Tónleikahelgin 27.-28. mars

Föstudagur 27. Mars

 

Vortex, sem samanstendur af Nico Guerrero og Sonia Cohen frá París, leika á tónleikum í Mengi. Þau hefja leik klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Brain Police koma fram á Dillon klukkan 10 og það kostar 500 inn.

 

Laugardagur 28. Mars

 

Tvíeykið Nolo koma fram í Mengi þar sem þeir ætla að frumflytja ný lög og fikta með eldra efni. Aðgangseyrir er 2000 krónur og gleðin hefst 21:00.

 

Úrslitakvöld músíktilrauna fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Kvöldið byrjar snemma eða 17:00 og það kostar 1500 krónur inn.

 

Ljónagryfja Reykjavíkurdætra fer fram á Frederiksen Ale House en þar kemur fram heill hafsjór af hljómsveitum frá 18:30 og fram eftir kvöldi. Það er ókeypis inn og eftirfarandi listamenn koma fram: Reykjavíkurdætur, Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Dj flugvél og geimskip, VIO, Pink Street Boys, Herra Hnetusmjör, Alvia Islandia, Lord Pusswhip/Marteinn, Munstur, Bláfugl, Dreprún, Kriki, Mc bjór og bland, Himbrim, Dj Sunna Ben, Á hálum ís, Unnur Sara Eldjárn, Hemúllinn, Panos from Komodo, Cryptochrome, Koddafar og Múfasa Makeover.

Björk á Iceland Airwaves 2015

Þau tíðindi voru að berast úr herbúðum Iceland Airwaves að sjálf Björk Guðmundsdóttir muni koma fram á hátíðinni í ár. Þá var einnig tilkynnt að John Grant komi fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og bandaríski söngvarinn Father John Misty og breska postpunk hljómsveitin The Pop Group verða meðal listamanna sem spila á hátíðinni. Íslensku sveitirnar Vök, Sóley, Muck, Hekla og Agent Fresco voru líka tilkynntar en allt bætist þetta ofan á listamenn eins og Ariel Pink, Perfume Genius, GusGus, Hinds, M-Band, East India Youth, Tonik Ensemble og dj flugvél og geimskip sem áður höfðu verið kynntir til leiks. Það er ljóst að það stefnir í ansi þétta hátíð en hún fer fram á hinum ýmsu stöðum í miðborg Reykjavíkur 4.-8. nóvember næstkomandi.

Spegilmyndir Django Django

Skoski rafpoppkvartettinn Django Django sendi í dag frá sér aðra smáskífuna af plötunni Return to Saturn sem er væntanleg 5. maí. Lagið heitir Reflections og inniheldur pumpandi hljóðgervla, takt úr rússneskum trommuheila og smotterí saxafóni ásamt undurfögrum röddunum. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og First Light, fyrstu smáskífuna af Return to Saturn.

Tame Impala snúa aftur

Nýsjálensku sýrurokkararnir í Tame Impala hafa nú sleppt lausu fyrsta laginu af væntanlegri breiðskífu, Let it Happen, sem er næstum átta mínútna epík um ókannaðar hugarlendur. Þau nýmæli eru þó að lítið fer fyrir rafmagnsgíturum en þeim mun meira fyrir hljóðgervlum. Von er á enn ónefndri breiðskífu frá sveitinni síðar á þessu ári en síðasta plata þeirra, Lonerism sem kom út 2012, hlaut feikna góðar viðtökur. Hlustið á Let it Happen hér fyrir neðan og/eða rifjið upp hugsprengjandi myndbandið við Feels Like We Only Go Backwards.

 

Tónleikahelgin 5.-7. mars

Fimmtudagur 5. mars

 

Tinna Þorsteinsdóttir og Borgar Magnason hittast í Mengi með dótapíanó og kontrabassa og leitast eftir að finna sameiginlega rödd hljóðfæra sinna. Tónleikarnir byrja klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Dirty Deal Blues Band kemur fram á Dillon, ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Föstudagur 6. mars

 

Hljómsveitin Hellvar sem eru nýkomin úr tónleikaferð um England spilar á tónleikum á Dillon. Aðgangseyrir er 500 krónur og gleðin hefst 22:00.

 

Brasilíski gítarleikarinn og tónskáldi Victor Ramil kemur fram í Mengi. Hann byrjar að spila 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 7. Mars

 

Tvær af hörðustu og svölustu rokksveitum landsins, Singapore Sling og Pink Street Boys leika á tónleikaröð Grapevine á Húrra. Rokkið startar 22:00 og aðgangseyrir er 15oo krónur.

 

Kanadíska tvíeykið Nadja og Aidan Baker koma fram í Mengi. Meðlimir Nadja eru þau Aidan Baker og Leah Buckareff en saman búa þau til tilraunakenna ambient tónlist sem er mörgum landsmönnum vel kunn. Tónleikar þeirra byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Public Enemy og Swans á ATP

Hip Hop goðin í Public Enemy eru væntanleg til Íslands í sumar á All Tomorrow’s Parties hátíðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar en fjölda annarra listamanna hefur einnig verið bætt við dagskrána, og ber þar hæst Swans sem áttu að spila á Airwaves 2012 og margir voru svekktir þegar þeir neyddust til að afboða vegna fellibylsins Sandy. Þá kemur einnig fram að Lightning Bolt, Bardo Pond, Grísalappalísa, Valdimar, Stafrænn Hákon, Oyama, Mr Silla og Kippi Kaninus muni koma fram.

 

All Tomorrow’s Parties hátíðin fer fram í þriðja skipti á Ásbrú í sumar dagana 2.-4. júlí, en áður hafa hljómsveitir eins og Belle and Sebastian, Iggy Pop, Run The Jewels og Godspeed you! Black Emperor verið kynntar til leiks á hátíðina. Hér fyrir neðan má horfa á „hið svarta CNN“, eins og Public Enemy sögðu sjálfa sig vera á hátindi sínum:

Tónleikahelgin 20.-21. febrúar

Föstudagur 21. Febrúar

 

Hin knáa diskósveit Boogie Trouble leikur á Loft Hostel klukkan 21:30 og aðgangur er ókeypis.

 

Hljómsveitin Greyhound spilar á Dillon, byrja 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Icelandic Sound Company kemur fram í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 og sjóið byrjar 21:00.

 

Laugardagur 22. Febrúar

 

Götutímaritið Grapevine stendur fyrir tónleikum á Húrra sem verða þeir fyrstu í tónleikaseríu sem ritið hyggst halda. Á þessu fyrsta kvöldi koma fram Prins Póló og Páll Ívan frá Eiðum og Óli Dóri mun þeyta skífum. Inngöngugjald er 2000 krónur og veislan hefst 22:00.

 

Good Moon Deer og Futuregrapher koma fram á tónleikum í Mengi. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Moses Hightower leikur á tónleikum og Hermigervill og Ívar Pétur verða með dj-sett á Loft Hostel. Leikar hefjast 20:30 og aðgangur er ókeypis.

 

Skúli Mennski treður upp á Rósenberg ásamt hljómsveit. Spilagleðin byrjar 22:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Fimmtugasta fastakvöld RVK Soundsystem verður haldið á efri hæðinni á Paloma. Plötusnúðar RVK munu spila reggí, döbb og dancehall alla nóttina en þeir byrja á miðnætti og aðgangur er ókeypis.

Sónarskoðun #3: Hvítt fönk, dubstep og djöfulgangur

 

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Ég mætti rúmlega 9 í Silfurberg til að sjá sænsku táningarappsveitinn Young Lean and the Sad Boys. Þeir spiluðu nokkurs konar átótjúnað emo-rapp, og ég meina það ekki á neikvæðan hátt. Þvínæst sá ég japanska stelpnatríóið Nisennenmondai. Þær spiluðu á bassa, trommur og gítar og framkölluðu dáleiðandi mínímalíska tekknótónlist þar sem taktföst endurtekningin hamraði sér leið inn í undirmeðvitundina.

Nisennenmondai

Þær virtust algjörlega í leiðslu og stemmningin var eins og týndi hlekkurinn milli frumstæðra ættbálkaathafna og nútíma tekknóklúbba. Stelpan á trommunum hélt úti mekanískri keyrslu allan tímann og missti ekki úr slag, og úr gítarnum komu hljóð sem minntu sitt á hvað á bílvél eða draugagang. Eftir svona hálftíma var ég samt farinn að þrá smávægilega tilbreytingu, það sem gerði þetta kúl var naumhyggjan og endurtekningin en það vantaði bara eitthvað pínu ponsu meira; þetta var einum of einsleitt en næstum því frábært.

reyan_hems2

Plötusnúðurinn Ryan Hemsworth spilaði léttari tónlist en margir aðrir plötusnúðar á hátíðinni en hann bauð upp á fjölbreytta blöndu af Hip Hop, R’n’B og poppuðu Dub Step og jók tempóið eftir því sem leið á settið. Næst á dagskrá var hinn breski sláni Adam Bainbridge sem gengur undir vinalega listamannsnafninu Kindness. Hann kom fram með heljarinnar hljómsveit og blökkum bakraddasöngkonum og lék fágað fönk og grúví diskó af fádæma öryggi næstu þrjú kortérin eða svo.

kindness

Ég hafði ekki heyrt neitt af tónlist hans áður en smitaðist af ryþmanum frá fyrsta lagi. Af og til var splæst bútum úr lögum eftir listamenn eins og Prince, Bobbie Womack og Art of Noise inn í settið og á einum tímapunktu brast á með Conga-röð hljómsveitarmeðlima um allt sviðið þar sem allir höfðu kúabjöllu, hristu eða annað ásláttarhljóðfæri í hönd. Þetta var algjört funkathon og skemmtilegustu tónleikar hátíðarinnar fyrir mig persónulega.

 

Þá var bara stærsta nafn hátíðarinnar eftir, ameríski dubstep æringinn Skrillex, sem er dáður eins og guð af glataðri æsku, en litinn hornauga af gömlum, bitrum og sjálfskipuðum spekingum eins og mér. Ég gat samt ekki sleppt því tækifæri að fylgjast með tónleikunum og sé alls ekki eftir því. Ég myndi ekki nenna að hlusta á þessa tónlist heima hjá mér, en þetta var allsherjar loftárás á skilningarvitin af nördalegum unglingi með allt of dýrar græjur. Og ég meina það á góðan hátt. Svona tiltölulega. Þarna var dropp-um, grafík, lazer-um og reyk bombað í fésið á þér á hverju sekúndubroti þannig ekki gafst tækifæri til að hugsa eða greina eina einustu einingu, því þá var nýtt áreiti komið á sjóndeildarhringinn. Hann henti svo Björk, Stars Wars laginu og íslenska fánanum inn í settið meðan hann klifraði, hoppaði og bara almennt djöflaðist í og ofan á tækjaborðinu sínu.

skrillex4

Eftir þessa æskudýrkun og fjallstind sem Skrillex var fór ég alla leið niður í bílakjallaran til að sjá einn langlífasta og farsælasta plötusnúð landsins, DJ Margeir. Hann spilar tónlist sem er einhvern veginn viðeigandi hvar sem er fyrir hvern sem er, harðan kjarna með mjúkri áferð. Þar dönsuðu gestir með öllum frumum líkama sinna og reyndu hvað þeir gátu að halda lífsmarki í Sónarnum þegar endirinn var yfirvofandi.

margeir

En allt spennandi endar og Sónar hátíðin er engin undantekning þar á. Hún var samt frábærlega heppnuð og minningarnar lifa, allavega þangað til við fáum öll alzheimer eða drepumst. Ég er strax farinn að hlakka til næstu hátíðar en þangað til getið þið lesið umfjallanir Straums um fimmtudagskvöldið, föstudagskvöldið eða fyrri hátíðir.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Annar í Sónar: Súrefni, Helíum og Mugi-tekknó

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Fyrsta atriði á dagskránni á föstudagskvöldinu var japanski tónlistarmaðurinn Ametsub á SonarPub sviðinu. Hann spilaði undurfallegt ambíent með sterku bíti, tónlistin var undir áhrifum frá Boards of Canada og Four Tet, og minnti líka stundum á ameríska ambíentsnillinginn Tycho. Því næst sá ég Fufanu rokka þakið af Silfurbergi með drungalegu kuldarokki. Þeir eru orðnir dáldið eins og yngri útgáfa af Singapore Sling með dassi af raftónlistar og Madchester áhrifum.

 

Ég náði nokkrum lögum með Mugison sem komu svo sannarlega á óvart því að hann kom fram einn og flutti raftónlist! Ég hef ekki séð hann svona góðan í mörg ár og hef í raun verið að bíða eftir því að hann snúi aftur í raftónlistina sem hann hóf feril sinn með. Hann var á bak við græjusamstæðu sem minnti á könguló og fór á kostum í synþum, hamagangi og söng.

surefni

Gömlu kempurnar í Súrefni hristu síðan aldeilis upp í Norðurljósasalnum með frábæru sjói og sækadelik myndskreytingum. Eina minning mín um þetta band er smellurinn Disco sem var algjört Daft Punk ripoff, en samt gott Daft Punk ripoff. Þetta voru hins vegar öflugir tónleikar og þeir voru fjórir á sviðinu og spiluðu á hljómborð, bassa, trommur, gítar og tölvur og þetta var ansi rokkað á köflum.

SOPHIE

Ég kíkti aðeins við á plötusnúðinn Sophie en settið hennar var fullt af skrýtnu rafpoppi með helling af helíum-röddum, stefna sem hefur verið kölluð PC-Music. Þá var röðin komin að Prins Póló sem er einn allra skemmtilegasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Í einu laga sinna sem hann flutti á tónleikunum spyr hann hvort það sé hægt að hamstra sjarma, og ég held að Prinsinn sjálfur sé lifandi sönnun þess að það sé mögulegt.

 

Í lok kvöldsins langaði mig að sjá SBTRKT og Paul Kalkbrenner og leysti það einfaldlega með því að flakka á milli Norðurljósa og Silfurbergs. SBTRKT kom fram með afríska grímu og dubstep-skotin popptónlistin kom dansgólfinu svo sannarlega á hreyfingu. Það var harðari brún í tekknó-inu hjá Kalkbrenner þar sem ég dansaði mig í algleymi inn í nóttina við dúndrandi taktinn.

paulkalk3

Föstudagskvöldið var prýðisgóð skemmtun og í kvöld eru svo listamenn eins og Skrillex, Jamie xx og Randomer að spila. Við munum að sjálfsögðu skrásetja það á morgun en hér má lesa umfjöllun Straums um fimmtudagskvöldið.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun #1: Galsafullt geimdiskó og analog M-Band

Myndir: Aron Guðmundsson

Þriðja Sónarhátíðin í Reykjavík hófst með pompi og prakt í Hörpu í gær og fréttaritari Straums mætti galvaskur til að skrásetja stemmninguna. Ég rétt svo náði síðustu tónum Una Stefson þar sem hann söng af mikilli innlifun við tilkomumikla grafík sem varpað var á vegginn.

Unistefson

Þvínæst sá ég hús-tvíeykið Balsamic Boys á SonarPub sviðinu sem er staðsett á ganginum á efri hæð Hörpunnar. Þeir voru að spila lagið Rhodes Song þegar ég kom sem er mjög melódískur danssmellur sem minnir ansi mikið á slagarann Time með Pachanga Boys. Næsta lag sem þeir tóku var svo dúnmjúkt og silkislakt 90’s house grúv með heilum helling af saxafóni.

 

Stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð

 

Sin Fang var í essinu sínu í Silfurbergi og tveir trommu- ásláttarleikarar hans börðu taktinn í indíkrádið af miklum móð. Hann nauð aðstoðar Jófríðar úr Samaris í nokkrum lögum og eins og alltaf hjá honum var sjónræna hliðin til fyrirmyndar, einhvers konar stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð.

 

Dúettinn Mankan dútlaði í ýmsum tólum í Kaldalóni og hintuðu stundum að einhverju spennandi sem síðan aldrei kom, þetta var einum of stefnulaust og fálmkennt fyrir minn smekk. Drungalegur hljóðheimur Samaris naut sín hins vegar mjög vel í Silfurbergi og Jófríður söngkona fór á kostum.

samaris

M-Band er einn frjóasti raftónlistarmaður landsins og hann leggur líka frámuna mikinn metnað í tónleika sína sem var morgunljóst í Kaldalóni í gær. Hann býr til vegg af hljóðum og margfaldar og raddar eigin rödd með ótal effektum, en samt heyrir maður alltaf mennskuna undir niðri. Hann notast ekki við neina tölvu í sjóinu og þess vegna sér maður hann gera allt analog. Ég þurfti því miður frá að hverfa áður en tónleikarnir kláruðust til að fara á Todd Terje en langaði mjög að vera lengur.

 

Gleði og galsi

 

Þá var komið að stærsta númeri kvöldsins, hinum fúlskeggjaða norska prinsi geimdiskósins, Todd Terje. Hann dúndraði út flestum sínum helstu smellum af sviðinu í Silfurbergi og salurinn át þá úr höndum hans. Það var gleði og galsi í tónlistinni og honum og breið bros í öllum salnum. Það eina sem mætti setja út á var að það hefði verið gaman að sjá hljóðfæraleikara með honum og í byrjun var bassinn í hljóðkerfinu helst til yfirþyrmandi, vantaði aðeins tærari topp. En það lagaðist fljótlega meðan dansinn dunaði og svitinn flæddi. Frábær endir á fyrsta kvöldi Sónars sem var stórvel heppnað í alla staði. Topparnir fyrir mig voru þó Todd Terje og M-Band. Sjáumst í kvöld og fylgist með á næstu dögum með áframhaldandi umfjöllun Straums.

 

Davíð Roach Gunnarsson