Annað kvöld Iceland Airwaves 2014

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Fimmtudagskvöldið mitt byrjaði snemma þegar ég sá einyrkjann Laser Life á Bar 11 klukkan 16:00. Hann var með tölvu, gítar og heilan lager af effektapedölum og hljómaði einhvers staðar mitt á milli Ratatat og Apparat Organ Quartet með vænum slatta af nintendo laglínum. Hann framkallaði þykka veggi af hljóðum og hélt mjög hressum dampi í settinu og gaf góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Þvínæst hélt ég yfir í off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís að sjá annað eins manns band, M-Band, leika listir sínar. M-Band eða Hörður Ágústson er með betri raftónlistarmönnum landsins og melankólískur söngurinn smellpassar við framsækna tekknóið sem hann flytur algjörlega tölvulaust.

 

Á eftir honum tóku við í Bíó Paradís hljómsveitin Nolo, sem hafa nú bætt við sig nýjum trommara. Tilraunapoppið þeirra er eitt best geymda leyndarmál í íslenskri tónlistarsenu og það er vonandi að þeir fari að henda í nýja plötu, þeir stóðu sig með mikilli prýði í huggulegu bíóinu. Eftir það tók ég mér matarhlé en var mættur galvaskur á Útidúr í Listasafni Reykjavíkur á slaginu átta. Þau buðu að vanda upp á hádramatískan indíbræðing með samsöng, strengjum og saxafón sem var vel rokkaður í þetta skiptið.

 

Djassfönkuð taktsúpa

 

Ég skaust þvínæst yfir í Kaldalónssal Hörpu til að ná í skottið á rafdúettinum Good Moon Deer. Þeir buðu upp á tryllingslega taktsúpa á fönkdjössuðum nótum. Spilamennskan var lífræn og spunakennd miðað við raftónlist og bjöguð raddsömpl krydduðu tilkomumikinn flutninginn. Ég náði svo þremur lögum með Grísalappalísu og aldraða æringjanum Megasi sem lék á alls oddi. Lísan rokkaði eins og henni einni er lagið og Megas var í essinu sínu þegar hann flutti einn sinn stærsta slagara, Spáðu í mig. Næst sá ég kanadísku sveitina Thus Owls í Iðnó sem fluttu ljúfsárt indípopp með áberandi orgeli og sérlega góðri söngkonu.

 

Síðasta band kvöldsins var svo franska elektrópoppsveitin La Femme sem hélt Silfurbergsalnum í lófanum á sér. Söngkonan var fáránlega fáguð og það er ekkert meira sexí en frakkar að spila á synþesæsera, tala nú ekki um ef þeir eru vel skeggjaðir og í rauðum samfesting, eins og einn meðlimur sveitarinnar. Ekki nóg með það heldur var líka þeramín á sviðinu, sem er eitt uppáhalds hljóðfærið mitt ever. Tónlistin var pumpandi hljómborðspopp og allt small saman. Þarna var kvöldið komið á endapunkt en fylgist vel með á Straum.is næstu daga þar sem við höldum áfram með daglega umfjöllun um Iceland Airwaves.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *