Innipúkinn – Festival í borg

Mynd: Þórir Bogason

Kvöld 1

 

Hátíðin Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 sem einhvers konar svar miðbæjarins við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, og hefur svo verið haldin næstum því ár hvert síðan þá. Í ár fór hátíðin fram á samliggjandi skemmtistöðunum Húrra og Gauknum og til að undirstrika hátíðarbraginn var götunni fyrir framan þá lokað og settar grastorfur og bekkir fyrir framan. Aðaltónleikarnir mætti segja að hafi verið á Húrra þar sem var blönduð dagskrá, en á Gauknum var fókus á sérstaka tónlistarafkima á hverju kvöldi, hart rokk á föstudegi, raftónlist á laugardeginum og rapp á síðasta kvöldinu.

 

Dj Flugvél og Geimskip var að koma sér fyrir þegar ég mætti á Húrra og krúttlegið hljómborðspoppið fór vel í áhorfendur sem fjölgaði ótt í salnum eftir því sem leið á tónleikana. Ég yfirgaf þó Geimskipið til að tónlistarlega andstæðu þess, Pink Street Boys sem spiluðu á Gauknum. Þar voru öllu færri en þemað á Gauknum þetta kvöldið var rokk í harðari kantinum. Pink Street Boys spiluðu harða, hraða og fasta blöndu af pönki og garage-rokki sem reif í hljóðhimnuna á yfirgengilegum hljóðstyrk. Þetta var hreint og tært rokk og ekki vottur af hipster-pósi sem var ansi hressandi, en ég þoldi samt ekki við mikið lengur en 20 mínútur því mér þykir of vænt um heyrnina mína.

 

Arabískir skalar og gjafir jarðar

 

Plötusnúðurinn KGB var næstur á svið með rokkverkefni sitt sem hann kallar Justman. Hann hafði innlimað ryþmapar Boogie Trouble og Teit úr Ojba Rasta og spilaði nokkuð lágstemmt indígítarpopp nokkuð í anda sveita eins og Pavement. Eitt lagið skar sig þó úr en í því byggði hann á arabískum tónskölum sem var afskaplega vel heppnað. Borko mætti til leiks í félagsskap raftónlistarmannsins Futuregrapher og framleiddi tilraunakennt rafpopp. Þvínæst fóru fjölmenningarnir í Orphic Oxtra á svið og héldu upp balkanskri brúðkaupsstemmningu næsta hálftímann eða svo, áður en reggístórsveitin Ojba Rasta tók við.

 

Ojba Rasta eru óðum að fylla upp í reggítómið sem Hjálmar skyldu eftir sig og stóðu sig með mikilli prýði þetta kvöld, ekki síst í lögunum Gjafir Jarðar og Hreppstjórinn. Heilt yfir var kvöldið mjög vel heppnað og grastorfunar og bekkirnir fyrir framan Húrra mynduðu skemmtilega hátíðarstemmningu þar sem fólk sat, reykti og spjallaði á milli atriða.

 

Kvöld 2

 

Ég byrjaði laugardagskvöldið á rafdúettinum Good Moon Dear, sem spiluðu á Gauknum. Það er Guðmundur Ingi Úlfarsson sem er heilinn á bak við verkefnið en honum til halds og trausts hefur hann trommuleikarann Ívar Pétur úr sveitunum Miri og FM Belfast. Tónlistin stígur einstigi á milli Hip Hop og House og byggir að stórum hluta á hljóðbútum sem eru teygðir og skældir í allar áttir, og minnir mig stundum á taktmeistarann Prefuse 73. Þetta var djassað og spunakennt og greinileg kemestría á milli félaganna á sviðinu.

 

Þvínæst náði ég í skottið á hljómsveitinni Kvöl sem spilaði einhvers konar dauft bergmál af Joy Division, frambærilegt en nokkuð óeftirminnilegt. Low Roar hefur vaxið og dafnað frá því hann vakti fyrst athygli með kassagítardrifnu singer-songwriter poppi, og hefur nú stækkað við sig með gítarleikara, trommara og sérstakan græjumeistara sem spilar bæði á hljómborð, og fokkar í hljóðum hinna í rauntíma. Þá söng Mr. Silla með honum í nokkrum lögum og var stórgóð. Sum af bestu lögunum minna nokkuð á raftónlistartímabil Radiohead, og er það vel.

 

101 Abba

 

Mr. Silla var svo næst á svið með sóló-sett sem var ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt. Frá lágstemmdri trip hop elektróník úr tölvunni yfir í Joplin-lega blúsara þar sem hún spilaði undir á rafmagnsgítar, en undurfögur röddin var alltaf í forgrunni. Benni Hemm Hemm hefur ekki verið mjög áberandi undanfarið svo ég var forvitinn að sjá hvað hann hefði upp á að bjóða á Innipúkanum. Það kom svo sannarlega á óvart, en fyrir utan um 10 manna hljómsveit með slatta af blæstri, var um tugur bakraddasöngvara mættur á sviðið, og hersingin spilaði svo einungis Abba lög. Það var eitthvað skemmtilega kaldhæðið við að sjá rjómann af 101 hipsterum leika Abba lög og áhorfendur tóku við sér og dönsuðu svo um munar.

 

Kvöldið endaði svo eins og hið fyrra, með sjóðheitu reggíi, en að þessu sinni voru það Amaba Dama sem léku fyrir dansinum.

 

Kvöld 3

 

Lokakvöldið hjá mér hófst svo á Markús and the Diversion Session sem spiluðu letilegt 90’s slackerrock af miklu en afslöppuðu öryggi. Þá var flutningur Ólafar Arnalds hugljúfur og blíður en eftir hana var skipt um gír. Þá tók harðsvíraða grúvgengið í Boogie Trouble við keflinu en þau nutu þó aðstoðar Ólafar Arnalds á bakröddum. Þau fönkuðu þakið af húsinu í sjóðheitum hrynhita og dansinn dunaði svo um munaði.

 

Þvínæst kom lokaatriði hátíðarinnar, sjálfur meistari Megas steig á svið með sínum helstu lærisveinum, Grísalappalísu. Lísurnar keyrðu í gegnum helstu lög Megasar af rokna krafti meðan meistarinn lék á alls oddi í flutningnum. Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi hans bjóði ekki upp á mikla hreyfingu sá Gunnar Ragnarsson um þá deild af miklu öryggi og hann og Baldur tóku svo undir í bakröddum.

 

Alvöru valkostur

 

Þetta er líklega í 13. skiptið sem Innipúkinn er haldinn um Verslunarmannahelgi og það er ljóst að hann lætur engan bilbug á sér finna eftir allan þennan tíma. Það er nauðsynlegt að hafa valkost við útihátíðir fyrir heimakæra borgarbúa og púkinn í ár stóð fyllilega undir því. Þriggja daga dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á ýmis atriði sem maður sér ekki á venjulegum tónleikum í Reykjavík, svo sem Megas með Grísalappalísu og Benna Hemm Hemm syngja Abba lög. Þá skapaði grasi skreytt gatan fyrir framan Gaukinn og Húrra alvöru festivals-stemmningu, en þó ekki útihátíðlega.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikar helgarinnar 31. júlí-3. ágúst

Mynd: Nanna Dís

Fimmtudagur 31. ágúst

 

Söngkonan Ólöf Arnalds kemur fram á Loft Hostel í Bankastræti og hefur leik klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Sóley fagnar nýútgefinni plötu sinni, Krómatík, með tónleikum í Mengi. Hún mun leika lög af plötunni í bland við eldra efni og annað óútgefið. Sóley stígur á stokk 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Blúsaði pulsusalinn Skúli Mennski kemur fram ásamt hljómsveit sinni Þungri Byrði á Rósenberg. Tónleikarnir byrja 22:00 og hægt er að kaupa miða í forsölu á 1500 krónur í síma 861-3553, en annars er miðaverð 2000 krónur við hurð.

 

Föstudagur 1. ágúst

 

Innipúkinn hefst í dag með stífri tónleikadagskrá á Húrra og Gauknum sem hljómar svo:

 

Húrra:

 

21:00 Snorri Helgason

21:45 Dj flugvél og geimskip

22:30 Justman

23:15 Borko & Futuregrapher

00:00 Orphic Oxtra

00:45 Ojba Rasta

 

Gaukurinn:

 

21:15 Börn

22:05 Pink Street Boys

22:55 Kælan Mikla

23:45 Logn

00:35 Muck

 

Dyrnar opna klukkan 20:00 en armband fyrir alla þrjá dagana kostar 6500 krónur en hægt er að kaupa sig inn á stök kvöld fyrir 3000.

 

Þá fer tónlistarhátíðin Bakgarðurinn fram á Dillon en hún nær yfir þrjá daga en þennan dag koma fram Ojba Rasta, DIMMA, Benny Crespo’s Gang, Elín Helena, Lily Of The Valley, Bellstop, Jakobsson. Fyrstu tónleikarnir byrja 17:00 en helgarpassi á hátíðina kostar 4500 krónur en dagspassi 2000.

 

Laugardagur 2. ágúst

 

Innipúkinn heldur áfram á Húrra og Gauknum en dagskrá kvöldsins er eftirfarandi:

 

Húrra:

 

21:00 Loji

21:45 Kvöl

22:30 Low Roar

23:15 Benni Hemm Hemm

00:00 Mr. Silla

00:45 Amaba Dama

 

Gaukurinn:

 

21:15 Good Moon Deer

22:05 Quadruplos

22:55 Futuregrapher

23:45 Tanya & Marlon

00:35 Sísí Ey

 

Dyrnar opna eins og fyrr 20:00 og armband fyrir alla þrjá dagana á 6500 en 3000 kostar inn á stakt kvöld.

 

Tónlistarhátíðin Upp rís úr rafinu verður haldin í Mengi en hún er helguð samspili raf- og akústískrar tónlistar. Hópur ungra tónskálda mun sýna verk sín á tvennum tónleikum en aðgangseyrir fyrir allt heila klabbið er 2000 krónur:

 

Kl. 18:00: Ný verk fyrir víólu og elektróník eftir Báru Gísladóttur, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Finn Karlsson, Halldór Smárason og Hauk Þór Harðarson. Flytjandi er Þóra Margrét Sveinsdóttir.

 

Kl. 20:00: Tónskáld flytja eigin verk með hjálp raftækja: Áslákur Ingvarsson, Gunnar Gunnsteinsson, Gunnar Karel Másson, Matthías Ingiberg Sigurðsson og Sigrún Jónsdóttir.

 

Bakgarðurinn heldur áfram á Dillon en þetta kvöld koma fram SÓLSTAFIR, Snorri Helgason & Silla, We Made God, Audio Nation, Ármann Ingvi, Milkhouse og Myrká. Dagskráin hefst 17:00 og miði á allar þrjá daga kostar 4500 en 2000 á stakan dag.

 

Sunnudagur 3. ágúst

 

Síðasta kvöld Innipúkans verður eins og fyrr á Húrra og Gauknum og dagskráin er eftirfarandi:

 

Húrra:

 

21:00 Fufanu

21:45 Mosi Musik

22:30 Markus & The Diversion Session

23:15 Ólöf Arnalds

00:00 Boogie Trouble

00:45 Megas + Grísalappalísa

 

Gaukurinn:

 

21:15 Shades of Reykjavík

22:05 Cryptochrome

22:55 7berg

23:45 Reykjavíkurdætur

00:35 Kött Grá Pje

 

Síðasti dagur Bakgarðarins á Dillon en þá koma fram Dikta, Low Roar, Mosi Musik, The Roulette, Alchemia band, Future Figment, Lucy In Blue. Dagskráin hefst sem fyrr klukkan 17:00.

Hróarskelda 2014 – Heimur út af fyrir sig

Við skulum byrja þetta á játningu: Ég heiti Davíð, er 31 árs og hef aldrei áður farið á Hróarskeldu. Við skulum svo taka aðra játningu: Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihalda yfirbókaða flugvél, millilendingu í Barcelona og missi af tengiflugi þar var ég lengur í útlöndum en ég ætlaði mér. Ég skrifaði ekki mikið niður af minnispunktum og er þess vegna að fiska atburði og stemmningar upp úr bjórmaríneruðu minni nokkru eftir hátíðina. Það sem á eftir fer er þess vegna ekki vísindalega áreiðanlegur vitnisburður en gefur þó vonandi óljósa mynd af þeirri alhliða upplifun sem Hróarskelda er. Hefst nú ritningin:

 

Þegar við stigum út úr lestinni og komum inn á Hróarskeldusvæðið áttum við eftir að redda tjaldi og tjalda því og það voru tveir tímar þangað til Outkast áttu að byrja. Það hefði átt að vera einfalt verkefni en enginn virtist vita hvar maður gæti keypt tjald eða hvar blaðamannatjaldsvæðið væri og Outkast voru við það að byrja þegar við fundum það. Við tjölduðum á methraða með Bombs Over Baghdad sem undirleik og hlupum síðan yfir á appelsínugula sviðið að sjá eina bestu rapphljómsveit allra tíma. Ég hef verið Outkast aðdáandi helming ævi minnar og þetta var langþráð stund sem stóðst allar væntingar. Ólíkt því sem ég hafði lesið um tónleika þeirra á Coachella hátíðinni voru Andre 3000 og Big Boi í miklu stuði á sviðinu og ekki á þeim að sjá þetta væri gert bara fyrir peninginn. Þeir tóku alla sína helstu slagara og ég ærðist þegar þeir spiluðu Roses. Andre er svalasti núlifandi maður jarðarinnar og fór á kostum á sviðinu og vitnaði meira að segja í dónarappsveitina 2 Live Crew.

Á eftir Outkast voru ellilífeyrisþegarnir í Rolling Stones. Ég hafði ekki miklar væntingar til þeirra, Stones eru orðnir svo mikil stofnun að ég hélt þetta væri bara til að tikka í eitthvað box og getað sagst hafa séð þá. En tónleikarnir fóru langt fram úr vonum mínum og voru með þeim bestu á hátíðinni. Það er ótrúlegt hvernig rödd Mick Jaggers hefur nánast ekkert dalað á 50 árum og Ronnie Woods fór hamförum á gítarnum. Keith Richards var í aukahlutverki á gítarnum en magnaður karakter engu að síður og þeir fengu kór til að aðstoða sig við You can’t always get what you want. Í lokin var svo flugeldum skotið á loft sem var fullkomlega verðskuldað.

 

Dagur 2

 

Vegna þess hve seint við komum á tónleika gærkvöldsins ákváðum við að taka daginn snemma á föstudeginum og byrjuðum með hljómleikum nýsjálenska sýrurokkarans Connan Mockasin klukkan 2 um daginn. Hann lék LSD-legna síkadelíu ekki ósvipaða áströlsku sveitinni Tame Impala og sló góða upptakt fyrir þá stífu tónleikadagskrá sem fram undan var. Næst var haldið í Arena tjaldið þar sem bandaríska indírappsveitin Dialated Peoples var að koma sér fyrir. Þeir rokkuðu Arena-tjaldið með rokna sviðsframkomu og plötusnúðurinn Babu sýndi ótrúlega fingrafimi í villtum skrats-sólóum.

Við röltum svo í annað svið yfir á kvennabandið Warpaint sem myndaði rafmagnaða stemmningu með dökkum hljómi og þéttum samsöng. Þar á eftir fékk norski raftónlistarmaðurinn Cashmere Cat okkur til að dansa í besta setti dagsins hingað til, sem innhélt kraftmikla blöndu af tekknói, dubstep og hústónlist. Þvínæst héldum við yfir á Arena sviðið að sjá hinn feikilega fjölhæfa Damon Albarn. Albarn er nýbúinn að gefa út sína fyrstu sólóskífu undir eigin nafni sem er virkilega fín en nokkuð í rólegri kantinum. Flutningur Damons og hljómsveitar var afbragð en gefið var í á seinni hluta tónleikana og hápunktinum náð þegar De La Soul stigu á sviðið og fluttu Gorillaz slagarann Feel Good Inc.

Rafdúettinn Darkside sem samanstendur af Nicolas Jaar og gítarleikaranum Dave Harrington stóð svo sannarlega undir nafni því tónleikar þeirra voru þeir myrkustu á hátíðinni, svo dimmt var í tjaldinu að ekki sást vottur af tvímenningunum á sviðinu. Þrátt fyrir að vera mikill aðdáandi tónlistar sveitarinnar var leiðinlegt að sjá ekki mennina á bakvið hana, svo við héldum því yfir á annan rafdúett, hina bandarísku Classixx. Þeir voru öllu líflegri, spiluðu á bassa og hljómborð, og framleiddu fönkí graut af hús- og diskótónlist meðan Kraftwerk-legri grafík var varpað á skjá fyrir aftan.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru fætur föruneytisins orðnir ansi lúnir eftir næstum því hálfan sólarhring af tónleikastandi og labbi milli sviða. Við vorum þó staðráðnir í að sjá tribute-bandið The Atomic Bomb! Band, sem leikur tónlist hins dularfulla nígeríska synthafönkmeistara, William Onyeabor. Hljómsveitin er skipuð einvalaliði hljóðfæraleikara úr mörgum heitustu indísveitum samtímans auk ýmissa afrískra snillinga. Þá komu söngvarar eins og Luke Jenner úr Rapture og Joe Goddard úr Hot Chip við sögu en toppurinn var þó þegar Damon Albarn kom óvænt á sviðið og flutti helsta slagara Onyeabor, Fantastic Man. Þá fann ég ekki fyrir neinni þreytu lengur í löppunum og dansaði og öskraði mig hásan inn í nóttina við óstöðvandi grúvið. Þetta var einn af hápunktum hátíðarinnar og við héldum dauðþreyttir en með risabros á vör heim í tjaldið.

Dagur þrjú

 

Eftir pakkaða dagskrá gærkvöldsins leyfðum við okkur að slaka aðeins á fyrri part dags og drekka bjór í sólinni við tjaldsvæðið. Þrátt fyrir að tónlistin sé aðalatriðið er líka hluti af stemmningunni við hátíðina að rölta um, kynnast nýju fólki og vera ekki allt of rígbundinn við stífa dagskrá. Við sáum bandarísku R&B píuna Kelelu flytja á tilfinningaþrungin hátt framsækna popptónlist með rafrænni áferð. Þá var fransk/spænski reggíhippinn Manu Chao í fínasta stuði á aðalsviðinu en ég hef samt aldrei verið mikill aðdáandi hans svo haldið var yfir á breska raftónlistarmanninn James Holden.

 

James Holden er sér á báti í raftónlistarsenu samtímans, leikur kosmíska hljóðasúpu með geigvænlegum drunum og áhrifum frá sækadelik og súrkálsrokki. Hann var í mjög þéttri keyrslu og fór á kostum í hljóðgervlafimleikum og tilraunakenndum töktum.

 

Artic Monkies héldu táningunum í stuði á stóra sviðinu, Kavinsky héldu eitursvölu kúlinu sínu og Interpol voru svellkaldir eins og venjulega. Major Lazer áttu dónalegasta sett hátíðarinnar en á meðan Diplo og félagar dældu út sóðalegu Dancehall-i voru fimm dansapíur í tannþráðs G-strengjum að twerka eins og þær fengju borgað fyrir það (sem þær gerðu alveg örugglega). Það síðasta sem við sáum þetta kvöldið var svo hávaðapoppbandið Sleigh Bells sem gjörsamlega rokkuðu himininn af tjaldinu. Alexis Krauss, söngkona sveitarinnar, fór á kostum í tryllingslegri sviðsframkomu þar sem hún steig yfir vegginn fyrir framan sviðið og bókstaflega labbaði ofan á áhorfendum.

 

Dagur 4

 

Eitt af því skemmtilegasta við tónlistarhátíðir með óteljandi hljómsveitum er að ramba óvænt á eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt áður. Í gönguferð í leit að morgunmat rákumst við inn á tónleika með malísku feðgunum Toumani & Sidiki Diabate. Toumani þessi er víst þekktur fyrir samstarf sitt við Ali Farka Touré en þarna var hann með syni sínum og þeir framkölluðu forn grúv með módernísku tvisti á svokallaðar Kora-hörpur.

 

Deerhunter áttu mjög góða spretti og forsprakki hennar, Bradford Cox, sem lítur út eins og tveggja metra alnæmissjúklingur með vörubílsstjóraderhúfu, lék á alls oddi í mögnuðum gítaræfingum. Það var hins vegar aldraða undrabarnið og æringinn Stevie Wonder sem átti bestu tónleika sunnudagsins. Studdur hljómsveit á heimsmælikvarða keyrði hann í gegnum úrval af sínum óteljandi hitturum og maður sá útgeislunina skína úr augum hans þrátt fyrir dökk sólgleraugun. Að sjá þann sjónlausa flytja lög eins og Master Blaster (Jammin), My Cherie Amor, Living For The City og Superstition í félagsskap minna bestu vina í glampandi sólskyni gerði mig allan meyran og hamingjuþrungin hitatilfinning byrjaði að kræla á sér innra með mér og hríslast um allan líkamann. Wonder-inn var eins mikið með’etta og hægt er að vera að upplifunin ólík öllu öðru á hátíðinni.

 

Jack White lokaði svo hátíðinni með stæl og hóf leikinn á White Stripes klassíkinni Icky Thump. Reglulega brast á með villtum gítarsólóum og áhorfendur tóku við sér svo um munar í White Stripes lögum eins og Fell in Love With a Girl og Hotel Yorba. Hann lokaði svo hátíðinni endanlega með hinu anþemíska Seven Nation Army þar sem tugir þúsunda sungu með og sló þannig vel rokkaðan botn í ógleymanlegt festival.

Að upplifa Hróarskeldu í fyrsta skiptið er samt ekki hægt að lýsa til fullnustu með neinum orðum, jafnvel ekki svona rosalega mörgum eins og ég hef reynt í þessari grein. Hátíðin er eins og önnur vídd þar sem stjórnlaus gleði ræður ríkjum sem fer þó aldrei úr böndunum. Þarna eru samankomnir rúmlega 100.000 manns og það sást ekki vesen eða leiðindi á einum einasta. Þetta var mín fyrsta hátíð en verður svo sannarlega ekki sú síðasta.

 

Davíð Roach Gunnarsson

MC Bjór frumsýnir myndband

Rapparinn MC Bjór frumsýndi í gær myndband við lag sitt Hrísgrjón. Í því kemur meðal annars við sögu bílferð í geimnum og belja úr Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum á stórleik í aukahlutverki. Í laginu nýtur hann aðstoðar rapparanna BRR og Bjarka B-Nice sem sjá um gestavers og koma einnig fram í myndbandinu.

 

Mc Bjór er kynngimagnaður rappari sem hefur bruggað listrænan mjöð neðanjarðar um nokkurt skeið sem er nú loks farinn að freyða upp á yfirborðið. Bjórinn sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins. Rennsli Bjórsins er ekki bundið hefðbundnum farvegum og flæðir ítrekað yfir alla mögulega bakka. Hann sækir innblástur og hugmyndafræði í andans jöfra 20. aldarinnar á borð við Old Dirty Bastard og Nate Dogg. Sér til halds og trausts á tónleikum hefur hann hljómsveitina Bland sem eltir orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita.

Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 24.-27. júlí

Fimmtudagur 24. júlí

 

Boogie Trouble og Soffía Björg leiða saman bassaleikara sinn á tónleikum næstkomandi fimmtudag á Gauknum. Um er að ræða fyrstu opinberu tónleika Boogie Trouble á höfuðborgarsvæðinu síðan á síðustu Airwaves hátíð. Frítt er inn fyrir mannverur sem bera nafnið Steinunn en aðrir þurfa að reiða fram þúsundkall fyrir aðgang að gleðinni. Hurðin opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar.

 

Dúettinn Dreprún, Helgi Valur og Katastrofa koma fram á Dillon en þau eiga það öll sameiginlegt að fást að einhverju leiti við hip hop tónlist. Ballið byrjar 21:00 og það er fríkeypis inn.

 

Reggíbandið Ribbaldarnir munu leika hljómlist fyrir gesti Loft Hostel klukkan 21:00 og það kostar ekki neitt að berja þá augum.

 

Tilraunasöngkonan Bonnie Lander frá Fíladelfíu og flautuleikarinn Berglind Tómasdóttir koma fram í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00.

 

Hljómsveitin Artic Roots kemur fram á Húrra en tónleikar þeirra byrja 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 25. júlí

 

MC Bjór & Bland, Reykjavíkurdætur og Caterpillarmen munu koma fram á Húrra en þar verður einnig frumsýnt myndbandi við nýjasta lag MC Bjórs, Hrísgrjón. Gleðin hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er enginn.

 

Metalsveitirnar Wistaria og Trust the Lies spila á Gauknum og hefja leik 22:00.

 

Hljómsveitin Börn heldur upp á útgáfu nýrrar LP plötu með tónleikum á Dillon ásamt hljómsveitinni Kvöl. Börn er drungapönkhljómsveit sem reis upp úr ösku hljómsveitarinnar Tentacles of Doom en ókeypis er inn á tónleikana sem byrja klukkan 22:00.

 

Laugardagur 26. júlí

 

Söngkonan Mr. Silla kemur fram á tónleikum í Mengi en þar mun hún frumflytja ný lög í bland við eldra efni. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Mammút frumsýna sitt fyrsta myndband

Hljómsveitin Mammút frumsýndi í dag myndband við lagið Þau svæfa, en það er fyrsta tónlistarmyndbandið sem sveitin sendir frá sér. Því er leikstýrt af Sunnevu Ásu Weisshappel og Katarínu Mogensson söngkonu Mammúts,  en myndbandið er ansi ágengt og vægast sagt holdlegt. Þau Svæfa er af hinni margverðlaunuðu breiðskífu Komdu til mín svarta systir sem kom út í fyrra. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

All Tomorrow’s Parties – Hátíð í Herstöð

Mynd: Ozzo.is

Það er mikið gleðiefni að All Tomorrow’s Parties hátíðin sé haldin í annað skipti á kalda landinu og í ár stækkaði hátíðin og bætti við sig þriðja deginum, auk tjaldsvæðis og partýtjalds. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihéldu Hróarskeldu, millilendingu í Barcelona og yfirbókaða flugvél var ég erlendis fram á fimmtudagsnótt og komst því miður ekki á fyrsta kvöldið, en heyrði mjög vel látið af Shellac og Mogwai, en heldur verr af rigningunni.

 

Gotnesk keyrsla

 

Þegar ég mætti á tónleikasvæðið var Sóley að syngja sitt hugljúfa krúttpopp og skapaði mjög notalega stemmningu í hinu risastóru flugskýli sem er aðalsvið hátíðarinnar. Rigningin lét sem betur fer ekki sjá sig þetta kvöldið og því myndaðist skemmtilegt andrúmsloft fyrir utan Atlantic Studios þar sem fólk sat og spjallaði á bekkjum, fékk sér að borða eða brá sér inn í partýtjaldið þar sem plötusnúðar léku listir sínar. Liars er band sem ég hef ekki hlustað á áður en þeir voru þrumuþéttir í þungri rokkkeyrslu. Þetta var nokkurs konar dimmt og gotneskt synþarokk mitt á milli Depache Mode og Bauhaus.

 

Næstir á svið í Atlantic voru svo gömlu skóglápskempurnar í Slowdive, sem margir voru spenntir fyrir. Þeir framleiddu hnausþykka gítarveggi yfir hægfljótandi trommubít og helltu úr fötum af fídbakki yfir áhorfendur. Þetta var afskaplega vandað hjá þeim en fyrir þá sem eru ekki kunnugir höfundaverki sveitarinnar varð þetta nokkuð keimlíkt þegar á leið.

 

Árás á augu og eyru

 

Næst á svið voru trip hop hetjurnar frá Bristol, Portishead, og flugskýlið fylltist óðum þegar líða dró nær miðnætti. Það var ljóst að þau voru helsta aðdráttarafl kvöldsins og eftirvæntingin í salnum var áþreifanleg þegar ljósin voru slökkt og beðið var eftir goðunum. Það sem gerðist næsta einn og hálfa tímann var útpæld árás á eyru og augu úr öllum mögulegum áttum. Tíu manna hljómsveitin framdi svartagaldur á sviðinu en  fyrstu lögin komu af þriðju plötu sveitarinnar, Third.  Beth Gibbons er sönglegt náttúruafl og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Rauntíma myndböndum af hljómsveitinni á sviðinu voru brengluð með sækadelískum síum og varpað á risastórt tjald fyrir aftan þau sem hafði dáleiðandi áhrif.

 

Þau tóku góðu blöndu af öllum ferlinum en áhorfendur tóku við sér svo um munar í lögum af Dummy eins og Wandering Star, Sour Times og Glory Box þar sem allir sungu hástöfum með. Eftir rúman klukkutíma fóru þau af sviðinu og ég hef sjaldan séð áheyrendur jafn æsta í uppklappi. Þegar Rhodes hljómarnir úr Roads byrjuðu að óma byrjaði gæsahúðafiðringur að læða sér upp mænuna og ég gat ekkert gert annað en staðið dolfallinn og opinmynntur að drukkið í mig flutninginn. Síðasta lagið var We Carry On af Third sem er undir sterkum áhrifum frá þýsku súrkálsrokki og þá var myndavélunum beint út í áhorfendaskarann sem var að missa legvatnið í sameiginlegri hópsturlun. Þetta var performans á heimsmælikvarða og bestu tónleikar sem ég hef séð á Íslandi í ár.

 

Ég þurfti dágóðan tíma í fersku lofti til að jafna mig eftir Portishead en Fuck Buttons voru í essinu sínu að fremja hljóðræn hryðjuverk þegar ég mætti aftur inn í Atlantic Studios skemmuna. Þetta var marglaga óhljóðasúpa en við djúpa hlustun tóku melódíur að rísa upp úr eins og gárur á vatni. Ansi tilkomumikið og góður endir á kvöldinu en bliknaði samt í samanburði við myrkramessuna hjá Portishead.

 

Kvöld tvö

 

Ég hóf leikinn með Sin Fang sem hefur gjörbreytt tónleikum sínum frá því ég sá hann síðast. Í stað venjulegrar hljómsveitar kemur hann fram með tveimur trommuleikurum en sjálfur djöflast hann í hinum ýmsu raftólum ásamt því að eiga við eigin rödd með ýmis konar effektum. Þetta var hressileg tilbreyting og feikilega vel myndskreytt og lög eins og Young Boys og Look at the Light öðluðust annað líf í nýjum útsetningum.

 

Skandínavískt myrkur

 

Breska raftríóið Eaux voru næst á dagskrá í Andrews Theater með líflega blöndu af tekknói og súrkálsrokki undir nokkuð sterkum áhrifum frá kvikmyndatónlist John Carpenters. Tónlistin var mjög góð en algjört myrkur var í salnum og engin ljós á sviðinu. Það er erfitt að tengjast hljómsveit þegar þú sérð ekki andlitin á þeim og þó hljómurinn væri myrkur hefði ég viljað aðeins meiri birtu í salnum.

 

Eftir bíóið var haldið aftur í Atlantic Studios þar sem danska bandið I Break Horses voru að koma sér fyrir. Þau spiluðu draumkennt rafpopp með melankólískum melódíum undir áhrifum frá 9. áratugnum. Tónlistin var einhvern veginn mjög skandínavísk og minnti talsvert á sveitir eins og Bat For Lashes, Knife og Robyn. Þetta var vel gert hjá þeim og alls ekki leiðinlegt en samt ekki mjög eftirminnilegt.

 

Hvorki staður né stund

 

Devandra Banhart er hæfileikaríkur tónlistarmaður sem var þó mjög illa staðsettur á laugardagskvöldinu. Að fara á svið klukkan hálf 11 á undan Interpol á hinu risastóra Atlantic Studios sviði einn með gítar var hreinlega ekki að virka fyrir hann. Hann spilaði mjúkt og söng lágt þannig að kliðurinn nánast yfirgnæfði tónlistina nema maður væri fremst við sviðið. Lögin og framkoman voru líka hálf stefnulaus og hvorki fugl né fiskur.

 

Kuldalegt rokk og fötur af fídbakki

 

Aðalnúmer kvöldsins var síðan New York kuldarokkararnir í Interpol. Þeir stóðu fyllilega fyrir sínu og héldu þéttri keyrslu og góðum dampi í settinu í tæpan einn og hálfan tíma og áhorfendur sungu hástöfum með í helstu slögurunum. Lokaatriði hátíðarinnar var síðan leðurklædda költið Singapore Sling sem komu fram í viðhafnarútgáfu þar sem gamlir meðlimir eins og Einar Sonic, Ester Bíbí og Hákon stigu á stokk og voru þau mest um tíu á sviðinu. Rafmagnsgítarsurgið og fídbakkið var allsráðandi og slagarar eins og Life is Killing My Rock and Roll voru fluttir á tilkomumikinn hátt. Þau enduðu svo frábært sett á mínu uppáhalds Sling lagi, Guiding Light. Þrátt fyrir að fáir hafi verið eftir í salnum sló þetta tilheyrandi botn í epíska hátíð.

Það er svo sannarlega vonandi að All Tomorrow’s Parties sé komin til að vera á Íslandi því hátíðin í ár var frámunalega vel heppnuð á helstu mælikvarða sem hægt er að setja á tónlistarhátíðir. Dagskráin menntaðarfull og fjölbreytt, hljóðið til fyrirmyndar, umhverfið sjarmerandi og andrúmsloftið afslappað. Öll atriði byrjuðu á réttum tíma og ég verð að hrósa ljósameisturunum sérstaklega, það er sjaldgæft á Íslandi að lýsing sé í þeim gæðaflokki sem var á ATP. Atlantic Studios er með bestu tónleikastöðum á landinu í sínum stærðarflokki og það væri óskandi að skemman væri nýtt undir slíkt í auknum mæli.

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikahelgin 2.-5. júlí

Miðvikudagur 2. júlí

 

Snorri Helgason og Mr. Silla stíga á stokk á Húrra. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

Fimmtudagur 3. júlí

 

Franski tónlistarmaðurinn LAFIDKI kemur fram á Loft Hostel. Hann vinnur bæði mikið með myndræna hlið tónleika sinna og leikur óhljóðakennda raftónlist. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Trúbatrixurnar Myrra Rós og Elín Ey koma fram á Húrra. Leikar hefjast 21:00 og aðgangseyrir er enginn.

 

Stúdíó Hljómur verður með rólegheitakvöld á Gauk á Stöng en þar koma fram sveitirnar Milkhouse, Lily Of The Valley, Icelandic Band, Sister Sister og Höghus. Hefst 21:00 og frítt inn.

 

Dorian Gray og The Roulette leiða saman hesta sína á Dillon. Ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Berglind Ágústsdóttir myndlistar- og tónlistarkona spilar á tónleikum í Mengi og hefur leik 21:00 en aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Föstudagur 4. júlí

 

Hljómsveitin GusGus verður með hlustunarpartí og mexíkóska veislu í tilefni af útgáfu sinnar 8. breiðskífu, Mexico á Boston. Fyrir þá sem mæta snemma verður boðið uppá mexíkósk matföng frá Santa Karamba og mexíkóska drykki. Hunk Of A Man og President Bongo munu svo kitla viðstöddum undir dansiljunum.

 

Hljómsveitirnar Sushi Submarine, Náttfari og Hellvar leika á Dillon. Það kostar 500 krónur inn á herlegheitin sem hefjast 22:00.

 

Hljómsveitin Mercy Buckets heldur tónleika á Gauk á Stöng í tilefni útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu, Lumberjack Fantasies, sem kemur út sama dag. Í tilefni þess verður skellt í útgáfutónleika og veislu á Gauknum sama kvöld. Um upphitun sjá We Made God, Elín Helena og Conflictions. Tónleikarnir byrja upp úr 21:00 og það er frítt inn.

 

Laugardagur 5. júlí

 

Jazztrompetleikarinn Wynton Marsalis mun koma fram í Eldborgarsal Hörpu ásamt hljómsveit sinni Jazz at the Lincoln Centre Orchestra. Tónleikarnir byrja 20:00 og miðaverð er frá 5.900 til 12.900.

 

Hljómsveitin Mógil kemur fram í Mengi en hún flytur frumsamda blöndu af djass-, klassík- og þjóðlagatónlist. Þau hefja leik 21:00 og það kostar 2000 krónur inn.

Tónleikahelgin 19.-21. júní

Fimmtudagur 19. júní

Félag Allskonar Listamanna og kvenna (FALK) heldur tónleika í Mengi. Fram kemur Eric Boros frá Kanada en um upphitun sjá FALKlimirnir Krakkkbot og AMFJ. Húsið opnar klukkan 21:00 og er aðgangseyrir 2000 krónur

Magnús Leifur og Sveinn Guðmundsson verða með Tónleika á Loft Hostel sem hefjast 20:30 og þar er ókeypis inn.

Skelkur í bringu, Pink Street Boys og Panos From Komodo halda heimsklassa rokktónleika á Dillon. Rokkið hefst 21:00 og aðgangur er ókeypis.

Föstudagur 20. júní

Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefst í Laugardalnum en á föstudagskvöldinu kemur meðal annars fram húsbræðurnir í Disclosure ásamt fjölda annarra listamanna.

Hljómsveitin Low Roar mun koma fram á Dillon en þetta verða síðustu tónleikar þeirra áður en þeir fara í langt tónleikaferðalag. Aðgangseyrir er 500 krónur og gleðin hefst 22:00.

Hljómsveitin Mandólín kemur fram í Mengi. Mandólín er íslensk hljómsveit sem flytur hefðbundna tónlist úr hinum jiddíska menningarheimi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Laugardagur 21. júní

Skóglápssveitin Oyama mun rokka húsið á Dillon á slaginu 22:00. Aðgangseyrir er litlar 500 krónur.

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson leiða saman hesta sína á tónleikum í Mengi. Þeir hefja leik klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Secret Solstice hátíðin er í fullum gangi en stærsta númerið á laugardagskvöldinu eru Trip Hop kempurnar í Massive Attack.

Sunnudagur 22. júní

Síðasti dagur Secret Solstice hátíðarinnar en á sunnudagskvöldinu kemur meðal annars fram bandaríski rapparinn Schoolboy Q.

 

Tónleikahelgin 4.-7. júní

Miðvikudagur 4. júní

Tónlistarmaðurinn Helgi Valur stendur fyrir tónleikum á Húrra fyrir þá sem hafa stutt hann í söfnun fyrir útgáfu á hans næstu plötu sem kemur m.a. út á vínil. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 með því að Low Roar stígur á stokk og syngur gullfallega. Síðan mun Helgi Valur spila lög af óútkominni plötu í bland við gömul lög ásamt nokkrum rapplögum. Þetta eru fyrstu tónleikarnir sem Helgi Valur heldur í 3 ár og því er þetta frábært tækifæri fyrir fólk sem er búið að sakna þess að sjá hann koma fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er ókeypis inn en gestir eru hvattir til að styðja við söfnunina sem lýkur á miðnætti í kvöld.

 

Hljómsveitin Throat & Chest kemur fram í fyrsta skipti í Mengi en hana skipa listamennirnir Peter Liversidge, Hildigunnur Birgisdóttir, Huginn Þór Arason og Benedikt H. Hermannsson. Búast má við mörgum litum, óvæntum hljóðum og mikilli gleði en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Bandaríska harðkjarnabandið Full of Hell kemur fram á Gauk á Stöng ásamt Icarus, We Made God, MASS, Trust The Lies og Pink Street Boys. Fyrsta band fer á svið 19:30 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

Fimmtudagur 5. júní

 

Hljómsveitirnar Casio Fatso, Caterpillarman og MC Bjór og Bland koma fram á Gauk á Stöng. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Þungmálmasveitirnar Angist og Blood Feud bregða á tónleik á Dillon. Hann hefst klukkan 22:00 og aðgangseyrir er enginn.

 

Föstudagur 6. júní

Döpur, Skelkur í bringu og Harry Knuckles koma fram á tónleikum á Dillon. Fjörið hefst klukkan 22:00 og það er frítt inn.

 

Laugardagur 7. júní

 

Íslensk/kandíska hljómsveitin Myndra heldur útgáfutónleika fyrir plötu sína, Songs From Your Collarbone, í Norræna húsinu. Upptökuferlið tók um tvö ár í Kanada en sveitin hefur undanfarið túrað um Ísland til að kynna afurðina. Á tónleikunum njóta þeir aðstoðar nokkurra vina til þess að stækka hljóðheiminn og í tilkynningu segir að þetta gætu verið síðustu tónleikar sveitarinnar fyrir fullt og allt. Tónleikarnir byrja klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Mikil hljómsveit mætir á Café Rosenberg laugardagskvöldið 7. júní og aðstoðar Skúla mennska við flutning á hans allra hressustu og vinsælustu lögum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og miðaverð er 2000 kr í forsölu í síma 8613553 eða 2500 kr við dyrnar.

 

RVK Soundsystem ásamt vinum hita upp fyrir stærstu reggítónlistarhátíð Evrópu, Rototom Sunsplash á Spáni, á Gauk á Stöng. Hátíðin hefur verið haldin í 20 ár og hafa helstu og merkustu reggílistamenn heimsins komið þar fram. Í upphitunarpartýinu á Gauknum koma fram Ojba Rasta, Amaba Dama, Thizone, T.Y. & Djásnið, Skinny T. Þá leika plötusnúðar RVK Soundsystem fyrir dansi en þeim til halds og trausts á míkrafóninum verða Cell7, Kött Grá Pé og Bragi úr Johnny and the Rest. Reggíveislan hefst 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.