Lag og myndband frá Belle and Sebastian

Skoska indípoppsveitin Belle And Sebastian gaf í dag frá sér nýtt lag og myndband af sinni næstu breiðskífu sem væntanleg er í janúar. Lagið heitir Nobody’s Empire og er annað lagið af skífunni sem hefur litið dagsins ljós, en hið fyrra var stuðsmellurinn Party Line. Platan ber titilinn Girls In Peacetime Want To Dance og verður fyrsta breiðskífa sveitarinnar frá því Write About Love Kom út árið 2010. Þá má geta þess að sveitin er væntanleg til Íslands að spila á All Tomorrow’s Parties hátíðinni næsta sumar. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 4.-6. desember

Fimmtudagur 4. desember

 

Breska raftónlistarsveitin Hacker Farm kemur fram á tónleikum í Mengi á vegum Falk hópsins. Einnig koma fram Krakkbot og Trouble en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Föstudagur 5. Desember

 

Svokallað Psychedelic Extravaganza kvöld verður haldið á Gauk á stöng en fram koma Bob, Sushi Submarine og The Electric Space Orchestra. Skynvíkkunarveislan hefst klukkan 22:00 og aðgangseyrir er litlar 500 krónur.

 

Áki Ásgeirsson og Halldór Úlfarsson koma fram á tónleikum í Mengi. Flutt verða vídeóverk og tónlistatriði sem tengjast ferð þeirra Áka og Halldórs á seglskútu um Breiðafjörð sumarið 2012. Halldór tók upp myndbönd sem sýnd verða við raftónlist Áka. Að auki leika þeir saman á Dórófón og önnur rafræn hljóðfæri. Tónleikarnir hefjast 21:00 og það kostar 2000 inn.

 

Sænski tónlistarmaðurinn Adam Evald leikur á Dillon, tónleikarnir byrja 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

Laugardagur 6. Desember

 

Í Þjóðleikhúskjallaranum verða Tribute tónleikur til heiðurs Skúla Mennska. Þar mun einvalalið söngvara flytja helstu lög Skúla ásamt hljómsveit en meðal flytjenda eru Pétur Ben, Markús Bjarnason, 7oi og Bóas Hallgrímsson. Leynigestur, kynn og gítarleikari verður svo Skúli Mennski sjálfur en tónleikarnir byrja 22:00 og miðverðu er 2500 krónur.

 

Tón- og myndlistarmaðurinn Páll Ívan frá Eiðum kemur fram á tónleikum í Mengi.

 

Hacker Farm kemur fram ásamt AMFJ, Ultraorthodox og Harry Knuckles á Paloma. Rafgeggjunin byrjar 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Godspeed You! og Run The Jewels á ATP

Í dag var tilkynnt að Godspeed You! Black Emperor og hip hop sveitin Run The Jewels séu meðal þeirra sem munu spila á All Tomorrow’s Parties hátíðinni á næsta ári. Aðrir sem bætt var við dagskrána eru Deafheaven og sænski raftónlistarmaðurinn The Field. Þá var tilkynnt í gær að bandaríska gruggbandið Mudhoney, dönsku pönkararnir í Ice Age og Ghostigital muni einnig koma fram. Aðalatriði hátíðarinnar verða svo skosku indírisarnir í Belle and Sebastian en hátíðin fer fram 2.-4. júlí á gamla varnarliðssvæðinu Ásbrú.

Tónleikahelgin 19.-23. nóvember

Miðvikudagur 19. nóvember

 

Hljómsveitirnar Toneron og Munstur leika fyrir dansi á Gauknum. Aðgangur er ókeypis og leikar hefjast 21:00.

 

Per:Segulsvið og Strong Connection koma fram á Kex Hostel. Tónleikarnir byrja stundvíslega 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Kippi Kanínus og DADA koma fram á Húrra. Hátíðin hefst 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

Fimmtudagur 20. nóvember

 

Hin kunna rokksveit Mammút kemur fram á Húrra. Dyrnar opna 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Berglind María Tómasdóttir kemur fram á tónleikum í Mengi. Berglind María er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á marga miðla svo sem tónlist, vídeólist og leikhús. Performansinn byrjar 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Eins manns bandið SEINT kemur fram á Dillon en það er skipað forsprakka Celestine og fyrrverandi meðlimi I Adapt og leikur tónlist í anda Ministry, Nine Inch Nails og Massive Attack. Einnig kemur fram hljómsveitin Mar en tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 21. nóvember

 

Hljómsveitin Dillalude, sem sérhæfir sig í djössuðum spunaútgáfum af tónlist taktsmiðsins J-Dilla, kemur fram á Kaffibarnum. Ballið byrjar 22:30 og aðgangur er ókeypis.

 

Ólafur Björn Ólafsson, eða Óbó, leikur efni af nýútkominni plötu sinni Innhverfi.  Honum til halds og trausts verða Róbert Reynisson gítarleikari og Kristín Þóra Haraldsdóttir víólulekari. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 22. nóvember

Fyrrum tekknóbandið og núverandi rafrokkbandið Fufanu kemur fram á Kaffibarnum. Tónleikarnir byrja 22:30 og aðgangur er fríkeypis.

Danski bassaleikarinn Richard Andersson kemur fram ásamt hljómsveit í Mengi.  Hljómsveitin dansar á fallegan hátt á milli óbærilegs léttleika og kröftugra sprenginga, án þess að láta það bitna á styrkleika þess og tjáningu. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Sunnudagur 23. nóvember

 

Bandaríska rokksveitin Doomriders kemur fram á Húrra. Doomriders er hliðarverkefni Nate Newton bassaleikara Converge og gítarleikara Old Man Gloom. Um upphitun sjá Kontinuum og Mercy Buckets en tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagskvöld á Airwaves

Mynd: Matthew Eisman

Á fjórða degi í djammi og Airwaves er maður orðinn pínu lúinn en ég náða samt að rífa mig upp úr rúminu og hjóla niður í off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís þar sem rafgeggjarinn Skuggasveinn var að ljúka sér af. Hann var umkringdur hinum ýmsu hljómborðum og svuntuþeysurum og lék ljúfsárar og hádramatískar melódíur.

Þá sá ég tilraunapoppbandið Asonat á sama stað sem eiga eina bestu íslensku plötu ársins en ég hef aldrei séð live áður. Það er skipað tveimur græjugaurum og einni söngkona og leika seiðandi trip hop í anda þess besta á 10. áratugnum. Sumt hljómaði í áttina að sveitum eins og Thievery Corporation og Morcheepa og raddbeiting söngkonunnar var á köflum ansi Bjarkar-leg.

 

Ég hjólaði þvínæst yfir á Kex Hostel þar sem ég náði í skottið á hinum írsku Girl Band. Þeir léku fast og hratt rokk með afar hörðum kjarna. Þá sá ég bandaríska tónlistarmanna Ezra Furman á áttundu hæð hótelbars sem ég man ekki hvað heitir. Ég sá ekki mikið af honum en hann hljómaði svo vel að ég sá hann aftur síðar um kvöldið á opinberu dagskránni.

 

Eróbískur dansgjörningur

 

Þá var komið að stærsta nafni hátíðarinnar fyrir mig persónulega, ég hef hlustað á Knife í 10 ár og var loksins að sjá þau live á sínum síðustu tónleikum. Ég hafði lesið mér til um túrinn og vissi að þetta yrði skrýtið, en hafði ekki gert mér í hugarlund hversu skrýtið. Þetta hófst með konu sem kynnti tónleikana sem var eins og blanda af Dale Carnegie ræðumanni og eróbikkþjálfara. Síðan hófst sjóið og leikarar voru um 20 manns í skrýtnum búningum en þetta var meira eins og nútímadansverk og gjörningur en tónleikar. Maður var aldrei viss um hver væri að syngja, hver væri að spila hvaða hljóð (ef einhver gerði það á annað borð) eða hverjir meðlimir hljómsveitarinnar voru. Þetta var mjög sérstakt og á köflum fannst mér þetta tilgerðarlegt rúnk en stundum heillandi. Atriðið við Full On Fire var til dæmis mjög tilkomumikið og svo tóku þau flottar útgáfur af gömlu slögurunum Pass This On og We Share Our Mothers Health.

 

Ezra og kærastarnir

 

Eftir Knife náði ég svo nokkrum lögum með Caribou í Listasafninu sem renndi í gegnum bestu lögin af sinni nýjustu plötu af fádæma krafti og öryggi. Hann er einn besti aktívi raftónlistarmaður í heiminum þessi misserin, en ég varð hins vegar svo heillaður af Ezra Furman fyrr um daginn að ég vildi sjá hann á almennilegu venue-i. Ég hélt þess vegna yfir í Iðnó og sá ekki eftir því. Ezra Furman var með bandinu sínu sem hann kallaði The Boyfriends sem voru afar hressir. Hann sjálfur var klæddur í rauðan kjól og með prinsessukórónu og gítar um hálsinn. Tónlistin sem hann leikur er frumlega blanda af poppi, rokki og pönki þar sem saxafónn leikur stóra rullu. Hann var ótrúlega karismatískur á sviðinu og með fáránlega flotta rödd, hráa, rifna og pönkaða.

 

Á þessum tímapunkti fór þreyta í löppum að segja til sín en ég harkaði af mér og fór á Hermigervil í Gamla Bíói. Hann lék ný lög í bland við ábreiður og kom upp þéttri dansstemmningu í flottum salnum. Þá fór ég heim á sofnaði á sófa. Airwaves hátíðin í ár hefur verið mjög skemmtileg en topparnir fyrir mig hafa verið Ezra Furman, Unknown Mortal Orchestra og Roosevelt. Gamla Bíó er frábært nýtt venue eftir að stólarnir voru teknir út, vonandi verður það áfram nýtt í popptónleika því það gæti orðið nýja Nasa. Ég þakka fyrir mig en í kvöld eru það War on Drugs og Flaming Lips.

 

Davíð Roach Gunnarsson  

Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: Birta Rán

Fyrsta mál föstudagsins var nýsjálenska bandið Unknown Mortal Orchestra á off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís. Fullt var út úr báðum dyrum bíósins þegar þeir hófu leik en í sveitinni eru bassaleikari og trommuleikari til viðbótar forsprakkanum  Ruban Nielson sem syngur og spilar á gítar. Tónlistin er fönkí síkadelía undir áhrifum 7. áratugarins og á köflum ansi bítlaleg. Ruban lék á alls oddi og teygði á lögunum sínum með löngum spunaköflum, trommusólóum og gítarfimleikum og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Frábært gigg og bestu tónleikar hátíðarinnar fram að þessu.

 

Skammt stórra högga á milli

 

En á Airwaves er stundum skammt stórra högga á milli, því Roosevelt á Húrra var líka frámunalega skemmtilegt sjó og jafnaði UMO. Þeir voru þrír á sviðinu og spiluðu suddalega fönkí  danstónlist sem svínvirkaði á krádið. Gítarleikarinn hamraði út Nile Rodgers grúvum og bassaleikarinn sló hljóðfærið sitt af miklum móð og stundum brast á með villtum hljómborðsólóum. Allur salurinn var hoppandi og þetta var algjört fönkí diskódansiball, eini gallinn er að það var of stutt, bara rúmlega 20 mínútur.

 

Næst sá ég Oyama á straums-kvöldinu á Gauknum sem eru orðin eitt besta live band landsins um þessar mundir. Úlfur og Kári framkölluðu rosalega gítarveggi og pedalaorgíur og mónótónískur söngurinn var fullkomið mótvægi. Næst sá ég nokkur lög með Fufanu sem hafa sleppt kapteininum úr nafninu eftir harkalega stefnubreytingu. Fóru úr naumhyggjutekknó yfir í töffaralegt drungarokk, ala Singapore Sling, sem þeir er alveg jafnfærir á. Hljómurinn var framúrskarandi og rokkið skar inn á beini, mér varð beinlínis kalt af því að hlusta á þá.

 

Afrískur danskokteill og douchbags

 

Eins góðir og Fufanu voru hljóp ég af þeim yfir á Listasafnið til að sjá Ibibio Soundmachine. Þau buðu upp á fönkaða danstónlist undir afrískum áhrifum og söngkonu í fáránlega flottum kjól. Ég fór svo aftur yfir á Gaukinn til að sjá Black Bananas sem ég hafði heyrt góð lög með og góða hluti um. Þau virtust hins vegar vera á einhverjum sterkum hestadeyfilyfjum á sviðinu þetta kvöld. Voru eins og útúrlifaðir Brooklyn hipsterar og enginn á sviðinu virtist vita hvað hann sjálfur eða hinir voru að gera. Dæmi: Gella í pels með derhúfu og nintendo fjarstýringu. Douchbags.

 

Ég hjólaði burtu frá því lestarslysi yfir í Hörpuna til að sjá tekknódúettin Kiasmos. Það þarf í það minnsta tvennt að koma til, til að tveir gaurar með fartölvur séu spennandi tónleikar. Að tónlistin sé frábær og að téðir gaurar með fartölvurnar séu að lifa sig fáránlega mikið inn í hana. Bæði var til staðar í Norðurljósasalnum á tónleikum Kiasmos sem voru hreint út sagt afbragð. Bassinn náði inn að beini og ég dansaði af mér afturendann við dúndrandi tækknóið. Ég náði svo í lokin á hinum danska Tomas Barfod í Gamla Bíói að flytja slagarann sinn November Skies af miklu öryggi.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Annað kvöld Iceland Airwaves 2014

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Fimmtudagskvöldið mitt byrjaði snemma þegar ég sá einyrkjann Laser Life á Bar 11 klukkan 16:00. Hann var með tölvu, gítar og heilan lager af effektapedölum og hljómaði einhvers staðar mitt á milli Ratatat og Apparat Organ Quartet með vænum slatta af nintendo laglínum. Hann framkallaði þykka veggi af hljóðum og hélt mjög hressum dampi í settinu og gaf góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Þvínæst hélt ég yfir í off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís að sjá annað eins manns band, M-Band, leika listir sínar. M-Band eða Hörður Ágústson er með betri raftónlistarmönnum landsins og melankólískur söngurinn smellpassar við framsækna tekknóið sem hann flytur algjörlega tölvulaust.

 

Á eftir honum tóku við í Bíó Paradís hljómsveitin Nolo, sem hafa nú bætt við sig nýjum trommara. Tilraunapoppið þeirra er eitt best geymda leyndarmál í íslenskri tónlistarsenu og það er vonandi að þeir fari að henda í nýja plötu, þeir stóðu sig með mikilli prýði í huggulegu bíóinu. Eftir það tók ég mér matarhlé en var mættur galvaskur á Útidúr í Listasafni Reykjavíkur á slaginu átta. Þau buðu að vanda upp á hádramatískan indíbræðing með samsöng, strengjum og saxafón sem var vel rokkaður í þetta skiptið.

 

Djassfönkuð taktsúpa

 

Ég skaust þvínæst yfir í Kaldalónssal Hörpu til að ná í skottið á rafdúettinum Good Moon Deer. Þeir buðu upp á tryllingslega taktsúpa á fönkdjössuðum nótum. Spilamennskan var lífræn og spunakennd miðað við raftónlist og bjöguð raddsömpl krydduðu tilkomumikinn flutninginn. Ég náði svo þremur lögum með Grísalappalísu og aldraða æringjanum Megasi sem lék á alls oddi. Lísan rokkaði eins og henni einni er lagið og Megas var í essinu sínu þegar hann flutti einn sinn stærsta slagara, Spáðu í mig. Næst sá ég kanadísku sveitina Thus Owls í Iðnó sem fluttu ljúfsárt indípopp með áberandi orgeli og sérlega góðri söngkonu.

 

Síðasta band kvöldsins var svo franska elektrópoppsveitin La Femme sem hélt Silfurbergsalnum í lófanum á sér. Söngkonan var fáránlega fáguð og það er ekkert meira sexí en frakkar að spila á synþesæsera, tala nú ekki um ef þeir eru vel skeggjaðir og í rauðum samfesting, eins og einn meðlimur sveitarinnar. Ekki nóg með það heldur var líka þeramín á sviðinu, sem er eitt uppáhalds hljóðfærið mitt ever. Tónlistin var pumpandi hljómborðspopp og allt small saman. Þarna var kvöldið komið á endapunkt en fylgist vel með á Straum.is næstu daga þar sem við höldum áfram með daglega umfjöllun um Iceland Airwaves.

Fyrsta kvöld Airwaves 2014

Inferno 5: Mynd siggi

Góða kvöldið, gleðilega hátíð, hefst nú dagleg umfjöllun Straums um Iceland Airwaves á því herrans ári 2014. Ég hóf fyrsta kvöldið á árangurslausri tilraun til að sjá Prins Póló off-venue á Loft Hostel. Mannmergðin Á Loft var svo mikil að ég sá hvorki tangur né tetur af prinsinum, en heyrði hins vegar tvö lög af hans nýjustu plötu sem er með betri íslensku útgáfum ársins.

 

Eftir þessa misheppnuðu byrjun ákvað ég að hefja opinberu dagskránna á atriði sem ég hafði ekkert heyrt um áður, bandaríska raftónlistarmanninum Vox Mood sem spilað á Húrra. Hann sýndi engin merki þess að vera fyrstur á dagskránni og barði takka af miklum móð milli þess sem hann dansaði tryllingslega og headbangaði eins og versti þungarokkari. Tónlistin sem kom úr græjunum bar keim af ýmsum geirum danstónlistar tíunda áratugarins, rave, drum’n’bass og tekknó og kinkaði kolli til sveita á borð við Orbital og Autechre.

 

Framúrstefnulegt R’n’B

 

Þá hjólaði ég á harðaspani upp í Gamla Bíó sem hefur verið breytt í fyrirtaks venue, einhvers staðar mitt á milli Iðnó og Nasa í stemmningu og stærð. Ég rétt svo náði tveimur lögum með Júníusi Meyvatn sem spilar vandað og áferðarfallegt indípopp í ætt við Ásgeir Trausta. Þvínæst var leiðinni haldið í Silfurbergsal Hörpu þar sem Mr. Silla var í miðju setti. Hún er með betri röddum landsins og hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina en það sem hún hefur spilað undanfarið er í áttina að Trip Hoppi og fútúrísku r’n’b ala Jannelle Monet. Ég náði bara þremur lögum en þau lofuðu mjög góðu.

 

Óður til æðri meðvitundar

 

Greinarhöfundur hefur mætt á hverja einustu Airwaves hátíð síðan 2002 en það sem ég sá næst er það allra skrýtnasta sem ég hef orðið vitni að á hátíðinni. Inferno 5 í Kaldalóni var hugvíkkandi óður til æðra stigs meðvitundar. Upplifuninni er ekki hægt að lýsa í orðum með góðu móti, en ég skal gefa ykkur nokkur: Trommuskúlptúr, hauskúpur, hempuklæddur maður með lambúshettu og bongótrommur, Ljóð, diskókúla, pípuorgel, dansari í hvítum samfestingi, upptalning á eiturlyfjum kyrjuð eins og mantra, plötuspilari, sálmabók, vélmennaraddir, hljóðfæri sem ég hef aldrei séð áður og miklu meira til. Þetta var jöfnum höndum trúarathöfn, tónleikar og gjörningur og Upplifun með stóru U-i á alla mögulega kanta.

 

ROKK í caps lock

 

Eftir smástund til að jafna mig fór ég svo á Pink Street Boys á Húrra sem eru harðasta, fastasta og skítugasta rokkband landsins um þessar mundir. Þeir eru eins og litli ljóti bróðir Singapore Sling, óþekkir, óheflaðir og ROKK í caps lock. En hljóðstyrkurinn er slíkur að ég höndla þá bara í smáum skömmtum og skaust yfir á Sin Fang í Silfurbergi. Hann er búinn að mastera nýja tónleikaprógrammið sitt þar sem hann er einn með tveimur trommuleikurum að spila græjumúsík og sándið í Silfurbergi verðlaunaði honum ríkulega.

 

Ég endaði svo kvöldið með FM Belfast í Gamla Bíói sem diskódönsuðu inn í nóttina og köstuðu klósettrúllum í áhorfendur (sem kunnu afar vel að meta það). Fyrsta kvöldi af fimm er nú lokið með góðum árangri en fylgist vel með daglegum fréttum af hátíðinni á straum.is og njótið off-venue dagskrárinnar okkar í Bíó Paradís og mætið á föstudagskvöldið á Gaukinn. 

 

Davíð Roach Gunnarsson

11 erlend bönd sem þú mátt ekki missa af

Aragrúi af misþekktum erlendum hljómsveitum kemur fram á Iceland Airwaves sem hefst í dag svo erfitt getur reynst að hafa yfirsýn yfir þær. Straumur hefur því til yndis- og hægðarauka fyrir lesendur tekið saman 11 erlend bönd sem við mælum sérstaklega með. Þau eru í stafrófsröð og öll með tölu æðisleg.

 

Black Bananas (US) – Föstudaginn 23:20 á Gauknum

Suddalega grúví synþapopp sem hljómar eins og afkvæmi Prince og Rick James að fönka í fjarlægri framtíð.

 

Caribou (CA) – Laugardaginn 23:45 í Listasafni Reykjavíkur

Lífrænt tekknó á stöðugri hreyfingu. Our Love er ein besta plata ársins og við erum ennþá að hlusta á Swim sem kom út 2010. Spilaði á frábærum tónleikum á Nasa 2011.

 

 

Ezra Furman (US) – Laugardaginn 00:30 í Iðnó

Bættu þremur desilítrum af saxafón út í passlega pönkaða poppsúpu og útkoman er Ezra Furman. My Zero er eitt mest grípandi lag sem við höfum heyrt í ár.

 

Flaming Lips (US) – Sunnudagur 22:30 Vodafonehöllin (þarf sérstakan miða)

Það þarf svo sem ekki að segja mikið um Flaming Lips. Eitt stöndugasta band óháðu tónlistarsenunnar í hátt í tvö áratugi og frægir fyrir æðisgengin live sjó.

 

Ibibo Sound Machine (UK) – Föstudaginn 22:50 í Listasafni Reykjavíkur

Sjóðheitur grautur úr ótal exótískum áttum. Afrískt diskó með rafræna sál og framsækin grúv.

The Knife (SE) – Laugardaginn 22:00 í Silfurbergi Hörpu

Sænski sifjaspellsdúettinn tilkynnti með trompi að hann myndi halda sína síðustu tónleika á Airwaves. Tónlist þeirra er á köflum drungaleg, poppuð, tilraunakennd eða allt í senn. I’m in love with your brother.

 

La Femme (FR) – Fimmtudaginn 00:00 í Silfurbergi Hörpu

Tilraunakennt franspopp með töffaraskap í tonnatali.

 

Roosevelt (DE) – Föstudaginn 20:50 á Húrra

Raftónlist sem er í senn draumkennd og dansvæn, rambar á barmi chillwave og tekknós.

 

Unknown Mortal Orchestra (NZ) – Föstudaginn 18:15 í Bíó Paradís og laugardaginn 00:20 í Norðurljósum í Hörpu

Lo-Fi 60’s stöff af bestu mögulegu bítlalegu gerð; fönkí, sækadelic og seiðandi.

 

The War on Drugs (US) – Sunnudaginn 21:30 í Vodafone höllinni (þarf sérstakan miða)

Eitt öflugasta indíband starfandi í heiminum um þessar mundir og gáfu út eina af bestu plötum þessa árs, Lost in a Dream.

Yumi Zouma (NZ) – Laugardaginn 22:30 Kaldalón í Hörpu

Undurfalleg rödd og ótrúlega hugvitsamlega útsett og vandað draumapopp.

Straumur á Iceland Airwaves

Mynd: Alexander Matukhno

Við í Straumi höfum frá opnun síðunnar fjallað ítarlega um Iceland Airwaves hátíðina en í ár heyrir til tíðinda, því í fyrsta sinn tökum við beinan þátt í hátíðinni sjálfri. Straumur stendur fyrir öflugri off-venue dagskrá í Bíó Paradís á Hverfisgötu sem hefst á miðvikudag og heldur áfram alla daga hátíðarinnar fram á sunnudag. Þar koma fram margar af okkar uppáhalds íslensku hljómsveitum eins og Sin Fang,  Tonik, Nolo, Asonat og M-Band en líka erlend bönd eins og Vorhees og hin frábæra Unknown Mortal Orchestra. Þá verða einnig sýningar á nýrri heimildarmynd um hátíðina á miðvikudag og fimmtudag en fulla dagskrá off-venue prógrammsins má finna neðst í fréttinni. Að sjálfsögðu er ókeypis inn hvort sem menn eru með Airwaves armbönd um úlnliðinn eður ei.

 

En það er ekki allt heldur verður Straumur einnig með kvöld á opinberu dagskránni, föstudagskvöldið 7. nóvember á Gauknum. Þar munu meðal annarra koma fram draumkennda rokkbandið Oyama, bandaríska synþafönkbandið Bananas, rafrokkararnir Fufanu og goðsagnakennda þungarokkssveitin Strigaskór Nr. 42. Við hvetjum að sjálfsögðu alla með armbönd til að njóta þessarar frábæru dagskrár sem má skoða hér fyrir neðan. Svo verðum við að venju með daglega umfjöllun um það helsta sem ber fyrir augu okkar og eyru á hátíðinni, þannig að fylgist vel með á Straum.is næstu daga.

 

Straumur á Gauknum Föstudaginn 7. nóvember

 

20:00 Kontinuum

20:50 Strigaskór Nr. 42

21:40 Oyama

22:30 Fufanu

23:20 Black Bananas (Bandaríkin)

00:20 Girl Band (Írland)

01:20 Spray Paint (Bandaríkin)

02:20 Agent Fresco

 

Off-Venue Dagskrá Straums í Bíó Paradís:

 

Miðvikudagur 5. nóvember

12:00 Hexagon Eye
13:00 Ósk
14:00 Horse Thief (US)
15:00 Tonik
16:00 Good Moon Deer
17:00 Pretty Please

Fimmtudagur 6. nóvember

12:00 Bastardgeist (UK)
13:00 Milkhouse
14:00 Helgi Valur
15:00 Jón Þór
16:00 Loji
17:00 M-band
18:00 Nolo

Föstudagur 7. nóvember

16:15 Vorhees (US)
17:15 Sin Fang
18:15 Unknown Mortal Orchestra (US)

Laugardagur 8. nóvember

12:00 Mat Riviere (UK)
13:00 Skuggasveinn
14:00 701
15:00 Asonat
16:00 Sindri Eldon & the Ways
17:00 Kælan Mikla

Sunnudagur 9. nóvember

14:00 Austria
15:00 Munstur
16:00 Bjór

Kvikmyndir:

Miðvikudagur 5. nóvember

14:00 Tónlist: a documentary about Iceland Airwaves

Fimmtudagur 6. nóvember

14:00: Tónlist: a documentary about Iceland Airwaves