11 erlend bönd sem þú mátt ekki missa af

Aragrúi af misþekktum erlendum hljómsveitum kemur fram á Iceland Airwaves sem hefst í dag svo erfitt getur reynst að hafa yfirsýn yfir þær. Straumur hefur því til yndis- og hægðarauka fyrir lesendur tekið saman 11 erlend bönd sem við mælum sérstaklega með. Þau eru í stafrófsröð og öll með tölu æðisleg.

 

Black Bananas (US) – Föstudaginn 23:20 á Gauknum

Suddalega grúví synþapopp sem hljómar eins og afkvæmi Prince og Rick James að fönka í fjarlægri framtíð.

 

Caribou (CA) – Laugardaginn 23:45 í Listasafni Reykjavíkur

Lífrænt tekknó á stöðugri hreyfingu. Our Love er ein besta plata ársins og við erum ennþá að hlusta á Swim sem kom út 2010. Spilaði á frábærum tónleikum á Nasa 2011.

 

 

Ezra Furman (US) – Laugardaginn 00:30 í Iðnó

Bættu þremur desilítrum af saxafón út í passlega pönkaða poppsúpu og útkoman er Ezra Furman. My Zero er eitt mest grípandi lag sem við höfum heyrt í ár.

 

Flaming Lips (US) – Sunnudagur 22:30 Vodafonehöllin (þarf sérstakan miða)

Það þarf svo sem ekki að segja mikið um Flaming Lips. Eitt stöndugasta band óháðu tónlistarsenunnar í hátt í tvö áratugi og frægir fyrir æðisgengin live sjó.

 

Ibibo Sound Machine (UK) – Föstudaginn 22:50 í Listasafni Reykjavíkur

Sjóðheitur grautur úr ótal exótískum áttum. Afrískt diskó með rafræna sál og framsækin grúv.

The Knife (SE) – Laugardaginn 22:00 í Silfurbergi Hörpu

Sænski sifjaspellsdúettinn tilkynnti með trompi að hann myndi halda sína síðustu tónleika á Airwaves. Tónlist þeirra er á köflum drungaleg, poppuð, tilraunakennd eða allt í senn. I’m in love with your brother.

 

La Femme (FR) – Fimmtudaginn 00:00 í Silfurbergi Hörpu

Tilraunakennt franspopp með töffaraskap í tonnatali.

 

Roosevelt (DE) – Föstudaginn 20:50 á Húrra

Raftónlist sem er í senn draumkennd og dansvæn, rambar á barmi chillwave og tekknós.

 

Unknown Mortal Orchestra (NZ) – Föstudaginn 18:15 í Bíó Paradís og laugardaginn 00:20 í Norðurljósum í Hörpu

Lo-Fi 60’s stöff af bestu mögulegu bítlalegu gerð; fönkí, sækadelic og seiðandi.

 

The War on Drugs (US) – Sunnudaginn 21:30 í Vodafone höllinni (þarf sérstakan miða)

Eitt öflugasta indíband starfandi í heiminum um þessar mundir og gáfu út eina af bestu plötum þessa árs, Lost in a Dream.

Yumi Zouma (NZ) – Laugardaginn 22:30 Kaldalón í Hörpu

Undurfalleg rödd og ótrúlega hugvitsamlega útsett og vandað draumapopp.

Flaming Lips á Iceland Airwaves

Tilkynnt var um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Iceland Airwaves hátíð í dag og þar ber hæst bandarísku indísveitina Flaming Lips, en hún mun loka hátíðinni á sunnudagskvöldinu. Af öðrum erlendum sveitum má nefna frönsku rafpönksveitina La Femme og Suður-Afríska tónlistarmanninn John Wizards. Aðrir erlendir listamenn eru East India Youth, Jungle og Blaenavon frá Bretlandi, hinn finnski Jaakko Eino Kalevi og Tiny Ruins frá Nýja Sjálandi.

 

Þá hafa íslensku sveitirnar Just Another Snake Cult, Highlands, Samaris, Mammút, Grísalappalísa, Vök, Muck, Snorri Helgason og Tonik verið bókaðar á hátíðina. Þrátt fyrir að fókus Iceland Airwaves sé á nýjar og upprennandi hljómsveitir hefur sú hefð komist á undanfarin ár að fá þekkta tónlistarmenn til að loka hátíðinni. Flaming Lips sem eru sannkallaðir risar í indíheiminum munu sjá um það hlutverk að þessu sinni ásamt annarri sveit, sem tilkynnt verður um síðar, að fram kemur í tilkynningu frá Iceland Airwaves. Flaming Lips hafa áður spilað á Iceland Airwaves árið 2000, en hátíðin fer fram í 15. sinn þann 5. til 9. nóvember næstkomandi.