Fimmtudagskvöldið á Iceland Airwaves

Mynd: Florian Trykowski

Annan daginn á Airwaves reif ég mig upp upp úr hádegi og hélt á Airwaves Off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís. Þar plantaði ég mér á stól og sat það sem eftir lifði dags. Það fyrsta á dagskránni var einyrkinn Laser Life. Hann kom fram með barítóngítar, synþa, tölvu og helling af pedölum og dúndraði út rokkaðri Nintendótónlist. Af mörgum fínum dráttum var sérstaklega ánægjulegt hvernig gítarinn kallaðist á við hljómborðslínuna í Castle. Eins og fullkominn bræðingur af megaman og guitar hero.

 

Gunnar Jónsson Collider spilar nokkurs konar skynvilluraftónlist og hóf leikinn á drunum og óhljóðum. En síðan kikkaði bítið sem minnti talsvert á Boards Of Canada. Gunnar virðist sæka innblástur í 90’s gáfumannaraftónlist og þegar best tekst upp nær hann að miðla anda sveita eins og Autechre, Future Sound Of London og Aphex Twin. Næst á svið var danska sveitin Sekuoia sem ég hafði aldrei heyrt áður. Hún er skipuð tveimur gaurum sem eru með lagar af tækjum og tólum sem ég kann ekki að nefna og spila einnig á gítar og hljómborð.

 

Engin apple tölva í augsýn

 

Tónlistin sem þeir framreiddu var léttpoppað elektró með mjög smekklegum taktpælingum. Þrátt fyrir að vera að syngja ekki notuðustu þeir meikið við radd sömpl, sem þeir oft “spiluðu” á með því að berja trommukjaða í rafgræju. Þetta var flauelsmjúkt og nálgunin skemmtilega “hands on”, þeir snertu ekki tölvu allan tímann.

 

Raftónlistarmaðurinn Tonik notast heldur ekkert við tölvu í sínum flutningi en hann byrjaði settið sitt á djúpum bassadrunum áður en takturinn kikkaði inn. Hann spilaði melódískt og dáleiðandi tekknó, með alls konar míkrótöktum og mögnuðum uppbyggingum og tilheyrandi sprengingum. MSTRO kom fram með gítar og tölvu og spilaði framsækið indípopp með mjög áheyrilegum söng. GKR sló svo botninn í dagskrána í Bíó Paradís og fékk allan salinn til að hoppa með sér við slagarann Morgunmat.

 

On-Venue dagskrána hóf ég svo í Hafnarhúsinu þar sem Sykur voru í rokna rafsveiflu að flytja slagarann Strange Loops. Þau tóku einni talsvert af nýju efni og söngkonan Agnes bauð upp á mikla flugeldasýningu í raddbeitingu, fór á kostum í bæði söng og rappi. Þvínæst var haldið á Gauk Á Stöng þar sem ég náði rétt svo í skottið á Just Another Snake Cult áður en spænska stelpubandið Hinds steig á stokk. Þær voru þrusuþéttar og spiluðu poppað gítarpönk með keim af motown og 60’s stelpuböndum.

 

Mellur og Messías Fönksins

 

Í Hörpunni sá ég svo gamla póstpönkbandið The Pop Group. Þeir renndu beint í sinni helsta slagara, We Are All Prostitutes, og rokkuðu af firnakrafti miðað við aldur og fyrri störf. Tónlistin rambar á barmi pönks og fönks og söngvarinn er með svipaða hugmyndafræði í raddbeitingu og Mark E Smith, talar, öskrar og röflar í míkrafóninn. Hann mætti líka með gjallarhorn. Fimm stjörnur á það. En ég náði bara rúmum tíu mínútum því leið mín lá á LA Priest í Gamla Bíói. Hann var klæddur í hvít silkináttföt og fönkaði eins djúpt og hvítum manni er unnt. Vopnaður gítar, hljómborði og vörulager af raftólum spilaði hann tilraunakennt bútasaumsfönk sem fékk alla til að dilla sér. Á einum tímapunkti samplaði hann meira að segja krádið og bjó til bít úr því live. Maðurinn er spámaður grúvsins og fönk á færibandi. Lof sé honum og dýrð.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrsti í Airwaves

Mynd: Erki Luiten

Ég hóf minn fyrsta í Airwaves áður en ég náði í armbandið á off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís. Þar sá ég dúett Loga og Júlíu, Wesen, framleiða fallegt trip hop með ómstríðri áferð þar sem raddir þeirra kölluðust á. Ég hef séð Just Another Snake Cult ótal sinnum áður það er einhvern veginn aldrei eins. Tónlistin hans er losaraleg í besta mögulega skilningi þess orðs, margir mismunandi partar sem rétt svo hanga saman. Eins og bútasaumsteppi sem er næstum rifnað í sundur en það er bara svo indælt að vefja því utan um sig. Rödd Þóris fer um víðan völl og dansar oft á barmi þess að vera fölsk eða úr takti, en það gengur bara allt upp. Fegurðin í ófullkomleikanum og skipulagið í óreiðunni er í hárréttum hlutföllum. “Aint nobody that can sing like me” syngur hann, meinar, og hefur algjörlega rétt fyrir sér.

 

Næstur á svið var bandaríkjamaðurinn Offlove sem kom fram með hvíta gardínu fyrir andlitinu. Hann söng nútímalegt R’n’B með alls konar raddeffektum og tilheyrandi átótúni og hélt uppi ágætis dampi. Þá var röðin komin að Miri sem grúvuðu sem mest þeir máttu með djössuðu instrumental gítarrokki. Þá var leiðinni haldið á Bar Ananas þar sem Jón Þór indírokkaði af sér endaþarminn með hressilega 90’s rokkinu sínu. Ef heimurinn væri sanngjarnari en hann er væri Stelpur einn stærsti smellur landsins í ár.

 

Ríðandi hæpinu

 

Það fyrsta sem ég sá á alvöru dagskránni voru Vaginaboys á Húrra. Þeir voru fjórir á sviðinu að þessu sinni og grímuklæddir eins og þeirra er von og vísa. Þeir verða alltaf betri og öruggari á sviði og 808 trommutakturinn í Elskan af því bara stakk mig í hjartað eins og ísnál. Hinn ungi og knái rappari GKR steig næstur á svið og það var unun að horfa á hann. Það er ómetanlegt að sjá ungan listamann í fyrsta skiptið póst-hæp, drekka það í sig, umvefja sig í því, riðlast á því, og spíta því öllu til baka í krádið.

 

Að GKR loknum hélt í áfram í hip hoppinu og fór yfir á Iðnó til að sjá Kött Grá Pé. Ég hreinlega þori ekki að skrifa hér allt hómóerótíska sjittið sem ég krotaði í nótbúkkið mitt. En maðurinn er skokkandi, hoppandi, rappandi kynlíf í föstu formi. Þvílíkt flæði. Hvílíkt hár. Orkan á sviðinu var mæld í tregawöttum og ekki beisluð af neinu stórfyrirtæki.

 

Magavöðva-swaggin’

 

Þetta var kvöld íslenska hipp hoppsins og endurkomu Nasa á Airwaves og þangað hélt ég til að sjá Gísla Pálma. Plötusnúður með klút fyrir andlitinu var fyrstur á svið og hann spilaði platínuhart trap til að hita mannskapinn upp fyrir GP. Hann mætti loks með swaggið sitt og magavöðvana og troðpakkaður Nasa ærðist. Svitinn drap af hverju strái og æstir aðdáendur öskruðu alla textana utan að. Tiny mætti og myrti versið sitt í 5 AM og allt var skrúfað upp í ellefu.

 

Þá var röðin komin að Retro Stefson en fátt skilgreinir Airwaves meira fyrir mér en sú hljómsveit á Nasa. Þau mættu með fullt af nýju efni í farteskinu og dansfönkrokkuðu þakið af Nasa-nu. Þá ætlaði allt að verða vitlaust þegar þau skelltu í eldri slagara eins og Sensení og Hermigervill tók Higher State Of Consciousness útúrdúr. Frábær botn í fyrsta kvöld af fimm. Fylgist með á straum.is næstu daga fyrir daglegar fréttir af hátíðinni. Verið hress. Verið mjöööööög hress.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Erlent á Airwaves 2 – Straumur mælir með

 

Braids

Tilraunakennt skrýtipopp frá indíhöfuðborg heimsins, Montreal í Kanada. Koma fram á Straumskvöldinu á Nasa á föstudagskvöldið klukkan 22:00.

 

Hot Chip

Spjátrungspoppararnir og raðíslandsvinirnir í Hot Chip svíkja engan á tónleikum og hafa aldrei misst dampinn á rúmlega áratugarferli. Þeir færðu okkur nýlega þetta meistaralega cover/mashup af Bruce Springsteen og LCD Soundsystem og við erum ægispenntir að sjá það live. Þeir koma fram á lokatónleikunum í Vodafone höllinni klukkan 10:20.

Uppfært: Í gær sögðum við að það þyrfti sérstakan miða á lokatónleikana í Vodafone höllinni. Það er helbert kjaftæði og einungis leiður misskilningur af okkur hálfu sem við biðjumst velvirðingar á. Þannig bara allir verða kátir í höllinni. 

 

LA Priest 

Hinn breski Sam Dust var áður í fyrrum airwaves spilandi bandinu Late Of The Pier en hefur nú farið sinn eigin veg í rafsækið og léttgeggjað tilraunafönk. LA Priest kemur fram í Gamla Bíói klukkan 00:20 eftir miðnætti á fimmtudagskvöldinu.

 

Hinds

Fjórar spænskar stelpur sem framleiða bílskúrsrokk af fáheyrðum sjarma. Minnir á amerískar lo-fi gítarhetjur eins og Mac Demarco og Best Coast. Þær spila á Gauknum klukkan 10:20 á fimmtudagskvöldinu og Sólon Bistro klukkan 19:00 á föstudagskvöldinu.

 

Beach House 

Draugalega draumapoppið þeirra þarfnast engrar frekari kynningar en við kynnum það bara samt. Það eru fáar sveitir í dag sem hafa afrekað það að gefa út tvær frábærar breiðskífur á jafn mörgum mánuðum eins og Beach House gerðu rétt í þessu. Þau spila í Silfurbergssal Hörpu klukkan 22:10 á laugardagskvöldinu.

 

Sophie

Í síðustu grein mæltum við með QT en hinn breski Sophie er félagi hans í hinni svokölluðu PC Music stefnu og gaf út eitt besta lag ársins 2013 að mati ritstjórnar Straums. Hann kemur fram klukkan 02:10 eftir miðnætti á laugardagskvöldinu á Nasa.

Iceland Airwaves dagskrá Straums

 

Sautjánda Iceland Airwaves hátíðin hefst á morgun og eins og undanfarin ár verður Straumur með víðtæka umfjöllun um hátíðina í útvarpinu og á vefnum, bæði fyrir og meðan á henni stendur. Í ár eins og í fyrra verður Straumur einnig beinn þátttakandi í hátíðinni sjálfri og stendur fyrir bæði off- og on venue dagskrá. Föstudagskvöldið á Nasa koma í okkar nafni fram sveitir eins og Vaginaboys, Braids, Fufanu og H09909 og alla daga frá miðvikudegi til sunnudags verður Off-Venue dagskrá í Bíó Paradís, yfirleitt frá hádegisbili fram að kvöldmatarleiti. Hér að neðan má sjá dagskrána á Nasa og Bíó Paradís og fylgist svo með á Straum.is fyrir daglega umfjöllun um hátíðina meðan á henni stendur.

 

Nasa, föstudagskvöldið 6. nóvember:

 

8:00 PM

VAGINABOYS

9:00 PM

PRESIDENT BONGO – SERENGETI

10:00 PM

BRAIDS (CA)

11:00 PM

FUFANU

12:00 AM

BATIDA (PT)

1:20 AM

HO99O9 (US)

2:20 AM

INTR0BEATZ

 

Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís:

 

Miðvikudagur 4. nóv

 

12:00: Morning Bear (US)

13:00: One Week Wonder

14:00: Rythmatik

15:00: Wesen

16:00: Just Another Snake Cult

16:30: Næsarinn presents: Mild Fantasy Violence – a fine arts extravaganza (Opnun á listasýningu)

17:00: O f f l o v e (US)

18:00: Miri

 

 

Fimmtudagur 5. nóv

 

13:00 Laser Life

14:00 Gunnar Jónsson Collider

15:00 Sekuoia (DK)

16:00 Tonik Ensemble

17:00 MSTRO

18:00 GKR

 

 

Föstudagur 6. nóv

 

12:00: Sveinn Guðmundsson

13:00: Skelkur í Bringu

14:00: Hey Lover (US)

15:00: Máni Orrason

16:00: Antimony

16:30: Næsarinn presents: Mild Fantasy Violence – a fine arts extravaganza (Opnun á listasýningu)

17:00: Sykur

18:00: Agent Fresco

 

 

Laugardagur 7. nóv

 

14:00: Helgi Valur

15.00: Sumar Stelpur

16:00 Jón Þór

17:00: Bárujárn

18:00 Oyama

 

sunnudagur 8. nóv

 

15:00 The Anatomy of Frank (US)

16:00 Sturle Dagsland (NO)

Síðasti Airwaves þátturinn í kvöld

Fjórði og síðasti þátturinn þar sem Straumur hitar upp fyrir Airwaves verður á dagskrá á X-inu 977 í kvöld frá 22:00 – 0:00. Birt verður viðtal við Hot Chip, Justman, Kött Grá Pjé og Lord Pusswhip kíkja í heimsókn, auk þess sem gefinn verður miði á hátíðina. Þátturinn sem er í umsjón Óla Dóra mun fjalla um alla þá helstu listamenn og hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni í ár.

 

Airwaves 2015 þáttur 3

Þriðji þáttur af fjórum þar sem Straumur hitar upp fyrir Iceland Airwaves 2015 á X-inu 977 verður á dagskrá frá 22:00 -0:00 í kvöld. Teitur Magnússon og Oculus kíkja í heimsókn, birt verða viðtöl við hljómsveitirnar Hinds og Weaves auk þess sem gefinn verður miði á hátíðina. Þátturinn sem er í umsjón Óla Dóra mun fjalla um alla þá helstu listamenn og hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni í ár.

Airwaves þáttur 3 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Ecstasy In My House – Operators
2) Shithole – Weaves
3) Do You See Past – Weaves
4) Tick – Weaves
5) Munaðarhóf – Teitur Magnússon
6) Nenni – Teitur Magnússon
7) Vinur Vina Minna – Teitur Magnússon
8) Davey Crockett – Hinds
9) Chili Town – Hinds
10) Garden – Hinds
11) Into The Deep – Oculus
12) Bending Time – Oculus
13) With The (Oculus remake) – Exos
14) Man Don’t Care (ft. Giggs) – Jme
15) Somewhere – Sekuoia
16) Evenings – Sekuoia

Erlent á Airwaves – Meðmæli Straums

 

Þar sem að 17. Iceland Airwaves hátíðin er rétt handan við hornið mun Straumur í aðdraganda hátíðarinnar vekja athygli á þeim listamönnum og hljómsveitum sem okkur þykir verðskulda lof og áhorf. Í þessari fyrstu grein af mörgum verður tæpt á fimm erlendum:

 

H09909

 

Tilraunakennt hip hop með grófri sandpappírsáferð í anda sveita eins og Death Grips og clipping. H09909 koma fram á sérstöku straums-kvöldi á Nasa á föstudeginum og stíga á stokk 1:20 eftir miðnætti. Við bæði mælum með, og vörum við hljóð- og myndefninu hér fyrir neðan.

 

QT

 

QT er í fararbroddi hinnar svokölluðu PC-Music stefnu. Tónlistin er eins og avant garde útúrsnúningur á Aqua og Whigfield. Helíumraddir, sykursætt popp og Hello Kitty sett í gegnum hakkavél þannig út kemur stórfurðurlegt stafrænt kjötfars. Hey QT er nokkurs konar flaggskip senunnar en á það má hlýða hér fyrir neðan. QT kemur fram á Nasa klukkan 22:50 á laugardagskvöldinu.

 

Skepta

 

Breskur Grime-rappari með tækni á lager og karisma í tunnuvís. Skepta stígur á stokk í Listasafni Reykjavíkur á miðnætti á föstudagskvöldinu.

 

Battles

 

Hnífnákvæmt stærðfræðirokk á hæsta mögulega hljóðstyrk. Sá þá 2007 og hljóðhimnurnar eru ennþá að jafna sig. Spila í Silfurbergssal Hörpu klukkan 23:50 á laugardagskvöldinu.

 

Ariel Pink

 

Ariel Pink hefur um árabil verið í miklu uppáhaldi hjá ritstjórn Straums fyrir fádæma hugmyndaauðgi og firnasterkar jaðarpoppsmíðar sínar. Það var löngu tímabært að loftöldurnar fleyttu honum á Íslandsstrendur. Ariel Pink spilar í Silfurbergssal Hörpu klukkan 01:00 eftir miðnætti á föstudagskvöldinu.

Airwaves 2015 þáttur 2

Annar þáttur af fjórum þar sem Straumur hitar upp fyrir Iceland Airwaves 2015 á X-inu 977 verður á dagskrá frá 22:00 -0:00 í kvöld. Hið dularfulla dúó Vaginaboys og Haukur S. Magnússon ritstjóri Reykjavík Grapevine kíkja í heimsókn, auk þess sem gefinn verður miði á hátíðina. Þátturinn sem er í umsjón Óla Dóra mun fjalla um alla þá helstu listamenn og hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni í ár.

Airwaves 2015 þáttur 2 – 20. október by Straumur on Mixcloud

 

Airwaves 2015 þáttur 1

Fyrsti þáttur af fjórum þar sem Straumur hitar upp fyrir Iceland Airwaves 2015 á X-inu 977. Upptakan fór því miður ekki í gang fyrr en hálftími var búinn af þættinum og því vantar viðtalið við hljómsveitina Wesen. Í þættinum má heyra viðtal við rapparann GKR.

Airwaves sérþáttur 1 – 13. október 2015 by Straumur on Mixcloud

 

 

1) Sick Beat – Kero Kero Bonito

2) Garden – Hinds

3.Low Road – Wesen

4)Rough Hands – Wesen

5) Beach Boys – Wesen

6) Vinur Vina Minna – Oyama

7) Hey QT – QT

8) MSMSMSMSM – Sophie

9) Shout down – Skepta

10) Pary Zute/Learning To Love – La Priest

11) Ballin – GKR

12) Elskan afþví bara (GKR remix) – Vaginaboys

13) Oh Boy (ft. GKR) – Andreas Todini

14) Morgunmatur – GKR

15) Helloby – GKR

16) Bone Collector – H09909

17) Nude Beach A G-Go – Ariel Pink

18) Queen – Perfume Genius

19) Lemonade – Braids

20) 10:37 – Beach House

Airwaves sérþáttur Straums hefst í kvöld

Í tilefni þess að Iceland Airwaves 2015 er á næsta leiti mun Straumur á X-inu 977 hita upp fyrir hátíðina með sérþáttum öll þriðjudagskvöld frá klukkan tíu til tólf í samstarfi við styrktaraðila hennar Gulls og Landsbankans. Þátturinn sem er í umsjón Óla Dóra mun fjalla um alla þá helstu listamenn og hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni í ár, birt verða viðtöl og góðir gestir kíkja í heimsókn, auk þess sem gefnir verða miðar á hátíðina í hverjum þætti. Í fyrsta þættinum sem er í kvöld mun hljómsveitin Wesen og rapparinn GKR kíkja í heimsókn.