Tónleikahelgin 2.-4. janúar

Fyrsta helgi nýja ársins fer rólega af stað en þó eru nokkrir tónleikar sem vert er að drífa sig út úr húsi fyrir.

Fimmtudagur 2. janúar

Á Gamla Gauknum koma fram Leiksvið Fáránleikans, Casio Fatso og Gímaldin Magister. Það er frítt inn og hurðin opnar klukkan 21:00.

Föstudagur 3. janúar

Pascal Pinion koma fram á hinum nýopnaða stað Mengi á Óðinsgötu 2. Systurnar spila lágstemmt jaðarpopp þar sem ýmis hljóðfæri koma við sögu, lítil og stór hljómborð, gítarar, fótbassar og trommupedalar. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Blásið verður til allsherjar rokkveisla á Gamla Gauknum. Íslensku rokksveitirnar Coral og Telepathetics ætla að rísa upp frá dauðum þessa einu kvöldstund og rokka kofann eins og árið sé 2004. Pönkhundarnir í Morðingjunum koma einnig fram. Aðgangseyrir er 500 krónur og tónleikarnir hefjast uppúr tíu en aðstandendur lofa sveittasta giggi ársins 2014.

Laugardagur 4. janúar

Þjóðlagapoppsveitin The Evening Guests kemur fram ásamt öðrum gestum á Gamla Gauknum. Það er ókeypis inn og dyrnar opnast 21:00.

Ólöf Arnalds heldur fyrstu tónleika sína á árinu á afmælisdegi sínum 4. janúar. Gleðin verður haldin á Mengi við Óðinsgötu 2.

Charlotte Gainsbourg syngur Hey Joe

Franska söng- og leikkonan Charlotte Gainsbourg hefur nú gert ábreiðu af laginu Hey Joe, sem er frægast í flutningi Jimi Hendrix. Það er sjálfur Beck sem sá um upptökur á laginu en hann vann með Charlotte að breiðskífunum IRM og Stage Whisper. Hljómur lagsins svipar óneitanlega til History De Melody Nelson, einnar bestu plötu föður Charlotte, Serge Gainsbourg.

 

Lagið var tekið upp fyrir hljóðrás kvikmyndarinnar Nymphomaniac sem er væntanleg frá danska meistaranum Lars Von Trier. Charlotte Gainsbourg leikur aðalhlutverkið í myndinni, persónu sem heitir einmitt Joe, en myndin ku vera ansi djörf svo ekki sé meira sagt. Hlustið á ábreiðuna hér fyrir neðan og horfið á stiklu úr myndinni. Í kaupbæti fylgir svo upphafslag History de Melody Nelson með Serge Gainsbourg.


Dj Premier rímixar Disclosure

Bandaríski hip hop pródúserinn Dj Premier hefur nú endurhljóðblandað Latch, lag garage-bræðradúettsins Disclosure. Upprunalega lagið er af plötunni Settle sem kom út í sumar sem er full af danssmellum og að mati síðuhaldara ein af betri plötum ársins. Dj Premier hægir taktinn niður í hip hop tempó með kraftmiklum trommum og smekklegu píanói. Endurhljóðblöndunin er af væntanlegri rímix-plötu Disclosure sem kemur út 17. desember. Dj Premier er helst þekktur sem taktsmiður hins sögufræga rappdúetts Gang Starr. Hlustið á endurhljóðblöndunina og upprunalega lagið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 5.-7. desember

Á þessari annarri helgi í aðventu er ýmislegt að gerast í tónleikahaldi á Höfuðborgarsvæðinu og hér verður farið yfir það helsta.

Fimmtudagur 5. desember

 

Caterpillarmen og MC Bjór & Bland blása til tónleika á Gauk á Stöng. Caterpillarmen hafa verið starfandi frá árinu 2009 og spila tilraunakennda progg tónlist sem einkennist af spilagleði og líflegri sviðsframkomu. Drengirnir segjast sækja áhrifavalda til apa en einnig hljómsveita á borð við King Crimson, Yes og Gentle Giant. MC Bjór er rappari sem hefur bruggað list sína neðanjarðar um nokkurt skeið en er nú loks að freyða upp á yfirborðið. MC Bjór sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins. Hljómsveitin Bland mun síðan elta orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita. Leikar hefjast klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Texas Muffin og skerðing spila Dillon og gleðin hefst 22:00. Texas Muffin spila boogie rokk með blús ívafi og aðdáendur JJ Cale og ZZ Top ættu að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Skerðing er pönksveit í orðsins fyllstu merkingu. Aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 6. desember

 

Emiliana Torrini leikur á tvennum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu, þeir fyrri eru klukkan 19:00 en hinir seinni 22:30. Miðaverð er frá 4900 upp í 7900 eftir sætum og miðasala er á miði.is.

 

Benni Hemm Hemm gaf út sína fimmtu breiðskífu á dögunum og kallast hún Eliminate Evil, Revive Good Times. Til að fagna plötunni og aðventunni mun Benni spila nokkur lög af plötunni í Bókabúð Máls og Menningar kl. 17:00 og bjóða uppá léttar veitingar.

 

Hljómsveitin Bellstop fagnar útgáfu nýjustu plötu sinnar á Gauk á Stöng en um upphitun sjá Indigó Wolfie og Slow Mountains. Aðgangseyrir er 1500.

 

Laugardagur 7. desember

 

Bandaríski diskókóngurinn Sleazy McQueen þeytir skífum á Harlem. Sleazy er einn af forsprökkum nýbylgjudiskósenunnar vestanhafs og rekur útgáfufyrirtækið Whiskey Disco, sem m.a. hefur gefið út tónlist hins íslenska B.G. Baarregaard. Á Harlem mun Sleazy leika bæði nýja diskótónlist auk gamalla gullmola úr vínylsafninu. Steindór Jónsson hitar upp mannskapinn en dansinn hefst um miðnætti og stendur yfir til 04:30. Aðgangur er ókeypis.

 

Harðkjarnasveitirnar Aterna, I Com T og Ophidian I koma fram á Gauk á stöng. Aðgangseyrir er 700 krónur.

ATP haldin aftur á Íslandi

Nú fyrir stundu var tilkynnt frá aðstandendum All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar að hún muni verða haldin aftur á Íslandi á næsta ári. Hátíðin verður eins og í fyrra á Ásbrú, gömlu herstöðinni í Keflavík, og mun standa yfir frá fimmtudegi til laugardags 10.-12. júlí. Nick Cave var aðalnúmer hátíðarinnar í fyrra sem var frábærlega vel heppnuð og umhverfið á herstöðinni einstök umgjörð um tónleikahaldið. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og kaupa miða hér og hér má lesa umfjöllun straum.is um hátíðina í fyrra.

Tónleikahelgin 21.-23. nóvember

Hér verður stiklað á stóru sem smáu í tónleikahaldi helgarinnar.

Fimmtudagur 21. nóvember

Þungarokkstónleikar verða á Gauk á stöng og hljómsveitirnar Jötunmóð, Aeterna, Moldun og Wistaria koma fram. Aðstandendur tónleikana vilja sjá slamm, sveitta moshpitta og bjór í hverri hendi en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 22. nóvember

Söngkonan Lay Low blæs til útgáfutónleika fyrir nýútkomna plötu sína Talking About The Weather í Fríkirkjunni. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Snorri Helgason en þeir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.

Það verður sannkölluð Pönkveisla á Gauknum þegar hin fornfræga sveit Fræbbblarnir halda upp á 35 ára afmæli sitt. Fræbbblarnir munu stíga á stokk með gamalt og nýtt efni að vopni en þeir hafa unnið hörðum höndum að nýju plötustórvirki undanfarið. Einnig munu þeir sýna áhrifavöldum sínum virðingu sína og spila klassískar pönklagasmíðar sem mótuðu Fræbbblana. Húsið opnar klukkan 9 og það er frítt inn.

Ghostigital verða með dj sett ásamt Steindóri Jónssyni í hliðarsal Harlem. Dansveislan hefst upp úr miðnætti og stendur eins lengi og lög um vínveitingar leyfa og það er ókeypis inn.

Mánaðarlegur reggae/dub/dancehall viðburður RVK Soundsystem verður haldinn á Dollý. Gestur kvöldsins er 7berg sem hefur hingað til verið kenndur við Hip Hop en í þetta skiptið ætlar hann að rokka mækinn yfir reggítaktinn. Gleðin hefst klukkan 23:00 og stendur fram eftir nóttu.

Laugadagur 23. nóvember

Pick a Piper sem er hliðarverkefni Brad Weber, trommara Caribou, spilar á tónleikum í hliðarsal Harlem. Sveitin spilar samblöndu af líf- og rafrænni tónlist og tvö trommusett verða nýtt á tónleikunum. Raftónlistarmaðurinn Tonik sem átti stjörnuleik á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð hitar upp en tónleikarnir hefjast hálf 12 og aðgangur er ókeypis.

Þungarokkstónleikar verða á Gauk á Stöng en fram koma Shogun, We Made God, Endless Dark og Conflictions. Hurðin opnar 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur en einn bjór er innifalinn í því verði.

Trentemøller og Diplo á Sónar

Rétt í þessu var tilkynnt að danska raftónlistarmanninum Trentemøller og hinum bandaríska Diplo hafi verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar sem fram fer í febrúar. Trentemøller er sannkallaður íslandsvinur en hann kom fram á hátíðinni í fyrra sem plötusnúður og lék fyrir pakkfullum Norðurljósasal. Í þetta skipti kemur hann hins vegar fram með live hljómsveit en hann sendi frá sér fyrr á árinu hina frábæru breiðskífu Lost. Diplo er forsprakki Major Lazer hópsins sem er eitt aðalnúmer hátíðarinnar í ár en hann mun einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpunnar.

Þá hefur í íslensku deildinni verið bætt við FM Belfast, Tonik, Cell 7 og Gluteus Maximus auk þess sem Högni Egilsson úr Hjaltalín og Gus Gus mun heimsfrumflytja sóló verkefni sitt, HE. Aðrir flytjendur á hátíðinni eru meðal annars Bonobo, James Holden, Paul Kalkenbrenner og Jon Hopkins sem gaf út eina bestu plötu ársins, Immunity, og stóð sig feikna vel á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð. Miðasala á hátíðina er í fullum gangi en hægt er að kaupa miða hér og skoða dagskrána hér. Enn á eftir að tilkynna um fleiri listamenn sem koma munu fram. Hlustið á tóndæmi hér fyrir neðan.


Two Step Horror á Harlem í kvöld

Hljómsveitin Two Step Horror kemur fram ásamt Rafsteini og Captain Fufanu á Harlem í kvöld en ritstjórar straum.is munu sjá um að þeyta skífum á milli atriða. Two Step Horror hafa getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir hægfljótandi og draumkennt trommuheilarokk sem sækir áhrif jafnt í shoegaze, rokkabillí og kvikmyndir David Lynch. Tónleikarnir eru haldnir til fjáröflunar fyrir væntanlega ferð sveitarinnar til Berlínar þar sem hún kemur fram í tónleikaröðinni Fifth Floor Event í desember ásamt The Blue Angel Lounge og The Third Sound.

Þá er væntanleg breiðskífan Nyctophilia frá sveitinni sem kemur út á vínil öðru hvoru megin við áramótin. Áður hafa Two Step Horror gefið út plöturnar Living Room Music árið 2011 og Bad Sides and Rejects í fyrra en báðar hlutu afbragðs dóma gagnrýnanda.

Einyrkinn Rafsteinn sem einnig kemur fram leikur framsækinn rafbræðing undir áhrifum frá sveimtónlist og sækadelíu. Þá kemur fram fyrrum tekknódúettinn Captain Fufanu sem nýlega hafa umbreyst í live hljómsveit með gítar, trommum og tilheyrandi, en þeir stóðu sig frábærlega á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.



Busta Rhymes og Q-Tip í feiknaformi

Á næsta ári er væntanleg ný plata frá vélbyssukjaftinum og flippsveitarmeðlimnum Busta Rhymes, Extinction Level Event 2, sem er framhald af hinni geysivinsælu skífu með óþjála titilinn E.L.E. (Extinction Level Event): The Final World Front. Sú frábæra plata kom út 1998 og innhélt slagara á borð við Gimme Some More og What’s It Gonna Be?! Ýmsir rapparar hafa í gegnum tíðina gert eins konar framhöld af sínum frægustu plötum -oft mörgum árum seinna- svo sem Raekwon með Cuban Linx pt. 2, Dr. Dre með Chronic 2001, Jay-Z með Blueprint 2 og 3, og nú síðast Eminem með Marshall Mathers 2 sem kom út í þessari viku.

 

Fyrsta smáskífan af Extinction Level Event 2, Twerk It, kom út í júní og er eins og nafnið gefur til kynna óður til rassadansins alræmda sem Mily Cyrus hefur undanfarið vakið mikla athygli fyrir. Lagið er með hægum og fútúrískum takti og gestaversi frá Nicki Minaj, en í því ber lítið á ljóshröðu flæðinu sem rapparinn er hvað þekktastur fyrir. Það kveður hins vegar við allt annan tón í laginu Thank You sem kom út á dögunum. Undirspilið er byggt á óldskúl diskófönki og Busta nýtur aðstoðar síns gamla félaga Q-Tip, auk þess sem Lil Wayne og Kanye West líta inn og kasta kveðju. Busta Rhymes og Q-Tip eru í fantaformi og rappa á ógnarhraða af miklu áreynsluleysi í lagi sem minnir um margt á hin svokölluðu gullaldarár rappsins um miðjan 10. áratug síðustu aldar.

 

Busta Rhymes og Q-Tip eiga sér langa sögu en það var einmitt í lagi með sveit hins síðarnefnda, A Tribe Called Quest, sem að Busta Rhymes vakti fyrst athygli. Það var með ódauðlegu gestaversi sem hreinlega slátraði partýslagaranum Scenario, af plötunni Low End Theory frá 1991. Þá má geta þess að einnig er von á nýrri plötu, The Last Zulu, frá Q-Tip á næsta ári. Hlustið á Thank You, Twerk It og Scenario hér fyrir neðan og horfið á dramatískt kynningarmyndband fyrir Extinction Level Event 2.

Davíð Roach Gunnarsson



E.LE. 2 Trailer from Dazed One on Vimeo.

 

 

Tónleikahelgin

Svona stuttu eftir Airwaves er líklega nokkur þreyta í flestum tónlistarmönnum landsins og tónleikahald því með rólegra móti þessa helgi. En það er þó alltaf eitthvað og það er hérmeð tekið saman.

Fimmtudagur

Sálarsveitin Moses Hightower fagnar  útgáfu plötunnar Mixtúrur úr Mósebók en á henni er að finna 16 endurhljóðblandanir eftir valinkunna listamenn af lögum af Annarri Mósebók, síðustu breiðskífu þeirra. Í tilefni útgáfunnar verður haldið hlustunarteiti í plötubúðinni Lucky Records þar sem platan mun óma og boðið verður upp á léttar veitingar, en gleðin hefst klukkan 20:00.

Hljómsveitin Slow Mountains verður með tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.

Föstudagur

Hið mánaðarlega jaðarkvöld kaffi Hressó heldur áfram
og nú er komið að Oyama og Knife Fights. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og aðgangur er ókeypis.

Hljómsveitirnar Vintage Caravan, Nykur og Conflictions koma fram á Gamla Gauknum. Hurðin opnar klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Laugardagur

Haldnir verða tónleikar á Gamla Gauknum til heiður Black Sabbath þar sem verður breytt yfir helstu smelli sveitarinnar. Heiðurssveitina skipa Jens Ólafsson (Brain Police), Franz Gunnarsson (Ensími / Dr. Spock), Flosi Þorgeirsson (HAM) og Birgir Jónsson (Dimma / Skepna). Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og miðaverð er 1500 krónur í forsölu en 2000 krónur við hurð.