Flaming Lips á Iceland Airwaves

Tilkynnt var um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Iceland Airwaves hátíð í dag og þar ber hæst bandarísku indísveitina Flaming Lips, en hún mun loka hátíðinni á sunnudagskvöldinu. Af öðrum erlendum sveitum má nefna frönsku rafpönksveitina La Femme og Suður-Afríska tónlistarmanninn John Wizards. Aðrir erlendir listamenn eru East India Youth, Jungle og Blaenavon frá Bretlandi, hinn finnski Jaakko Eino Kalevi og Tiny Ruins frá Nýja Sjálandi.

 

Þá hafa íslensku sveitirnar Just Another Snake Cult, Highlands, Samaris, Mammút, Grísalappalísa, Vök, Muck, Snorri Helgason og Tonik verið bókaðar á hátíðina. Þrátt fyrir að fókus Iceland Airwaves sé á nýjar og upprennandi hljómsveitir hefur sú hefð komist á undanfarin ár að fá þekkta tónlistarmenn til að loka hátíðinni. Flaming Lips sem eru sannkallaðir risar í indíheiminum munu sjá um það hlutverk að þessu sinni ásamt annarri sveit, sem tilkynnt verður um síðar, að fram kemur í tilkynningu frá Iceland Airwaves. Flaming Lips hafa áður spilað á Iceland Airwaves árið 2000, en hátíðin fer fram í 15. sinn þann 5. til 9. nóvember næstkomandi.


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *