Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

Tónleikar helgarinnar

 

Miðvikudagur 3. júlí


Hljómsveitirnar Nóra, Boogie Trouble og dj. flugvél og geimskip spila á Faktorý. Efri hæð opnar kl. 21:00, tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og það kostar litlar 1000 kr. inn.

 

Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus flytur safn laga af væntanlegri breiðskífu sinni á Loft Hostel. Auk þeirra verða leikin eldri lög úr höfundaverki Maus, Krónu og fleira í nýjum útsetningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 

Fimmtudagur 4. júlí

 

Hin árlega götuhátíð Jafningjafræðslunnar verður haldin á Austurvelli frá 14:00 til 16:00. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Elín Ey, 12:00, Haffi Haff og Kjurr.

 

Hljómsveitin Blágresi ásamt Einari Má Guðmundssyni halda tónleika á Café Flóru í Grasagarðinum. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Ragnar Árni og val kyrja munu hita upp.

 

Bandaríska skógláps bandið Mice Parade spilar á Faktory. Um upphitun sjá Nini Wilson, Kría, Bob Justman og Snorri Helgason. Miðaverð eru 1500 kr. og fer miðasalan fram við hurð. Húsið opnar 21.00 og fjörið byrjar einhvern tíma eftir það.

 

Tónleikar á café haiti með The Bangoura Band kl: 21.00 kostar 1.000 kr inn.

 

KRAKKBOT og ENKÍDÚ spila á sumartónleikaröð Bíós Paradísar í anddyri bíósins kl. 22:00 og það er ókeypis aðgangur!

 

Rauðhærði rafgeggjarinn Hermigervill spilar á Boston í kvöld í boði Funkþáttarins. Það er orðið langt um liðið síðan gervillinn spilaði síðast á landinu þannig enginn ætti að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00 og aðgangseyrir er enginn. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verða tónleikarnir í beinni útsendingu funkþáttarins á X-inu 977.

 

Danska kráin stendur fyrir tónleikahátíð til heiðurs Hróaskelduhátíðinni 4-7 júlí og er FRÍTT inn alla helgina. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 White Signal
19:15 Ferja
20:30 Yellow void
21:45 Kjurr

 

KEX Hostel stendur fyrir hátíðinni KEX Köntrí alla helgina þar sem bandarískri menningu verður fagnað með mat og tónlist frá Tennessee og Kentucky. Í kvöld er dagskráin þessi:
20:00 – Ryan MacGrath (CA)
21:00 – Brother Grass (IS)

 

 

Föstudagur 5. júlí

 

Tónleikar til heiðurs minningu og lífs Björns Kolbeinssonar, hann var einnig þekktur sem Bjössi Skáti og stundum sem El Buerno. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope og þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn til Kvennaathvarfsins. Fram koma:
Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

19:00 Lame Dudes
20:15 Brimlarnir
21:30 Distort City
22:45 Stafrænn Hákon

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Hudson Wayne (IS)

21:00 – Blágresi (IS)

 

Laugardagur 6. júlí

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

20:15 Momentum
21:30 We made god
22:45 Mammút

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Illgresi (IS)

21:00 – Lambchop (US)

 

 

Sunnudagur 7. júlí


Bandaríska jaðarkántrísveitin Lambchop mun enda Evróputónleikaferð sína með tónleikum í Iðnó. Lay Low mun einnig koma fram á tónleikunum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa til miðnættis. Miðasala fer fram á www.midi.is og kostar 3990 kr inn.

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 Hjalti Þorkelsson
19:15 Trausti Laufdal
20:30 Myrra Rós
21:45 Bellstop

Tónleikadagskrá helgarinnar 8 – 9. mars

Af nógu er að taka í tónleikadagskrá helgarinnar og Straumur hefur tekið saman það helsta sem er á boðstólum þessa aðra helgi marsmánuðar.

Föstudagur 8. mars

Rokksveitin Dream Central Station heldur útgáfutónleika fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd sveitinni á Volta í kvöld. Plata sveitarinnar sem kom út í haust hefur fengið góða dóma gagnrýnenda og var meðal annars valin fimmta besta íslenska plata ársins á straum.is. Um upphitun sjá melódíska noiserokkararnir í Oyama og lo-fi-grallararnir í Nolo. Aðgangseyrir er 1000 krónur eða 2000 krónur og þá fylgir frumburður sveitarinnar með. Hurðin opnar klukkan 22:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar. Hallberg Daði, forsprakki Dream Central Station, mun síðan þeyta skífum ásamt Dj Pilsner að tónleikunum loknum.

 

Low Roar treður upp ásamt hljómsveit á Dillon klukkan 22:00 í kvöld. Low Roar hófst sem einstaklingsverkefni Ryan Karazija en fyrstu plötu hans var afskaplega vel tekið og vakti meðal annars athygli tónlistartímaritsins NME. Tónlist Low Roar er lágstemmd, sveimandi og þrungin tilfinningu en á tónleikunum mun hann flytja nýtt efni í bland við gamalt en á næstunni hefjast upptökur á nýrri plötu listamannsins. Aðgangur er ókeypis fyrir alla sem hafa náð áfengiskaupaaldri.

 

Folk-hátíð í Reykjavík er í fullum gangi á Kex-hostelinu um helgina en á föstudagskvöldinu koma fram Elín Ey, Árstíðir, Valgeir Guðjónsson og Þjóðlagasveit höfuðborgarinnar. Aðgangseyrir er 3000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 8.

Laugardagur 9. mars

Raftónlistarmaðurinn Kippi Kanínus og hljómsveitin GP! munu leiða saman hesta sína í tónleikum á Faktorý. Kippi Kanínus hefur fengist við tilraunakennda raftónlist í 12 ár en á tónleikunum kemur hann fram ásamt hljómsveit sem inniheldur meðal annars Magnús Elíasen á trommur, Pétur Ben á Selló og gítar og Sigtrygg Baldursson á slagverk. GP! er ekki rapparinn Gísli Pálmi heldur hljómsveit Guðmundar Pétursson sem hefur um áratugaskeið verið einn fremsti gítarleikari þjóðarinnar. Á tónleikum ferðast sveitin um lendur þaulskipulags spuna undir áhrifum frá síðrokki, kaut-blús og glam-jazzi. Tónleikarnir hefjast á slaginu 11 og kostar einn Brynjólf Sveinsson (1000) inn.

 

Hljómsveitin Leaves var að ljúka við sína fjórðu hljóðverðsplötu og munu frumflytja nýtt efni á tónleikum á Bar 11. Aðgangur virðist vera ókeypis.

 

Folk hátíðin heldur áfram á laugardagskvöldinu en þá stíga á stokk Pétur Ben, Benni Hemm Hemm, Ólöf Arnalds og Magnús og Jóhann. Tónleikarnir hefjast sem fyrr klukkan 8 og aðgangseyrir er 3000 krónur.

 

TriAngular eru klúbbakvöld sem áður hafa verið haldin á Jacobsen og Faktorý en hafa nú flutt sig um set og verða í fyrsta skiptið á Volta á laugadagskvöldið. Þema kvöldanna er að fá þrjá þungavigtarmenn í klúbbatónlist í hvert skipti til að galdra fram dansvæna tóna og táldraga mannskapinn í tryllingslegan transdans. Í þetta skiptið munu þeir BenSol, CasaNova og Hendrik sjá um það hlutverk. Húsið opnar klukkan 23:00, dansinn dunar til 4:30 og það kostar einn rauðan seðil inn.

Lokauppgjör Airwaves – Laugardagur og Sunnudagur

Mynd: Óskar Hallgrímsson

 

Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.

 

Skógláp í kjallara

 

Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.

 

Hnökralaus flutningur

 

Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.

 

Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.

 

Sunnudagskvöld

 

Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.

 

Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.

 

Bassinn tekinn í göngutúr

 

Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.

 

 

Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.

Davíð Roach Gunnarsson