Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: Sigurður Ástgeirsson

 

Á þriðja í Airwaves er hátíðin og veðrið farið að taka sinn toll. Ég reif mig þó upp úr sófanum til að sjá Útidúr spila í Hafnarhúsinu klukkan níu. Þar voru fáir mættir en dramatíkin var engu að síður keyrð í botn og kammerpoppið fór vel í þá sem voru farnir á stað. Apparat Organ Quartet voru í orgasmísku orgelstuði í Silfurbergssal Hörpu og höfðu með sér fjórar stelpur í 80’s fötum með gosbrunna í hárinu sem að sungu í nokkrum lögum og lífguðu upp á tónleikana. Á eftir þeim spilaði kanadíska indíbandið Half Moon Run fyrir meðalfullum sal og tónlistin var vönduð en afar venjuleg. Indípopp eins og það gerist mest óspennandi og meðalmennskan var í hávegum höfð.

Dómsdagsdöbb

Næstir á svið í Silfurbergi voru Hjálmar ásamt finnska gúrúinum Jimi Tenor. Ég hef séð Hjálma spila hundrað sinnum áður en þetta var eitthvað annað. Jimi Tenor var klæddur í pallíettuslopp og með Prins Valíant hárgreiðslu og var dáleiðandi sem frontmaður. Hann söng, spilaði á saxafón og hljóðgervil og var yfirgengilega svalur. Tónlistin var reggí og döbb en talsvert dekkri en maður á að venjast frá Hjálmum. „Dat was Doom,“ sagði Tenórinn eftir eitt lagið og hafði mikið til síns máls, þetta var nokkurs konar drungalegt dómsdagsdöbb. Hjálmarnir voru líka í yfirstærð og höfðu með sér fimm blásturshljóðfæraleikara og Sigtrygg Baldursson á áslætti sem beitti stálkeðjum á bongótrommurnar sínar. Það verður svo sannarlega spennandi að heyra plötuna sem er væntanleg frá þessum áhugaverðu listamönnum og þetta var skemmtilegasta atriðið sem ég hef orðið vitni að á Airwaves hingað til.

Reykjavíkurnætur

Næst á svið í Silfurbergi voru Fm Belfast sem ég náði þremur og hálfu lagi með. Þau hafa engu gleymt og keyrðu stemmninguna í Silfurbergi upp í hæstu hæðir. Tónlistin er svo sem ekki flókin en þau kunna upp á hár að spila á áhorfendur og rafræna gleðipoppið þeirra kveikti svo sannarlega í þeim þetta kvöld. Þvínæst hélt ég á Þýska Barinn til að sjá Reykjavík! og fékk næstum því Bóas, söngvara sveitarinnar, í hausinn þegar ég var nýkominn inn. Hann stagedive-aði eins og óður maður og eyddi meiri tíma út í salnum meðal fólksins en uppi á sviðinu og Reykjavíkurrokkið æsti mig upp fyrir ævintýri næturinnar.

Tunnur af töffaraskap

Eftir að hafa hlaðið nikótíni og áfengi í blóðrásina fór ég aftur inn á Þýska Barinn og varð vitni að rokksveitinni Dream Central Station. Hún er hugafóstur Hallbergs Daða Hallbergssonar og í þetta skipti naut hann aðstoðar Henriks úr Singapore Sling á gítar og plötusnúðsins Kristins Gunnars Blöndals á hljómborði. Þrátt fyrir að það hafi verið farið að síga á seinni hluta kvöldsins og ekkert sérstaklega margir í salnum náðu þau að heilla mig með unaðslegum samsöng, rifnum rafmagnsgítarriffum og tunnum af töffaraskap.

 

Davíð Roach Gunnarsson

 

Annar í Airwaves

Mynd: Iona Sjöfn

Ég hóf annað kvöld Airwaves á Kex Hostel þar sem tvær Hip Hop sveitir frá Seattle lögðu saman krafta sína. Shabazz Palaces er verkefni Ishmael Butler, sem var forsprakki rappsveitarinnar Digable Planets í byrjun tíunda áratugarins og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá undirrituðum. Í Shabazz Palaces rær hann þó á tilraunakenndari mið með bassaþungum og draugalegum hljóðheimi og afar pólitískum textum. Hann kom fram ásamt trommara og kvennarappsveitinni Theesatifaction. Tónleikarnir voru um margt góðir en aðstæður á Kex Hostel eru þó ekki til fyrirmyndar, ekkert svið er til staðar svo það er nánast ómögulegt að sjá hljómsveitina.

Hressilegt powerpopp

Eftir að hafa sett batteríin í hleðslu með bjórsötri í heimahúsi hélt ég niður í Hafnarhúsið að sjá bandarísku indísveitina Phantogram. Þau voru einungis þrjú á sviðinu en hljóðheimurinn var í engu samræmi við fjöldann. Hljómsveitin spilar nokkurs konar maximalískt powerpopp með hip hop áhrifum og þau náðu upp mjög góðri stemmningu í pökkuðu listasafninu. Eftir að þau höfðu lokið sér af rölti ég yfir á Amsterdam og fylgdist með Gang Related sem voru í rokna rokkstuði. Hljóðið var frábært og letilegt slakker-rokkið var flutt af strákslegri gleði sem skein af hverju riffi.

Upplýstar trommur

Þvínæst rölti ég yfir götuna á Þýska barinn og náði þremur lögum með rapparanum Gísla Pálma. Það er hægt að nota mörg orð um Gísla Pálma en hefðbundið er ekki eitt af þeim. Mér finnst eins og hann sé ekki alvöru persóna heldur karakter úr bíómynd eftir Todd Solondz eða Harmony Korine. Það er alltaf upplifun að sjá hann á sviði og hann rappaði af guðs náð og áhorfendur hreinlega átu stemmninguna úr lófa hans. Þá var haldið aftur í Hafnarhúsið til að sjá hæpaðasta band kvöldsins, Purity Ring. Þau voru tvö á sviðinu, söngkona og græjukall, og fluttu framsækið tölvupopp af miklu öryggi. Sérstaklega skemmtilegt voru einhvers konar lampatrommur, sem að hljómuðu eins og stáltrommur og lýstust upp þegar barið var á þær. Tónleikarnir voru frambærilegir en stóðu kannski ekki alveg undir hæpinu og stemmningin var líflegri hjá Phantogram.

Skipulögð óreiða

Eftir að Purity Ring höfðu lokið sér af fór ég ásamt góðum hópi íslendinga og Kanadabúa yfir á Iðnó til að sjá listamanninn Doldrums frá Montreal. Tónlistin sem hann framreiddi var alveg dásamlega skipulögð óreiða. Hann kom fram ásamt trommuleikara og græjugellu en sjálfur sá hann um söng og óheyrilegt magn af tólum og tækjum, þar á meðal plötuspilara. Söngröddin hans var kraftmikil og afskaplega kvenleg og hann dansaði um sviðið og djöflaðist í græjum milli þess sem hann söng af innlifun og sveiflaði hljóðnemanum í allar áttir. Frábær lokapunktur á öðrum í Airwaves og hressasta atriðið hingað til.

 

Davíð Roach Gunnarsson

1. í Airwaves – Straumur fer á flakk

Mynd: Alexander Matukhno

Það er alltaf mikil eftirvænting í loftinu fyrsta dag Airwaves hátíðarinnar og í ár var engin undantekning. Það er legið yfir útkrotuðum dagskrám og reynt að merkja við hljómsveitir sem maður er spenntur fyrir, skoða árekstra, og gá hvort að hægt sé að bæta þá upp með off-venue dagskránni. Fyrsta kvöldið voru nánast engin erlend bönd að spila en fréttaritari straums fór á gott flakk milli íslenskra hljómsveita þrátt fyrir nístingskuldann úti.

 

Leikurinn hófst á Kaffibarnum þar sem Gang Related höfðu komið sér fyrir úti í horni og sörf-rokkuðu fyrir bjórþyrsta hipstertúrista af mikilli innlifun. Reffileg riff og hressilegur samsöngur strákanna slógu góðan upptakt fyrir hátíðina og mér tókst að gleyma síberíska veðrinu úti og kúpla mig í rétta Airwaves-gírinn. Á eftir þeim tók stórsveitin Útidúr við með sitt hádramatíska indí popp. Þau léku mikið af nýju efni sem margt var undir sterkum áhrifum frá spagettívestratónlist Ennio Morricone, og tveir trompetleikarar sveitarinnar fóru á kostum.

Flæðandi fönk og seiðandi sveimur

Ég hafði hvorki séð né heyrt af bandinu Funk that shit! fyrir hátíðina en það var eitthvað við titilinn sem kallaði í mig svo ég hoppaði upp á hjólið og brunaði niður á Amsterdam. Á sviðinu voru þrír skjannahvítir strákar um tvítugt að fönka eins þeir væru að leika undir blaxplotation mynd frá 1972. Verkfærin voru gítar, bassi og trommur og þrátt fyrir að frumleikinn hafi ekki beint verið í fyrirrúmi var þetta afskaplega vandað og mikil flugeldasýning í hljóðfæraleik og sólóum. Þá hélt ég aftur upp eftir til að sjá raftónlistarmanninn Prince Valium spila á efri hæð Faktorý. Hann sat á bak við tölvu og mixer og uppsetningin var ekki mikið fyrir augun. Tónlistin var hins vegar gullfalleg; draumkennt, melódískt og seiðandi Ambíent sem er án efa gott að láta gæla við hljóðhimnurnar í góðum heyrnartólum.

Jakob Fusion Magnússon

Næst var förinni haldið í Hörpuna að sjá reggísveitina Ojba Rasta. Hún er að mínu mati eitt fremsta tónleikaband Íslands í dag og stóð svo sannarlega fyrir sínu í Silfurbergi í gær. Mikil orka og einlæg spilagleðin skein af þeim og undirritaður hefur sjaldan ef nokkurn tímann heyrt þau spila í jafn góðu hljóðkerfi. Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég frá að hverfa í hljóðver X-ins til að ræða hátíðina í útvarpsarmi Straums. Eftir það var haldið aftur í Hörpuna til að sjá Jack Magnet Quintet-inn hans Jakobs Frímanns. Hann bauð upp á fusion djass með afrískum áhrifum með einvalaliði hljóðfæraleikara en Bryndís dóttir hans sá um söng.

Fer vel af stað

Lokaatriði kvöldsins voru svo Retro Stefson í Silfurbergi og þau tóku salinn með trompi. Þau spiluðu nánast einungi efni af nýútkominni plötu sem er samnefnd sveitinni og nutu aðstoðar Hermigervils á svuntuþeysurum, Sigtryggs Baldurssonar á áslætti og Sigríðar Thorlacios í bakröddum. Stuðstuðullinn var feikilega hár og náði hámarki í danskeppni sem Unnsteinn stjórnaði í lok tónleikanna.

 

Heilt yfir var fyrsta kvöld hátíðarinnar vel heppnað þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið álíka hátt og í Alaska. Þá er mikill missir af Nasa en margar sterkustu Airwaves minningar mínar eru þaðan og stemmningin í Hörpunni er einfaldlega ekki sú sama. Silfurberg er þó ágætis sárabót og um margt góður salur, sérstaklega þegar kemur að hljómburði og ljósabúnaði.

Davíð Roach Gunnarsson

Áhugavert á Airwaves – Seinni hluti

Django Django

Skoska hljómsveitin Django Django er tilnefnd til hinna virtu Mercury verðlauna í ár fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd hljómsveitinni. Þar er á ferðinni ein af bestu plötu ársins þar sem sækadelía, þjóðlagatónlist og synþapopp mætast í afar bragðmikilli súpu. Django Django spila í Silfurbergssal Hörpu á miðnætti á laugardaginn.

Shabazz Palaces

Shabazz Palaces er skipuð bandaríska rapparanum Ishmael Butler og tónlistarmanninum Tendai ‘Baba’ Maraire. Ishmael þessi kallaði sig einu sinni Butterfly og var helsta sprautan á bak við hina dáðu og djössuðu hip hop sveit Digable Planets í upphafi tíunda áratugarins. Hann er ennþá að rappa en að þessu sinni er tónlistin tilraunakenndari og textarnir pólitískari. Fyrsta breiðskífa þeirra, Black Up, var gefin út af Sub Pop útgáfunni í fyrra og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Shabazz Palaces koma fram á Þýska Barnum á miðnætti á fimmtudagskvöldinu.

Just Another Snake Cult

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári gerðist hann svo li-fo að hann gaf út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Just Another Snake Cult koma fram klukkan 20:00 á Gamla Gauknum á föstudaginn.

 

Apparat Organ Quartet 

Orgelkvartettinn er fyrir löngu orðinn að stofnun í íslensku tónlistarlífi með tveimur plötum af rafrokkaðri orgeltónlist, meitlaðri sviðsframkomu og útpældri fagurfræði. Þeir spila þó ekki oft á tónleikum svo Airwaves er kærkomið tækifæri til að berja þessa snyrtilegu organista augum. Apparat stíga á stokk klukkan 22:10 í Silfurbergi á föstudagskvöldið.

Doldrums

Montrealbúinn Airick Woodhead hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir tónlist sem hann gefur út undir nafninu Doldrums. Kaótískt og brotakennt hávaðapopp hans ætti að vera ferskur andblær á Airwaves hátíðinni í ár en hann kemur fram klukkan 00:20 á fimmtudagskvöldinu í Iðnó.

Phantogram

Bandarísk indí-sveit sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hugmyndaríkt popp og stóran hljóðheim. Stíga á svið í Listasafni Reykjavíkur klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið.

Hjálmar og Jimi Tenor

Reggísveitina Hjálma þarf ekki að kynna þar sem hún hefur verið með vinsælustu sveitum landsins undanfarin ár. Að undanförnu hafa þeir þó verið að vinna að plötu með finnska raftónlistarséníinu Jimi Tenor sem hefur spilað ótal sinnum á Íslandi, síðast í ágúst, og m.a. unnið með Gus Gus. Það eina sem hefur heyrst af samstarfinu er lagið fyrir neðan og verður spennandi að heyra meira. Hjálmarnir og tenórinn stíga á svíð á miðnætti í Silfurbergi á föstudagskvöldinu.

Theesatisfaction

Hip hop sveit frá Seattle skipuð rapparanum Stasiu “Stas” Iron og söngkonunni Catherine “Cat” Harris-White. Þær voru uppgvötaðar eftir að hafa verið gestir á Black Up plötu Shabazz Palaces og fyrsta breiðskífa þeirra var gefin út af Sub Pop útgáfunni á þessu ári. Þær koma fram á undan Shabazz Palaces klukkan 23:00 á Þýska barnum á fimmtudagskvöldið.

Ojba Rasta

Þessi mannmarga reggísveit hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Ojba Rasta spila klukkan 21:40 í Silfurbergi í kvöld.

 

Davíð Roach Gunnarsson

 

Remix og myndband með Ojba Rasta

Lagið Jolly Good með reggíhljómsveitinni Ojba Rasta hefur nú verið klætt upp í spánýjan búning með endurhljóðblöndun og myndbandi. Það er svuntuþeysarasérfræðingurinn Hermigervill sem sér um remixið en hann hefur á síðustu tveimur plötum sínum klætt íslensk dægurlög í rafrænan búning og telst því sérfræðingur í faginu. Myndbandið er eftir Hauk Valdimar Pálsson en í því fylgjumst við með einmana mótorhjólakempu í asa stórborgar sem að hverfur inn í afrískt draumaland eftir að hafa reykt skrýtna sígarettu. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Giorgio Moroder kominn á Soundcloud

Hinn goðsagnakenndi pródúsant og lagahöfundur Giorgio Moroder stofnaði nýverið ekki bara eina, heldur tvær soundcloud síður. Þar hefur hann hlaðið upp ótal lögum frá löngum og farsælum ferli, en sumt af því er afar sjaldgæft efni. Hinn ítalski tónlistarmaður var helsti lagahöfundur og upptökustjóri Donnu Summer á hápunkti ferils hennar en hann hefur einnig gefið út tónlist undir eigin nafni og samið tónlist við fjölda kvikmynda, þar á meðal Scarface, Midnight Express og Top Gun. Þá hefur hann unnið með mörgum stjórstjörnum svo sem Bonnie Tyler, Freddy Mercury, David Bowie og Debby Harry og hlotið þrjú óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist. Hann hætti að mestu afskiptum af tónlistarbransanum í byrjun 10. áratugarins en hefur síðan öðlast költ status meðal margra tónlistaráhugamanna. Hér fyrir neðan má hlusta á endurhljóðblandaða útgáfu af From here to Eternity frá 1977 og lag af plötunni EINZELGÄNGER frá 1975.

Child of Lov er með lækninguna

Huldumaðurinn Child of Lov gaf nýverið út stuðsmellinn Heal sem er forsmekkurinn af væntanlegri plötu sem kemur út í lok nóvember. Rödd þessa óþekkta ástarbarns er nokkuð rám og veðruð en hann er þó óhræddur við að dýfa sér í falsettuna. Ólygnir segja að suddalega bassalínan sé á ábyrgð sjálfs Damons Albarns en hún ásamt fönkuðum gítarriffum setja mikinn svip á lagið. Allt er þetta ákaflega skítugt en um leið grípandi klístrað þannig það límist vel við heilann. Í myndbandinu má svo sjá barnunga hipstera rústa hjóli, leika sér að sveppum og dansa á hjólaskautaballi. Á plötunni mun hann njóta aðstoðar áðurnefnds Albarns auk Thundercat og rapparans MF DOOM.

Nýtt efni frá Unknown Mortal Orchestra

Lo-fi sveitin Unknown Mortal Orchestra sleppti nýju lagi út í ólgusjó alnetsins í vikunni sem ber hinn hugvíkkandi titil Swim and Sleep (Like a Shark). Þeir gáfu út plötu samnefnda sveitinni í fyrra en þar úir og grúir af hráu fönki, sækadelískum útsetningum og bítlalegum laglínum. Ekki skemmdi fyrir að þessi greinarhöfundur straum.is hefur ávallt haft veikan blett fyrir hljómsveitarnöfnum sem innihalda orðið Orchestra. Hér róa þeir á svipuð mið með góðum árangri. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan en við biðjumst velvirðingar á óhugnalega ungbarninu sem myndskreytir lagið.

Ókeypis tónleikar með Jimi Tenor í kvöld

Finnski furðufuglinn Jimi Tenor hitar upp fyrir menningarnótt með ókeypis tónleikum í Norræna húsinu í kvöld. Tenórinn er Íslendingum að góðu kunnur en hann hefur áður komið fram hér á landi og m.a. unnið með hljómsveitinni Gus Gus.

 

Hann vinnur nú að gerð plötu í samstarfi við reggísveitina Hjálma. Tenor hefur komið víða við á löngum ferli og var um tíma á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu. Nýlega vann hann heila plötu í samstarfi við Afróbít trommarann Tony Allen. Tenor er jafnhentur á raftónlist og framúrstefnudjass og það verður spennandi að sjá hvað hann býður upp á í kvöld. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 í Norræna húsinu.

Fela Kuti – Sá sem ber dauðann í skjóðu sinni

Fela Kuti lést úr eyðni fyrir fimmtán árum síðan en arfleifð hans svífur þó enn yfir vötnum margra tónlistarmanna nútímans. Hann var upphafsmaður afróbítsins og ævistarf hans í tónlist er fjársjóðskista fyrir grúskara og grúvhunda. Hann var líka pólitískur andófsmaður sem varð fyrir áhrifum af Malcolms X og var rödd hinna kúguðu í heimaríki sínu, Nígeríu.

 

Fela Ransome Kuti fæddist 15. október 1938 í Abeokuta, litlum bæ í Nígeríu um 100 km norðan við höfuðborgina Lagos. Hann var næstyngstur af fimm systkinum í miðstéttarfjölskyldu. Faðir hans var fyrsti formaður kennarasambands Nígeríu en móðir hans kvenréttindakona og pólitískur baráttumaður sem hafði tekið þátt í baráttunni gegn nýlendustjórninni. Fela langaði til að vera tónlistarmaður frá barnsaldri og um tvítugt  fluttist hann búferlum til London og skráði sig í Trinity College of Music. Þar dvaldist hann næstu fjögur ár og lærði á píanó auk þess að leggja stund á nám í tónsmíðum. Hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit Koola Lobitos og byrjaði að spila á hinum ýmsu klúbbum borgarinnar sérstaka blöndu af djassi og vestur-afrískri „High Life“ tónlist. Þar kynntist hann einnig fyrstu konu sinni sem hann eignaðist þrjú börn með, þar á meðal soninn Femi Kuti sem hefur haldið tónlistararfleifð föður síns við.

 

Fæðing afróbítsins

 

Árið 1963 snýr Fela aftur til Lagos og stuttu síður endurvekur hann Koola Lobitos og spilar með þeim á klúbbum víða í Lagos við heldur litlar vinsældir. Undir lok sjöunda áratugarins fær hann hins vegar trommarann Tony Allen til liðs við sig sem átti eftir að hafa mikil áhrif á  afróbít-tónlistina sem átti eftir að hasla sér völl. Annað sem breytti lífi og þar með tónlist Fela Kuti var ferð hans til Bandaríkjanna 1969. Fela og Koola Lobitos hörkuðu í nokkra mánuði í klúbbasenunni í Los Angeles og á meðan á þeirri dvöl stóð kynntist Fela ýmsum sem börðust fyrir mannréttindum blökkumanna og tengdust Black Panther-hreyfingunni. Þar á meðal var Sandra Isidore sem varð ástkona hans og eins konar menningarlegur lærifaðir. Hún kynnti hann fyrir kenningum Malcolm X og Elridge Cleaver en sjálfsævisaga Malcolm X hafði mikil áhrif á hann og varð til þess að hann fór að kanna betur afríska sjálfsímynd sína bæði persónulega og í gegnum tónlistina.

 

Fela og hljómsveitin hans lentu í útistöðum við útlendingaeftirlitið í Bandaríkjunum og neyddust til að yfirgefa landið en áður náðu þeir að fara í hljóðver og taka upp efni sem síðar var gefið út sem 69 Los Angeles Sessions. Hljómur sveitarinnar var breyttur og þarna var að fæðast það sem Fela sjálfur kallaði Afrobít, tónlistarstefna sem blandar djassi og fönki saman við hefðbundna afríska tónlist með flóknum samofnum ryþma og söngstíl þar sem aðalsöngvari og bakraddir kallast á.

 

Kalkútta lýðveldið  

 

Þegar Fela kom aftur til Lagos var hann breyttur maður. Til þess að undirstrika það lagði hann niður millinafn sitt, Ransome, sem hann sagði vera þrælanafn en tók í staðinn upp nafnið Anikulapo sem þýðir: Sá sem ber dauðann í skjóðu sinni.
Hann breytti nafninu á hljómsveit sinni í Africa 70 og settist að ásamt hljómsveit, fjölskyldu, dönsurum og hinum og þessum áhangendum í stóru húsi, eins konar kommúnu, þar sem hann var einnig með upptökuaðstöðu. Þar stofnaði hann sitt eigið ríki, Kalkútta lýðveldið, og sagði sig úr lögum við nígeríska ríkið en þar bjuggu um 100 manns þegar mest lét.

 

Freðnir og framsýnir hugsuðir

 

Nígerísku blöðin birtu myndir frá þessu litla fyrirmyndarríki þar sem Fela spilaði á saxafón útí garði á nærbuxunum, berbrjósta konur löbbuðu um og táningar blésu kannabisreyk út í loftið. Þá stofnaði hann klúbb sem var kallaður Helgidómurinn (The Shrine) þar sem hann og félagar í Afrika 70 hófu að spila reglulega auk þess að taka upp efni og gefa út. Eins og nafnið gaf til kynna var Helgidómurinn ekki aðeins klúbbur, heldur eins konar samkomustaður fyrir framsýna afríska hugsuði þar sem áherslan var ekki á ættbálka eða þjóðerni heldur samafrískar hugsjónir og samstöðu. Þar voru haldnir stórir tónleikar undir beru lofti sem stóðu oft yfir í marga klukkutíma og við sviðið voru fánar allra afrískra þjóða. Hljómsveit hans var mjög fjölmenn og innihélt nokkra blásara og ásláttarleikara, auk tveggja gítarleikara, bassaleikara og trommuleikara. Þá eru ótaldar fjöldi bakraddasöngkvenna og herskari dansara sem stormuðu um sviðið.

 

En það var ekki bara lífstíll hans sem var byltingakenndur heldur varð tónlistin stöðugt kraftmeiri og textarnir róttækari. Hann varð fljótt vinsæll í Nígeríu og varð nokkurs konar hetja fátæks almúgans. Hann bar litla virðingu fyrir yfirvöldum og í lögum sínum talaði hann aldrei undir rós; þar var að finna beinar árásir á spillingu, kúgun stjórnvalda, arðrán erlendra stórfyrirtækja á alþýðu landsins og menningarlega heimsvaldastefnu Vesturlanda. Síðan Nígería fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1960 hafði pólitískt ástand í landinu verið mjög óstöðugt, ekki síst vegna baráttu stærstu þjóðflokkana um völd í landinu. Árið 1966 framdi herinn valdarán og næstu 15 ár einkenndust af miklum óstöðugleika, stöðugri barátta hershöfðingja um völd yfir landsstjórninni og gekk á með valdaránum og morðum á þjóðhöfðingjum.

 

Ofsóttur af stjórnvöldum

      1. Fela Kuti - Expensive Shit
      2. Fela Kuti - Expensive Shit

Fela Kuti gagnrýndi stjórnvöld óspart í textum sínum. Sú gagnrýni ásamt því hversu mikla óvirðingu hann sýndi með stofnun fríríkis síns, þar sem menn reyktu gras fyrir opnum tjöldum, gerði það að verkum að stjórnvöld litu á hann sem ógn. Árið 1974 var hann orðinn súperstjarna í heimalandi sínu og nágrannaríkjum og var á leiðinni í tónleikaferð til Kamerún þegar hann var handtekinn fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum. Hann gerði sér lítið fyrir og gleypti jónuna sem var eina sönnunargagnið í málinu. Hann var handtekinn engu að síðu og ætlunin að láta hann skila sönnunargögnunum út um óæðri endann. En Fela, sem mátti dúsa nóttina í fangelsi, tókst að skipta á saur við samfanga sinn og slapp vegna skorts á sönnunargögnum. Þessa lygilegu sögu átti hann síðan eftir að rekja í laginu Expensive Shit sem kom út ári síðar.

 

Gaf út sjö plötur á ári

      3. 02 Lady
      4. 02 Lady

Á blómaskeiði sínu frá 1970 til 1977 gaf Fela Kuti út tæplega 30 plötur og þegar mest var gaf hann út sjö plötur á ári. Á Gentleman frá 1973 fjallar hann um nýlenduhugarfar sem hann telur of ríkjandi í heimalandi sínu og gerir grín að samlöndum sínum sem ganga um í jakkafötum með bindi og taldi það ekki við hæfi í hitanum í Afríku. Á Lady gagnrýnir hann afrískar konur fyrir að aðhyllast vestrænan femínisma sem honum finnst ekki samræmast afrískum hefðum. Lögin hans spanna frá 10 mínútum og upp í klukkutíma, sem kom í veg fyrir útvarpsspilun og að hann næði vinsældum í hinum vestræna heimi en tónlistarmenn á borð við James Brown, Ginger Baker, Stevie Wonder, Paul Mcartney og Curtis Mayfield voru miklir aðdáendur og flykktust til Nígeríu til að drekka í sig tónlistina.

 

Uppvakningar ráðast til atlögu

      5. Fela Kuti - Zombie
      6. Fela Kuti - Zombie

Árið 1977 gefur Fela út plötuna Zombie sem varð hans vinsælasta og áhrifamesta plata. Titillagið, sem byggist á óstöðvandi grúvi, er harkaleg ádeila á hermenn landsins,  „heilalausa uppvakninga” sem hafi enga sjálfstæða hugsun og geri ekkert án skipana yfirmanna sinna. Lagið kom af stað vakningu meðal kúgaðra íbúa landsins sem leiddi til óeirða og mótmæla gegn hermönnum á götum úti þegar fólk hermdi eftir uppvakningum er það sá til hermanna.

 

Stuttu seinna gerðu 1.000 hermenn árás á Kalkútta kommúnuna eftir að hafa lent í útistöðum við strák úr gengi Fela. Þeir umkringdu húsið og réðust svo inn og gengu í skrokk á íbúunum, nauðguðu konum og köstuðu móður Fela út um glugga á annarri hæð. Hljóðfæri, upptökur og filmur voru eyðilagðar og að lokum kveikt í húsinu. Fela var barinn þangað til hann missti meðvitund og fangelsaður í stuttan tíma. Þegar hann var laus úr fangelsi fór hann í mál við ríkið en  „óháð“ rannsókn leiddi í ljós að það hefði verið óþekktur hermaður sem stóð fyrir aðförinni að húsi Fela. Um þetta gerði hann lagið Unknown Soldier.

 

Móðir hans lést nokkrum mánuðum síðar af meiðslum sem hún hlaut í árásinni og Fela fór með líkkistuna og skildi hana eftir við herstöðvar Olusegun Ọbasanjọ sem var hæstráðandi í landinu. Hann gerði um þetta lagið Coffin for Head of State þar sem hann réðst harkalega á Ọbasanjọ. Það sama gerði hann í laginu ITT International Thief Thief, sem er gagnrýni á arðrán vestrænna fyrirtækja á Afríkubúum og spillta menn eins og Ọbasanjọ sem láta það viðgangast. Í laginu kallar hann Ọbasanjọ og forstjóra ITT þjófa. Textar hans verða æ harðari, hann gagnrýnir spillingu og ofsóknir stjórnvalda og ræðst harkalega að nafngreindum mönnum.

 

Svarti forsetinn

 

Eftir árásina á húsið fór Fela í sjálfskipaða útlegð til Ghana í ár og þegar hann kom til baka nákvæmlega einu ári eftir atburðina þá giftist hann 27 konum, flestar voru dansarar hans og bakraddasöngkonur, í einni athöfn. Sama ár er hann rekinn frá Ghana eftir að óeirðir brjótast út þegar hann spilar lag sitt Zombie á tónleikum í höfuðborginni Accra. Hann verður æ pólitískari og fer að tala um sjálfan sig sem The Black President og hyggst bjóða sig fram til forseta þegar lýðveldið er endurvakið 1979 (til 1983) en framboði hans var hafnað af „tæknilegum“ ástæðum.

 

Hann lét það þó ekki stoppa sig og stofnaði nýtt band, Egypt 80 og hélt áfram að gefa út plötur og fór í tónleikaferðir til Evrópu. Hann var líka farinn að kafa dýpra í Yoruba trúna og fékk til liðs við sig andlegan leiðtoga, Professor Hindu. Þessi andatrú varð stór partur af tónleikahaldi hans en Fela og hljómsveitin komu fram með einhvers konar hvítt duft sem átti að hjálpa þeim að ná sambandi við andana. Professor Hindu tók einnig þátt í sjóinu þar sem hann kyrjaði, særði fram anda, skar sjálfan sig og hræddi líftóruna úr áhorfendum í Evrópu. Þegar að Fela var á leiðinni á tónleikaferðalag til Bandaríkjanna í september 1984 var hann handtekinn á flugvellinum og sakaður um gjaldeyrissmygl. Hann er dæmdur í tíu ára fangelsi en sleppt eftir 20 mánuði er ný stjórn hafði tekið við og Amnesty International barist fyrir lausn hans.

 

Dauðinn skríður upp úr skjóðunni

 

Eftir að hann losnaði úr fangelsi hélt hann áfram að gefa út plötur með Egypt 80 og túra um Evrópu og Bandaríkin og árið 1986 kom hann fram á tónleikum til styrktar Amnesty International á Giants leikavanginum í New Jersey ásamt Bono, Santana og fleirum. En í byrjun tíunda áratugarins fór að líða lengra á milli platna og að lokum hætti hann alfarið að gefa út. Þetta má líklega rekja til veikinda hans en hann þjáðist af alnæmi þó að hann neitaði að viðurkenna það eða leita læknisaðstoðar vegna þess. 2. ágúst 1997 komst dauðinn upp úr skjóðu Fela og hafði sigur á honum. Meira en milljón manns syrgðu þegar hann var borinn til grafar í Lagos. Fela Kuti var tónlistarmaður, byltingarsinni og frumkvöðull. Hann var talsmaður hinna undirokuðu, fátæku og kúguðu í heimalandi sínu og arfleið hans og íkonísk staða í Nígeríu á sér aðeins fordæmi í arfleið Bob Marley á Jamaíka.

 

Davíð Roach Gunnarsson