem dansar ballet á barmi ægifegurðar og tryllings. Platan hans R Plus Seven var ein besta skífa ársins 2013 og hefur dvalið langdvölum í heyrnartólum ritstjórnar Straums frá því hún kom út.

 

Ellen Allien

 

Tekknótæfan Ellen Allien hefur verið í farabroddi Berlínarsenunnar í hátt í tvo áratugi og rekur m.a. plötuútgáfuna Bpitch Control. Hún er Júpíter í sólkerfi alþjóðlegu klúbbasenunnar, bæði sem plötusnúður og pródúser, og enginn með bassatrommu í blóðinu ætti að láta settið hennar á Sónar fram hjá sér fara.

 

!!!

 

Upphrópunarmerkin þrjú eru með hressari tónleikaböndum starfandi í dag og danspaunkfönkið þeirra getur fengið óforbetranlega stirðbusa til að rísa á fætur og hrista alla mögulega skanka. Tónleikar þeirra á Airwaves hátíðinni 2007 voru danssturlun á heimsmælikvarða þar sem svitinn lak af súlunum á Nasa.

 

Angel Haze

 

Eitilharða rapppían Angel Haze fór sem hvirfilbylur um rappheiminn með smáskífunni New York sem kom út árið 2012. Þessi fantafæri rappari hefur vakið athygli fyrir opinskáa texta um viðkvæm málefni eins og kynferðisofbeldi og sjálfsmorðshugsanir og verið tilnefnd til MTV og BET verðlauna.

 

Floating Points

 

Breski pródúsantinn og plötusnúðurinn Sam Shepard hefur vakið geisilega mikið og verðskuldað lof fyrir sína fyrstu breiðskífu, Eleania. Það er einstakt verk sem er ekki hægt að flokka og skila – mismunandi stílar renna hver ofan í annan og mynda stórfljót af hljóði sem flæðir yfir bakka hefðbundinnar skynjunar og streymir beina leið í sálina.

 

Holly Herndon

 

Holly Herndon vinnur með mörkin milli hins vélræna og mannlega og skörun hins stafræna og líkamlega. Hún er framsækinn listamaður í mörgum geirum og tónleikar hennar eru samtal milli Herndon, áhorfenda, nýjustu tækni og vísinda.

 

Hudson Mohawke

 

Þessi knái Breti er einn allra færasti hljómverkfræðingur samtímans og hefur framleitt smelli fyrir listamenn á borð við Kanye West, Pusha T, Lil Wayne, Azeliu Banks og Drake. Hann er helmingur trap-dúettsins TNGHT og hans önnur breiðskífa, Lantern, hefur hlotið feikigóða dóma um víða veröld. Stílinn hans er meirimalískur með endemum og hann notar blásturshljóðfæri eins og enginn annar í bransanum eins og glöggt má heyra í neðangreindu lagi, sem var eitt það besta sem kom út á síðasta ári.

Bestu íslensku lög ársins 2015

Bestu íslensku lögin 2015 by Straumur on Mixcloud

25) Nissan Sunny – Laser Life

 

24) Roska – Gímaldin

 

23) Girlfriend For The Summer – Sumar Stelpur

 

22) Í næsta lífi – xxx Rottweiler hundar

 

21) 2AM – Japanese Super Shift

 

20) Desert – H.dór

 

19) Harmala – Gunnar Jónsson Collider

 

18) SU10 – Daveeth

 

17) Koddíkossaslag – Kött Grá Pjé

 

16) Low Road – Wesen

 

15) Draumalandið – Gísli Pálmi

 

14) Your Collection (Nick Zinner remix) – Fufanu

 

13) Special Places (ft. Jófríður) – Muted

 

12) Quicksand – Björk

 

11) ÆJL -Singapore Sling

 

10) The Dream – Buspin Jieber

Lokalag ep plötunnar We Came As We Left sem kom út 25. mars. Líkt og bandaríski fóstbróðir hans Com Truise tekur Buspin Jieber það besta úr raftónlist 9. áratugarins og blandar því saman við nýrri áherslur.

9) Enginn  Þríkantur hér – Elli Grill og Leoncie

Maður mynd halda að það fá Leoncie til að syngja með sér lag væri ávísun á grínflipp sem endist ekki lengi. En þetta lag, sem er í raun endurgerð á lagi Leoncie, er alveg stórgott þó það sé líka dálítið fyndið. Takturinn er eins og fljótandi kódín og Elli Grill og Leoncie skiptast á súrrealískum línum og það er mikil kemistría á milli þeirra.

8) Endurminning (Lauren Auder) – Lord Pusswhip

Á fyrstu plötu Pusswhip úir og grúir af tilraunakenndu, lyfjuðu og pönkuðu hipp hoppi en lagið sem greip okkur mest var hið ljúfsára Endurminning þar sem hann fær söngvaranna Lauren Auder til liðs við sig. Ægifagurt í einfaldleika sínum og minnir nokkuð á skjannahvíta soul söngvarann Spooky Black.

7) Kalt – Kælan Mikla

Kalt ber svo sannarlega nafn með rentu því trommuheila og hljómborðshljómurinn er svalur virðingarvottur við drungalegt síðpönk fyrri hluta 9. áratugarins og hrá ljóðræna textans er ískaldari en sjálfur Gísli Pálmi.

6) So In Love With U – MSTRO

Reykvíski tónlistarmaðurinn Stefán Páll Ívarsson sem gengur undir listamannsnafninu MSTRO gaf út þetta stórkostlega lag í upphafi árs. Stöðugur taktur, drungaleg söngrödd og skýr skilaboð.

5) Love Love Love Love – Helgi Valur

Meistaraverk Helga Vals af plötu hans Notes from the Underground. Samið inn á geðdeild í miðju geðrofi. Stórbrotið og epískt lag um ástina.

4) We Live For Ages – Hjaltalín

Fyrsta lagið sem Hjaltalín sendir frá sér frá því að platan Enter IV kom út árið 2012. Ef þetta lag er forsmekkurinn af því sem koma skal er ekki annað hægt en að vera spenntur fyrir framtíð hljómsveitarinnar. Ferskt, kærulaust og jákvætt.

3) Stelpur – Jón Þór

Í Stelpur fangar Jón Þór kjarna þess að vera ungur, örvæntingarfullur og ástsjúkur í miðri hringiðu reykvísks næturlífs. Passlega hrátt sándið og fáránlega grípandi viðlagið klístrast við heilabörkinn í marga daga eftir hlustun.

2) Morgunmatur – GKR

GKR skapaði sér heldur betur nafn í sterkri hip hop senu á árinu með lofsöng um mikilvægustu máltíð dagsins, morgunmatinn. Þegar aðrir rapparar rappa um hvað þeir eru harðir hefur GKR ótrúlega næmt auga fyrir amstri hversdagslífsins.

1) Elskan Af Því Bara – Vaginaboys

Þessi angurværi R’n’B slagari kom eins og þruma úr heiðskýru lofti í vor. 808 trommuheili, 80’s synþar og átótúnaður söngur skapa seiðandi ástaróð sem er sexí og sorglegur í hnífjöfnum hlutföllum.

Bestu erlendu lög ársins 2015

50) Alfonso Muskedunder (Deetron remix) – Todd Terje

 

49) Leaving Los Feliz (ft. Kevin Parker) – Mark Ronson

 

48) Play For Today – Belle and Sebastian

 

47) God It (ft. Nas) – De La Soul

 

46) Dreams – Beck

 

45) Restless Year – Ezra Furman

 

44) Magnets (A-Trak remix) – Disclosure

 

43) What’s Real – Waters

 

42) Israel (ft. Nonane Gypsy) – Chance The Rapper

 

41) La Loose – Waxahatchee

 

40) Standard – Empress Of

 

39) Huey – Earl Sweatshirt

 

38) Genocide (ft. Kendrick Lamar, Marsha Ambrosius & Candice Pillay) – Dr. Dre

 

37) Home Tonight – Lindstrom & Grace Hall

 

36) Lean On (Prince Fox bootleg) – Major Lazer

 

35) Cream On Chrome – Ratatat

 

34) VYZEE – SOPHIE

 

33) Venus Fly (ft. Janelle Monáe) – Grimes

 

32) Death with Dignity – Sufjan Stevens

 

31) Exploitaion – Roisin Murphy

 

30) Under The Sun – DIIV

 

29) Tick – Weaves

 

28) Hollywood – Tobias Jesso Jr.

 

27) Hotline Bling – Drake

 

26) Sunday Morning – Seven Davis Jr.

 

25) 1000 – Ben Khan

 

24) Ghost Ship – Blur

 

23) Can’t Feel My Face – The Weeknd

22) Pretty Pimpin – Kurt Vile

 

21) Breaker – Deerhunter

 

20) What Ever Turns You On – D.K.

 

19) Know Me From – Stormzy

 

18) Ghosting – Rival Consoles

 

17) Rewind – Kelela

 

16) Go Ahead – Kaytranada

 

15) Blackstar – David Bowie

 

14) Annie – Neon Indian

 

13) Pedestrian at Best – Courtney Barnett

 

12) Mink & Shoes (ft. David Izadi) – Psychemagik

 

11) Garden – Hinds

 

10) Them Changes – Thundercats

Bassaleikarinn og pródúsantinn Thundercat virðist hafa dottið í fusion-pottinn í æsku því Them Changes suddalega fönkí 70’s bræðingur sem Jaco Pastorius gæti verið stoltur af.

9) After Me – Misun

Washington bandið Misun sendi frá sér þetta magnaða lag í apríl. Léttleikandi og drungalegur rhythminn passar fullkomlega við stórbrotna rödd Misun Wojcik.

8) Jenny Come Home – Andy Shauf

Andy Shauf minnir í senn á The Shins og Kurt Vile í þessari tregafullu lagasmíð sem tónlistarmaðurinn flutti í Kaldalóni á Iceland Airwaves í nóvember.

7) Shutdown – Skepta

Breski grime-rapparinn Skepta sem átti frábæra tónleika á Airwaves hátíðinni gaf okkur einn helsta partýslagara ársins með Shutdown.

6) Multi Love – Unknown Mortal Orchestra

Titillag þriðju breiðskífu Unknown Mortal Orchestra fjallar um þrekant Ruban Nielson lagahöfundar og söngvara sveitarinnar. Öðruvísi ástarlag.

5) King Kunta – Kendrick Lamar

Í þeim ofgnótt af rjóma sem platan How To Pimp A Butterfly er trónir King Kunta á toppnum. Lagið sækir grimmt í grunn g-fönksins sem Dr. Dre og Snoop byggðu 20 árum fyrr og er þegar komið við hlið þeirra í sögu vesturstrandarrappsins.

4) Scud Books – Hudson Mohawke

Ofurpródúsantinn Hudson Mohawke hefur komið að mörgum spennandi verkefnum undanfarin ár t.d. Yeesus með Kanye og TNGH ásamt Lunice en hann heldur áfram að dæla út hágæða stöffi undir eigin nafni. Scud Books er rosalega stórt lag, þriggja og hálfs mínútna epík sem hægt er að dansa við eða bara loka augunum og njóta.

3) Cops Don’t Care Pt. II – Fred Thomas

Einfalt, stutt og hnitmiðað lag sem býr yfir heilmikilli vídd sem erfitt er að útskýra. Kærulaust og sannfærandi.

2) Gosh – Jamie xx

Jamie xx vex stöðugt sem pródúsant og lagið Gosh er hans besta fram til þessa. Byrjar á mínímalískum garage takti áður en bassa er bætt við og draugalegu raddsampli. En svo mætir synþesæser á svæðið og fer með hlustendur um ókannaðar vetrarbrautir. Lagið er eins og ferðalag um aðra heimsálfu og á stöðugri hreyfingu framávið.

1) Let It Happen – Tame Impala

Það kann að vera ófrumlegt að vera með sama listamanninn sem bæði plötu og lag ársins en í þetta skipti var ekki annað hægt. Upphafslag bestu plötu ársins, Currents, er anþem í öllum mögulegum skilningi þess orðs. Svona lag sem þú byrjar sjálfkrafa kýla upp í loftið í takt við of fær þig til að grípa um bestu vini þína og hoppa í hringi með þeim. Hamingjan pumpast út um hátalarana með hverri einustu bassatrommu, gítarlikki og synþahljóm, og söngur Kevins Parker flýgur yfir öllu saman eins og engill á LSD.

 

 

Spotify playlisti með flestum lögunum á listanum:

S

Bestu erlendu plötur ársins 2015

Straumur árslisti 2015 – 30 bestu erlendu plötur ársins by Straumur on Mixcloud

30) Dr. Dre – Compton

29) Neon Indian – VEGA INTL. Night School

28) Built To Spill – Untethered Moon

27) Titus Andronicus – The Most Lamentable Tragedy

26) Seven Davis Jr. – Universes

25) Earl Sweatshirt – I Don’t Like Shit, I Don’t Go Outside

24) Jessica Pratt – On Your Own Love Again

23) Thundercat – The Beyond / Where the Giants Roam

22) D.R.A.M. – Gahdamn!

21) Ezra Furman – Perpetual Motion People

20) Roisin Murphy – Hairless Toys

19) Blur – The Magic Whip

18) Empress Of – Me

17) Grimes – Art Angels

16) Deerhunter – Fading Frontier

15) Hudson Mohawke – Lantern

14) Waxahatchee – Ivy Tripp

13) Tobias Jesso Jr. – Goon

12) Sufjan Stevens – Carrie & Lowell 

11) Jamie xx – In Colour

10) SOPHIE – PRODUCT

PC- music prinsinn og ólíkindatólið Sophie sendi þessa vöru sína í hillur plötubúða í lok síðasta mánaðar. Á plötunni Product má heyra átta smáskífur frá Sophie sem eru hver annarri hressari.   

9) Fred Thomas – All Are Saved

All Saved er níunda sólóplata indie-kempunar Fred Thomas frá Michigan sem einnig er meðlimur í lo-fi bandinu Saturday Looks Good to Me. Platan er hans metnaðarfyllsta verk til þessa og það fyrsta til að fá drefingu á alþjóðavísu.

8) Unknown Mortal Orchestra – Multi-Love

Þriðja plata Unknown Mortal Orchestra byggir ofan á þéttan grunn af bítlalegu og léttsíkadelísku fönkrokki en bætir við nokkrum litum í hljómpalettuna. Útkoman er fjölbreyttari verk en áður, bæði þegar kemur að hljóðheim og uppbyggingum laga.

7) Kurt Vile – believe i’m going down…

Það gerist ekki afslappaðra og huggulegra gítarpoppið en hjá Kurt Vile, en samt er alltaf kaldhæðinn broddur í textagerðinni. believe i’m going down… er gríðarlega heilsteypt og góð plata þó hún nái ekki alveg sömu hæðum og hans síðasta, Walking on a pretty daze.

6) Courtney Barnett – Sometimes I Sit And Think, And Sometimes I Just Sit

Hin ástralska Courtney Barnett nær hér á undraverðan hátt að blása lífi í glóðir slakkerrokks 10. áratugarins. Á þessari plötu sem ber besta titil ársins syngur Barnett algjörlega áreynslulaust um tilgangsleysi hversdagslífsins á svo næman hátt að það er ekki hægt annað en að heillast með. Svo eru feikisterkar lagasmíðar alls ekki að skemma fyrir. Frábær plata.

5) Kelela – Hallucinogen

Tónlistarkonan Kelela fylgdi á eftir mixtape-inu Cut 4 Me frá árinu 2013 með þessari silkimjúku ep plötu sem nær hápunkti sínum í laginu Rewind. Á plötunni naut hún meðal annars aðstoðar upptökustjórans Arca sem gefur henni skemmtilegan framtíðarblæ.

4) Kendrick Lamar – To Pimp A Butterfly

Kendrick Lamar tókst að standa undir nánast óbærilegum væntingum sem skapast höfðu eftir good kid m.A.A.d. city, með hinni óheyrilega metnaðarfullu og fjölbreyttu To Pimp A Butterfly. Á skífunni úir og grúir af frábærum pródúsöntum og heyra má áhrif frá jassi, slamljóðum og G og P-fönki. En yfir öllu því gnæfir rödd Kendrick og flæðir yfir alla bakka eins og Amazon. To Pimp A Butterfly er nýkomin út en manni finnst hún strax vera orðin hluti af kanónunni í vesturstrandarrappi.

3) D.K. – Love On Delivery

Love Delivery er seyðandi og stöðug stuttskífa frá franska tónlistarmanninum D.K. Fullkomin á ströndina.

2) Rival Consoles – Howl

Breski raftónlistarmaðurinn Ryan Lee West, sem gefur út tónlist undir nafninu Rival Consoles, sendi frá sér lifandi raftóna í október á plötunni Howl sem minna á köflum á bestu verk tónlistarmanna á borð við Jon Hopkins og Aphex Twin.

1) Tame Impala – Currents

Hinn stjarnfræðilega hæfileikaríki Kevin Parker virðist ófær um að stíga feilspor og Tame Impala er á góðri leið með að verða Flaming Lips sinnar kynslóðar. Tame Impala taka 60’s síkadelíuna sína alvarlega og andi og fagurfræði hennar skín í gegn í öllum verkum sveitarinnar, ekki síst í stórkostlegum myndböndum og myndefni. Á þessari þriðju og jafnframt bestu plötu sveitarinnar fer minna fyrir gíturum en þeim mun meira er um útúrspeisaða hljóðgervla og trommuheila. Opnunarlagið Let It Happen er eitt allra sterkasta lag ársins og platan sem á eftir fer er löðrandi í grípandi viðlögum en en á sama tíma sprúðlandi í hugvíkkandi tilraunastarfsemi. Straumarnir á þessari plötu eru þungir og eiga eftir að fleyta Tame Impala langt. Bravó.