Flestir sem séð hafa bandarísku kvikmyndina True Romance ættu að þekkja stefið sem er út alla myndina. Stefið heitir Your So Cool eftir hið fræga þýska kvikmyndatónskáld Hanz Zimmer. Hann byggir reyndar stefið á laglínu landa síns, Carl Orfs, úr kvikmyndinni Badlands eftir Terrence Malick frá árinu 1973. Sá byggir hins vegar á laginu Gassenhauer eftir enn eldri þjóðverja, lútuleikarinn Hans Neusiedler, og er frá árinu 1536. Hér fyrir neðan má heyra allar útgáfur af stefinu.
11 Lou Reed ábreiður
Lewis Allan Reed kvaddi þennan heim sunnudaginn fyrir viku 71. árs að aldri. Áhrif hans á tónlistarsögu og poppkúltur síðustu aldar verða seint vanmetin. Ritstjórar þessarar síðu hafa ósjaldan yljað sér við verk Reed í gegnum tíðina. Við minnumst þessa áhrifamikla tónlistarmanns með 11 frábærum ábreiðum af lögum hans sem sýna kannski best þau áhrif sem hann hafði á aðra listamenn á ferli sínum – Satellite’s gone up to the skies!
Morrisey -Satellite of love
Morrisey hefur aldrei farið leynt með hrifningu sína á Reed. Fyrir tveim árum breiddi hann yfir þetta einstaka lag sem kom út á Transformer árið 1972, á tónleikum sínum á Glastonbury hátíðinni..
Cowboy Junkies – Sweet Jane
Lou Reed lagði blessun sína yfir þessa mögnuðu útgáfu kanadísku hljómsveitarinnar Cowboy Junkies af laginu Sweet Jane sem upprunalega kom út á síðustu plötu Velvet Underground, Loaded, árið 1970. Útgáfan vakti mikla athygli árið 1995 í kvikmynd Oliver Stone, Natural Born Killers, í eftirminnilegri senu.
David Bowie & The Riot Squat – Waiting For The Man
Útgáfu fyrstu plötu Velvet Underground var seinkað vegna dómsmáls sem snerti umslag plötunnar. David Bowie fékk eintak gefins frá umboðsmanni sínum áður en það gerðist en sá hafði fengið plötuna afhenta í ferð sinni til New York árið 1966. Bowie var svo hrifinn af því sem hann heyrði að hann gaf út lagið Waiting For The Man af plötunni með hljómsveit sinni The Riot Squat áður en Velvet höfðu náð að leysa úr lagaflækju sinni sem gerðist ári seinna.
Nirvana – Here She Comes Now
Velvet Underground platan White light/White heat var ein af uppáhalds plötum Kurt Cobain. Árið 1991 gaf hljómsveit hans Nirvana út sameiginlega 7 tommu með Melvins þar sem þeir breiddu yfir Here She Comes Now af plötunni og Melvins – Venus In Furs.
Big Star – Femme Fatale
Hljómsveitin Big Star með Alex Chilton í broddi fylkingar tók lagið Femme Fatale á sinni fyrstu plötu Third/Sister Lovers árið 1978.
The Runaways – Rock ‘N Roll
Eitt af þekktari lögum stúlkna bandsins The Runaways var ábreiða þeirra af Velvet Underground laginu Rock ‘N Roll sem þær gerðu svo sannarlega að sínu.
The Strokes – Walk On The Wild Side
Áhrif Lou Reed á New York hljómsveitina The Strokes á þeirra fyrstu plötu Is This It? eru augljós. Það kom þvi kannski fáum á óvart þegar að hljómsveitin sýndi fyrirmynd sinni þann heiður að breiða yfir lag hans Walk On The Wild Side á tónleikum árið 2006 með afslöppuðum og skemmtilegum hætti.
Twin Shaddow – Perfect Day
Fljótlega eftir að fréttir þess efnis að Lou Reed væri allur tóku að berast fóru tónlistarmenn útum víða veröld að sýna honum virðingu sína með ábreiðum af lögum hans. Twin Shaddow sendi frá sér þessa drungalegu útgáfu af heróín laginu Perfect í byrjun síðustu viku.
The Kills – Pale Blue Eyes
Fyrir tveim árum gáfu breska tvíeykið The Kills út þessa frábæru útgáfu af laginu Pale Blue Eyes af samnefndir plötu Velvet Underground frá árinu 1969.
Rainy Day – I’ll Be Your Mirror
Hljómsveitin Rainy Day var einhverskonar stjörnuband meðlima hljómsveita úr Paisley Underground senunni í Kaliforníu um miðjan 9. áratuginn. Hljómsveitin gaf út eina plötu sem var safn laga hljómsveita sem höfu haft áhrif á senuna. Þar á meðal var þessi yndislega útgáfa þeirra af laginu I’ll Be Your Mirror af fyrstu plötu Velvet.
Emiliana Torrini – Stephanie Says
Þessi magnaða útgáfa Emiliönu af Stephanie Says kom út á plötu hennar Merman frá árinu 1996. Þó hún vilji ekki mikið kannast við þessa plötu í dag (hún hefur aldrei endurútgefið hana fyrir erlendan markað) þá er þessi ábreiða nóg til að réttlæta tilveru hennar.
Óli Dóri
Tónleikahelgin
Svona stuttu eftir Airwaves er líklega nokkur þreyta í flestum tónlistarmönnum landsins og tónleikahald því með rólegra móti þessa helgi. En það er þó alltaf eitthvað og það er hérmeð tekið saman.
Fimmtudagur
Sálarsveitin Moses Hightower fagnar útgáfu plötunnar Mixtúrur úr Mósebók en á henni er að finna 16 endurhljóðblandanir eftir valinkunna listamenn af lögum af Annarri Mósebók, síðustu breiðskífu þeirra. Í tilefni útgáfunnar verður haldið hlustunarteiti í plötubúðinni Lucky Records þar sem platan mun óma og boðið verður upp á léttar veitingar, en gleðin hefst klukkan 20:00.
Hljómsveitin Slow Mountains verður með tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.
Föstudagur
Hið mánaðarlega jaðarkvöld kaffi Hressó heldur áfram
og nú er komið að Oyama og Knife Fights. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og aðgangur er ókeypis.
Hljómsveitirnar Vintage Caravan, Nykur og Conflictions koma fram á Gamla Gauknum. Hurðin opnar klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.
Laugardagur
Haldnir verða tónleikar á Gamla Gauknum til heiður Black Sabbath þar sem verður breytt yfir helstu smelli sveitarinnar. Heiðurssveitina skipa Jens Ólafsson (Brain Police), Franz Gunnarsson (Ensími / Dr. Spock), Flosi Þorgeirsson (HAM) og Birgir Jónsson (Dimma / Skepna). Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og miðaverð er 1500 krónur í forsölu en 2000 krónur við hurð.
Nýtt lag frá Bombay Bicycle Club
Það var kominn tími til að indí sveitin Bombay Bicycle Club léti í sér heyra. Ekkert nýtt efni hefur komið frá þeim félögum síðan 2011 þegar þriðja plata þeirra A Different Kind Of Fix kom út. Sveitin vinnur hins vegar nú að sinni fjórðu breiðskífu og hefur fyrsta smáskífan fengið að líta dagsins ljós. Lagið ber titilinn „Carry Me“ og á samkvæmt meðlimum að marka breytingu á tónlistarstefnu bandsins. Lucy Rose sem áður hefur sungið með hljómsveitinni á heiðurinn að lofkenndri bakrödd í laginu. Einnig fylgir útgáfu lagsins frumlegt myndband sem sjá má hér.
Útgáfutónleikar Skúla mennska í kvöld
Þann 6. október lék Skúli mennski fagra tóna fyrir góða gesti á Café Rosenberg ásamt fríðum hópi. Herlegheitin voru hljóðrituð og enda nú á fjórðu breiðskífu Skúla sem hefur hlotið hið frumlega nafn “Tónleikar á Café Rosenberg”. Það er því ekki annað við hæfi en að endurtaka leikinn og fagna plötunni með útgáfutónleikum á sjálfum Café Rosenberg í kvöld klukkan 21:00. Miðaverð inn er 2000 kr.
Ekki er hægt að útiloka það fyrirfram að óvæntar uppákomur eigi sér stað á kvöldi þessu en það telst víst að allir muni skemmta sér sem Kóngar væru.
Hér er lagið Á hvítum hesti af plötunni
Broken Bells með lag af væntanlegri plötu
Broken Bells tvíeykið staðfesti nýlega útgáfu plötunnar After the Disco sem kemur út í janúar á næsta ári. Síðan þá hafa þeir félagar James Mercer og Danger Mouse sem skipa sveitana sent frá sér trailer og sjö mínútna stuttmynd í tilefni útgáfunnar. Nú hefur fyrstu smáksífunni verið gefið líf og kallast hún „Holding On For Life“.
Lagið er í léttari kantinum miðað við innihald fyrri plötu sveitarinnar sem kom út 2010. Fönkaður bassataktur og 80‘ synthatónar gefa góð fyrirheit um það sem koma skal á væntanlegri plötu.
Laugardagskvöldið á Airwaves
Hypemaður Mykki Blanco í miklu stuði. Mynd: Óli Dóri.
Eftir þriggja daga tónleikastand er maður orðinn pínu lúinn en ég náði þó að koma mér út úr húsi til að sjá kanadíska gítarpopparann Mac DeMarco í Stúdentakjallaranum klukkan 18:30. Tónleikarnir voru hreinlega frábær skemmtun og skrifast það ekki síst á einstaka útgeislun og persónutöfra listamannsins. Tónlistin er undir talsverðum áhrifum frá svokölluðu pabbarokki úr ýmsum áttum, smá Springsteen og Fleetwood Mac, með háum og tærum gítarhljóm sem minnir talsvert á Dire Straits. Það eru samt fullt af vinstri beygjum í tónlistinni og Mac tók sig alls ekki alvarlega, tók oft örstuttar kover útgáfur af lögum eins og Cocain með Clapton og Du Hast með Rammstein. Frábær byrjun á kvöldinu.
Pabbarokk og Lion King
Ég sá Nolo í annað skiptið á hátíðinni í Listasafninu og þeir eru líklega með skemmtilegri live böndum á Íslandi í dag. Eins og ég sagði í fyrri umfjöllun þá kemur nýja tónleikauppsetningin þeirra með trommara og fleiri hljóðfærum mjög vel út og ljær eldri lögum þeirra ferskan blæ. Mér fannst Mac DeMarco svo góður í stúdentakjallaranum að ég sá hann svo aftur í Hörpunni þar sem hann fór á kostum í galsafengnum flutningi. Í síðasta laginu sem er rólega ástarballaða, þar sem viðlagið er stolið úr Lion King laginu, tók hann skyndilega óvænt tilhlaup og stökk út í salinn til að sörfa áhorfendur.
Kynhlutverkum rústað með rappi
Þvínæst var haldið yfir í Hafnarhúsið til að sjá transrappgelluna Mykki Blanco sem var pönkaðasta og skrýtnasta atriðið sem ég sá á þessari hátíð. Á undan henni kom hypemaður á sviðið sem tók hlutverk sitt mjög alvarlega. Hann rappaði yfir rokkuð bít í nokkur lög og hljóp og hoppaði villt og galið út í sal og kom öllum í mikið stuð. Síðan steig Mykki á svið og framkoman braut öll viðmið um kynhlutverk, rappmenningu og transfólk. Hún var ber að ofan í rifnum gallabuxum með skraut á geirvörtunum og hárkollu. Þá hafði hún með sér ladyboy plötusnúð í magabol sem dansaði skemmtilega. Hún er frábær rappari og lögin voru mjög fjölbreytt, allt frá hörðum töktum og macho rappi yfir í persónuleg slam ljóð án undirspils. Hún fór fram yfir tímann sinn og undir lokin var köttað á hljóðið en hún lét það ekki stoppa sig ég hélt áfram að rappa a capella og hoppaði síðan út í sal við dúndrandi lófaklappa áhorfenda. Þetta var upplifun ólík nokkru öðru á hátíðinni og flutningur á heimsmælikvarða.
Dúndrandi klúbbastemmning í Silfurbergi
Eftir transrappið var förinni heitið í Hörpu þar sem breski raftónlistarmaðurinn Jon Hopkins var að koma sér fyrir í Silfurbergi. Það var mesta klúbbastemmning hátíðarinnar og dúndrandi tekknóið hafði líkamleg áhrif á áhorfendur. Bassinn var svo djúpur að þú fannst fyrir honum innvortis og settið var fullt af útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum. Silfurberg umbreyttist í risastóran næturklúbb og þó að flutningurinn væri kannski ekki mikið fyrir augað – Hopkins var bara einn á bakvið tölvu og tæki – þá heyrðirðu að það var greinilega mannshönd sem stýrði þessu og fokkaði í hljóðunum live.
Töffaralegt tæknirokk
Næst náði ég nokkrum lögum með Hermigervli á troðpökkuðum Harlem og salurinn ætlaði að tryllast í grýluslagaranum Sísí og Yamaha Yoga. Síðasta atriði sem ég sá var svo Captain Fufanu í Þjóðleikhúskjallaranum. Síðast þegar ég sá þá voru þeir bara tveir að fikta í hljómborðum og græjum en nú hafa þeir bætt við sig trommara, Gísla Galdri sem sá um raftól, og svo spila þeir sjálfir á gítar, trompet og syngja. Þetta kom mér skemmtilega á óvart og fyrrum tekknónördarnir umbreyttust í hálfgerðar rokkstjörnur með frábærum gítarstælum og töffaralegri sviðsframkomu.
Laugardagskvöldið toppaði fyrri daga hátíðarinnar og að sjá Mac DeMarco, Mykki Blanco og Jon Hopkins í röð var hápunktur hátíðarinnar fyrir mig. Að vera svo á leiðinni á Kraftwerk í kvöld er bara rjómi.
Davíð Roach Gunnarsson
Föstudagskvöldið á Airwaves
Mynd: siggi
Ég hóf leikinn á föstudeginum með því að sjá eins manns sveitina M-Band á Skuggabarnum við Hótel Borg. Ég hafði þó séð hann áður á hátíðinni því þessi fjölhæfi tónlistarmaður kom einnig fram með Nolo og Tonik. Hann leikur framsækið rafpopp og kemur fram með risastórt hlaðborð af alls konar tækjum og tólum og gaman að segja frá því að engin tölva var þar á meðal. Mér finnst eins og það sé langt síðan ég sá síðast performans hjá raftónlistarmanni þar sem engin Apple tölva er í augsýn. Hann var líflegur á sviðinu þar sem hann djöflaðist í græjum og söng og settið var skemmtilegt en þó stutt, og það hefði verið gaman að sjá fleiri í salnum.
Ferðinni var svo haldið í Hörpu þar sem ég hafði heyrt góða hluti um norsku sveitina Electric Eye. Þeir léku sýrulegna sækadelíu, mestmegnis án söngs, og náðu góðu flugi í löngum spunaköflum og framsæknum hljóðpælingum. Ég sótti síðan tónleika múm í Fríkirkjunni en þar náði röðin heilan hring í kringum bygginguna. Mikilfengleg kirkjan rammaði inn frábæra frammistöðu og lágstemmt rafpoppið töfraði safnaðarmeðlimi upp úr spariskónum.
Hugvíkkandi Hljóðsúpa
Úr Fríkirkjunni hjólaði ég beinustu leið yfir í Hörpu þar sem John Grant kom fram ásamt hljómsveit sinni. Ég hafði verið i mikilli varnarstöðu gagnvart honum sem tónlistarmanni vegna þrálátrar mótþróaröskunar og yfirgengilegrar ástar alls landsins á þessum mesta íslandsvini síðari tíma. En hann náði að vinna mig á sitt band með frábærum tónleikum í sumar og hann sveik engan í Silfurbergi þetta kvöld. Hljómsveitin er þrusuþétt og hann er einstaklega karismatískur frontmaður. Nýja efnið hans er þó er sérstöku uppáhaldi hjá mér, enda pródúserað af Bigga Veiru úr Gus Gus og hljómurinn minnir um margt á þá frábæru sveit.
Eftir það hélt ég yfir í Norðurljósasalinn þar sem sænska sækadelik-hljómsveitin Goat kom fram. Þau voru eitt af þeim böndum sem ég var hvað spenntastur fyrir og stóðu undir öllum mínum væntingum. Þau blanda alls kyns afrískum áhrifum og rokki í hugvíkkandi hljóðsúpu og koma fram með grímur í einhvers konar töfralæknabúningum. Söngkonurnar tvær frömdu magnaðan galdur og dönsuðu um allt sviðið auk þess sem lyfjuðu myndbandi var varpað á vegginn fyrir aftan þau. Þetta minnti helst á einhvers konar trúarathöfn hjá frumstæðum ættbálki og var feikilega fínt heppnað.
Besti söngvarinn á ballinu
Eftir frábæra tónleika Goat kom síðan annar hápunktur strax á eftir í formi kanadíska söngvarans Sean Nicholas Savage. Hann kom fram ásamt einum hljómborðsleikara og spilaði lo-fi popp í anda 9. áratugarins, mörg lögin voru í grunninn hálfgerðar “prom” ballöður. Hann er hreint út sagt frábær söngvari og nánast reif út eigið hjarta og matreiddi fyrir áhorfendur, svo tilfinningaþrunginn var flutningurinn.
Eftir þessa tvo framúrskarandi tónleika náði ég í skottið á harðkjarnabandinu Fucked Up sem voru afskaplega líflegir á sviði en aðallega utan þess. Söngvari sveitarinnar var greinilega með mjög langa míkrafónsnúru því hann hljóp salinn á enda og dansaði við áhorfendur og krádsörfaði af miklum móð. Tónlistin þeirra er ekki alveg mín ella en spilagleðin og krafturinn voru smitandi. Til að loka kvöldinu sótti ég svo tónleika Sykurs í þjóðleikhúskjallaranum sem settu allt í botn og keyrðu á trylltum dansi inn í nóttina.
Þriðja kvöldið á Airwaves var það besta hingað til og Goat og Sean Nicholas Savage eru toppar hátíðarinnar hjá undirrituðum. Umfjöllun straums um fyrstu tvö kvöldin má lesa hér og hér.
Davíð Roach Gunnarsson
Annað kvöldið á Airwaves
Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson
Eftir að hafa skilað af mér airwaves-grein gærdagsins hjólaði ég beinustu leið í Norræna húsið til að sjá kammerpoppsveitin Útidúr. Þau voru í feiknaformi í sal sem að hæfði þeim vel og hljómmikill flygill hússins kom sterkur inn. Þau léku aðallega nýlegt efni af væntanlegri plötu og lögin eru stór og metnaðarfull með flóknum útsetningum og kaflaskiptingum.
Næst sá ég Grísalappalísu sem ég sá einnig kvöldið áður í Hafnarhúsinu en í þetta skiptið léku þeir í plötubúðinni 12 tónum á Skólavörðustíg. Hljómsveitin stóð sig vel í Hafnarhúsinu en það var samt ennþá skemmtilegra að sjá þá í þessu agnarsmáa rými þar sem hljómsveitin var nánast ofan í áhorfendum. Söngvarinn Gunnar Ragnarsson var sem andsetinn í framkomu, eldrauður í framan öskrandi af lífs og sálarkröftum og nýbylgjudansaði fram og aftur eins og flogaveikur hani.
Þá var leiðinni haldið í kjallara 11-unnar en þegar ég mætti voru brimrokkararnir í Gang Related að hamra úr sér hjörtun í kröftugum gítarkafla. Þeir hafa bætt við sig nýjum meðlimum og skarta nú þremur gítarleikurum sem mynduðu kröftugan vegg í mestu rokkköflunum og spilagleðin lak af hverri einustu nótu.
Hellismannarokk og naumhyggjudraumur
Fyrsta hljómsveitin sem ég sá á opinberu dagskránni var bandaríska indíbandið Caveman sem góður rómur hafði verið gerður að fyrir hátíðina. Þeir voru smekklega klæddir og spiluðu einstaklega vandað og grípandi indírokk, sveifluðust frá angurværum ballöðum yfir í rokkaða slagara án þess að missa takt á milli.
Þvínæst sá ég Hjaltalín í Silfurbergssal Hörpu fremja kynngimagnaðan seið. Sveitin nánast enduruppgvötaði sig á sinni síðustu plötu, Enter 4, og tóku aðallega efni af henni. Þau hentu út hálfu sinfóníuhljómsveitinni sem hafði spilað á síðustu plötu og gerðu eins og margir aðrir á undan þeim, meira úr minna. Sá hljóðheimur skilaði sér frábærlega í Silfurbergi á þessum tónleikum, meiri botn en toppur, nýklassík en kammer, mínímalismi þar sem hvert hljóð fær nægilegt rými til að anda. Söngvararnir Högni og Sigríður stóðu sig með mikilli prýði og samsöngur þeirra var sérstaklega draumkenndur og dáleiðandi í laginu Letter To[…].
Andhetjugítarsóló
Síðasta atriði kvöldsins var svo goðsagnakennda indíbandið Yo La Tengo. Þau voru þrjú og róteruðu reglulega milli hljóðfæra og skiptust einnig á að syngja. Í settinu var talsvert um róleg og þjóðlagaskotin lög, oft án tromma, þar sem raddir voru meira hvíslaðar en sungnar. Þess á milli brast svo á með reffilegu rokki og surgandi rafmagnsgítarfimleikum sem voru skemmtilega óhefðbundnir, eins konar andhetjusóló í anda Sonic Youth. Þá voru einstaka lög fönkí á lágstemmdan hátt, með skoppandi hljómborðum og falsettusöng. Sumt var frábært en annað ekki jafn gott, og ég get ekki neitað því að það hefði verið gaman að heyra aðeins meira efni af plötunum I Can Hear the Heart Beating as One og And Then Nothing Turned Itself Inside-Out sem eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum.
Eftir Yo La Tengo var haldið beinustu leið í háttinn þar sem allir þurftu að vakna snemma til að fara í Kraftwerk-röð í dag. Heilt yfir var annað kvöldið á Airwaves stórvel heppnað og ég er búinn að sjá fullt af frábærum tónleikum þrátt fyrir að að hátíðin sé bara tæplega hálfnuð.
Davíð Roach Gunnarsson
Undiröldubátur við Hörpu
Undiraldan er tónleikaröð Hörpu í samstarfi við 12Tóna. Á Iceland Airwaves verður metnaðarfull off-venue dagskrá í húsinu á þremur stöðum: Fyrir framan 12Tóna á jarðhæð, á Kolabrautinni á fjórðu hæð og á föstudegi og laugardegi verður sérstakur Undiröldubátur við höfnina hjá Hörpu. Anna Margrét Björnsson sem heldur utan um dagskrána ásamt Eddu Magnúsdóttur segir að báturinn tákni Kjölfar Airwaves en eins og allir vita þá komi allt alltaf í kjölfar Airwaves, bæði góðir hlutir og slæmir. Við höfnina verður boðið upp á kakó og Grand Marnier til að hlýja tónleikagestum. Sumar hljómsveitirnar koma ekki fram á Airwaves dagskránni heldur aðeins á þessari off-venue Hörpu. Meðal þeirra sem koma framá Undiröldunni eru Apparat Organ Quartet, Ghostigital, Singapore Sling, Oyama, Grísalappalísa, Muck, Mr.Silla og Hudson Wayne. Aðgangur er ókeypis.
Fimmtudagur
kolabrautin
14.00-14.30 M-BAND
14.45-15.15 FURA
15.30-16.00 GOOD MOON DEER
16.15-16.45 GHOSTIGITAL
12 tónar Harpa
17.00-17.30 CAPTAIN FUFANU
17.45-18.15 OMHOUSE (CA)
18.25-18.55 MOON KING (CA)
19.10-19.40 OYAMA
Föstudagur
kolabrautin
14.00-14.30 PALL IVAN
14.45-15.15 MUCK
15.30-16.00 PINK STREET BOYS
16.15-16.45 DREAM CENTRAL STATION
12 tónar Harpa
17.00-17.30 ELECTRIC EYE (NO)
17.45-18.15 APPARAT ORGAN QUARTET
18.30-19.00 SINGAPORE SLING
Undiröldubátur
16.30-17.00 JARA
17.15-17.45 ÞÓRANNA BJÖRNSDÓTTIR / TROUBLE
18.00-18.30 TBA special surprise
Laugardagur
12 tónar Harpa
12.30-13.00 GRÍSALAPPALÍSA
13.15-13.45 AMFJ
14.00-14.30 SHINY DARKLY (DK)
14.45-15.15 CARMEN VILLAIN (NO)
15.30-16.00 OLÉNA (FR)
16.15-16.45 DIANA (CA)
Undiröldubátur
16.30-17.00 FOR A MINOR REFLECTION
17.15-17.45 HUDSON WAYNE
18.00-18.30 MR.SILLA (solo set)