Freak Folk hljómsveitin Woods sendir frá sér plötuna Bend Beyond þann 18. september. Hljómsveitin gaf nýlega út fyrstu smáskífuna af plötunni – Cali in a Cup, sem var eitt af sumarlögum Straums í ár. Lagið Size Meets the Sounds kom á SoundCloud í dag. Lagið er í svipuðum gæðum og Cali in a Cup og því við miklu að búast þegar sjöunda plata Woods lendir í plötubúðir. Hlustið á Size Meets the Sounds hér fyrir neðan.
Lag af væntanlegri plötu bresku hljómsveitarinnar The xx birtist á netinu í dag. Lagið heitir Chained og er annað lagið sem komið hefur á netið af plötunni Coexist sem kemur út 11. september næstkomandi. Hlustið á það hér fyrir neðan.
Paul Banks söngvari New York hljómsveitarinnar Interpol gefur út sína aðra breiðskífu þann 23. október næstkomandi. Banks gefur út undir listamannsnafninu Julian Plenti. Platan heitir Banks og fylgir á eftir plötu hans – Julian Plenti Is… Skyscraper sem kom út árið 2009. Hægt er að hlusta á lagið The Base, sem er fyrsta smáskífan af plötunni hér fyrir neðan.
Sænsk- áströlsku tvíburasysturnar í Saint Lou Lou gefa út sína fyrstu smáskífu 27. ágúst. Lagið heitir Maybe You og er draumkennt og poppað í einstökum flutningi systranna, sem spáð hefur verið mikilli velgengni af gagnrýnendum. Á plötunni verða einnig endurhljóðblandanir frá CFCF, Oxford, Le Crayon, Good Night Keaton og Pyramid. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.
6) The Night Of Wine and Roses – Japandroids
7) Boys are leaving town – Japandroids
8) Young Heart Spark Fire – Japandroids
9) Younger Us – Japandroids
10) Wet Hair – Japandroids
11) The House That Heaven Built – Japandroids
Meira en tveir áratugir eru liðnir síðan Serge Gainsbourg, einn mesti töffari 20. aldarinnar, lést. Hann átti sér margar hliðar, var skáld, lagahöfundur, leikari, prakkari, eurovision-sigurvegari, leikstjóri, drykkjumaður, flagari og keðjureykingamaður. En umfram allt listamaður, nautnaseggur og lífskúnstner af gamla evrópska skólanum.
Sem tónlistarmaður var Serge Gainsburg stöðugt leitandi og skipti svo oft um ham að kamelljónið sjálft, David Bowie, er eins og íhaldsmaður í samanburðinum. Þegar Gainsbourg lést líkti François Mitterrand, þáverandi forseti Frakklands, honum við hin mikils virtu skáld Baudelaire og Apollinaire. Hann var ekki manna fríðastur en heillaði þó heitustu leikkonur og fyrirsætur Evrópu upp úr skónum. Frá byrjun hafði hann einstakt lag á því að hneyksla smáborgara, sem yfirskyggði að nokkru leyti aðra hæfileika hans undir lok ævinnar. Hann var stórstjarna í Frakklandi en annars staðar í heiminum er hans helst minnst fyrir angurværa orgeltónana og fullnægingarstunur Jane Birkin í laginu Je t’aime… moi non plus, og kannski núna á youtube öld fyrir glæfralega yfirlýsingu um að vilja sænga hjá Whitney Houston í frönskum spjallþætti á 9. áratugnum.
Slapp frá nasistum
Gainsbourg fæddist í París 2. apríl 1928 og var skýrður Lucien Ginsburg en foreldrar hans voru rússneskir gyðingar sem höfðu flúið heimalandið eftir byltinguna 1917. Þegar Frakkland var hertekið af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni þurfti öll fjölskyldan að merkja sig með gyðingastjörnunni en þeim tókst að flýja París með fölsuðum skilríkjum og voru í felum þar til stríðinu lauk. Faðir Gainsbourg var menntaður píanisti sem hafði lifibrauð af því að spila í kabarettum og spilavítum og Gainsbourg spilaði á píanó frá unga aldri.
Hann lagði stund á myndlist í listaháskóla en fór fljótlega að sjá fyrir sér með því að spila á píanó á börum og næturklúbbum. Hann gekk til liðs við tónlistarhópinn Milord L’Arsoille og árið 1958 kom út hans fyrsta sólóplata, Du Chant a la Une. Á henni er meðal annars að finna hið frábæra lag Le Poinçonneur des Lilas. Það er um starfsmann í neðanjarðarlestastöð í París sem er í svo leiðigjörnu starfi við að gata lestarmiða að hann dreymir um að setja gat í hausinn á sjálfum sér og verða grafinn í stóru gati í jörðinni. Tónlistin á plötunni og tveimur næstu plötum er að mestu hefðbundin frönsk „chanson“ tónlist blönduð djassi en yrkisefnin eru oft í dekkri kantinum eins og áðurnefnt lag er dæmi um.
Litla stelpan með sleikjóinn
France Gall - Poupée de cire, poupée de son
1. France Gall - Poupee de Cire Poupee de Son
Mp3
2. France Gall - Poupée de cire
Fyrstu sólóplötur kappans seldust ekki í flugfröktum en hann átti hins vegar velgengni að fagna sem lagahöfundur söngkvenna á borð við Petulu Clark, Juliette Greco og Dionne Warwick. Árið 1965 samdi hann lagið Poupée de cire, poupée de son, sem sigraði söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Lúxemborg og var sungið af táningsstjörnunni France Gall. Hann hélt áfram að semja lög fyrir hana en lagið Les Succettes vakti mikla hneykslun þegar það kom út árið 1966. Unglingsstúlkan Gall var þar á yfirborðinu að syngja um stelpu sem hafði gaman að sleikibrjóstsykri en textinn er morandi í tvíræðni og vísunum í munnmök.
Stuttu síðar hóf hann ástarsamband við Brigitte Bardot, sem á þeim tíma var gift þýskum milljónamæringi. Hann tileinkaði henni plötuna og titillagið Initials B.B. en þau sungu dúett á nokkrum lögum plötunnar. Af þeim ber hæst Bonnie and Clyde, óður Gainsbourg og Bardot til glæpaparsins sem hafði verið gert ódauðlegt í samnefndri bíómynd ári fyrr. Það sem lyftir laginu upp á æðra plan er samt óaðfinnanlegur hljómurinn sem er langt á undan sinni samtíð, fiðlur og kassagítar eru notaðar sem ryþmísk hljóðfæri og gefa sándinu ákveðið þyngdarleysi og skrýtið óp er endurtekið í sífellu í gegnum lagið.
Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
3. Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
Mp3
4. Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
Gainsbourg hafði lag á því að vinna með framsæknum og hugmyndaríkum upptökustjórum og útsetjurum og margt af því sem hann gerði seint á sjöunda áratugnum og snemma á þeim áttunda hljómar einstaklega nútímalega. Lagið Requiem pour un con frá árinu 1968 sem er með stamandi bassalínu, hörðum trommutakti, mjúkum bongótrommum og nokkurs konar rappi frá Gainsbourg, sem hljómar t.d. ekki ósvipað því sem Massive Attack gerðu á sinni fyrstu plötu sem kom út 23 árum seinna.
Fordæmdur af Vatíkaninu
Árið 1968 við tökur á bíómyndinni Slogan kynntist hann Jane Birkin, 22 ára breskri leikkonu og fyrirsætu sem átti eftir að verða ástin og skáldagyðjan í lífi hans næstu 13 árin. Fyrsta kvöldið sem þau eyddu saman fór hann með hana á pöbbarölt um París þar sem þau stoppuðu á ýmsum klæðskiptingabörum og enduðu á Hiltonhótelinu þar sem maðurinn í afgreiðslunni spurði hann: „Sama herbergi og venjulega?“
Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime... moi non plus
5. Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime moi non plus
Mp3
6. Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime... moi non plus
Þau urðu óaðskiljanleg og ári síðar kom út lagið Je t’aime… moi non plus sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum og siðapostula vitlausa um alla Evrópu. Sögusagnir voru uppi um að stunurnar í laginu kæmu úr alvöru kynlífsleikjum parsins. BBC og ótalmargar útvarpsstöðvar bönnuðu það. Vatíkanið fordæmdi það. Gainsbourg naut athyglinnar og var nú loksins orðinn alþjóðleg poppstjarna. Breiðskífa með parinu, sem nefndist einfaldlega Jane Birkin/Serge Gainsbourg, kom út sama ár þar sem margt var um fína drætti en hún bliknar þó í samanburðinum við næsta óð Gainsbourg til Birkin sem kom út tveimur árum seinna.
Sagan um Melody Nelson
Serge Gainsbourg - Ballade de Melody Nelson
7. Ballade de Melody Nelson
Mp3
8. Serge Gainsbourg - Ballade de Melody Nelson
Gainsbourg fór til Bretlands ásamt útsetjaranum Jean-Claude Vannier og í slagtogi við færustu sessjónleikara Bretlands tókst þeim að töfra upp úr hatti sínum rokk-fönk-sinfóníu, Histoire de Melody Nelson, plötu sem hefur einstakan hljóm í poppsögunni og er ein af bestu plötum áttunda áratugarins.
Það sem drífur plötuna áfram er ótrúlega melódískur bassaleikur Herbie Flowers (sem ári síðar var ábyrgur fyrir bassalínunni í Take a Walk on the Wild Side með Lou Reed), og sögumaðurinn Gainsbourg sem talar, hvíslar og muldrar sig í gegnum söguþráð plötunnar sem snýst um þráhyggjukennda ást sögumannsins á Melody, 15 ára enskri rauðhærðri stelpu. Bassinn er fönkí, gítarinn er sækadelik, kór- og strengjaútsetningar mikilfenglegar og hugmyndaríkar og sjaldan hefur rokkhljóðfærum og sinfónískum útsetningum verið blandað saman á jafn smekklegan og frumlegan máta. Platan seldist nánast ekkert þegar hún kom út en er nú af mörgum talin hans besta plata og til að mynda Beck, Air, Tricky, Jarvis Cocker og Brian Molko eru miklir aðdáendur.
Serge Gainsbourg - Nazi Rock
9. Serge Gainsbourg - Nazi Rock
Mp3
10. Serge Gainsbourg - Nazi Rock
Næsta plata Gainsbourg kom út tveimur árum seinna og var allt öðruvísi, frekar lágstemmd akústísk plata en árið 1975 gaf hann út Rock Around the Bunker. Sú plata særði sómakennd margra en hún var innblásin af gamaldags rokki frá 6. áratugnum en fjallaði með svörtum húmor um nasista og seinni heimsstyrjöldina í stuðsmellum eins og Nazi Rock og S.S. in Uruguay. Árið 1976 gaf hann svo út aðra metnaðarfulla konsept plötu sem fjallar um dökka og forboðna ást, L’homme à tête de chou eða Maðurinn með kálhausinn. Í þetta skiptið er það exótísk fegurð hinnar svörtu Marilou sem heillar hinn truflaða sögumann en hann endar plötuna á geðveikrahæli eftir að hafa barið hana til dauða með slökkvitæki. Tónlistin, sem er ótrúlega fjölbreytt og framsækin, snertir meðal annars á rokki, diskói, fönki, reggí, djassi og afrískum ryþmum. Platan er ekki alveg jafn góð og Melody Nelson en er þó eitt besta verk Gainsbourg og verðskuldar meiri athygli en hún hefur fengið.
Franskt reggí
Sertge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
11. Serge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
Mp3
12. Serge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
Gainsbourg ferðaðist til Kingston á Jamaica árið 1978 og tók upp heila reggí plötu með goðsagnakennda ryþmaparinu Sly Dunbar og Robbie Shakespeare og bakraddasveit sem innihélt meðal annars eiginkonu Bob Marley, Ritu. Meðal laga á plötunni var reggíútgáfa af La Marseille, franska þjóðsöngnum sem átti eftir að valda gríðarlegu fjaðrafoki í heimalandinu þegar platan kom út. Hneykslið var á svipuðum skala og þegar Sex Pistols sungu God Save the Queen í Bretlandi. Gainsbourg fékk dauðahótanir frá þjóðernissinnum, í leiðara dagblaðs var lagt til að ríkisborgararéttur hans væri afturkallaður og mótmælendur mættu á alla tónleika hans þar sem hann kynnti plötuna. Honum tókst meira að segja að reita Bob Marley sjálfan til reiði þegar hann komst að því að Gainsbourg hafði látið eiginkonu hans syngja klámfengna texta í bakröddum á plötunni.
Sítrónusifjaspell
Eftir þrettán ára stormasamt samband fékk Jane Birkin loksins nóg af óútreiknanlegri hegðun og stanslausri drykkju Gainsbourg og yfirgaf ástmann sinn árið 1980, þá ólétt eftir annan mann. Gainsbourg brást við með enn meiri drykkju, var fastagestur í spjallþáttum í sjónvarpi á 9. Áratugnum og nánast undantekningalaust ölvaður að gera eitthvað af sér. Meðal þess sem hann náði að afreka í beinni útsendingu var að brenna 500 franka seðil (sem var ólöglegt á þeim tíma) og lýsa því yfir fyrir framan unga Whitney Houston að hann langaði til að sofa hjá henni. Hann sat fyrir í dragi á umslaginu fyrir Love on the Boat, hljóðgerfladrifinni poppplötu sem fjallaði að mestu um samkynhneigða karlmenn sem stunda vændi, en lagið Lemon Incest eða „Sítrónusifjaspell“ vakti þó mesta athygli. Í því syngur hann dúett með dóttur sinni, Charlotte, sem þá var 12 ára. Ef að lagið, umfjöllunarefnið og dóttur hans voru ekki nóg til þess að særa blygðunarkennd flestra sómasamra borgara var einnig gert myndband við lagið þar sem Gainsbourg og dóttur hans liggja fáklædd upp í rúmi og syngja til hvors annars.
Gainsbourg hafði um nokkurt skeið verið heilsulítill en 2. mars 1991 báru áfengi og tóbak loksins sigurorð af honum þegar hann lést í svefni á heimili sínu. Nicholas Godin úr hljómsveitinni Air sagði í viðtali við Guardian: „Þú getur spurt hvern sem er í París og hann man hvað hann hafði fyrir stafni er tíðindin bárust að Gainsbourg væri dáinn, þetta var það mikið áfall.“ Það var flaggað í hálfa stöng út um alla borg og þúsundir mættu í jarðarför hans. Viskíflöskur og Gitanes sígarettupakkar voru lögð sem virðingarvottur bæði við heimili hans og legstein. Áhrif hans á tónlistarheiminn verða seint ofmetinn en árið 2006 kom út platan Monsieur Gainsbourg Revisited, sem helguð var minningu hans. Þar fluttu listamenn á borð við Portishead, Franz Ferdinand, Cat Power, Jarvis Cocker og Micheal Stipe ábreiður af lögum hans. Textar hans hafa verið gefnir út í ljóðabókum og eru námsefni í háskólum í Frakklandi. Gainsbourg hafði óendanlega ástríðu fyrir áfengi, sígarettum og konum sem honum tókst að miðla á ótrúlega skapandi og ögrandi hátt í list sinni og ætti með réttu að teljast einn merkasti tónlistarmaður síðustu aldar.
Hljómsveitin Trails and Ways, sem kemur frá Oakland í Kaliforníu, sendi nýlega frá sér hið sumarlega lag Mtn Tune. Hljómsveitin er fjögurra manna og spilar tónlist með áhrifum frá heimstónlist, folk tónlist í bland við popp. Lagið var samið í fjallgöngu sem söngvari sveitarinnar – KBB fór í ásamt stúlku sem hann hafði lofað að verða ekki ástfangin af. En eins og lagið gefur til kynna var það loforð sem hann gat ekki staðið við. Hlustið á þetta sumarlag hér fyrir neðan helst út í sólinni.
Bandaríska hljómsveitin Grizzly Bear sendi í dag frá sér lagið Yet Again af væntanlegri plötu sinni Shields, sem kemur út 17. september. Þetta er annað lagið sem sveitin sendir frá sér af plötunni, það fyrsta var Sleeping Ute og kom út í júní. Hægt er að hlusta á lagið Yet Again hér fyrir neðan.
Tónlistarkonan Chan Marshall, betur þekkt undir listamannsnafninu Cat Power, gefur út sína 9. plötu – Sun þann 4. september næstkomandi. Platan er hennar fyrsta í sex ár sem inniheldur eigið efni. Árið 2006, stuttu eftir að hún sendi frá sér plötuna Jukebox, tilkynnti Cat Power um plötuna Sun, sem var þá öll samin. Síðan þá hefur ýmislegt gengið á í einkalífi Marshall sem hefur tafið upptökur á plötunni, m.a. stormasamt samband við leikarann Giovanni Ribisi, en eftir að því lauk snemma á þessu ári ákvað hún að drífa sig í studió til að klára plötuna. Á plötunni er talsvert meira um raftónlistar áhrif en á öðrum plötum Cat Power og hún notast mikið við tölvutrommur og hljóðgervla á henni. Hlustið á titillagið Sun og Manhattan hér fyrir neðan.
New York bandið Yeasayer sendi í dag frá sér tilkynningu þess efnis að hljómsveitin myndi næstu daga, senda frá sér mynbönd við öll lögin á væntanlegri plötu þeirra – Fragrant World, sem kemur út þann 21. ágúst. Myndböndin birtast á hinum og þessum tónlistarsíðum útum allt netið. Hægt er að hlusta á lögin Blue Paper, Regan’s Skeleton og Damaged Goods hér fyrir neðan. Vísbendingar um hvar lögin birtast er að finna á twitter síðu sveitarinnar.