Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Lög ársins 2013

50) Love Is Lost (Hello Steve Reich Mix by James Murphy for the DFA) – David Bowie

 

 

49) Bipp – Sophie

 

 

 

48) Blurred Lines (ft. T.I. & Pharrell) – Robin Thicke

 

 

 

 

47) She Will – Savages

 

 

 

 

46) Hive (ft. Vince Staples and Casey Veggies) – Earl Sweatshirt

 

 

 

 

45) Introspection – MGMT

 

 

 

44) RIse – Du Tonc

 

 

 

 

43) Royals – Lorde

 

 

 

 

42) Sacrilege – Yeah Yeah Yeahs

 

 

 

41) Lariat – Stephen Malkmus & The Jicks

 

 Lög í 40.-31. sæti

 

Busta Rhymes og Q-Tip í feiknaformi

Á næsta ári er væntanleg ný plata frá vélbyssukjaftinum og flippsveitarmeðlimnum Busta Rhymes, Extinction Level Event 2, sem er framhald af hinni geysivinsælu skífu með óþjála titilinn E.L.E. (Extinction Level Event): The Final World Front. Sú frábæra plata kom út 1998 og innhélt slagara á borð við Gimme Some More og What’s It Gonna Be?! Ýmsir rapparar hafa í gegnum tíðina gert eins konar framhöld af sínum frægustu plötum -oft mörgum árum seinna- svo sem Raekwon með Cuban Linx pt. 2, Dr. Dre með Chronic 2001, Jay-Z með Blueprint 2 og 3, og nú síðast Eminem með Marshall Mathers 2 sem kom út í þessari viku.

 

Fyrsta smáskífan af Extinction Level Event 2, Twerk It, kom út í júní og er eins og nafnið gefur til kynna óður til rassadansins alræmda sem Mily Cyrus hefur undanfarið vakið mikla athygli fyrir. Lagið er með hægum og fútúrískum takti og gestaversi frá Nicki Minaj, en í því ber lítið á ljóshröðu flæðinu sem rapparinn er hvað þekktastur fyrir. Það kveður hins vegar við allt annan tón í laginu Thank You sem kom út á dögunum. Undirspilið er byggt á óldskúl diskófönki og Busta nýtur aðstoðar síns gamla félaga Q-Tip, auk þess sem Lil Wayne og Kanye West líta inn og kasta kveðju. Busta Rhymes og Q-Tip eru í fantaformi og rappa á ógnarhraða af miklu áreynsluleysi í lagi sem minnir um margt á hin svokölluðu gullaldarár rappsins um miðjan 10. áratug síðustu aldar.

 

Busta Rhymes og Q-Tip eiga sér langa sögu en það var einmitt í lagi með sveit hins síðarnefnda, A Tribe Called Quest, sem að Busta Rhymes vakti fyrst athygli. Það var með ódauðlegu gestaversi sem hreinlega slátraði partýslagaranum Scenario, af plötunni Low End Theory frá 1991. Þá má geta þess að einnig er von á nýrri plötu, The Last Zulu, frá Q-Tip á næsta ári. Hlustið á Thank You, Twerk It og Scenario hér fyrir neðan og horfið á dramatískt kynningarmyndband fyrir Extinction Level Event 2.

Davíð Roach Gunnarsson



E.LE. 2 Trailer from Dazed One on Vimeo.