Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: Birta Rán

Fyrsta mál föstudagsins var nýsjálenska bandið Unknown Mortal Orchestra á off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís. Fullt var út úr báðum dyrum bíósins þegar þeir hófu leik en í sveitinni eru bassaleikari og trommuleikari til viðbótar forsprakkanum  Ruban Nielson sem syngur og spilar á gítar. Tónlistin er fönkí síkadelía undir áhrifum 7. áratugarins og á köflum ansi bítlaleg. Ruban lék á alls oddi og teygði á lögunum sínum með löngum spunaköflum, trommusólóum og gítarfimleikum og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Frábært gigg og bestu tónleikar hátíðarinnar fram að þessu.

 

Skammt stórra högga á milli

 

En á Airwaves er stundum skammt stórra högga á milli, því Roosevelt á Húrra var líka frámunalega skemmtilegt sjó og jafnaði UMO. Þeir voru þrír á sviðinu og spiluðu suddalega fönkí  danstónlist sem svínvirkaði á krádið. Gítarleikarinn hamraði út Nile Rodgers grúvum og bassaleikarinn sló hljóðfærið sitt af miklum móð og stundum brast á með villtum hljómborðsólóum. Allur salurinn var hoppandi og þetta var algjört fönkí diskódansiball, eini gallinn er að það var of stutt, bara rúmlega 20 mínútur.

 

Næst sá ég Oyama á straums-kvöldinu á Gauknum sem eru orðin eitt besta live band landsins um þessar mundir. Úlfur og Kári framkölluðu rosalega gítarveggi og pedalaorgíur og mónótónískur söngurinn var fullkomið mótvægi. Næst sá ég nokkur lög með Fufanu sem hafa sleppt kapteininum úr nafninu eftir harkalega stefnubreytingu. Fóru úr naumhyggjutekknó yfir í töffaralegt drungarokk, ala Singapore Sling, sem þeir er alveg jafnfærir á. Hljómurinn var framúrskarandi og rokkið skar inn á beini, mér varð beinlínis kalt af því að hlusta á þá.

 

Afrískur danskokteill og douchbags

 

Eins góðir og Fufanu voru hljóp ég af þeim yfir á Listasafnið til að sjá Ibibio Soundmachine. Þau buðu upp á fönkaða danstónlist undir afrískum áhrifum og söngkonu í fáránlega flottum kjól. Ég fór svo aftur yfir á Gaukinn til að sjá Black Bananas sem ég hafði heyrt góð lög með og góða hluti um. Þau virtust hins vegar vera á einhverjum sterkum hestadeyfilyfjum á sviðinu þetta kvöld. Voru eins og útúrlifaðir Brooklyn hipsterar og enginn á sviðinu virtist vita hvað hann sjálfur eða hinir voru að gera. Dæmi: Gella í pels með derhúfu og nintendo fjarstýringu. Douchbags.

 

Ég hjólaði burtu frá því lestarslysi yfir í Hörpuna til að sjá tekknódúettin Kiasmos. Það þarf í það minnsta tvennt að koma til, til að tveir gaurar með fartölvur séu spennandi tónleikar. Að tónlistin sé frábær og að téðir gaurar með fartölvurnar séu að lifa sig fáránlega mikið inn í hana. Bæði var til staðar í Norðurljósasalnum á tónleikum Kiasmos sem voru hreint út sagt afbragð. Bassinn náði inn að beini og ég dansaði af mér afturendann við dúndrandi tækknóið. Ég náði svo í lokin á hinum danska Tomas Barfod í Gamla Bíói að flytja slagarann sinn November Skies af miklu öryggi.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *