Áfram með Airwaves: Kvöld tvö

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson

 

Ég hóf annan í Airwaves á Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís þar sem bandaríska indí pían Frankie Cosmos steig á stokk. Hún flutti ótrúlega kjút og áferðafallegt indípopprokk undir áhrifum frá 10. áratugnum og bauð upp á frábærar lagasmíðar og smekklegar útsetningar. Par-Ðar voru í síkadelískri sveiflu á gauknum og löng lög með miklum kaflaskiptingum. Stundum sungu allir fimm meðlimirnir saman og öðrum stundum brast á með löngum instrumental djamm-köflum.

 

Ég náði þremur lögum með draumarokksveitinni Oyama sem ég hafði ekki séð lengi en þau voru algjörlega frábær í Silfurbergi. Gítarsándin riðluðust á hvort öðru í massívum pedalaorgíum og mónótónísk rödd söngkonunnar gnæfði yfir öllu saman. En ég þurfti frá að hverf því ég hafði heyrt góðu hluti af kanadísku söngkonunni Juliu Holter.

 

Móðurlífsvæl

 

Það reyndist slæm ákvörðun því þetta var óttalegt móðurlífsvæl sem barst af sviðinu í Listasafninu. Týpist krúttindí sem náði engu flugi heldur var álíka flatt og Danmörk. Þannig ég hélt aftur í Silfurberg til að sjá rokkstofnunina Singapore Sling sem eru tónlistarleg andstæða þess sem gekk á í Listasafninu. Kvöldið áður hafði ég séð hina frábæru hljómsveit Hatari, og Sling eru líklega eina bandið á Airwaves sem hata meira en þeir.

 

Söngvar Satans

 

Þeir klæða heldur níhílismann sinn ekki í ljóðrænt orðskrúð heldur kemur fyrirlitningin hrein og tær, beint úr krananum: You are Scum/You must die kyrjar Henrik með fjarrænt blik í augunum. Þarna voru söngvar Satans og konsentreruð illska og spilað á rafmagnsgítara með rifjárnum. Næstir á svið voru Fufanu sem hljóta að teljast undir talsverðum áhrifum frá Sling. Ískalt töffararokk sem sækir jöfnum höndum í póstpönk og krautrokk, hellingur af gítarslaufum með gommu af reverbi. Þeir hreyfa sig hins vegar talsvert meira á sviðinu og söngvarinn lék á als oddi og prílaði upp á hátala. Tók meira að segja rökkstjörnu spark í trommusettið í blálokin á settinu.

 

Aldraðir æringjar

 

Eftir tvö rosaleg rokkbönd hélt ég í allt aðra sálma og settist niður í Kaldalóni til að sjá raftónlistarmanninn Tonik. Hann framreiddi seigfljótandi djúpsjávartekknó og lágstemmda algleði og hafði tvo frábæra hljóðfæraleikara með sér. Þá voru bara háöldruðu bílskúrsæringjarnir í The Sonics eftir. Aldurinn sást svo sannarlega ekki á þeim og spilagleðin var áþreifanlega á sviðinu í Silfurbergi. Þeir voru klæddir í jakkaföt í sörfbandastíl og voru með saxafón, orgel og attitúd í gámavís. Lögin voru þó nokkuð keimlík eftir ákveðinn tíma og hljóðstyrkurinn var nánast óbærilega hár. En þetta var samt mjög gaman og ég missti mig þegar þeir tóku smellin Pshyco.

 

Annað kvöldið á Airwaves var mjög vel heppnað þrátt fyrir mikla rigningu, en það hefur sem betur fer stytt upp í dag. En það er hellingur eftir og Straumur heldur áfram að færa ykkur daglegar fréttir af hátíðinni. Svo verður Straumur með sitt eigið kvöld á hátíðinni í Gamla Bíó í kvöld þar sem Frankie Cosmos, Prins Póló, Berndsen, Hermigervill og margir fleiri um spila, sem við hvetjum alla til að mæta á.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *