Það er alltaf mikil eftirvænting í loftinu fyrsta dag Airwaves hátíðarinnar og í ár var engin undantekning. Það er legið yfir útkrotuðum dagskrám og reynt að merkja við hljómsveitir sem maður er spenntur fyrir, skoða árekstra, og gá hvort að hægt sé að bæta þá upp með off-venue dagskránni. Fyrsta kvöldið voru nánast engin erlend bönd að spila en fréttaritari straums fór á gott flakk milli íslenskra hljómsveita þrátt fyrir nístingskuldann úti.
Leikurinn hófst á Kaffibarnum þar sem Gang Related höfðu komið sér fyrir úti í horni og sörf-rokkuðu fyrir bjórþyrsta hipstertúrista af mikilli innlifun. Reffileg riff og hressilegur samsöngur strákanna slógu góðan upptakt fyrir hátíðina og mér tókst að gleyma síberíska veðrinu úti og kúpla mig í rétta Airwaves-gírinn. Á eftir þeim tók stórsveitin Útidúr við með sitt hádramatíska indí popp. Þau léku mikið af nýju efni sem margt var undir sterkum áhrifum frá spagettívestratónlist Ennio Morricone, og tveir trompetleikarar sveitarinnar fóru á kostum.
Flæðandi fönk og seiðandi sveimur
Ég hafði hvorki séð né heyrt af bandinu Funk that shit! fyrir hátíðina en það var eitthvað við titilinn sem kallaði í mig svo ég hoppaði upp á hjólið og brunaði niður á Amsterdam. Á sviðinu voru þrír skjannahvítir strákar um tvítugt að fönka eins þeir væru að leika undir blaxplotation mynd frá 1972. Verkfærin voru gítar, bassi og trommur og þrátt fyrir að frumleikinn hafi ekki beint verið í fyrirrúmi var þetta afskaplega vandað og mikil flugeldasýning í hljóðfæraleik og sólóum. Þá hélt ég aftur upp eftir til að sjá raftónlistarmanninn Prince Valium spila á efri hæð Faktorý. Hann sat á bak við tölvu og mixer og uppsetningin var ekki mikið fyrir augun. Tónlistin var hins vegar gullfalleg; draumkennt, melódískt og seiðandi Ambíent sem er án efa gott að láta gæla við hljóðhimnurnar í góðum heyrnartólum.
Jakob Fusion Magnússon
Næst var förinni haldið í Hörpuna að sjá reggísveitina Ojba Rasta. Hún er að mínu mati eitt fremsta tónleikaband Íslands í dag og stóð svo sannarlega fyrir sínu í Silfurbergi í gær. Mikil orka og einlæg spilagleðin skein af þeim og undirritaður hefur sjaldan ef nokkurn tímann heyrt þau spila í jafn góðu hljóðkerfi. Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég frá að hverfa í hljóðver X-ins til að ræða hátíðina í útvarpsarmi Straums. Eftir það var haldið aftur í Hörpuna til að sjá Jack Magnet Quintet-inn hans Jakobs Frímanns. Hann bauð upp á fusion djass með afrískum áhrifum með einvalaliði hljóðfæraleikara en Bryndís dóttir hans sá um söng.
Fer vel af stað
Lokaatriði kvöldsins voru svo Retro Stefson í Silfurbergi og þau tóku salinn með trompi. Þau spiluðu nánast einungi efni af nýútkominni plötu sem er samnefnd sveitinni og nutu aðstoðar Hermigervils á svuntuþeysurum, Sigtryggs Baldurssonar á áslætti og Sigríðar Thorlacios í bakröddum. Stuðstuðullinn var feikilega hár og náði hámarki í danskeppni sem Unnsteinn stjórnaði í lok tónleikanna.
Heilt yfir var fyrsta kvöld hátíðarinnar vel heppnað þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið álíka hátt og í Alaska. Þá er mikill missir af Nasa en margar sterkustu Airwaves minningar mínar eru þaðan og stemmningin í Hörpunni er einfaldlega ekki sú sama. Silfurberg er þó ágætis sárabót og um margt góður salur, sérstaklega þegar kemur að hljómburði og ljósabúnaði.
Skoska hljómsveitin Django Django er tilnefnd til hinna virtu Mercury verðlauna í ár fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd hljómsveitinni. Þar er á ferðinni ein af bestu plötu ársins þar sem sækadelía, þjóðlagatónlist og synþapopp mætast í afar bragðmikilli súpu. Django Django spila í Silfurbergssal Hörpu á miðnætti á laugardaginn.
Shabazz Palaces
Shabazz Palaces er skipuð bandaríska rapparanum Ishmael Butler og tónlistarmanninum Tendai ‘Baba’ Maraire. Ishmael þessi kallaði sig einu sinni Butterfly og var helsta sprautan á bak við hina dáðu og djössuðu hip hop sveit Digable Planets í upphafi tíunda áratugarins. Hann er ennþá að rappa en að þessu sinni er tónlistin tilraunakenndari og textarnir pólitískari. Fyrsta breiðskífa þeirra, Black Up, var gefin út af Sub Pop útgáfunni í fyrra og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Shabazz Palaces koma fram á Þýska Barnum á miðnætti á fimmtudagskvöldinu.
Just Another Snake Cult
Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári gerðist hann svo li-fo að hann gaf út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Just Another Snake Cult koma fram klukkan 20:00 á Gamla Gauknum á föstudaginn.
Apparat Organ Quartet
Orgelkvartettinn er fyrir löngu orðinn að stofnun í íslensku tónlistarlífi með tveimur plötum af rafrokkaðri orgeltónlist, meitlaðri sviðsframkomu og útpældri fagurfræði. Þeir spila þó ekki oft á tónleikum svo Airwaves er kærkomið tækifæri til að berja þessa snyrtilegu organista augum. Apparat stíga á stokk klukkan 22:10 í Silfurbergi á föstudagskvöldið.
Doldrums
Montrealbúinn Airick Woodhead hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir tónlist sem hann gefur út undir nafninu Doldrums. Kaótískt og brotakennt hávaðapopp hans ætti að vera ferskur andblær á Airwaves hátíðinni í ár en hann kemur fram klukkan 00:20 á fimmtudagskvöldinu í Iðnó.
Phantogram
Bandarísk indí-sveit sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hugmyndaríkt popp og stóran hljóðheim. Stíga á svið í Listasafni Reykjavíkur klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið.
Hjálmar og Jimi Tenor
Reggísveitina Hjálma þarf ekki að kynna þar sem hún hefur verið með vinsælustu sveitum landsins undanfarin ár. Að undanförnu hafa þeir þó verið að vinna að plötu með finnska raftónlistarséníinu Jimi Tenor sem hefur spilað ótal sinnum á Íslandi, síðast í ágúst, og m.a. unnið með Gus Gus. Það eina sem hefur heyrst af samstarfinu er lagið fyrir neðan og verður spennandi að heyra meira. Hjálmarnir og tenórinn stíga á svíð á miðnætti í Silfurbergi á föstudagskvöldinu.
Theesatisfaction
Hip hop sveit frá Seattle skipuð rapparanum Stasiu “Stas” Iron og söngkonunni Catherine “Cat” Harris-White. Þær voru uppgvötaðar eftir að hafa verið gestir á Black Up plötu Shabazz Palaces og fyrsta breiðskífa þeirra var gefin út af Sub Pop útgáfunni á þessu ári. Þær koma fram á undan Shabazz Palaces klukkan 23:00 á Þýska barnum á fimmtudagskvöldið.
Ojba Rasta
Þessi mannmarga reggísveit hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Ojba Rasta spila klukkan 21:40 í Silfurbergi í kvöld.
Fjórtánda Iceland Airwaves tónlistarhátíðin hefst í dag en hún hefur verið haldin í Reykjavík í októbermánuði ár hvert síðan 1999. Hátíðin hefur á þessum tíma þróast og tekið breytingum, en segja má að meginmarkmið hennar sé enn það sama – að kynna íslenska tónlist fyrir erlendum fjölmiðlum og plötuútgefendum. Á hverju ári er um margt úr að velja af öllum þeim frábæru erlendu og innlendu hljómsveitum og listamönnum sem fram koma á hátíðinni. Hér eru nokkur bönd sem við mælum með.
Dirty Projectors
Dirty Projectors hefur þróast á skömmum tíma úr því að vera skúffuverkefni eins manns yfir í eina af metnaðarfyllstu tilraunarokkhljómsveitum samtímans. Í sumar gaf hljómsveitin út sína sjöttu plötu Swing Lo Magellan. David Longstreth söngvari og lagasmiður sveitarinnar sá um allar upptökur á plötunni, sem stóðu yfir í heilt ár. Hann samdi yfir 40 lög fyrir hana þótt aðeins 12 þeirra hafi ratað á endanlega útgáfu hennar. Dirty Projectors munu spila í Listasafni Reykjavíkur á laugardaginn klukkan 0:00.
Kanadíska dúóið Purity Ring gaf út nokkrar sterkar smáskífur á árinu 2011 og sendu frá sér sína fyrstu stóru plötu á þessu ári sem hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda. Purity Ring samanstendur af þeim James og Corin Roddick sem hafa gefið fá viðtöl og haldið myndum af sér frá fjölmiðlum. Purity Ring mun spila á Listasafni Reykjavíkur klukkan 23:00 á fimmtudaginn.
DIIV
Brooklyn hljómsveitin DIIV sem hét upphaflega Dive var stofnuð árið 2011 sem sólóverkefni gítarleikara Beach Fossils – Zachary Cole Smith. Fyrsta stóra plata hljómsveitarinnar Oshin kom út í sumar. Platan er full af skemmtilega útpældu gítarrokki af bestu gerð. Hljómsveitin kemur fram á Bella Union kvöldinu í Iðnó á laugardaginn klukkan 0:25.
I Break Horses
Sænska hljómsveitin I Break Horses gaf út sína fyrstu plötu í fyrra sem ber nafnið Hearts. Á plötunni blandar hljómsveitin saman áhrifum frá shoe-gaze rokki tíunda áratugarins við nútíma raftónlist með góðum árangri. I Break Horses kemur fram á Bella Union kvöldinu í Iðnó á laugardaginn klukkan 23:30.
Viðtal sem við tókum við I Break Horses:
2. Airwaves 3 2
Ghostpoet
Breski rapparinn Ghostpoet sem heitir réttu nafni Obaro Ejimiwe kemur frá Suður-London. Hann gaf út EP-plötu árið 2010 en hans fyrsta plata Peanut Butter Blues & Melancholy Jam kom út árið 2011 og var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna. Ghostpoet hefur verið líkt við listamenn á borð við Mike Skinner og Dizzee Rascal og má flokka undirspilið sem blöndu af allskyns nútíma raftónlist. Hann kemur fram á Þýska barnum á laugardaginn klukkan 23:20.
Friends
Nafnið á hljómsveitinni Friends kemur frá uppáhalds Beach Boys plötu Brian Wilsons. Hljómsveitin kemur frá Brooklyn í New York og spilar metnaðarfullt popp sem sungið er af hinni frábæru söngkonu Samantha Urbani. Hljómsveitin sem hefur getið sér gott orð fyrir tónleikahald mun koma fram á Listasafni Reykjavíkur klukkan 23:00 á laugardaginn.
Swans
Hljómsveitin Swans var stofnuð í New York árið 1982 af Michael Gira og starfaði til ársins 1997. Fyrir rúmum tveimur árum ákvað Gira að endurvekja þessa goðsagnakenndu No Wave hljómsveit með nýjum áherslum. Sveitin hefur síðan gefið út tvær plötur sem báðar hafa fengið góða dóma. Swans spila í Norðurljósasal Hörpu á fimmtudaginn klukkan 23:30. Swans komast ekki útaf fellibylnum Sandy, en íslenski snillingurinn Mugison kemur í þeirra stað!
Viðtal sem við tókum við Swans:
3. Airwaves 2 4 hluti
Hér má heyra lagið Song For A Warrior af síðustu plötu Swans sungið af Karen O úr Yeah Yeah Yeahs
Haim
Systra tríóið Haim kemur frá Los Angeles og spila tónlist sem minnir á rokksveitir 8. áratugarins. Hljómsveitin stefnir að útgáfu sinnar fyrstu plötu von bráðar. Haim spila á Gamla Gauknum fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 0:10.
Captain Fufanu
Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson og Guðlaugur Halldór Einarsson skipa raftónlistar dúóið Captain Fufanu sem hefur verið starfrækt frá árinu 2008 og hefur getið sér gott orð fyrir öfluga tónleika sem svíkja engan sem hafa gaman af metnaðarfullri raftónlist. Captain Fufanu kemur frá á efri hæð Faktorý klukkan 0:20 á föstudaginn.
Pascal Pinon
Hljómsveitin sem skipuð er tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum hefur verið virk frá árinu 2009. Hljómsveitin sendir frá sér sína aðra plötu Twosomeness í dag sem óhætt er að mæla með. Hljómsveitin kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó í kvöld.
Ekki Vanmeta – Pascal Pinon
4. 01 Ekki Vanmeta
Sin Fang
Sindri Már Sigfússon forsprakki Sin Fang lísti því yfir í Iceland Airwaves sérþætti straums á dögunum að ný plata með hljómsveitinni væri væntanleg snemma á næsta ári. Hlustið á viðtalið hér fyrir neðan. Sing Fang kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó í kvöld og á Listasafni Reykjavíkur klukkan 22:00 á laugardaginn.
Viðtal við Sindra
5. Airwaves 2 1 hluti
Nolo
Ívar Björnsson og Jón Lorange sem skipa hljómsveitina Nolo hafa sent frá sér nokkur frábær demó upp á síðkastið sem gefa til kynna að þriðja plata Nolo verði ekki úr þessum heimi. Sveitin kemur fram á Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn klukkan 20:00.
Elektro Guzzi
Austurríska teknósveitin Elektro Guzzi hefur vakið athygli fyrir skemmtilega sviðsframkomu á mörgum af helstu tónlistarhátíðum í Evrópu undanfarið ár. Hljómsveitin spilar á efri hæðinni á Faktorý á föstudaginn klukkan 1:10.
The Vaccines
Ein af vinsælustu gítarrokk hljómsveitum breta síðustu misseri inniheldur íslendinginn Árna Hjörvar sem áður var í hljómsveitunum Future Future og Kimono. Hljómsveitin spilar á Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn klukkan 0:00.
Viðtal sem tókum við Árna Hjörvar úr The Vaccines:
Way Out West er þriggja daga tónleikahátíð sem er haldin í Gautaborg í Svíþjóð, í ágústmánuði á ári hverju. Hátíðin, sem var fyrst haldin árið 2007, er þekkt fyrir að vera með fjölbreytt úrval af tónlist, þó aðal fókusinn sé á rokk, elektró og hip hop. Á daginn fer hátíðin fram á þremur sviðum í almenningsgarði í miðborg Gautaborgar sem nefnist Slottsskogen en eftir miðnætti taka við klúbbar í miðbænum. Hátíðinni mætti lýsa sem blöndu af Hróaskeldu og Iceland Airwaves. Tæplega 30 þúsund manns sækja hana á ári hverju. Hátíðin stendur yfir frá fimmtudegi til laugardags.
Fimmtudagur 9. ágúst
Fyrsti listamaðurinn sem ég sá á Way Out West í ár var Thurston Moore söngvari Sonic Youth. Thurston, sem spilaði ásamt trommara, bassaleikara og fiðluleikara á minnsta sviði hátíðarinnar – Linné, framleiddi hágæða gítarsurg og var hápunktur tónleikanna þegar hann stóð á gítarnum og vaggaði sér fram og til baka til að ná sem mestu feedbakki.Eftir tónleika Moore kom ég við á stærsta sviðinu þar sem heimamennirnir í Deportees spiluðu á vel sóttum tónleikum. Eins góð og mér þykir þeirra síðasta plata þá heilluðu þeir mig ekki í þetta skiptið. Strax á eftir þeim var röðin kominn að hip hop hljómsveitinni De La Soul sem spiluðu á næst stærsta sviðinu sem nefnist Azalea. Þetta voru vægast sagt verstu tónleikar hátíðarinnar. Eftir að hafa spilað 45 sekúndur úr smelli sínum All Good hófu hljómsveitarmeðlimir að keppast um hvorum megin við sviðið væri meira klappað og reyndu að leiða áhorfendur í eitthvað klappstríð sín á milli. Þetta var gífurlega vandræðalegt og ég sá ekkert annað í stöðunni nema að yfirgefa þessar útbrunnu goðsagnir. Florence And The Machine stóðu fyrir sínu og áttu þrusu gott sett á stærsta sviðinu sem nefnist Flamingo. Á tónleikunum hitti ég sænsku systurnar í First Aid Kit sem voru spenntar fyrir að spila á sama sviði daginn eftir. Það kom svo í hlut bandaríska rokk dúósins The Black Keys að loka deginum í Slottsskogen. Þeir stóðu fyrir sínu og gott betur en það og hafa fyllt vel upp í það skarð sem The White Stripes skildu eftir þegar þau hættu í fyrra.
Það sem kom mér mest á óvart við þennan fyrsta dag í Slottsskogen var hversu erfitt það reyndist að neyta áfengis á hátíðinni. Það er með öllu óheimilt að koma með áfengi inn á svæðið og öll neysla á tónleikum er bönnuð. Til þess að neyta áfengis þarf maður að fara í sértök tjöld á svæðinu sem selja það og þarf maður að drekka á staðnum. Maturinn á svæðinu þótti mér góður en hefði mátt vera fjölbreyttari, en í ár var grænmetisþema. Þrátt fyrir það var allt flæðandi í kjöti á blaðamannsvæðinu.
Nú var röðin komin að Stay Out West, sem er fyrir þá tónleikagesti sem vilja halda áfram eftir að tónleikunum í Slottsskogen lýkur. Fyrirkomulagið er á þann hátt að tónleikar eru haldnir í tólf klúbbum sem eru dreifðir um miðbæ Gautaborgar. Þetta er svona svipað og ef Iceland Airwaves væri haldið í Kópavogi, Skeifunni og í miðbæ Reykjavíkur. Allir þessir klúbbar eru frekar litlir og þess vegna þarf maður að vera snar í snúningum til þess að komast inn á þá. Ólíkt Iceland Airwaves getur maður ekki kíkt á tónleika í næsta nágrenni ef húsið er fullt. Fyrsta kvöldið stefndi ég á að sjá Purity Ring á stað sem var næstur Slottsskogen. Þegar þanngað var komið beið mín röð sem minnti á það allra versta í sögu Iceland Airwaves og þó ég hefði blaðamannapassa var mér ekki veittur aðgangur. Það var því ekkert annað í stöðunni en að taka sporvagn á næstu tónleika sem tók um hálftíma. Ég fór á stað í miðbænum sem hýsti Alt J, Bob Mould og Cloud Nothings. Þar var einnig röð og komst ég inn þegar Alt J áttu þrjú lög eftir. Hljómsveitin flutti þau af stakri prýði. Næstur á svið á eftir þeim var Bob Mould sem var áður söngvari hinnar goðsagnakenndu indie hljómsveitarHüsker Dü frá Minnesota í Bandaríkjunum. Tónleikar Mould voru kraftmiklir og spilaði hann lög frá sólóferlinum í bland við lög með Hüsker Dü og Sugar,sem er band sem Mould stofnaði á tíunda áratugnum. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar hann endaði settið með Hüsker Dü slagaranum Celebrated Summer af plötunni New Day Rising. Cloud Nothings lauk svo kvöldinu með frábærum tónleikum sem innihéldu aðallega lög af nýjustu plötu þeirra – Attack On Memory sem kom út fyrr á þessu ári. Eftir þetta kvöld komst ég ekki aftur á tónleika á Stay Out West.
Föstudagur 10. ágúst
Philadelphiu rokkarnir í The War On Drugs hófu leikinn á föstudeginum í Slottsskogen. Hljómsveitin, sem áður innhélt sjálfan Kurt Vile, gáfu út hina frábæru breiðskífu – Slave Ambient í fyrra. Tónleikar þeirra á hátíðinni voru frábærir og voru þeir einir af fáum listamönnum sem voru klappaðir upp í ár. Strax á eftir þeim kom svo St. Vincent, öðru nafni Annie Erin Clark sem eitt sinn var í Polyphonic Spree og hljómsveit Sufjan Stevens. Hún átti ekki síðri tónleika og sannaði það hún er ekki aðeins frábær sönkona heldur gítarleikari af guðs náð. Systurnar í First Aid Kit spiluð svo á stóra sviðinu og þeyttu flösu milli þess sem þær spiluðu lög af hinni einstöku plötu The Lion’s Roar, sem kom út í byrjun ársins í bland við árbreiður frá listamönnum líkt og Fleet Foxes og Fever Ray.
Söngkonan Feist kom svo á eftir þeim og merkti sviðið með borða sem á stóð Free Pussy Riot. Feist átti mjög góða tónleika og spilaði efni af öllum fjórum plötum sínum. Næst á dagskrá voru svo tónleikar Best Coast, sem ég ákvað að fara á vegna þess að mér þykir mikið til fyrstu plötu þeirra koma en það sama get ég ekki sagt um þá nýjustu. Sem betur fer voru flest lögin sem þau tóku á tónleikunum af fyrri plötunni.Eftir að Best Coast lauk sér af dreif ég mig fremst fyrir framan stóra sviðið til að sjá mögulega næstsíðustu tónleika sem hljómsveitin Blur munu spila á.
Hljómsveitin átti, þegar þarna var komið við sögu, aðeins eftir að spila á viðburði sem tengdur var lokaathöfn Ólympíuleikana á sunnudeginum í Bretlandi. Blur áttu í engum erfiðleikum að koma fólki í stuð og hófu tónleikana á smellinum Girls and Boys af plötunni Parklife frá árinu 1994. Hljómsveitin spilaði flest sín frægustu lög og einnig tvö þau nýjustu – Puritan og Under The Westway við mikinn fögnuð viðstaddra. Ég hef séð Blur þrisvar áður – í Laugardalshöll árið 1996 og 1997 og á Hróaskeldu 2003, en aldrei hef ég séð þá í eins góðu formi og nú. Þeir enduðu tónleikana á þremur af mínum uppáhalds Blur lögum End of a Century, For Tomorrow og The Universal.
Laugardagur 11. ágúst
A$AP Rocky hóf síðasta dag hátíðarinnar með krafti og fékk áhorfendur fljótlega á sitt band. Fjórða hvert lag á tónleikunum var óður til hugtaksins SWAG, þar sem hann og félagi hans endurtóku hugtakið í sífellu við kröftugan takt. Eftir tónleika A$AP heyrði ég þær hræðilegu fréttir að tónleikum Frank Ocean á hátíðinni hefði verið aflýst. Þetta voru verstu tíðindi helgarinnar, því ég hlakkaði mikið til að sjá Ocean og ekkert sérstakt kom í stað hans. Ég hlýddi stuttlega á Mogwai áður en ég hélt á tónleika sænsku hljómsveitarinnar Miike Snow, sem sýndu að þeir eru sterkt tónleikaband með tvær frábærar plötur í fartaskinu. Hápunktur tónleikanna var þegar að Lykke Li kom fram með þeim í laginu Get Out Of The Black Box. Næstir á dagskrá voru sjálfir Kraftwerk sem ég hafði séð í Kaplakrika árið 2004. Munurinn á þessum tónleikum og þeim voru að í þetta skipti var myndbandið sem var fyrir aftan þá í 3D og flest allir tónleikagestir skörtu slíkum gleraugum sem dreift var um svæðið um daginn. Kraftwerk sviku engan með einstökum tónleikum þó maður velti oft fyrir sér hvað nákvæmlega þessir fjórir herramenn gera á sviðinu, þeir hefðu alveg eins getað verið að leggja kapal í tölvunum, þeir hreyfðust ekki allan tímann.
Eftir Kraftwerk var röðin komin að síðasta atriði Way Out West í ár – Odd Future Wolf Gang Kill Them All, sem ég hafði séð árið áður á Hróaskeldu. Gengið átti fína tónleika og enduðu þessa frábæru helgi á skemmtilegan hátt.
Það sem stóð upp úr að mínu mati í ár var St. Vincent, Blur og A$AP Rocky. Vonbrigði helgarinnar voru raðirnar og staðsetninginn á Stay Out West og aflýsing Frank Ocean. Þrátt fyrir það er Way Out West ein af skemmtilegri hátíðum sem ég hef farið á og ég get auðveldlega mælt með henni fyrir alla tónlistaráhugamenn sem vilja upplifa þá stemmingu sem einkennir stórar tónlistarhátíðir og kosti þess að vera staðsettur í miðborg stórborgar.
Í dag eru 35 ár síðan að Elvis Aron Presley, einn sá áhrifamesti ef ekki áhrifamesti tónlistarmaður 20. aldar, lést. Þó að Presley hafi ekki fundið upp rokkið, innleiddi hann það í bandaríska menningu þaðan sem það barst um allan heim. Á sama tíma var í fyrsta skipti að verða til sérstök menning unglinga og áhrif rokksins og Elvis verða seint ofmetin í því samhengi. Presley fæddist 8. janúar 1935 í Tupelo, Mississippifylki í Bandaríkjunum. Hann lést á heimili sínu Graceland í Memphis, Tennessefylki, 16. ágúst 1977, 42 ára að aldri. Síðan hefur meira verið fjallað um hann heldur en nokkurn tímann meðan hann var á lífi. Sú mynd sem fjölmiðlar sýndu af Presley meðan hann lifði er gerólík þeirri ímynd sem fjölmiðlar hafa búið til eftir dauða hans. Ímynd Presley hefur verið afbökuð ósmekklega á síðustu áratugum. Fyrir neðan má hlusta á útvarpsþátt sem ég gerði um Elvis Presley í heimafylki hans Tennessee í Bandaríkjunum árið 2009.
Fela Kuti lést úr eyðni fyrir fimmtán árum síðan en arfleifð hans svífur þó enn yfir vötnum margra tónlistarmanna nútímans. Hann var upphafsmaður afróbítsins og ævistarf hans í tónlist er fjársjóðskista fyrir grúskara og grúvhunda. Hann var líka pólitískur andófsmaður sem varð fyrir áhrifum af Malcolms X og var rödd hinna kúguðu í heimaríki sínu, Nígeríu.
Fela Ransome Kuti fæddist 15. október 1938 í Abeokuta, litlum bæ í Nígeríu um 100 km norðan við höfuðborgina Lagos. Hann var næstyngstur af fimm systkinum í miðstéttarfjölskyldu. Faðir hans var fyrsti formaður kennarasambands Nígeríu en móðir hans kvenréttindakona og pólitískur baráttumaður sem hafði tekið þátt í baráttunni gegn nýlendustjórninni. Fela langaði til að vera tónlistarmaður frá barnsaldri og um tvítugt fluttist hann búferlum til London og skráði sig í Trinity College of Music. Þar dvaldist hann næstu fjögur ár og lærði á píanó auk þess að leggja stund á nám í tónsmíðum. Hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit Koola Lobitos og byrjaði að spila á hinum ýmsu klúbbum borgarinnar sérstaka blöndu af djassi og vestur-afrískri „High Life“ tónlist. Þar kynntist hann einnig fyrstu konu sinni sem hann eignaðist þrjú börn með, þar á meðal soninn Femi Kuti sem hefur haldið tónlistararfleifð föður síns við.
Fæðing afróbítsins
Árið 1963 snýr Fela aftur til Lagos og stuttu síður endurvekur hann Koola Lobitos og spilar með þeim á klúbbum víða í Lagos við heldur litlar vinsældir. Undir lok sjöunda áratugarins fær hann hins vegar trommarann Tony Allen til liðs við sig sem átti eftir að hafa mikil áhrif á afróbít-tónlistina sem átti eftir að hasla sér völl. Annað sem breytti lífi og þar með tónlist Fela Kuti var ferð hans til Bandaríkjanna 1969. Fela og Koola Lobitos hörkuðu í nokkra mánuði í klúbbasenunni í Los Angeles og á meðan á þeirri dvöl stóð kynntist Fela ýmsum sem börðust fyrir mannréttindum blökkumanna og tengdust Black Panther-hreyfingunni. Þar á meðal var Sandra Isidore sem varð ástkona hans og eins konar menningarlegur lærifaðir. Hún kynnti hann fyrir kenningum Malcolm X og Elridge Cleaver en sjálfsævisaga Malcolm X hafði mikil áhrif á hann og varð til þess að hann fór að kanna betur afríska sjálfsímynd sína bæði persónulega og í gegnum tónlistina.
Fela og hljómsveitin hans lentu í útistöðum við útlendingaeftirlitið í Bandaríkjunum og neyddust til að yfirgefa landið en áður náðu þeir að fara í hljóðver og taka upp efni sem síðar var gefið út sem 69 Los Angeles Sessions. Hljómur sveitarinnar var breyttur og þarna var að fæðast það sem Fela sjálfur kallaði Afrobít, tónlistarstefna sem blandar djassi og fönki saman við hefðbundna afríska tónlist með flóknum samofnum ryþma og söngstíl þar sem aðalsöngvari og bakraddir kallast á.
Kalkútta lýðveldið
Þegar Fela kom aftur til Lagos var hann breyttur maður. Til þess að undirstrika það lagði hann niður millinafn sitt, Ransome, sem hann sagði vera þrælanafn en tók í staðinn upp nafnið Anikulapo sem þýðir: Sá sem ber dauðann í skjóðu sinni.
Hann breytti nafninu á hljómsveit sinni í Africa 70 og settist að ásamt hljómsveit, fjölskyldu, dönsurum og hinum og þessum áhangendum í stóru húsi, eins konar kommúnu, þar sem hann var einnig með upptökuaðstöðu. Þar stofnaði hann sitt eigið ríki, Kalkútta lýðveldið, og sagði sig úr lögum við nígeríska ríkið en þar bjuggu um 100 manns þegar mest lét.
Freðnir og framsýnir hugsuðir
Nígerísku blöðin birtu myndir frá þessu litla fyrirmyndarríki þar sem Fela spilaði á saxafón útí garði á nærbuxunum, berbrjósta konur löbbuðu um og táningar blésu kannabisreyk út í loftið. Þá stofnaði hann klúbb sem var kallaður Helgidómurinn (The Shrine) þar sem hann og félagar í Afrika 70 hófu að spila reglulega auk þess að taka upp efni og gefa út. Eins og nafnið gaf til kynna var Helgidómurinn ekki aðeins klúbbur, heldur eins konar samkomustaður fyrir framsýna afríska hugsuði þar sem áherslan var ekki á ættbálka eða þjóðerni heldur samafrískar hugsjónir og samstöðu. Þar voru haldnir stórir tónleikar undir beru lofti sem stóðu oft yfir í marga klukkutíma og við sviðið voru fánar allra afrískra þjóða. Hljómsveit hans var mjög fjölmenn og innihélt nokkra blásara og ásláttarleikara, auk tveggja gítarleikara, bassaleikara og trommuleikara. Þá eru ótaldar fjöldi bakraddasöngkvenna og herskari dansara sem stormuðu um sviðið.
En það var ekki bara lífstíll hans sem var byltingakenndur heldur varð tónlistin stöðugt kraftmeiri og textarnir róttækari. Hann varð fljótt vinsæll í Nígeríu og varð nokkurs konar hetja fátæks almúgans. Hann bar litla virðingu fyrir yfirvöldum og í lögum sínum talaði hann aldrei undir rós; þar var að finna beinar árásir á spillingu, kúgun stjórnvalda, arðrán erlendra stórfyrirtækja á alþýðu landsins og menningarlega heimsvaldastefnu Vesturlanda. Síðan Nígería fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1960 hafði pólitískt ástand í landinu verið mjög óstöðugt, ekki síst vegna baráttu stærstu þjóðflokkana um völd í landinu. Árið 1966 framdi herinn valdarán og næstu 15 ár einkenndust af miklum óstöðugleika, stöðugri barátta hershöfðingja um völd yfir landsstjórninni og gekk á með valdaránum og morðum á þjóðhöfðingjum.
Ofsóttur af stjórnvöldum
1. Fela Kuti - Expensive Shit
2. Fela Kuti - Expensive Shit
Fela Kuti gagnrýndi stjórnvöld óspart í textum sínum. Sú gagnrýni ásamt því hversu mikla óvirðingu hann sýndi með stofnun fríríkis síns, þar sem menn reyktu gras fyrir opnum tjöldum, gerði það að verkum að stjórnvöld litu á hann sem ógn. Árið 1974 var hann orðinn súperstjarna í heimalandi sínu og nágrannaríkjum og var á leiðinni í tónleikaferð til Kamerún þegar hann var handtekinn fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum. Hann gerði sér lítið fyrir og gleypti jónuna sem var eina sönnunargagnið í málinu. Hann var handtekinn engu að síðu og ætlunin að láta hann skila sönnunargögnunum út um óæðri endann. En Fela, sem mátti dúsa nóttina í fangelsi, tókst að skipta á saur við samfanga sinn og slapp vegna skorts á sönnunargögnum. Þessa lygilegu sögu átti hann síðan eftir að rekja í laginu Expensive Shit sem kom út ári síðar.
Gaf út sjö plötur á ári
3. 02 Lady
4. 02 Lady
Á blómaskeiði sínu frá 1970 til 1977 gaf Fela Kuti út tæplega 30 plötur og þegar mest var gaf hann út sjö plötur á ári. Á Gentleman frá 1973 fjallar hann um nýlenduhugarfar sem hann telur of ríkjandi í heimalandi sínu og gerir grín að samlöndum sínum sem ganga um í jakkafötum með bindi og taldi það ekki við hæfi í hitanum í Afríku. Á Lady gagnrýnir hann afrískar konur fyrir að aðhyllast vestrænan femínisma sem honum finnst ekki samræmast afrískum hefðum. Lögin hans spanna frá 10 mínútum og upp í klukkutíma, sem kom í veg fyrir útvarpsspilun og að hann næði vinsældum í hinum vestræna heimi en tónlistarmenn á borð við James Brown, Ginger Baker, Stevie Wonder, Paul Mcartney og Curtis Mayfield voru miklir aðdáendur og flykktust til Nígeríu til að drekka í sig tónlistina.
Uppvakningar ráðast til atlögu
5. Fela Kuti - Zombie
6. Fela Kuti - Zombie
Árið 1977 gefur Fela út plötuna Zombie sem varð hans vinsælasta og áhrifamesta plata. Titillagið, sem byggist á óstöðvandi grúvi, er harkaleg ádeila á hermenn landsins, „heilalausa uppvakninga” sem hafi enga sjálfstæða hugsun og geri ekkert án skipana yfirmanna sinna. Lagið kom af stað vakningu meðal kúgaðra íbúa landsins sem leiddi til óeirða og mótmæla gegn hermönnum á götum úti þegar fólk hermdi eftir uppvakningum er það sá til hermanna.
Stuttu seinna gerðu 1.000 hermenn árás á Kalkútta kommúnuna eftir að hafa lent í útistöðum við strák úr gengi Fela. Þeir umkringdu húsið og réðust svo inn og gengu í skrokk á íbúunum, nauðguðu konum og köstuðu móður Fela út um glugga á annarri hæð. Hljóðfæri, upptökur og filmur voru eyðilagðar og að lokum kveikt í húsinu. Fela var barinn þangað til hann missti meðvitund og fangelsaður í stuttan tíma. Þegar hann var laus úr fangelsi fór hann í mál við ríkið en „óháð“ rannsókn leiddi í ljós að það hefði verið óþekktur hermaður sem stóð fyrir aðförinni að húsi Fela. Um þetta gerði hann lagið Unknown Soldier.
Móðir hans lést nokkrum mánuðum síðar af meiðslum sem hún hlaut í árásinni og Fela fór með líkkistuna og skildi hana eftir við herstöðvar Olusegun Ọbasanjọ sem var hæstráðandi í landinu. Hann gerði um þetta lagið Coffin for Head of State þar sem hann réðst harkalega á Ọbasanjọ. Það sama gerði hann í laginu ITT International Thief Thief, sem er gagnrýni á arðrán vestrænna fyrirtækja á Afríkubúum og spillta menn eins og Ọbasanjọ sem láta það viðgangast. Í laginu kallar hann Ọbasanjọ og forstjóra ITT þjófa. Textar hans verða æ harðari, hann gagnrýnir spillingu og ofsóknir stjórnvalda og ræðst harkalega að nafngreindum mönnum.
Svarti forsetinn
Eftir árásina á húsið fór Fela í sjálfskipaða útlegð til Ghana í ár og þegar hann kom til baka nákvæmlega einu ári eftir atburðina þá giftist hann 27 konum, flestar voru dansarar hans og bakraddasöngkonur, í einni athöfn. Sama ár er hann rekinn frá Ghana eftir að óeirðir brjótast út þegar hann spilar lag sitt Zombie á tónleikum í höfuðborginni Accra. Hann verður æ pólitískari og fer að tala um sjálfan sig sem The Black President og hyggst bjóða sig fram til forseta þegar lýðveldið er endurvakið 1979 (til 1983) en framboði hans var hafnað af „tæknilegum“ ástæðum.
Hann lét það þó ekki stoppa sig og stofnaði nýtt band, Egypt 80 og hélt áfram að gefa út plötur og fór í tónleikaferðir til Evrópu. Hann var líka farinn að kafa dýpra í Yoruba trúna og fékk til liðs við sig andlegan leiðtoga, Professor Hindu. Þessi andatrú varð stór partur af tónleikahaldi hans en Fela og hljómsveitin komu fram með einhvers konar hvítt duft sem átti að hjálpa þeim að ná sambandi við andana. Professor Hindu tók einnig þátt í sjóinu þar sem hann kyrjaði, særði fram anda, skar sjálfan sig og hræddi líftóruna úr áhorfendum í Evrópu. Þegar að Fela var á leiðinni á tónleikaferðalag til Bandaríkjanna í september 1984 var hann handtekinn á flugvellinum og sakaður um gjaldeyrissmygl. Hann er dæmdur í tíu ára fangelsi en sleppt eftir 20 mánuði er ný stjórn hafði tekið við og Amnesty International barist fyrir lausn hans.
Dauðinn skríður upp úr skjóðunni
Eftir að hann losnaði úr fangelsi hélt hann áfram að gefa út plötur með Egypt 80 og túra um Evrópu og Bandaríkin og árið 1986 kom hann fram á tónleikum til styrktar Amnesty International á Giants leikavanginum í New Jersey ásamt Bono, Santana og fleirum. En í byrjun tíunda áratugarins fór að líða lengra á milli platna og að lokum hætti hann alfarið að gefa út. Þetta má líklega rekja til veikinda hans en hann þjáðist af alnæmi þó að hann neitaði að viðurkenna það eða leita læknisaðstoðar vegna þess. 2. ágúst 1997 komst dauðinn upp úr skjóðu Fela og hafði sigur á honum. Meira en milljón manns syrgðu þegar hann var borinn til grafar í Lagos. Fela Kuti var tónlistarmaður, byltingarsinni og frumkvöðull. Hann var talsmaður hinna undirokuðu, fátæku og kúguðu í heimalandi sínu og arfleið hans og íkonísk staða í Nígeríu á sér aðeins fordæmi í arfleið Bob Marley á Jamaíka.
Meira en tveir áratugir eru liðnir síðan Serge Gainsbourg, einn mesti töffari 20. aldarinnar, lést. Hann átti sér margar hliðar, var skáld, lagahöfundur, leikari, prakkari, eurovision-sigurvegari, leikstjóri, drykkjumaður, flagari og keðjureykingamaður. En umfram allt listamaður, nautnaseggur og lífskúnstner af gamla evrópska skólanum.
Sem tónlistarmaður var Serge Gainsburg stöðugt leitandi og skipti svo oft um ham að kamelljónið sjálft, David Bowie, er eins og íhaldsmaður í samanburðinum. Þegar Gainsbourg lést líkti François Mitterrand, þáverandi forseti Frakklands, honum við hin mikils virtu skáld Baudelaire og Apollinaire. Hann var ekki manna fríðastur en heillaði þó heitustu leikkonur og fyrirsætur Evrópu upp úr skónum. Frá byrjun hafði hann einstakt lag á því að hneyksla smáborgara, sem yfirskyggði að nokkru leyti aðra hæfileika hans undir lok ævinnar. Hann var stórstjarna í Frakklandi en annars staðar í heiminum er hans helst minnst fyrir angurværa orgeltónana og fullnægingarstunur Jane Birkin í laginu Je t’aime… moi non plus, og kannski núna á youtube öld fyrir glæfralega yfirlýsingu um að vilja sænga hjá Whitney Houston í frönskum spjallþætti á 9. áratugnum.
Slapp frá nasistum
Gainsbourg fæddist í París 2. apríl 1928 og var skýrður Lucien Ginsburg en foreldrar hans voru rússneskir gyðingar sem höfðu flúið heimalandið eftir byltinguna 1917. Þegar Frakkland var hertekið af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni þurfti öll fjölskyldan að merkja sig með gyðingastjörnunni en þeim tókst að flýja París með fölsuðum skilríkjum og voru í felum þar til stríðinu lauk. Faðir Gainsbourg var menntaður píanisti sem hafði lifibrauð af því að spila í kabarettum og spilavítum og Gainsbourg spilaði á píanó frá unga aldri.
Hann lagði stund á myndlist í listaháskóla en fór fljótlega að sjá fyrir sér með því að spila á píanó á börum og næturklúbbum. Hann gekk til liðs við tónlistarhópinn Milord L’Arsoille og árið 1958 kom út hans fyrsta sólóplata, Du Chant a la Une. Á henni er meðal annars að finna hið frábæra lag Le Poinçonneur des Lilas. Það er um starfsmann í neðanjarðarlestastöð í París sem er í svo leiðigjörnu starfi við að gata lestarmiða að hann dreymir um að setja gat í hausinn á sjálfum sér og verða grafinn í stóru gati í jörðinni. Tónlistin á plötunni og tveimur næstu plötum er að mestu hefðbundin frönsk „chanson“ tónlist blönduð djassi en yrkisefnin eru oft í dekkri kantinum eins og áðurnefnt lag er dæmi um.
Litla stelpan með sleikjóinn
France Gall - Poupée de cire, poupée de son
1. France Gall - Poupee de Cire Poupee de Son
Mp3
2. France Gall - Poupée de cire
Fyrstu sólóplötur kappans seldust ekki í flugfröktum en hann átti hins vegar velgengni að fagna sem lagahöfundur söngkvenna á borð við Petulu Clark, Juliette Greco og Dionne Warwick. Árið 1965 samdi hann lagið Poupée de cire, poupée de son, sem sigraði söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Lúxemborg og var sungið af táningsstjörnunni France Gall. Hann hélt áfram að semja lög fyrir hana en lagið Les Succettes vakti mikla hneykslun þegar það kom út árið 1966. Unglingsstúlkan Gall var þar á yfirborðinu að syngja um stelpu sem hafði gaman að sleikibrjóstsykri en textinn er morandi í tvíræðni og vísunum í munnmök.
Stuttu síðar hóf hann ástarsamband við Brigitte Bardot, sem á þeim tíma var gift þýskum milljónamæringi. Hann tileinkaði henni plötuna og titillagið Initials B.B. en þau sungu dúett á nokkrum lögum plötunnar. Af þeim ber hæst Bonnie and Clyde, óður Gainsbourg og Bardot til glæpaparsins sem hafði verið gert ódauðlegt í samnefndri bíómynd ári fyrr. Það sem lyftir laginu upp á æðra plan er samt óaðfinnanlegur hljómurinn sem er langt á undan sinni samtíð, fiðlur og kassagítar eru notaðar sem ryþmísk hljóðfæri og gefa sándinu ákveðið þyngdarleysi og skrýtið óp er endurtekið í sífellu í gegnum lagið.
Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
3. Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
Mp3
4. Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
Gainsbourg hafði lag á því að vinna með framsæknum og hugmyndaríkum upptökustjórum og útsetjurum og margt af því sem hann gerði seint á sjöunda áratugnum og snemma á þeim áttunda hljómar einstaklega nútímalega. Lagið Requiem pour un con frá árinu 1968 sem er með stamandi bassalínu, hörðum trommutakti, mjúkum bongótrommum og nokkurs konar rappi frá Gainsbourg, sem hljómar t.d. ekki ósvipað því sem Massive Attack gerðu á sinni fyrstu plötu sem kom út 23 árum seinna.
Fordæmdur af Vatíkaninu
Árið 1968 við tökur á bíómyndinni Slogan kynntist hann Jane Birkin, 22 ára breskri leikkonu og fyrirsætu sem átti eftir að verða ástin og skáldagyðjan í lífi hans næstu 13 árin. Fyrsta kvöldið sem þau eyddu saman fór hann með hana á pöbbarölt um París þar sem þau stoppuðu á ýmsum klæðskiptingabörum og enduðu á Hiltonhótelinu þar sem maðurinn í afgreiðslunni spurði hann: „Sama herbergi og venjulega?“
Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime... moi non plus
5. Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime moi non plus
Mp3
6. Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime... moi non plus
Þau urðu óaðskiljanleg og ári síðar kom út lagið Je t’aime… moi non plus sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum og siðapostula vitlausa um alla Evrópu. Sögusagnir voru uppi um að stunurnar í laginu kæmu úr alvöru kynlífsleikjum parsins. BBC og ótalmargar útvarpsstöðvar bönnuðu það. Vatíkanið fordæmdi það. Gainsbourg naut athyglinnar og var nú loksins orðinn alþjóðleg poppstjarna. Breiðskífa með parinu, sem nefndist einfaldlega Jane Birkin/Serge Gainsbourg, kom út sama ár þar sem margt var um fína drætti en hún bliknar þó í samanburðinum við næsta óð Gainsbourg til Birkin sem kom út tveimur árum seinna.
Sagan um Melody Nelson
Serge Gainsbourg - Ballade de Melody Nelson
7. Ballade de Melody Nelson
Mp3
8. Serge Gainsbourg - Ballade de Melody Nelson
Gainsbourg fór til Bretlands ásamt útsetjaranum Jean-Claude Vannier og í slagtogi við færustu sessjónleikara Bretlands tókst þeim að töfra upp úr hatti sínum rokk-fönk-sinfóníu, Histoire de Melody Nelson, plötu sem hefur einstakan hljóm í poppsögunni og er ein af bestu plötum áttunda áratugarins.
Það sem drífur plötuna áfram er ótrúlega melódískur bassaleikur Herbie Flowers (sem ári síðar var ábyrgur fyrir bassalínunni í Take a Walk on the Wild Side með Lou Reed), og sögumaðurinn Gainsbourg sem talar, hvíslar og muldrar sig í gegnum söguþráð plötunnar sem snýst um þráhyggjukennda ást sögumannsins á Melody, 15 ára enskri rauðhærðri stelpu. Bassinn er fönkí, gítarinn er sækadelik, kór- og strengjaútsetningar mikilfenglegar og hugmyndaríkar og sjaldan hefur rokkhljóðfærum og sinfónískum útsetningum verið blandað saman á jafn smekklegan og frumlegan máta. Platan seldist nánast ekkert þegar hún kom út en er nú af mörgum talin hans besta plata og til að mynda Beck, Air, Tricky, Jarvis Cocker og Brian Molko eru miklir aðdáendur.
Serge Gainsbourg - Nazi Rock
9. Serge Gainsbourg - Nazi Rock
Mp3
10. Serge Gainsbourg - Nazi Rock
Næsta plata Gainsbourg kom út tveimur árum seinna og var allt öðruvísi, frekar lágstemmd akústísk plata en árið 1975 gaf hann út Rock Around the Bunker. Sú plata særði sómakennd margra en hún var innblásin af gamaldags rokki frá 6. áratugnum en fjallaði með svörtum húmor um nasista og seinni heimsstyrjöldina í stuðsmellum eins og Nazi Rock og S.S. in Uruguay. Árið 1976 gaf hann svo út aðra metnaðarfulla konsept plötu sem fjallar um dökka og forboðna ást, L’homme à tête de chou eða Maðurinn með kálhausinn. Í þetta skiptið er það exótísk fegurð hinnar svörtu Marilou sem heillar hinn truflaða sögumann en hann endar plötuna á geðveikrahæli eftir að hafa barið hana til dauða með slökkvitæki. Tónlistin, sem er ótrúlega fjölbreytt og framsækin, snertir meðal annars á rokki, diskói, fönki, reggí, djassi og afrískum ryþmum. Platan er ekki alveg jafn góð og Melody Nelson en er þó eitt besta verk Gainsbourg og verðskuldar meiri athygli en hún hefur fengið.
Franskt reggí
Sertge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
11. Serge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
Mp3
12. Serge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
Gainsbourg ferðaðist til Kingston á Jamaica árið 1978 og tók upp heila reggí plötu með goðsagnakennda ryþmaparinu Sly Dunbar og Robbie Shakespeare og bakraddasveit sem innihélt meðal annars eiginkonu Bob Marley, Ritu. Meðal laga á plötunni var reggíútgáfa af La Marseille, franska þjóðsöngnum sem átti eftir að valda gríðarlegu fjaðrafoki í heimalandinu þegar platan kom út. Hneykslið var á svipuðum skala og þegar Sex Pistols sungu God Save the Queen í Bretlandi. Gainsbourg fékk dauðahótanir frá þjóðernissinnum, í leiðara dagblaðs var lagt til að ríkisborgararéttur hans væri afturkallaður og mótmælendur mættu á alla tónleika hans þar sem hann kynnti plötuna. Honum tókst meira að segja að reita Bob Marley sjálfan til reiði þegar hann komst að því að Gainsbourg hafði látið eiginkonu hans syngja klámfengna texta í bakröddum á plötunni.
Sítrónusifjaspell
Eftir þrettán ára stormasamt samband fékk Jane Birkin loksins nóg af óútreiknanlegri hegðun og stanslausri drykkju Gainsbourg og yfirgaf ástmann sinn árið 1980, þá ólétt eftir annan mann. Gainsbourg brást við með enn meiri drykkju, var fastagestur í spjallþáttum í sjónvarpi á 9. Áratugnum og nánast undantekningalaust ölvaður að gera eitthvað af sér. Meðal þess sem hann náði að afreka í beinni útsendingu var að brenna 500 franka seðil (sem var ólöglegt á þeim tíma) og lýsa því yfir fyrir framan unga Whitney Houston að hann langaði til að sofa hjá henni. Hann sat fyrir í dragi á umslaginu fyrir Love on the Boat, hljóðgerfladrifinni poppplötu sem fjallaði að mestu um samkynhneigða karlmenn sem stunda vændi, en lagið Lemon Incest eða „Sítrónusifjaspell“ vakti þó mesta athygli. Í því syngur hann dúett með dóttur sinni, Charlotte, sem þá var 12 ára. Ef að lagið, umfjöllunarefnið og dóttur hans voru ekki nóg til þess að særa blygðunarkennd flestra sómasamra borgara var einnig gert myndband við lagið þar sem Gainsbourg og dóttur hans liggja fáklædd upp í rúmi og syngja til hvors annars.
Gainsbourg hafði um nokkurt skeið verið heilsulítill en 2. mars 1991 báru áfengi og tóbak loksins sigurorð af honum þegar hann lést í svefni á heimili sínu. Nicholas Godin úr hljómsveitinni Air sagði í viðtali við Guardian: „Þú getur spurt hvern sem er í París og hann man hvað hann hafði fyrir stafni er tíðindin bárust að Gainsbourg væri dáinn, þetta var það mikið áfall.“ Það var flaggað í hálfa stöng út um alla borg og þúsundir mættu í jarðarför hans. Viskíflöskur og Gitanes sígarettupakkar voru lögð sem virðingarvottur bæði við heimili hans og legstein. Áhrif hans á tónlistarheiminn verða seint ofmetinn en árið 2006 kom út platan Monsieur Gainsbourg Revisited, sem helguð var minningu hans. Þar fluttu listamenn á borð við Portishead, Franz Ferdinand, Cat Power, Jarvis Cocker og Micheal Stipe ábreiður af lögum hans. Textar hans hafa verið gefnir út í ljóðabókum og eru námsefni í háskólum í Frakklandi. Gainsbourg hafði óendanlega ástríðu fyrir áfengi, sígarettum og konum sem honum tókst að miðla á ótrúlega skapandi og ögrandi hátt í list sinni og ætti með réttu að teljast einn merkasti tónlistarmaður síðustu aldar.
Á hverju sumri velta tónlistaráhugmenn því fyrir sér hvaða lag eigi eftir að einkenna þennan árstíma þetta árið. Þessari spurningu er alls ekki auðsvarað og svarið er auðvitað persónubundið fyrir hvern og einn. Það eru þó ákveðin atriði sem nota má til að skilgreina gott sumarlag og hvað það þarf á að halda til að teljast eitt slíkt. Það þarf auðvitað að minna á eitthvað sem tengist sumrinu og einkennast af ákveðnu kæruleysi í bland við frelsi.
Lagið Hvernig á að særa vini sína sem hljómsveitin múm gaf fyrst út í sumar er eitt af þeim lögum sem hreinlega hrópa „sumar“.
Stemmingin í laginu fangar íslenskt sumar á einstakan máta og það svífur yfir mann líkt og dreymandi sumargolan. Lagið er á safnplötunni Early Birds, safni laga sem urðu til undir lok tuttugustu aldar áður en fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Yesterday Was Dramatic – Today is OK, leit dagsins ljós.
Ef eitthvað í titli lags minnir á sumarið kemst lagið nær því að geta kallast sumarlag. Bandaríska tónlistarmanninum Advanced Base hefur augljóslega orðið hugsað til sumarsins þegar hann samdi lagið Summer music sem er á plötu hans A Shut-In’s Prayer sem kom út í vor.
Margir hafa tilnefnt lagið The House That Heaven Built, af annarri plötu kanadísku rokkhljómsveitarinnar Japandroids, lag sumarsins. Það ætti að koma fáum á óvart, lagið hefur flest til brunns að bera til að hljóta þann titil. Það er epískt með öflugt viðlag og fær mann til að gleyma stað og stund og njóta augnabliksins. Hljómsveitin spilar á tónleikum í Reykjavík í lok sumars og því fá Íslendingar tækifæri til að syngja með þeim áður en sumarið er á enda.
Sumarlög geta líka haft þann eiginleika að vera tímalaus og minna jafnvel á liðin sumur. Hljómsveitin Woods sendi frá sér hið fallega lag Cali in A Cup í sumar og þó lagið sé nýtt er eitthvað við það sem lætur mann ferðast aftur í tímann.
Lag Frank Ocean Sweet Life hefur svipaðan eiginleika og lag Woods. Þó að það sé ögn nútímalegra, gæti það vel verið týndur sumarsmellur úr smiðju Stevies Wonders. Lagið er á fyrstu plötu Ocean sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda frá því hún kom út í þessum mánuði.
Öll þessi lög eiga skilið að fá tilnefningu til þessa merka titils en það er þó eitt lag sem stendur upp úr og hefur allt það sem áður hefur verið nefnt og eitthvað meira sem erfitt er að útskýra, til að teljast lag sumarsins 2012.
Lagið er Get Free með Major Lazer og söngkonunni Amber Coffman úr Dirty Projectors. Það er fyrsta smáskífan af væntanlegri breiðskífu Major Lazer sem kemur út seinna á þessu ári. Lagið sömdu Major Lazer, Coffman og David Longstreth, félagi hennar úr Dirty Projectors sem einnig spilar á gítar í laginu. Þegar ég heyrði lagið fyrst er hljómsveitin sendi það frá sér nokkrum dögum fyrir síðasta vetrardag kvaddi ég veturinn með sól í hjarta því ég vissi að sumarið var komið.
Greg Bouchard frá hinu virta tónlistar- og menningar bloggi www.midnightpoutine.ca, frá Montreal var gestur Straums í byrjun þessa mánaðar. Greg fræddi okkur um tónlistarsenuna í Montreal sem er blómleg um þessar mundir og bar hana saman við þá íslensku. Greg kom einnig til okkar í fyrrasumar og sagði okkur frá því hvernig senan hefur þróast á milli ára. Það sem bar hæðst þetta árið eru auknar vinsældir tónlistarkonunnar Grimes. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtalið í ár og viðtalið frá því í fyrra, auk laga sem Greg mælti með frá tónlistarmönnum frá Montreal.
Eitt af fallegri lögum sem komið hafa út í sumar er lagið Baby í flutningi bandarísku hljómsveitarinnar Ariel Pink’s Haunted Graffiti. Lagið er ábreiða og kom fyrst út á plötu í flutningi bræðranna Donnie og Joe Emerson árið 1979.
Lagið verður á annarri plötu hljómsveitarinnar Ariel Pink’s Haunted Graffiti sem kemur út 20. ágúst. Hljómsveitina leiðir Ariel Marcus Rosenberg, 34 ára gamall Los Angelesbúi, sem ólst upp í Beverly Hills og gekk meðal annars í hinn fræga Beverly Hills High gagnfræðaskóla. Ariel hefur tekið upp tónlist frá árinu 1996 en ferill hans fór ekki á flug fyrr en skrifaður diskur með tónlist hans komst í hendur hljómsveitarinnar Animal Collective frá New York sumarið 2003. Hljómsveitarmenn höfðu þá nýlega stofnað sitt eigið útgáfufyrirtæki, Paw Tracks og vildu ólmir fá Ariel til liðs við útgáfuna. Hann samdi við hana og varð fyrsti tónlistamaðurinn sem það gerði. Stuttu seinna hóf útgáfan endurútgáfu á gömlum verkum Ariels Pinks og það jók hróður hans til muna. Flestar plötur hans eru heimatilbúnar og hafa ekki fengið mikla dreifingu enda hefur hann tekið upp gríðarlegt magn efnis sem fæstir aðdáenda hans hafa heyrt. Hann hefur verið þekktur fyrir hráan hljóm á plötum sínum og er undir miklum áhrifum frá popptónlist sjöunda áratugarins.
Þar til Ariel Pink stofnaði hljómsveitina Ariel Pink‘s Haunted Graffiti kom hann einn fram á tónleikum og hafði allan undirleik á bandi. Hann fékk oft bágt fyrir, var stundum púaður niður á tónleikum og fékk slæma dóma gagnrýnenda. Árið 2008 stofnaði hann Ariel Pink‘s Haunted Graffit, sem gaf út fyrstu plötu sína, Before today, árið 2010. Hljómur hennar var ekki eins hrár og fyrri verk Pinks og tónlistin heldur aðgengilegri auk þess sem gagnrýnisraddir um frammistöðu hans á tónleikum þögnuðu. Á Before today, líkt og á væntanlegri plötu þeirra, er að finna ábreiðu, lagið Bright Lit Blue Skies sem Rockin‘ Ramrods gáfu út árið 1966.
Ariel hefur látið hafa eftir sér að önnur plata sveitarinnar, sem fengið hefur nafnið Mature Theme, verði með svipuðu sniði og sú fyrri. Hljómur hennar verði jafnvel enn slípaðri en Before Today og fyrstu lögin sem sem heyrst hafa af henni gefa þetta sterklega til kynna.
Sveitin sendi lagið Baby frá sér í byrjun júní og Only in my dreams fylgdi í kjölfarið skömmu seinna. Baby kom upprunalega út á plötu Emerson bræðra – Dreamin‘ Wild árið 1979. Saga þeirra Donnies og Joes Emerson er áhugaverð. Þeir ólust upp á sveitabýli í Washington fylki í Bandaríkjunum og gerðu fátt annað en að vinna á býlinu og hlusta á útvarpið. Þeir drukku í sig áhrif frá bandarískri soul-tónlist og hófu fljótt að spila saman. Faðir þeirra hafði svo mikla trú á hæfileikum sona sinna að hann veðsetti býlið til þess að geta útbúið þar upptökuver fyrir þá. Hann setti þeim þó eitt skilyrði sem var að þeir yrðu að semja sitt eigið efni. Platan náði aldrei neinum vinsældum og fjölskyldan missti stóran hluta af landareign sinni. Með árunum varð lagið Baby að einhverskonar týndri perlu meðal tónlistaráhugamanna og hefur Ariel Pink sagt að á öllum lagalistum sem hann hefur sett saman síðustu þrjú ár hafi lagið fengið að fljóta með því það sé stórkostlegt. Platan Dreamin‘ Wild var svo endurútgefin fyrir skömmu og ljóst er að Emerson bræður eru loksins að fá þann sess í tónlistarsögunni sem þeir eiga skilið og það er ekki síst Ariel Pink að þakka. Útgáfa Ariel Pink’s Haunted Graffiti á laginu fylgir upprunalegu útgáfunni mikið eftir og lagið gæti auðveldlega verið gamall smellur úr smiðju Motown tónlistarútgáfunnar þegar hún var á hátindi sínum um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.